05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (2807)

48. mál, efling Akureyrar sem skólabæjar

Sigurður Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil í fjarveru frsm. allshn. í þessu máli segja nokkur orð um álit það, sem hér liggur fyrir fundinum.

Allshn. hefur fjallað um till. þá til þál., sem lögð var fram á þskj. 53 af hv. 1., 3. og 5. þm. Norðurl. e. Umsagnir um till. voru fengnar frá fræðslumálastjóra, bæjarstjórn Akureyrar, skólameistara Menntaskólans á Akureyri, skólastjóra Gagnfræðaskólans á Akureyri og Landssambandi framhaldsskólakennara. Þessar umsagnir fylgja með á þskj. 470. Umsagnir allra þessara aðila voru jákvæðar um meginatriði till., en það er áætlunargerð á vegum ríkisstj. um framtíðarstaðsetningu hinna ýmsu sérskóla sem og fleiri menntastofnana og í því sambandi efling Akureyrar sem skólabæjar.

Í svari því, sem barst frá bæjarstjórn Akureyrar, er skorað á Alþingi að samþ. till., og eins og segir í þeirri áskorun, telur bæjarstjórn Akureyrar, að sú áætlunargerð, sem gert er ráð fyrir í þáltill., geti orðið mikilvægt spor í þá átt að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem svo mjög hefur verið á dagakrá að undanförnu og í þessu sambandi bendir bæjarstjórn Akureyrar sérstaklega á að fjórðungsiðnskóli, Tækniskóli Íslands og garðyrkjuskóli verði staðsettir á Akureyri.

Fræðslumálastjóri segir í svari sínu, að hann sé eindregið fylgjandi því, að í sambandi við þörf landsbúa fyrir sérskóla verði fullt tillit tekið til aðstöðu Akureyrar til að halda slíka skóla og telur fræðslumálastjóri, að mjög komi til greina að stofna kennaraskóla á Akureyri, þegar Kennaraskóli Íslands hefur náð þeirri stærð, sem telja verður æskilega og hagkvæma.

Í bréfi skólameistara Menntaskólans á Akureyri telur hann eðlilegt, að staðsetning skóla sé gaumgæfilega athuguð, m.a. í sambandi við ráðstafanir, sem kunni að verða gerðar til eflingar jafnvægi í byggð landsins, eins og nú er á dagskrá og ef efldir verði byggðakjarnar úti um land, þá hljóti skólar að koma þar mjög við sögu. Einnig segir skólameistari, að þótt margir telji að sérskólarnir séu bezt settir í höfuðborginni, af því að þar sé mest mannaval og hægast að fá kennara, þá geti verið, að slíkum stofnunum hætti til að drukkna í umhverfinu, ókyrrð staðarins glepji, svo að jafnvel starfsmennirnir verði síður heilir í starfinu. Á minni stöðunum verði friðurinn meiri og mönnum gefist þeim mun betri kostur á að sækja í sjálfa sig það, sem þar er að hafa, en það er ekki minnst um vert.

Þetta voru orð skólameistara menntaskólans.

Skólastjóri Gagnfræðaskólans á Akureyri segir m.a. í svari sínu, að hann hafi mikla ástæðu til að fagna því, að þessi till. hafi komið fram og það sé ekki að efa, að bæjarfélagið í heild og hið næsta umhverfi muni njóta mikils góðs af fjölgun og eflingu skóla á Akureyri, bæði menningarlega og efnahagslega, enda sé þegar fengin hin ágætasta reynsla af Menntaskólanum á Akureyri. Fjölgun sérgreinaskóla og annarra ríkisstofnana muni auka á menningarlega reisn bæjarins, héraðs og fjórðungs og fjöldi vel menntaðra kennara muni flytjast þangað og fer ekki hjá því, að umhverfið hljóti að njóta góðs af þekkingu þessara kennara, bæði beint og óbeint og fullkomin þörf sé nú þegar fyrir ýmsa sérskóla norðanlands, sem þá yrðu bezt staðsettir á Akureyri og sú þörf mun án efa fara vaxandi, þegar tímar líða. Þá segir skólastjóri gagnfræðaskólans, að í tæp tvö ár hafi starfað á Akureyri undirbúningsdeild tækniskóla með mikilli prýði og þyrfti að stefna að því, að á Akureyri rísi fullkominn tækniskóli, sem brautskráði tæknifræðinga. Iðnskólann, sem á núna við hin hraklegustu húsnæðisskilyrði að búa, þyrfti að efla. Verzlunarskóli þyrfti að komast upp sem fyrst, annaðhvort sem framhaldsdeild við gagnfræðaskólann eða sem sératök stofnun. Einnig segir skólastjóri gagnfræðaskólans svo: „Mjög er nú til umræðu stofnun garðyrkjuskóla á Akureyri og er erfitt að hugsa sér betri staðsetningu hans sakir hagstæðra veður- og jarðvegsskilyrða hér og gróinnar ræktunarhefðar og reynslu í bæ og héraði, ekki sízt, ef hingað fengist heitt jarðvatn við borunarframkvæmdir þær, sem nú standa yfir. Einnig mætti hugsa sér fleiri skóla, svo sem vélskóla, sjómannaskóla, tónlistarskóla, sem að vissu hefur starfað við þröngan kost í 20 ár.“ Og myndlistarakóla nefnir hann einnig. Og hann segir, að æskilegt sé, að það verði komið upp rannsóknar- og tilraunastofnunum af ýmsu tagi og þá helzt í þágu atvinnuveganna, svo sem til jarðvegs- fiski- og byggingarefnarannsókna, svo og almennri efnarannsóknarstofu.

Í bréfi Landsambands framhaldsskólakennara lýsir stjórn landsambandsins sig fylgjandi því, að athuganir þær og áætlanir, sem um getur í till., verði látnar fara fram.

Ég hef nú nefnt í fáum orðum umsagnir eða skoðanir þeirra aðila, sem umsagna var leitað hjá um meginatriði till. Um þriðja atriðið, hvort stefna skyldi að því, að háskóli tæki til starfa á Akureyri í náinni framtíð, voru skoðanir umsagnaraðila nokkuð skiptar, og töldu flestir, að ekki væri enn þá orðið tímabært að hyggja til stofnunar háskóla á Akureyri, þótt að því hlyti að koma, þegar tímar líða. Og með tilliti til þessara skoðana, sem fram hafa komið í bréfum umsagnaraðila og þá sérstaklega þess, sem fram kom í bréfi fræðslumálastjóra, að rannsókn væri hafin fyrir atbeina menntmrn. á skólaþörf þjóðarinnar, þá er n. sammála um að gera það að tillögu sinni, að þessu máli verði vísað til ríkisstj.