04.11.1964
Sameinað þing: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (2831)

13. mál, stóriðjumál

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. 1. málsgr. till. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 7 manna nefnd til þess að kynna sér niðurstöður þeirra rannsókna á stórvirkjunar möguleikum í landinu, er fram hafa farið á vegum raforkumálastjórnarinnar, svo og athugunum stóriðjunefndar á möguleikum til stóriðju. Nefndin velur sér formann.“

Þetta er aðalefni þessarar þáltill. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta mál og rökstyðja till.

Á síðasta Alþingi svaraði hæstv. iðnmrh. fsp. varðandi undirbúnings athuganir á möguleikum til stórvirkjana og stóriðju á Íslandi. Við sem flytjum þessa till., vorum þeirrar skoðunar eftir að hafa hlýtt á skýrslu hæstv. ráðh., að stórvirkjunar- og stóriðjumálin væru komin á það stig, að skylt væri og raunar óhjákvæmilegt, að um þau mál væri fjallað af Alþingi sjálfu. Stungum við þá upp á því, að málsmeðferðin yrði á þá lund, að byrjað yrði með því að kjósa mþn. eins og þá, sem þessi till. gerir ráð fyrir, en hún var flutt efnislega eins á síðasta þingi.

Við teljum, að málin séu á því stigi samkv. því, sem hér hefur verið upplýst á hv. Alþingi, að hæstv. ríkisstj. eða starfsmenn hennar ættu ekki að hafast neitt að umfram það, sem búið er, fyrr en Alþingi hefur átt þess kost að kynnast því nánar, sem fyrir liggur um málið og marka stefnu í því. Teljum við það nauðsynlegan aðdraganda að kjósa mþn., sem reyndi að sjálfsögðu að hraða störfum sem allra mest, og yrði n. sjálfsagt að hraða því meira störfum, sem lengur hefur dregizt að koma henni á laggirnar.

Það er skoðun okkar og ég vona, að á það geti í raun og veru allir fallizt, að það sé óeðlilegt að ákveða um stórvirkjun, ráðast í stórvirkjun eða ákveða stað fyrir stórvirkjun, hvað þá stofna til stóriðju í landinu, t.d. með þátttöku útlendinga og ákveða, hvar sú stóriðja skuli sett upp, án þess að Alþingi sé með í ráðum og málin fái áður athugun í nefnd, þar sem allir flokkar eigi sína fulltrúa.

Við teljum óeðlilegt, að rætt sé við erlend stóriðjufyrirtæki og fjármálastofnanir um stóriðjurekstur hér á landi til nokkurra úrslita, án þess að málið hafi fengið þá meðferð, sem við leggjum til með þessari þáltill. En það kom fram á hv. Alþingi í fyrra, að farið var að ræða við erlendar fjármálastofnanir um framkvæmdir af þessu tagi, en þó ekki glöggt á hvaða stigi þær umr. voru.

Í þessu sambandi leyfi ég mér að vekja athygli á því, að 22. marz 1961 samþykkti Alþingi þáltill. um að undirbúa virkjun Jökulsár á Fjöllum til stóriðju og raunar man ég ekki eftir, að aðrar ákvarðanir hafi verið teknar á Alþingi um að framkvæma rannsóknir með hugsanlega stóriðju fyrir augum. Þessi ályktun hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hraða gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugun á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu á útflutningsvörum og úrræðum til fjáröflunar í því sambandi.“

Síðan þessi þáltill. var samþykkt, eru nálega 3 ár liðin, en engin skýrsla hefur enn verið gefin hv. Alþingi eða í þingnefndum um, að þessu verki væri lokið, sem þó var ákveðið að framkvæma með þessari þáll., sem ég var að lesa. Það hefur verið lauslega drepið á það í sambandi við skýrslur um þessi mál og umr., að athuganir hafi farið fram, en engar upplýsingar gefnar um lokaniðurstöður af rannsóknum við Jökulsá á Fjöllum.

Ég álít, að þegar þessi mál eru rædd eða íhuguð, hljóti að koma til margar spurningar, sem þarf að svara, áður en ákvarðanir eru teknar. Ég vil aðeins minnast á sumt af því, sem kemur til álita og hugsa þarf um og ræða, en sumt af því er mjög vandasamt og áreiðanlega hollt, að sem flest sjónarmið komi fram á frumstigi þessara mála, þegar um svo vandasöm og nýstárleg efni er að ræða.

