05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (2814)

98. mál, símagjöld á Suðurnesjum

Frsm. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Till. þessi til þál. um símagjald á Suðurnesjum er á þá leið, að Alþ. skori á ríkisstj. að hlutast til um, að nú þegar eða eigi síðar en um næstu áramót verði fyrirkomulag símtala, á Suðurnesjum og gjald vegna þeirra samræmt þannig, að allar stöðvar í símasókn þeirri, er hafi leiðatölu 92, en þær eru sjálfvirku stöðvarnar í Keflavík, Njarðvík, Gerðum, Sandgerði, Grindavík og stöðvarnar í Höfnum og Vogum, sem báðar verða væntanlega sjálfvirkar á næsta ári, verði eitt gjaldsvæði varðandi aðra landshluta, en innbyrðis komi ein greiðslueining fyrir hvert símtal án tillits til lengdar þess. Þessari till. var vísað til allshn. N. aflaði sér umsagnar póst- og símamálastjóra um till., og segir hann svo m.a. í sinni umsögn, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef efni till. ætti að koma til framkvæmda um næstu áramót, mundi verða mikill glundroði á símasambandinu á Suðurnesjum vegna allt of mikils álags, bæði á línurnar og sjálfvirka búnaðinn, þannig að gera má ráð fyrir nærri stöðvun á viðskiptunum. Til þess að unnt yrði að ráða við álagsaukninguna, yrði bæði að leggja viðbótarjarðsíma milli stöðva og fá meiri vélabúnað, en afgreiðslufrestur á honum er um 2 ár. Kostnaður við lagningu jarðstrengja milli stöðva og kaup á viðbótarvélbúnaði mundi nema a.m.k. 10 millj. kr. auk kostnaðar vegna rekstrar og viðhalds í sambandi við aukninguna. Enn fremur mundu rekstrartekjur minnka um 2–3 millj. kr. á ári. Fjarlægðin milli Keflavíkur, Grindavíkur og Gerða til Sandgerðis er tæplega 40 km, og víða um land eru mun minni fjarlægðir milli stöðva, sem gætu með svipuðum rétti talið sig á einu innanbæjargjaldsvæði. Ef sama fordæmi yrði fylgt þar, yrði landssíminn fyrir mjög miklum útgjöldum, og hallarekstur yrði óhjákvæmilegur. Enn fremur myndaðist mikið ósamræmi milli símtalagjalda við handvirka og sjálfvirka afgreiðslu.“

Þetta var úr umsögn póst- og símamálastjóra um till. Það, sem skort hefur á í þessum málum, er það, að til væri einhver heildarregla yfir allt landið, sem hægt væri að miða við, bæði á Suðurnesjum og annars staðar, þar sem það kæmi til álita að gera svæði að einu gjaldsvæði varðandi aðra landshluta og innbyrðis kæmi ein greiðslueining fyrir hvert símtal án tillits til þess, hversu langt það er.

Allshn. komst því að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að vísa þessu máli til ríkisstj. og forsendur fyrir tilvísun til ríkisstj, koma fram í nál. á þskj. 485. Ég vil leyfa mér af því tilefni að leiðrétta, að það hefur orðið þarna prentvilla í þessu nál. Þar segir í fyrri mgr. nál.: „Enn fremur telur póst- og símamálastjóri, að í till. geti falizt fordæmi fyrir aðra staði á landinu, sem mundi, ef fylgt yrði, baka landsmönnum mjög aukin útgjöld og óhjákvæmilegan hallarekstur.“ Þetta orð „landsmönnum“, það átti að standa þarna ,,landssímanum“, en að því leyti hefur prentvillupúkinn rétt fyrir sér, að útgjöld landssímans lenda auðvitað á landsmönnum um það er lýkur. En í niðurlagi þessa nál. koma þær höfuðforsendur fram frá n. hálfu, að við ákvörðun þess, hvort nálægir kaupstaðir og kauptún skuli vera eitt símagjaldsvæði innbyrðis og út á við, þurfi aðallega að meta þrjú atriði, þ.e.a.s. fjarlægðina á milli þeirra, notendafjöldann og kostnað við að koma þessu fyrirkomulagi á. Og í því sambandi telur n. rétt að setja heildarreglu, sem yrði þá væntanlega fyrst og fremst verk póst- og símamálastjórnarinnar og viðkomandi rn., heildarreglu, sem gæti gilt fyrir landið allt, en þegar sú regla væri fundin, yrði að leysa þessi mál á Suðurnesjum í samræmi við hana. Og með tilvísun til þessara raka hefur allshn. lagt til, að till. verði vísað til ríkisstj.