06.11.1964
Sameinað þing: 9. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (2836)

13. mál, stóriðjumál

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er einn af flm. till., sem hér liggur fyrir á þskj. 13, en það er ekki þess vegna, sem ég kvaddi mér hljóðs við umr. í fyrradag, því að hv. 1. flm. till. hefur mælt svo skilmerkilega fyrir henni, að þar þarf ekki neinu við að bæta. En af því að umr. hafa orðið um þetta mál og komið víða við og af því að gagn getur verið af að ræða málið frá ýmsum hliðum og rifja upp ýmislegt, sem gerzt hefur eða ekki gerzt í þessu máli, ætla ég að fara nokkrum orðum um ýmis atriði, sem borið hefur á góma nú eða fyrr.

Á Alþingi 1980 fluttum við 7 þm. að norðan till. til þál. um að undirbúa virkjun Jökulsár á Fjöllum til stóriðju, eins og það var orðað í þskj. Þessi till. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hraða gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugun á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu útflutningsvöru og úrræðum til fjáröflunar í því sambandi.“

Flm. till. voru samkv. þskj. Gísli Guðmundsson, Jónas G. Rafnar, Karl Kristjánsson, Garðar Halldórsson, Björn Jónsson, Magnús Jónsson og Bjartmar Guðmundsson. Enn einn þáv. hv. þm., Friðjón Skarphéðinsson, landsk. þm., stóð að flutningi till., en vegna fjarveru var nafn hans ekki á þskj. Í framsöguræðu var aðildar hans getið í samráði við hann.

Í grg. þessarar till. var í nokkrum orðum gerð grein fyrir virkjunarmöguleikum Jökulsár á Fjöllum og þess getið samkv. heimildum, að ána mundi mega virkja í tveimur orkuverum, öðru við Dettifoss, hinu við Vígabergafoss, samtals a.m.k. 300–400 þús. kw. eða 4–5 sinnum meiri orku, en fengist úr Soginu fullvirkjuðu. Í grg. þessari, sem við lögðum fram með till., segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þótt Jökulsárvirkjun mundi verða öflugur varasjóður fyrir núverandi og fyrrverandi orkuveitur á Norður- og Austurlandi, er flm. till. þessarar ljóst, að í þá virkjun verður naumast ráðizt í náinni framtíð, nema jafnhliða verði komið upp iðjuverum, sem hagnýti orkuna. Þegar hafa verið gerðar ýmsar bráðabirgðaathuganir á því, hvers konar efnaiðnaður helzt kæmi til greina í því sambandi, en þó er eftir að rannsaka þá hlið málsins til hlítar. Það virðist ótvírætt, að slík iðjuver muni kosta miklu stærri fjárhæðir, en nokkurt núverandi fyrirtæki hérlendis kostar. Það er mikilvægt að gera sér jafnframt grein fyrir því, hvernig afla skuli fjármagns til þessara miklu framkvæmda. Þótt unnið sé nú að áætlanagerð um virkjun Jökulsár og nokkuð hafi verið hugleitt um iðjuver í sambandi við virkjunina, telja flm. till. þessarar, að hér sé um svo stórfellt hagsmunamál að ræða fyrir byggðirnar í nágrenni væntanlegrar virkjunar og þjóðina í heild, að rétt sé, að Alþingi lýsi þeim vilja sínum, að ríkisstj. leggi allt kapp á að hraða sem mest fullnaðarafgreiðslu málsins.“

Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um aðdraganda þeirrar hugmyndar, sem þarna var á ferðinni fyrir um það bil 4 árum, því að vissulega átti hún sér aðdraganda. Það var sem sé ekkert nýmæli fyrir 4–5 árum, að til greina kæmi að hefjast handa um virkjun hinna stærri fallvatna hér á landi. Það eru víst nálega 50 ár, síðan farið var að ræða um slíkt hér. Þjóðskáldið mikla, sem átti aldarafmæli fyrir nokkrum dögum, kvað um stóriðjuhugmyndina og einmitt í sambandi við Dettifoss eitt af sínum snjöllustu ljóðum. Og síðustu tvo áratugina, áður en við fluttum okkar till., hefur þessi mál stórvirkjunar- og stóriðjumál almennt, um möguleika til slíkra framkvæmda hér, víða borið á góma, a.m.k. öðru hverju. Mér er nær að halda, að um það hafi verið meira og minna spjallað í öllum stjórnmálaflokkum utan Alþingis við ýmis tækifæri. En a.m.k. einn af stjórnmálaflokkunum gerðist til þess að reifa þetta mál formlega á Alþingi fyrir 18 árum. Sá flokkur var Sósfl., sem þá var meðal þingflokka hér og aðalformælandi hans í því máli þá var hv. núv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson.