Í sambandi við þessi mál kemur t.d. upp spurningin um, hvort eigi að taka upp samstarf við erlenda aðila varðandi rekstur í landinu sjálfu, svo sem t.d. alúminíumverksmiðju til raforkukaupa frá stórvirkjun, sem oft hefur verið rætt um. Og ef lagt verður í slíkt, kemur til greina að gera sér grein fyrir því, hvernig á að tryggja hagsmuni Íslendinga í því sambandi. Íslendingar hafa enga reynslu í því að setja slíkri starfsemi eðlilegan ramma og er þetta mjög vandasamt mál fyrir okkur. Enn fremur er ekki reynsla hér í því að setja slíkri starfsemi löggjöf. Hvernig sem á þetta vandasama mál er litið, er því brýn nauðsyn á, að þetta sé allt gaumgæfilega skoðað í tæka tíð.

Þá knýr á í þessu sambandi spurningin um, hvar setja eigi upp stóóvirkjanir og stóriðju, ef til greina kæmi. Hvernig yrði hægt að koma byggingu stóriðjuvers t.d. á eðlilegan hátt inn í framkvæmdaáætlanir Íslendinga, án þess að setja úr skorðum eðlilegt athafna- og framkvæmdalíf og uppbygginguna í landinu. Þá kemur spurningin um, hvort nýjar stórframkvæmdir, ef til greina koma, ættu að verða til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins eða hvort ráðstafanir í þessum málum ættu að verða til þess að auka enn vandann í þeim efnum, sem flestir virðast nú vera að verða sammála um, að sé ærinn fyrir hendi. Þessar spurningar knýja á, en Alþingi hefur ekki fengið nokkur þau gögn í hendur, að það geti í raun og veru svarað þeim á viðhlítandi hátt á þessu stigi málanna. Því er þessi till. flutt um, að Alþingi kjósi sérstaka nefnd, er skoði þessi má ofan í kjölinn, að sjálfsögðu með hæstv. ríkisstj.

Ég hika ekki við að segja, að það sé eitt af aðalsmerkjum íslenzks þjóðarbúskapar, að nálega allur atvinnurekstur í landinu er í höndum Íslendinga sjálfra. Ég tel að þeirri sömu meginstefnu beri að fylgja framvegis. En spurningin er einvörðungu sú, hvort skynsamlegt sé og nauðsynlegt að gera undantekningu frá þessari reglu, þegar sérstaklega stendur á og alveg sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Framsfl. hefur litið svo á, að slíkt gæti komið til greina, ef með því móti væri unnt að leysa tiltekin, aðkallandi verkefni í þágu alþjóðar, sem óhugsandi næri að leysa öðruvísi, en því aðeins ætti þetta að koma til greina. Ef menn vilja gera slíka undantekningu, t.d. til þess að unnt sé að virkja stórt, þarf að liggja fyrir, hvað rafmagn fæst miklu ódýrara með því móti, þ.e. hve stórfellt hagræði. Íslenzkur þjóðarbúskapur hefði af því, og svo hvað þarf að vinna til. Hvað höfum við svo mikið vatnsafl hentugt til virkjunar og erum við aflögufærir í stórrekstur, annan en okkar eigin, þann sem eðlilegt er, að við höfum með höndum sjálfir?

Raforkuþörf okkar eykst með ofsahraða, og talið er, að haganlega virkjanlegt vatnsafl verði fullnýtt upp úr næstu aldamótum hér á landi með sama hraða og nú er virkjað. Í sambandi við alúminíumverksmiðju hefur verið talað um 30 þús. lesta ársframleiðslu fyrst um sinn, en látið að því liggja, að vel geti komið til mála, að framleiðslan verði aukin og þá hljótum við enn að spyrja: Hafa Íslendingar ráð á að binda mikið rafmagn í þess konar fyrirtæki eða fyrirtækjum?

