24.02.1965
Sameinað þing: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (2780)

65. mál, vigtun bræðslusíldar

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 72 flyt ég ásamt 7. landsk. þm. (SvJ), 8. þm. Reykv. (PS) og 3. þm. Sunnl. (GuðlG) till. um vigtun bræðslusíldar og er efni hennar á þá leið að skora á ríkisstj. að skipa 5 manna n. til þess að athuga möguleika á því, að síld, sem lögð er í verksmiðjur til bræðslu, verði hér eftir keypt eftir vigt. Við leggjum til, að í þessa nefnd verði skipað samkv. tilnefningu frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, síldarverksmiðjum Austur- og Norðurlands og Síldarverksmiðjum ríkisins, sinn fulltrúinn frá hverjum aðila og fimmti maður verði skipaður af ríkisstj. án tilnefningar.

Nú kann einhver að spyrja: Hvers vegna er verið að flytja hér þáltill. um, að athugun fari fram á því, að öll bræðslusíld, sem lögð er í verksmiðjur norðanlands og austan, verði hér eftir keypt eftir vigt, en ekki máli, eins og verið hefur og einhvern kann að reka minni til laga, sem samþ. voru á Alþing 9. maí 1930, en í þeim l. segir í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Öll síld, sem seld er bræðsluverksmiðjum til vinnslu, skal hér eftir vegin, ef seljandi óskar þess. Við vigt á síld skulu notaðar þar til hæfar vogir, er taki í einu a.m.k. innihald tveggja mælikera ásamt tæki því, sem síldin er vegin í. Eitt mæliker skal rúma 135 kg af síld og telst það verðeining.“

Þessi lög eru enn í gildi, en þau hafa aldrei verið framkvæmd hvað snertir bræðslusíld við Norður- og Austurland og á síðustu a.m.k. tveimur áratugum hefur ekki verið á þau minnzt, enda eru þau nú, ef ætti að fara að framkvæma þau, orðin úrelt að öðru leyti og því má segja, að þau séu eins og frá byrjun gagnslaus. Og þá má segja: Er þá ekki rétt, að þessir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, semji um þessi mál? En það er vegna þess, að samkomulag hefur ekki náðst á milli þessara aðila þrátt fyrir ítrekaðar óskir um, að síld verði vegin, en ekki mæld, óskir frá sjómannasamtökum um allt land og útvegsmannasamtökum. Hafa verksmiðjurnar staðið þar í vegi. Skal ég ekki rekja þær ástæður. En þegar síld fór að veiðast hér við Faxaflóa og Suðvesturland, var öll síld, sem lögð var í síldarbræðslur, vegin, en ekki mæld og er það svo enn án undantekninga hjá öllum verksmiðjum, sem risið hafa á þessu svæði.

Eftir að síld fór að veiðast hér syðra, sáu sjómenn og útvegsmenn fljótt, að það var mikill munur á því, hvað síldarafli þeirra kom betur út, þegar landað var í verksmiðju hér sunnanlands, í samanburði við það, sem út kom, þegar síld var landað í verksmiðjur á Norður- og Austurlandi, þar sem hún er mæld og er þá miðað við, að málið sé 135 kg. Þessi óánægja hefur mjög magnazt á undanförnum árum og það hafa verið gerðir tugir samþykkta í hinum ýmsu sjómannafélögum víðast hvar á landinu og í flestum útvegsmannafélögum og sömuleiðis heildarsamtökum þessara aðila og þá sérstaklega hafa verið gerðar margar samþykktir í heildarsamtökum útvegsins, Landssambandi ísl. útvegsmanna og það sent þessar kröfur frá sér til síldarverksmiðjanna og sömuleiðis hafa fleiri aðilar látið þetta mál til sín taka. T. d. vil ég vitna hér í, að á fiskiþingi árið 1980 var samþykkt ályktun frá fiskiðnaðar- og tækninefnd þingsins og þar segir í upphafi ályktunarinnar, að athugun fari nú fram á því, hvort framkvæmanlegt sé kostnaðar vegna og af tæknilegum ástæðum að taka upp vigtun á bræðslusíld í stað mælingar, og telur fiskiþingið eðlilegt, að þeirri athugun sé hraðað.

Svör Síldarverksmiðja ríkisins hafa yfirleitt verið mjög neikvæð hvað snertir, þessi mál, og hefur ýmsu þar verið borið við. M.a. er því borið við af verksmiðjustjórn, að síldinni sé landað með löndunartækjum á eigin bryggjum verksmiðjanna og þessar bryggjur séu úr tré og sé erfitt og kostnaðarsamt að koma vigtum fyrir á þeim og hætta á, að vigtirnar bili vegna mikils hristinga á bryggjunum í sambandi við notkun tækjanna og vegna súgs, sem stundum er við bryggjurnar. Enn fremur hafa talmenn síldarverksmiðjanna iðulega bent á það, að verð bræðslusíldarinnar sé miðað við meðaltal afurða úr mældri síld á 5–10 ára tímabili. Ljóst sé, að yrði tekin upp vigtun, mundi verða að áætla, að minna magn fengist af afurðum úr hverju máli og verðið á málinu mundi hækka sem því svaraði, þótt vigtun yrði tekin upp og gæti það þess vegna orðið til þess, að menn fengju ekki, svo að neinu næmi, meira verið fyrir sama farm, því að það, sem bræðslusíldarmálunum mundi fjölga, kæmi fram í lækkuðu verði á hverju máli vegna minni afurða úr hverri máleiningu. Þetta eru þau rök, sem fram hafa komið frá talsmönnum síldarverksmiðjanna.

