04.11.1964
Sameinað þing: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (2833)

13. mál, stóriðjumál

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir þeim yfirlýsingum, sem hér komu fram frá hv. 1. þm. Austf. í sambandi við þetta mál, að hann og hans flokkur væru að bjóða fram samstarf og vildu, að á kæmist sem víðtækast samstarf í sambandi við hugsanlegar stórvirkjanir og stóriðju á Íslandi. Ég lét í ljós alveg sömu skoðun hér á þinginu í fyrra, að ég teldi mjög mikilsvert í sambandi við ráðagerðir í þessum stóru málum, að hægt væri að koma á sem víðtækustu samstarfi og þá átti ég auðvitað við einingu um þessi mál, þegar eða ef til ætti að taka og við erum vist ekki í nokkrum vafa um virkjanirnar hér á landi. Það kann að vera, að orki eitthvað meira tvímælis hjá mönnum um stóriðjuna eða með hverjum hætti hún er tengd við stórvirkjanirnar. Hv. 3. þm. Reykv. sagðist nú alveg vera tilbúinn til samkomulags líka í upphafi sinnar ræðu, en það voru hins vegar nokkuð margir fyrirvarar, þegar leið á ræðuna hjá þessum hv. þm., um þann samkomulagsvilja, eins og vænta mátti og okkur þm. er ekki ókunnugt um, af afstöðu hans og ræðum um skyld og svipuð mál hér.

Varðandi almennt virkjunarmálin og stóriðjuna í því sambandi er ég alveg sammála hv. 1. þm. Austf., þegar hann sagði, að hann teldi það óeðlilegt að ákveða stórvirkjun eða stefna til stóriðju, án þess að Alþingi sé haft með í ráðum og einnig það, sem hann sagði, að það væri óeðlilegt, að rætt sé til nokkurra úrslita við erlenda aðila í þessu sambandi, án þess einnig að Alþingi sé með í ráðum. Þetta er nákvæmlega sú sama skoðun sem ég lýsti yfir á þinginu í fyrra, þegar við ræddum þessi mál, að það yrði að sjálfsögðu Alþingis að marka framtíðarstefnu okkar í þessum málum.

Ég tek alveg undir þau varnaðarorð hv. 1. þm. Austf., sem fram komu um það, að það þyrfti vel að vanda og vel að athuga hugsanlegar samningagerðir við útlendinga í sambandi við atvinnurekstur hér á landi. Hann lýsti því sem sinni skoðun, að það yrði sennilega tryggilegast að gera þessa samninga, ef til þeirra kæmi, við tiltekin fyrirtæki hverju sinni og ekki nema þeir væru eitthvað sérstaks eðlis og í þessu er auðvitað mikið satt og rétt. Við ættum ekki að hleypa hér inn neinum Trójuhesti í íslenzkt atvinnulíf með samningagerðum við erlent fjármagn. Það vona ég, að við þurfum aldrei að upplifa, að svo óhöndulega til takist af hálfu okkar Íslendinga, ef víð ætlum að hafa samráð við útlendinga, bæði á sviði fjármála og tækni í sambandi við þessi mál.

Hv. 1. þm. Austf. vék aðeins að því, að þm. Framsfl. hefðu talið þörf á sérstakri endurskoðun á löggjöf um atvinnuréttindi og fasteignaréttindi útlendinga hér á landi og flutt um það till. á s.l. þingi. — taldi, að núgildandi löggjöf á þessu sviði hjá okkur væri allmjög úrelt. Þegar þessi till. var til umr. á síðasta þingi, var það upplýst, að endurskoðun á þessari löggjöf væri þegar í gangi af hálfu ríkisstj., hefðu bæði farið fram athuganir og endurskoðun af hálfu stóriðjunefndar og einnig í sambandi við fríverzlunarmálið af hálfu viðskmrn. og sérfræðinga í því og með vísun til þess var þeirri till. þá vísað til ríkisstj. Nú hefur athugun þessara mála að sjálfsögðu haldið áfram og með auknum hraða, því að það er skoðun okkar í ríkisstj., að það sé mjög eðlilegt, að slík athugun fari fram í sambandi við hugsanlega samvinnu í stóru eða smáu við útlendinga eða erlent fjármagn í sambandi við stóriðju hér á landi. Ég get því miður ekki á þessu stigi málsins sagt, hvenær þeim athugunum verður lokið, en það er að þeim unnið mjög ötullega nú og hefur það falið í minn hlut innan ríkisstj. að hafa forgöngu um það. En ég hafði hugsað mér, svo fljótt sem verða mætti, að gera þinginu grein fyrir þeim athugunum með skýrslum og þá e.t.v. flutningi frv., eftir því sem niðurstöður athugananna gefa ástæðu til.

Þetta vildi ég aðeins sagt hafa, af því að hv. 1. þm. Austf. vék að því, að þeir hefðu í hyggju, framsóknarmenn, að flytja enn á þessu þingi þessa sömu till., sem var til meðferðar á síðasta þingi.

Um afstöðu mína til þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að eins og vikið er að í henni, svaraði ég fsp. á síðasta þingi, sem þá voru fram bornar varðandi undirbúningsathuganir á möguleikum til stórvirkjana og stóriðju á Íslandi. Ég lagði áherzlu á það þá, að ríkisstj. hefði ekki talið ástæðu til frekari upplýsinga, en þá voru gefnar, vegna þess að undirbúningsathuganirnar væru ekki lengra komnar, þeim yrði haldið áfram og Alþingi mundi verða gerð grein fyrir niðurstöðum athugananna, jafnóðum og ástæða þætti til og lagði í því sambandi ríka áherzlu á, að á engan hátt vekti fyrir ríkisstj. að draga að gefa upplýsingar eða dylja Alþingi nokkurs í þessu máli og ég held, að ég hafi ítrekað það síðar á sama þingi að gefnu tilefni í umr., sem þá fóru aftur fram um svipuð málefni.

Ég get sagt um olíuhreinsunarstöðvarmálið, sem hv. 1. þm. Austf. vék aðeins örfáum orðum að, að ég hef um það mál engu við að bæta það, sem ég sagði á síðasta þingi og held, að það sé á mjög svipuðu eða sama stigi og það var þá. Hins vegar hefur verið haldið áfram undirbúningsathugunum um möguleika til samningsgerðar við alúminíumfyrirtæki og margháttuðum athugunum og rannsóknum í sambandi við stórvirkjunarmöguleika hér á landi. Þessar athuganir hafa hins vegar ekki, eins og gefur að skilja, þar sem ekki hefur komið neitt fram frá ríkisstj. enn á þinginu, verið taldar vera komnar það langt, að ástæða væri til frekari upplýsinga eða skýrslugerðar af hálfu stjórnarinnar, en þegar hefur verið gefin. Ég vil þó segja það, að mér finnst allt benda til þess, að það verði innan mjög skamms, sem ríkisstj. muni geta lagt fyrir þingið frekari skýrslur um bæði þessi mál, virkjunarmálin og stóriðjumálin í tengslum við þau. Hversu fljótt það verður, veit ég ekki, en mér finnst ástæða til að ætla, að það muni ekki dragast lengi úr þessu. Og með hliðsjón af því, sem ég nú hef sagt og því, sem lýst var yfir fyrir hönd ríkisstj. í fyrra, finnst mér engin ástæða til þess, að Alþingi nú marki afstöðu sína til þess að kjósa nefnd í þessu máli með þeim hætti, sem farið er fram á í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir til umræðu.