Tvenns konar sjónarmið geta komið fram varðandi það, með hvaða hætti atvinnurekstur útlendinga hér á landi kæmi til greina. Líklega er hægt að gera slíka samninga nokkuð trygga varðandi íslenzka hagsmuni með skýrum ákvæðum um tiltekið fyrirtæki, þar sem starfssvið þess væri skýrt afmarkað og leyfi bundið við það eitt sem sérstaka undantekningu og þá miðað beinlínis við að leysa þjóðfélagslegt vandamál sérstaks eðlis, t.d. að skapa grundvöll að einni stórri virkjun. En hins vegar væri líka hægt að hleypa erlendum aðilum, jafnvel einum aðila sterkum, hér inn í landið með svo rúmum samningsákvæðum, að erlent stórfyrirtæki kæmi sem eins konar Trójuhestur inn í íslenzkt atvinnulíf og gæti svo þanið sig út í landinu og fléttað sig inn í íslenzkt efnahags- og atvinnulíf. En slíkt má vitaskuld alls ekki koma til mála og er margt að varast í því sambandi, eins og ég hef hér minnzt á. Þarf því að ganga vel og tryggilega frá öllum hnútum, ef þetta á yfir höfuð að koma til mála.

Það er engin trygging í því, þótt erlent fyrirtæki væri hér í samstarfi við íslenzka einstaklinga. Einstaklingar íslenzkir geta ofmetið persónulega hagsmuni sína og komizt í þjónustu hins erlenda fjármagns og það eru engar getsakir um einn eða neinn, að það verður að gera ráð fyrir því, að sú hætta sé fyrir hendi hér, eins og hjá öllum öðrum þjóðum.

Ef til greina kæmi, að útlendingar fengju hér aðstöðu til atvinnurekstrar, yrði að vera sérstakur samningur og sérstök löggjöf hverju sinni. Hins vegar er það mjög eftirtektarvert og hefur komið fram við umr. um þessi efni, sem átt hafa sér stað síðustu árin eða síðustu missirin, að hin almenna löggjöf, sem nú er í gildi hér um réttindi útlendinga, er orðin mjög úrelt, er afar léleg og lítið öryggi í henni fyrir landið og þjóðina og miklu veikari, hér en sums staðar annars staðar hjá nágrannaþjóðum okkar. Framsóknarmenn lögðu fram í fyrra till. um endurskoðun á þeirri löggjöf með það fyrir augum að tryggja Íslendinga gegn óeðlilegum áhrifum útlendinga í atvinnurekstri hér og mun það mál verða flutt aftur á þessu þingi.

Ég gat um það áðan, að það væri enginn smáræðis þáttur í þessu máli, hvernig stórframkvæmdir gætu komizt inn í eðlilega framkvæmdaáætlun landsmanna og orðið liður í því að tryggja skynsamlega byggð í landinu, en ekki til þess að auka vandann frá því, sem verið hefur. Og þar erum við komnir að einum veigamesta þætti í þessum málum, þ.e. uppbyggingu íslenzka þjóðarbúsins framvegis og hvernig á að setja atvinnureksturinn niður í landinu með það fyrir augum að byggja landið allt. En eins og kunnugt er, viljum við í Framsfl. leggja ríka áherzlu á, að stefnan sé miðuð við það að byggja allt landið, því að við álítum, að verði það ekki gert, muni þjóðinni aldrei takast að halda öllu landinu.

Nú horfir á hinn bóginn erfiðlega í þessum efnum og allt virðist stefna að því, að Íslendingar safnist saman flestir í einni borg. Ef svo fer, mun okkur ekki farnast vel í landinu og ég vona, að um það séu í raun og veru allir sammála, þótt menn leggi mismunandi áherslu á þetta og þessu sjónarmiði vona ég, að aukist skilningur.

Það, sem fyrst og fremst þarf að gera, er að koma upp þéttbýlismiðastöðvum í öllum byggðarlögum, sem gætu orðið miðstöðvar iðnaðar, verzlunar, samgangna og mennta. Með því væri að mínu viti dreifbýlinu í sveitunum alveg borgið. Á flokksþingum og fundum framsóknarmanna hefur oft verið ályktað um þetta mál og einmitt í þessa stefnu og rík áherzla lögð á þessa þætti.

Þá verður umfram allt að vinna að því, að upp rísi fleiri borgir en höfuðborgin, fleiri borgir en Reykjavík og efla kaupstaði og kauptún í öllum landshlutum. T.d. þarf að vinna skipulega að því, að Akureyri verði borg og mundi það, eins og nú standa sakir, verða eitt stærsta skrefið, sem unnt væri að stíga til að snúa þeirri þróun við, sem verið hefur og margir óttast. Þetta er ekki síður hagsmunamál íbúa höfuðborgarinnar sjálfrar, en annarra landsmanna, því að Reykjavík yrði ekki lengi höfuðborg sjálfstæðrar þjóðar. ef svo færi, að landabyggðin eyddist og aðrar borgir kæmu ekki upp í landinu.