Haustið 1946 var stjórnarkreppa hér á landi. Þá var nýsköpunarstjórnin, sem svo var nefnd, í þann veginn að hætta störfum og þá fóru fram viðræður milli stjórnmálaflokkanna um möguleika á því að koma upp nýrri stjórn. Í sambandi við þær umræður lagði Sósfl. fram hinn 6. nóv. 1946 svo hljóðandi till., með leyfi hæstv. forseta:

„Undirbúningur með hvers konar rannsóknum sé hafinn til þess að geta komið upp hér á landi á næsta áratug stóriðju, sem fyrst og fremst byggist á ódýrri raforku og vinnu úr innlendum hráefnum, sem nú þegar eru fundin eða finnast kunna við rannsóknir og úr erlendum hráefnum, sem borga mundi sig að flytja inn. Skulu sérstaklega rannsökuð virkjunarskilyrði Þjórsár og fjárhagslegur möguleiki á mjög stóru orkuveri.“

Árið eftir eða 1947 var lagt fram á Alþingi frv. um fjárhagsráð og varð það síðar að lögum. Einar Olgeirsson, hv. núv. 3. þm. Reykv., lagði þá fram fyrir hönd flokks síns ýmsar brtt. við þetta frv. og fólst í þeim m.a., að í l. skyldi standa, að fjárhagsráði væri falið að „undirbúa sem aðalverkefni sitt uppkomu stóriðju í landinu á grundvelli ódýrrar raforku og skal því leggja höfuðáherzlu á að láta fram fara nauðsynlegar undirbúningsrannsóknir og tilraunir, til þess að hægt verði á árabilinu 1950–55 að reisa slík raforkuver, er geti framleitt orkuna sem ódýrast og svo mikla, að hún nægi jafnt til sköpunar stóriðju hér sem rekstrar vel rekins landbúnaðar og fiskiðju.“

6 árum síðar eða á Alþingi 1953 flutti svo þessi sami hv. þm. af hálfu flokks síns á þskj. 230 frv. til l. „um ný raforkuver og fleiri ráðstafanir í raforkumálum“. Samkv. 6.–8. gr. þessa frv. skyldi lagt fyrir raforkumálastjórnina að undirbúa stórvirkjun við Þjórsá eða Hvítá í Árnessýslu og athuga stórvirkjunarmöguleika við Blöndu og Vatnsdalsá. Síðan segir í 9. gr. frv.: „Samtímis undirbúningi að stórvirkjun í þessum ám skal raforkumálastjórnin í samráði við raforkuráð ríkisins framkvæma rannsóknir á því, hverjum greinum stóriðju sé vænlegast að koma upp. Sérstaklega skal rannsaka möguleika á því að vinna. alúminíumoxyd úr bauxit við jarðhita og síðan hreinan alúminíummálm úr alúminíumoxyd með raforku.“

Í grg. þessa frv. segir svo, sbr. bls. 500 í A-deild Alþingistíðinda 1953:

Sósfl. hefur löngum einn allra stjórnmálaflokka á Íslandi brýnt það fyrir þjóðinni, að til þess að geta bætt lífsafkomu sína að staðaldri þurfi hún að hagnýta þær miklu auðlindir, sem hún á í fossum sínum og nota, þær þá m.a. til þess að koma upp stóriðju í landinu.“