Það er skoðun mín og okkar flm. þessarar till., að frá hendi verkamiðjanna hafi þessi mál ekki fengið þá athugun, sem sjálfsögð var, vegna þess að ráðamenn þeirra hafa í raun og veru fram til þessa verið því andvígir, að síld sé vigtuð og hafa viljað halda áfram mælingu síldarinnar. Lengi vel voru svör verksmiðjanna heldur loðin og látið að því liggja, að þessar athuganir mundu fara fram og þessu yrði breytt innan ekki langs tíma. Nýjar verksmiðjur hafa risið upp, einkum á Austfjörðum á síðustu árum. Þær verksmiðjur hafa í byrjun orðið að kaupa síld eftir vigt og þá, hefur enginn greinarmunur verið gerður á því við verðlagningu síldar, hvort viðkomandi verksmiðja hefur orðið að kaupa síldina eftir vigt eða eftir máli. Síðan hefur sú breyting verið gerð á, að þessar verksmiðjur hafa flestar hverjar komið sér upp mælitækjum og svo langt hefur það gengið á einstaka stöðum, að þar sem mælitæki hafa verið tekin upp, hefur síldinni verið ekið eftir sem áður á bílum og fram hjá vigtum á stöðunum, í staðinn fyrir að vigta hana. Þess vegna hafa mælitækin verið notuð áfram, vegna þess að verksmiðjurnar hafa haft meira upp úr því, en áður var.

Óánægja sjómanna og útvegsmanna hefur farið mjög vaxandi á síðustu árum og hvað sem líður viðhorfum síldarverksmiðjanna á Norður- og Austurlandi, er það ekki nema eðlilegur og sjálfsagður hlutur, að allar verkamiðjur í landinu búi við sömu aðstöðu í þessum efnum, og alveg eins og hægt er að kaupa síld hér sunnanlands eftir vigt, á einnig að vera hægt og sjálfsagt að gera það hjá verksmiðjum á Norður- og Austurlandi.

Nokkrir útvegsmenn hafa síðustu sumur látið gera tilraun með það, hvernig síld hefur komið út, sem hefur verið mæld og látið vigta þessa sömu síld, að vísu aldrei nema nokkur mál í einu. Og á s.l. sumri var einn bátur, sem leggur síld upp í verksmiðju, 48 mál. og hann lætur vigta þessa síld og þá kemur meðaltal á mál út samkv. vigt 153.2 kg, en til grundvallar í málinu eru lögð 135 kg. Þetta dæmi er eitt af mörgum dæmum þess, að hér er um ónákvæmni að ræða, sem er eðlilegt að ráða bót á og það er ekki lengur hægt að láta við það sitja, að kröfum og óskum allra sjómanna í landinu og útvegsmanna sé ekki sinnt. Þess vegna er þetta mál hér flutt í trausti þess, að þessi till. nái hér samþykki á Alþingi. Till. gerir ekki ráð fyrir því, að þetta nýja form verði tekið upp á þessu sumri, þótt till. verði samþykkt, heldur verði stefnt að því, að breytingin eigi sér stað fyrir sumarsíldveiðar 1966, þannig að við flm. till. höfum ekki viljað hafa till. það ákveðna og það skamman tíma til stefnu, að aðilar geti ekki komið fram með sín sjónarmið. En það er okkar skoðun, að tæknilega séð sé vel hægt að framkvæma þessa breytingu, án þess að hún komi til með að kosta verksmiðjurnar neitt tilfinnanlegt fé og þar með verða við óskum sjómanna og útvegsmanna. Og ég tel, að þáttur sjómanna og útvegsmanna í síldveiðum sé það mikils virði og lítið væri af síld unnið, ef þessir aðilar væru ekki, að það sé ekki hægt að ganga fram hjá þessum óskum lengur en orðið er, því að það eru nú liðin nálega 7 ár, frá því að stanzlausar till. hafa verið samþykktar í þessum efnum, áskoranir á síldarverksmiðjurnar, án þess að neitt hafi verið gert, sem hefur sýnt, að áhugi sé fyrir að breyta hér um.

Ég vænti þess, að þessari till. verði vel tekið og að Alþingi sýni þessu máli skilning og þá um leið óskum þessara framleiðslustétta þá viðurkenningu, að þetta mál fái eðlilega afgreiðslu í n., eins og við flm. leggjum til. Að lokinni þessari umr. legg ég til, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.