Af þessu leiðir, frá sjónarmiði okkar flm. þessarar till., að það verður að hafa byggðaþróunina mjög ofarlega í huga í sambandi við stórvirkjunar- og stóriðjumálin. Á þessu virðist af og til hafa komið fram nokkur skilningur á Alþingi. 1961 var, eins og ég sagði áðan, t.d. samþ. einróma þál. um að rannsaka möguleika á virkjun Jökulsár á Fjöllum með stóriðju til framleiðslu útflutningsvöru fyrir augum, og var þá vafalaust þetta sjónarmið um jafnvægi í byggð landsins haft mjög í huga, þegar áherzla var lögð á að rannsaka virkjunarskilyrði einmitt á þessum stað, auðvitað fyrst og fremst með það fyrir augum, að stórfyrirtæki gætu komið upp á Norðurlandi og þá væri ekki þýðingarlítið, ef það gæti orðið t.d. í grennd við Akureyri og orðið liður í því að gera Akureyri að borg.

Ég minnist þess raunar ekki, að hafi verið gerðar aðrar ályktanir en þessi um stórvirkjanir í sambandi við hugsanlega stóriðju, en ég fullyrði, að þetta byggðajafnvægissjónarmið lá mjög að baki þessari þáltill. En eins og ég hef þegar getið um, hefur ekkert verið upplýst um niðurstöðu þessarar athugunar enn sem komið er.

Það hefur verið lauslega talað um, að e.t.v. yrði að virkja sunnanlands, en leggja línu norður og byggja stórfyrirtæki norðanlands, t.d. í grennd við Akureyri. Um þetta var talað í fyrra. Þetta kom fram hjá einhverjum ráðherranum m.a. og var ánægjulegt að heyra úr þeim herbúðum, að skilningur var á þessu. En allt þetta tal var lauslegt og óljóst, enda kannske ekki óeðlilegt á því stigi málanna, sem þau voru þá og eru máske enn. En ég er að rekja þetta allt til að sýna hve þessi mál eru stórkostleg og að hér er um alger grundvallar málefni að ræða, sem snerta meira, en nokkur önnur málefni, framtíð þjóðarinnar í landinu, hvernig byggðin verður og hvernig landið verður notað.

Ég vil segja það sem mína skoðun, að það beri hiklaust að leggja í verulegan kostnað, til þess að stóriðja, ef kæmi til greina, geti stuðlað að heppilegri byggðarþróun. Það á því ekki að ráða þessu beinhart peningasjónarmið, ekki það eitt, hvað ódýrast er í bili. Ég álít, að það væri ekki leyfilegt að láta beinhart peningasjónarmið eitt ríkja í þessu tilliti og ég vil segja, að þegar litið er á þá óhemjusóun, sem hér á sér stað í landinu í sambandi við fjárfestingarframkvæmdir landsmanna og handahófið í þeim efnum og allan þann dúxus og eyðslu, sem á er lagt og ekkert skilur eftir, — þegar litið er á þetta, ætti mönnum ekki að vaxa í augum, þótt verulegu fjármagni væri varið til þess að stuðla að lífsnauðsynlegri byggðaþróun í landinu, sem fleiri og fleiri sjá að þarf að verða, ef þjóðin ætlar raunverulega að byggja þetta land og lifa hér sjálfstæð og óháð framvegis.

Og ég spyr: Hvenær á að kryfja þess mál til mergjar og marka stefnu í þeim, ef ekki þegar taka á ákvarðanir um iðnaðaruppbyggingu í landinu og stórvirkjanir? Hvenær á að kryfja þessi mál til mergjar og taka ákveðna stefnu í þeim, ef það verður ekki gert, þegar slíkar ákvarðanir eru teknar?

Ég vil vona, að ef þessum fáu orðum, sem ég hef sagt, skýrist að þessi mál öll eru stórfelld og að lífsnauðsynlegt er, að þau séu ekki aðeins rædd á Alþingi í tíma, þ.e. áður en menn festa sig á einu eða öðru. Það er of seint að ræða þessi mál, þegar menn hafa raunverulega tekið ákvörðun, þ.e.a.s. meiri hl. Það er ekki skynsamlegt.