Síðar í grg. segir svo: „Stórvirkjun í Þjórsá — sem og í Blöndu — verður að miðast við framleiðslu til útflutnings að miklu leyti, þótt hún hljóti auðvitað að efla alla þá atvinnuvegi íslenzka, sem fyrir eru. Þess vegna er nauðsynlegt, samtímis því sem hafinn er undirbúningur að virkjun Þjórsár, að hefja ýtarlegar rannsóknir á því, hvaða stóriðju kæmi fyrst og fremst til greina að reka með raforku Þjórsár. Ef íslenzk stóriðja á að geta keppt á alþjóðamarkaði, verður hún að vera í eins stórum stíl og stóriðja stórþjóða. Af því leiðir að, að líkindum verður að einbeita sér að einni tegund stóriðju, þótt margs konar smærri iðja fylgi í kjölfarið.“ Og enn segir í þessari grg. frá 1953: „Stóriðja á grundvelli ódýrrar raforku er raunhæft framtíðarmarkmið fyrir Íslendinga, sem þegar þarf að fara að gera að veruleika. Það er lífsnauðsyn til þess að skapa jafnvægi í atvinnulífi okkar og draga úr áhættum þess.“

Ég hef lesið þessi tilvitnuðu ummæli úr Alþingistíðindum frá Sósfl. og núv. hv. 3. þm. Reykv. vegna þess, að þau komu fram á þskj. á Alþingi á þessum tíma, fyrir meira en áratug, þegar aðrir höfðu enn eigi, svo að ég muni, gert neitt til þess að reifa málin á þennan hátt á þessum vettvangi. En eins og ég sagði áðan, voru þessi stóriðju- og stórvirkjunarmál í þann tíð víðar á döfinni, en hjá Sósfl., þótt aðrir færu hægar í sakirnar. Allt þetta var okkur að sjálfsögðu kunnugt fyrir 4 árum og þá jafnframt hitt, að við Jökulsá á Fjöllum höfðu þá þegar farið fram allmiklar rannsóknir á virkjunarskilyrðum. Hinn 6. maí 1960 eða nokkru áður hafði raforkumálastjóri að gefnu tilefni ritað fjvn. Alþingis um þetta efni á þessa leið:

„Um nokkur undanfarin ár,“ segir raforkumálastjóri þar, árið 1960, „hefur verið unnið að rannsóknum og áætlanagerðum um virkjun Dettifoss og Vígabergsfoss í Jökulsá. Áætlanagerð þessi var unnin með það fyrir augum að fá nægilega ábyggilega vitneskju um kostnaðarverð raforku frá stórvirkjun hér á landi til að draga af ályktanir um skilyrði til rekstrar orkufrekrar stóriðju. Fyrsta áfanga þessarar áætlunargerðar er lokið og talið, að hann hafi leitt í ljós, að úr Jökulsá megi vinna raforku á svipuðu kostnaðarverði og stóriðjuver, svo sem alúminíumverksmiðjur, greiða fyrir orkuna víða erlendis. Hins vegar er eftir að athuga, hversu mikið afl eða ársorku megi fá úr ánni á svo lágu verði.“

Þetta voru ummæli raforkumálastjóra í bréfi til fjvn. hinn 6. maí 1960 um þær undirbúningsrannsóknir, sem þá höfðu verið gerðar við Jökulsá og lágu fyrir, áður en við fluttum okkar till. þá. Till. okkar norðanmanna, um Jökulsá var samþ. óbreytt að efni og orðalagi sem ályktun Alþingis 22. marz 1981 með shlj. atkv. alþm. Á því gat varla leikið vafi, hvað í henni fólst, sem sagt yfirlýstur vilji Alþingis um það, að næsta verkefni á þessu sviði ætti að vera að fullgera Jökulsáráætlunina og kanna til hlítar möguleika á notkun hennar til einhvers konar vöruframleiðslu til útflutnings. Og þetta var á margan hátt eðlileg ákvörðun Alþingis á þeim tíma, því að rannsóknir á virkjunarmöguleikum í Jökulsá voru lengra komnar, en annars staðar og árangurinn sá, sem raforkumálastjóri lýsti í bréfi sínu til fjvn. vorið 1960. Það hlutu auðvitað frá almennu sjónarmiði að vera skynsamleg vinnubrögð að ljúka þessu verki, þar sem það þegar var svo vel á veg komið og hafði borið slíkan árangur, áður en lengra væri farið.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að jökulvötn eru mörg á þessu landi. Það getur vafizt fyrir sumum að muna nöfn þeirra allra, t.d. við próf og að finna þau á landabréfinu. En af því er skemmst að segja, að hæstv. ríkisstj. fann ekki Jökulsá á Fjöllum, a.m.k. ekki á því herrans ári 1960. Hún hóf að sönnu stórvirkjunarrannsóknir á jökulvatni, en ekki því jökulvatni, sem ályktun Alþingis fjallaði um, heldur öðru, — þar sem undirbúningsrannsókn þá var miklu skemmra á veg komið, — hér sunnan fjalla. Auðvitað var sú rannsókn mikilsverð. En eins og eðlilegt var, þótti mörgum Norðlendingum og Austfirðingum, sem áhuga höfðu á framkvæmd ályktunar Alþingis frá 22. marz 1961, þetta næsta einkennileg framkvæmd á þingvilja, að byrja á því að fara að rannsaka allt annað fallvatn, en ályktun Alþingis, sem samþ. hafði verið einróma, fjallaði um. Nú leið svo árið 1961. En þegar kom fram á vetur, tóku Norðlendingar og Austfirðingar að halda fundi um þetta mál og láta á sér skilja óánægju út af því, að þannig hefði verið á málum haldið. Fundur um þetta efni var haldinn í Húsavíkurkaupstað hinn 11. apríl 1962, þar sem mættir voru fulltrúar sveitarstjórna í báðum Þingeyjarsýslum og gerðu ályktun og áskoranir um þetta mál að farið yrði að ályktun Alþingis. Hinn 19. febr. 1962 var fundur í Bændafélagi Fljótsdalshéraðs haldinn á Egilsstaðakauptúni. Þessi fundur samþykkti m.a. svo hljóðandi ályktun:

„Fundurinn telur það afgerandi nauðsyn fyrir fólk í öllum byggðum Norður- og Austurlands, að Jökulsá á Fjöllum verði valin til næstu stórvirkjunar í landinu, ef til þess kemur. Telur fundurinn, að atvinna og stóriðnaður, sem fylgir slíkum framkvæmdum, mundi öðru fremur jafna aðstöðuna í byggðum landsins og mundi flestu öðru fremur vinna á móti þeirri þróun, sem alþjóð hefur viðurkennt að sé óheppileg, að meiri hluti þjóðarinnar safnist í eitt horn landsins, þar sem ein stórvirkjun enn á suðurlandi mundi örva þá þróun. Fyrir því skorar fundurinn á alla þm. kjördæmanna á Norður- og Austurlandi að vinna að því að skapa órjúfandi samstöðu fólksins á þessu svæði til að standa vörð um þetta réttlætis- og hagsmunamál. Í þessu sambandi vill fundurinn benda á sem heppilega leið til að ná samstöðu í málinu, að komið verði á fulltrúafundi sveitarfélaga á þessu svæði til þess að samræma sjónarmiðin og beinir því til þm., að þeir gangist fyrir því, að slíkur fundur verði haldinn.“

Ég get þessa fundar sérstaklega, sem haldinn var á Austurlandi og les ályktun hans vegna þess, að hún varð til þess að koma nýrri hreyfingu á þetta mál. Fundurinn beindi máli sínu til þm. Norðlendinga og Austfirðinga og til sveitarfélaganna og fór fram á, að þm. á Norður- og Austurlandi beittu sér fyrir fulltrúafundi um þetta má til þess að knýja það fram, að ályktun Alþingis frá 1961 yrði framkvæmd.

Þessi samþykkt mun hafa orðið til þess, að hinn 17. apríl 1962 var haldinn í Alþingishúsinu í Reykjavík fundur alþm. úr kjördæmum Norður- og Austurlands. En niðurstaða þessa fundar varð sú, að samþ. var með atkv. allra alþm., er fundinn sátu, að boða skyldi til fulltrúafundar í júní- eða júlímánuði 1962, þannig að til fundar yrðu kvaddir 3–5 fulltrúar frá hverju sýslu- og bæjarfélagi á Norður- og Austurlandi. Á þessum fundi var kosin undirbúningsnefnd og henni falið að ákveða nánar fundartíma, fundarstað og fleira og boða til fundarins. Ég vil geta þess, að það mun hafa gerzt um svipað leyti og þessi þingmannafundur var haldinn, — en þm. þeir, sem að honum stóðu og þar mættu, a.m.k. flestir, munu hafa verið um 20, — að þá eða litlu síðar rituðu þeir þm., sem staðið höfðu að þál. frá 1961, bréf til raforkumálaráðh., þar sem segir svo:

„Þar sem fyrir liggur yfirlýsing um vilja Alþingis um það málefni, sem hér er um að ræða, treystum vér því, að það verði látið sitja. í fyrirrúmi, þegar undirbúningsframkvæmdir í stórvirkjunarmálum verða skipulagðar af hálfu ríkisstj.

