18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

106. mál, söluskattur

Frsm 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja hér mikið umræður, en ég hlýt þó að gera nokkra athugasemd við það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um þetta. Og það er þá í fyrsta lagi það, að ég fari hér með staðlausa stafi, þegar ég segi, að rösklega 100 millj. kr. álagsaukning á sjávarútveginn svari til 20—25% kauphækkunar. Ég hef hér fyrir framan mig frv., sem samþ. var hér í fyrravetur, frv. til l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Grg. er væntanlega samin af efnahagsráðunautum hæstv. ríkisstj., og þar segir m.a. í 2. mgr. grg.:

„Samkvæmt útreikningum Fiskifélags Íslands nemur aukning útgjalda hraðfrystihúsanna vegna 15% kauphækkunar sem svarar 5.2% af framleiðsluverðmæti húsanna. Miðað við 1200 millj. kr. árlega framleiðslu frystihúsanna, sem er áætluð framleiðsla þeirra árið 1963, er hér um að ræða 62 millj. kr. upphæð, sem svarar til 15% kauphækkunar.“

Nú held ég, að það verði nokkuð ljóst af þessu, að það er ekki fjarri því, að hvert prósent í kauphækkun kosti fiskiðnaðinn þannig rétt um 4 millj. kr. Og ef við deilum 4 í ca. 100 millj., þá fæ ég a.m.k. 25, og

þegar ég bæti 3 við það, fæ ég 28. Kann að vera, að þetta sé ekki hárnákvæmt. Þetta kann að breytast örlítið vegna breyttra aðstæðna. En mjög fjarri lagi getur þetta ekki verið. (Gripið fram í: Þetta eru bara frystihúsin og ekkert annað.) Þetta eru bara frystihúsin, já, það er rétt. Þau eru auðvitað meginmálið, sem hér er um að ræða.

Hv. ræðumaður sagðist í sinni fyrri ræðu vera sannfærður um það, að fiskiðnaðurinn gæti ekki tekið á sig 3% kauphækkun og enn þá síður gæti hann tekið á sig 5% hækkun. En í síðari ræðunni segir hann svo, að nú viti auðvitað enginn, hvað fiskiðnaðurinn geti borið. Menn sjá nú, hvernig málflutningur þetta er. Auðvitað veit ég, að hann sagði sína sannfæringu miklu frekar, þegar hann sagði, að sjávarútvegurinn gæti ekki tekið á sig 3% og enn síður 5%, enda kom þar máli hans síðast, að hann sagði, að vel gæti svo farið, að þörf væri nýrra skatta eftir nýárið. Það var einmitt þetta svar, sem ég bjóst við að fá, og ég tel útilokað annað en svo fari, ef á að svipta fiskiðnaðinn í landinu þeim stórfellda styrk, sem hann hefur áður notið, og nota til almennrar eyðslu. Þá kemur það í ljós, sem mig hefur grunað, að þetta frv., sem hér ræðir um, sé aðeins upphafið, afleiðingarnar verði miklu meiri aðgerðir í þessu í sömu átt, þ.e.a.s. enn þá ný og aukin skattheimta, þegar Alþ. kemur aftur saman.