Þegar um svona stórfelld mál er að ræða, er um að gera að ræða þau strax á frumstigi og bezt, að þá komi sem flestar skoðanir til athugunar. Það er ekki þar með sagt, að allir geti endanlega orðið sammála, en það á að tryggja, að sem flestar skoðanir komi til athugunar strax og það gæti verið stórkostlegur ávinningur að því fyrir þá, sem eiga að bera ábyrgð á framkvæmdunum að lokum, að hafa heyrt nógu snemma, hvað hinir hafa til málanna að leggja og geta þá tekið í tíma tillit til þess af því, sem þeim sýnist þess virði. En hitt er hættulegt, að taka ákvarðanir og heyra síðan ýmsar aths., langa til að taka þær til greina, en eiga erfitt með það vegna þess, sem búið er að gera. Því er það lífsnauðsynlegt og það eina lýðræðislega í þessu efni, að Alþingi fjalli um þessi mál nú þegar og þá er bezta formið að setja milliþinganefnd, sem allir flokkar eiga sæti í. Ég held, að það þurfi ekkert að óttast, að slíkt yrði til þess að tefja þessi mál óeðlilega, og því fer alls fjarri, að það vaki fyrir flm. þessarar till. að tefja þessi miklu mál á einn eða annan hátt, heldur eingöngu hitt, að bjóða fram samstarf um þessi mál og fá á þeim sameiginlega athugun.

Í umr., sem farið hafa fram um stóriðjumálin, hefur verið rætt nokkuð um alúminíumverksmiðju, eins og ég gat um áðan, sem jafnvel yrði rekin af útlendingum og olíuhreinsunarstöð hefur líka verið nefnd. Um olíuhreinsunarstöð vil ég segja, að olíuhreinsunarstöð, fyrir okkar þarfir, er ekki stærra mannvirki en t.d. sementsverksmiðjan og áburðarverksmiðjan og því Íslendingum vel viðráðanlegt eftir venjulegum leiðum að koma upp slíku fyrirtæki, ef það þætti rétt. Það hefur líka komið fram, að það mundi varla hugsanlegt að koma upp slíku fyrirtæki eða reka það hér, án þess að það ræki sig að einhverju leyti á viðskiptahagsmuni sjávarútveggins. Ég fyrir mitt leyti álít, að það gæti alls ekki komið til mála að fara að setja hér upp olíuhreinsunarstöð, sem kæmi að einhverju leyti í bága við hagamuni sjávarútvegsins. Ef til kæmi með olíuhreinsunarstöð, mundu í henni verða hreinsaðar olíur og benzín fyrir Íslendinga, sjálfa fyrst og fremst, og í reyndinni mundi það auðvitað verða þannig, að slíkt fyrirtæki fengi hér einhvers konar einkaréttaraðstöðu varðandi þessar vörur. Þess vegna finnst mér, að slíkt fyrirtæki yrði að vera algerlega á valdi Íslendinga sjálfra og tryggt, að það yrði rekið með hag þeirra fyrir augum. Mér hefur líka skilizt, að olíuhreinsunarstöð gæti orðið byrjun að ýmiss konar öðrum efnaiðnaði, og það mundi væntanlega þýða það, að ef útlendingar hefðu raunverulega yfirráð yfir slíkri stöð, þá gætu þeir gegnum hana ofið sig inn í ýmsar aðrar greinar íslenzks efnahags- og atvinnulífs, einmitt á þann hátt, sem ég áðan vildi vara við.

Olíur og benzín eru um helmingur af öllu því vörumagni, sem nú er flutt til landsins, og það snertir allt mjög mikið okkar þjóðarbúskap, hvernig fjallað er um þau efni. Þetta segi ég til þess að sýna, hve þetta mál olíuhreinsunarstöðvarmálið, er stórt, en það hefur nokkuð blandazt inn í þetta, og ekki dregur það að mínu viti úr nauðsyn þess, að málin séu athuguð sameiginlega, að einmitt slíkt fyrirtæki er líka til skoðunar og umr. a.m.k.

Ég vil svo segja að lokum, að með flutningi þessarar till. viljum við eiga okkar þátt í því, að sem víðtækast samstarf gæti orðið um athugun þessara mála og sem flest sjónarmið gætu komið til greina, áður en örlagaríkar ákvarðanir yrðu teknar og við teljum, að þau sjónarmið verði að komast að, áður en það væri orðið of seint — eða þegar kannske væri raunverulega búið að taka ákvörðun í þeim. Ég leyfi mér að vænta þess, að þó að þessi þáltill. fengist ekki afgreidd í fyrra þá verði nú hægt að fallast á að samþykkja hana. Ég læt það á vald forseta, í hvaða nefnd hann stingur upp á, að henni verði vísað.