07.04.1965
Sameinað þing: 40. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (2770)

111. mál, eftirlit með fyrirtækjasamtökum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í sambandi við þessa till., sem ég tel mjög gagnlega og nauðsynlegt, að samþykkt sé og fylgt fljótt eftir. Ég sé það í grg. þessarar till., að þar er mjög réttilega sagt á bls. 2, með leyfi hæstv. forseta: „Af þessum ástæðum má fullyrða, að stórum hafi dregið úr gildi frjálsrar samkeppni um verð í nútíma verzlunarháttum.“ Þykir mér mjög vænt um að uppgötva það, að öðrum hv. stjórnarflokknum er orðið þetta ljóst. Ég hef nokkrum sinnum verið að ræða um það hér, að þessi frjálsa samkeppni, sem hæstv. ríkisstj., ef ég man rétt, byggði að miklu leyti tilveru sína á, þegar hún byrjaði, hún er nokkurn veginn dauð fyrir alllöngu. Og það, að einokunarhringar og annað slíkt hafi tekið við af henni, er staðreynd, sem blasir við í mestöllum nútímaheiminum, ef menn kynna sér eitthvað hagfræðilega þróun. Ég sé þess vegna ekki betur, en einmitt með þessari grg. sé verið að kveða upp mjög greinilegan dauðadóm yfir þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt í þessu efni og var sannarlega tími til kominn, vegna þess að það er ósköp leiðinlegt að sjá menn t.d. í stærsta blaði borgarinnar vera að þrefa um það ár eftir ár, að það sé einhver frjáls samkeppni til í þessum efnum, á sama tíma sem menn hafa daglega staðreyndirnar fyrir sér um, að hún sé löngu dauð.

Við getum lítið á eitt svið hérna, sem ekki er neitt smáræðissvið. Það er olíusalan. Það er búið að viðgangast hér í áratugi, að olían er seld með sama verði af öllum þeim þrem félögum, sem með hana hafa að gera. Og það, sem raunverulega hefur gerzt í þessum efnum, er bara, að þessir þrír hringar koma sér saman um að starfa sem einn hringur, en leggja bara því meira á, sem þarf fyrir þreföldum kostnaði við alla dreifingu olíu og benzíns á Íslandi. Ár eftir ár, líka á tímum vinstri stjórnarinnar, flutti Alþb. till. um, að það væri tekin upp ríkiseinkasala á olíu, af því að það er alveg greinilegt, að það var eina aðferðin, sem til var til þess að tryggja, að það væri reynt að setja þarna nokkurn veginn rétt verð á, eða þá, ef verðið var haft hærra, en nauðsynlegt var, að það rynni þá til ríkisins, en ekki einhverjir hringar skiptu því upp á milli sín. Ár eftir ár hefur þetta viðgengizt. Menn tala um frjálsa samkeppni, menn vita, að hún er ekki til, menn láta þessi einokunarsamtök starfa áfram og við þessu er ekki annað að gera en að gerbreyta um efnahagsstefnu, taka upp verðlagseftirlit, sem menn hafa verið að afnema undanfarið, taka upp þjóðnýtingu, sem menn hafa verið á móti undanfarið. Sannleikurinn er sá, að það að ætla að knýja fram frjálsa samkeppni á hinum og þessum sviðum, það er ekki til neins. Það er eins og að berjast við vindmyllur. Stigið þarna áfram er mikið eftirlit af hálfu ríkisins, harðvítugt eftirlit af hálfu ríkisins, í staðinn fyrir að sú pólitík, sem rekin hefur verið, hefur miðað að því að leyfa hverjum aðila að græða eins og hann getur á almenningi, án þess að ríkið hafi nokkurt eftirlit með því. Þess vegna er ástæða einmitt til þess að fagna því, að það skuli vera allmargir Alþfl-þm., sem standa að þessari till.

Hv. 6. þm. Vesturl. nefndi hér áðan annað dæmi, viðvíkjandi vátryggingarfélögunum. Það er vitanlegt, að vátryggingarfélögin hér hafa um alllangt skeið haft opinber samtök sín á milli, haft samtök um að hafa sama verð. En á hvern hátt keppa þau? Jú, það er til keppni hjá þeim. Sú keppni fer fram í því, að þau eru að veita lán. M.ö.o.: vátryggingafélögin hér vinna eins og bankar að nokkru leyti og veita lán og reyna að binda menn til vátrygginga með lánveitingum. Þetta er náttúrlega starfsemi, sem á ekki að þrífast. Ef um vátryggingar er að ræða, á að leyfa þar frjálsa samkeppni, ef menn ætla ekki að þjóðnýta þetta og þá ætti að banna þessum vátryggingarfélögum að skipta sér nokkurn skapaðan hlut af lánamálum, það er það eina rétta í því, láta þau ekki geta keppt á þann máta. Það er vitanlegt, að vátryggingar hér á Íslandi eru allt of háar og það er okrað á Íslendingum í þessu og ríkið beinlínis hjálpar til við þetta með því móti að borga svo og svo mikið af öllum þessum vátryggingum sjálft. Einstaka félög geta tekið upp á því að borga svo sinn bónus, eins og t.d. Samvinnutryggingar gera að einhverju leyti. Þar er visst form, t.d. að reyna að lækka þetta fyrir neytendur, en kerfið sjálft er orðið tóm vitleysa. Við höfum ekkert að gera við 10–20 vátryggingarfélög á Íslandi. Það er í hæsta lagi rúm fyrir eitt.

Og svona er það á fjöldamörgum sviðum hér hjá okkur. Ef við ætlum að læra nokkra nútímatækni, þá er það fyrsta, sem við lærum í því, að það þarf að vera stórrekstur, til þess að það sé eitthvert vit í því. Hvernig skyldi samkeppnin vera í bílunum hérna? Menn þyrftu líklega ekki nema ganga eftir Suðurlandsbrautinni til þess að sjá, hvernig því muni vera háttað og sjá bílaumboðshallirnar þar.

Ég fagna því, að það skuli koma fram svona till., ég er algerlega fylgjandi henni. Og ég held, að það þurfi að fylgja þessu eftir með því, ekki aðeins að reyna að hressa við þessa frjálsu samkeppni, þar sem hún sé að drepast, heldur þar sem hún er raunverulega dauð, þá þurfi að fylgja þarna eftir með verðlagseftirliti, með þjóðnýtingu og með ríkisrekstri.