05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (2766)

69. mál, lýsishersluverksmiðja

Frsm. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Fjvn. hefur haft þessa till. til athugunar og leggur til, að till. verði samþ. með þeirri breytingu, í stað niðurlags till., þ.e. „sýni rannsóknir hagstæða útkomu, skal þegar hefja byggingu verksmiðjunnar“, að það orðist á þann hátt: „Sýni rannsóknirnar hagstæða útkomu, skal þegar kanna til hlítar, hvar verksmiðjan skuli staðsett, og að því loknu hefja undirbúning að byggingu hennar.“ En í upphaflegu till. var gert ráð fyrir, að verksmiðjan yrði byggð á Siglufirði.

Fjvn. leitaði umsagnar tveggja aðila. Iðnaðarmálastofnunin mælir með því, að umrædd rannsókn á möguleikum á sölu hertrar síldarfeiti á erlendum mörkuðum verði látin fara fram í því skyni að kanna, hvort tímabært sé að byggja verksmiðju hérlendis til herzlu síldarlýsis í stærri stíl, en nú á sér stað. Enn fremur var leitað umsagnar fiskideildar atvinnudeildar háskólans, en hún telur, að þetta mál sé ekki í sínum verkahring, og tekur því ekki afstöðu til þessarar till.

Það er rétt að taka það fram, að mjög hefur verið rætt um, ef slík rannsókn skyldi leiða í ljós, að í framkvæmdir verði farið, að kanna þá sérstaklega, hvort ekki sé rétt, að verksmiðjan verði staðsett á Siglufirði, með tilliti til þess, að þar eru stærstu síldarverksmiðjur landsins og á vegum ríkisins. Hins vegar þótti n. ekki rétt að ákveða, í till. þann stað, sem reisa skuli verksmiðjuna á, ef rannsóknir sýndu hagstæða útkomu og í þetta fyrirtæki yrði ráðizt. N. mælir því einróma með samþykkt till., eins og hún er orðuð á þskj. 597.