Þessi fundur, sem þm. Norðlendinga og Austfirðinga boðuðu til, var haldinn á Akureyri hinn 8. júlí 1962 og var mjög fjölmennur, sóttur víða að af alþm. Norðlendinga og Austfirðinga og fulltrúum sýslunefnda og bæjarstjórna í þessum landshlutum. Sá fundur samþykkti svo hljóðandi ályktun um þessi mál:

„Fundur fulltrúa frá sýslunefndum og bæjarstjórnum frá Norður- og Austurlandi, þar sem einnig eru mættir alþm. þessara landsfjórðunga, haldinn á Akureyri 8. júlí 1962, lýsir yfir því, að hann treystir því og leggur á það ríka áherzlu, að framkvæmdur verði á þessu ári yfirlýstur vilji Alþingis samkv. þál. 22. marz 1961, þar sem skorað var á ríkisstj. að láta hraða gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugun á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu á útflutningsvöru og úrræðum til fjáröflunar í því sambandi. Krefst fundurinn þess, að framkvæmd þingviljans, sem kemur fram í þál., verði látin sitja fyrir undirbúningsathugunum annars staðar af sama tagi, enda verði ekki tekin ákvörðun um staðsetningu stórvirkjunar í landinu, fyrr en þessar áætlanir eru fullgerðar.

Enn fremur leggur fundurinn ríka áherzlu á eftirfarandi: Að það er þjóðarnauðsyn að beizla sem fyrst fallvötn landsins til eflingar útflutningsframleiðslu þjóðarinnar. Að það er hagsmunamál allrar þjóðarinnar, að hugsanleg stóriðjuver leiði ekki til enn meira ósamræmis í atvinnu- og framleiðsluaðstöðu einstakra landshluta, heldur verði til þess að jafna aðstöðu þeirra. Jafnframt telur fundurinn nauðsynlegt, að fram fari ýtarleg og sérfræðileg athugun á því, hver áhrif slík stórvirkjun og stóriðja tengd henni mundi hafa á þróun þeirra atvinnuvega, sem fyrir eru í landinu. Að virkjun Jökulsár á Fjöllum og bygging iðjuvers til hagnýtingar þeirrar orku er í senn hin mikilvægasta ráðstöfun til atvinnu- og framleiðsluaukningar í landinu og áhrifamikið úrræði til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Að virkjun Jökulsár mundi jafnframt fullnægja raforkuþörf Norðurlands og Austurlands og vera ómetanleg lyftisöng fyrir ýmiss konar iðnað og framleiðslu, sem þarfnast raforku. Að bráðabirgðarannsóknir hafa ótvírætt bent til þess, að umrædd virkjun geti veitt raforku til stóriðju á samkeppnisfæru verði. Að jafnframt stóriðju kemur til greina útflutningur á raforku byggður á stórvirkjun Jökulsár á Fjöllum.

Fundurinn skorar á Alþingi og ríkisstj. að taka til greina í þessu stórmáli rök þau, er fram koma í ályktun þessari. Samhliða heitir fundurinn á fólk allt á Norður- og Austurlandi að mynda órjúfandi samstöðu í þessu máli og fylgja því fram til sigurs með fullri einurð og atorku. Fundurinn ákveður að fela bæjarstjóra Akureyrar og sýslumanni Þingeyjarsýslu að vinna með undirbúningsnefnd fundarins að framkvæmd þessarar ályktunar.“

Þetta var sú ályktun, sem Akureyrarfundurinn um Jökulsármálið samþ. hinn 8. júlí 1962, þar sem mættir voru fulltrúar bæjarstjórnanna og sýslunefndanna á Norður- og Austurlandi ásamt alþm. þessara landsfjórðunga.

Þá var það eftir öll þessi fundahöld eða líklega snemma sumars þetta ár, sem hæstv. ríkisstj. tókst að finna Jökulsá á Fjöllum, ef svo mætti segja og þá hófust þar einnig rannsóknir. En í rannsóknirnar hér syðra hefur verið varið miklu meira fé.

Þetta ár 1962, snemma á því ári, mun það líklega einnig hafa verið, sem hæstv. ríkisstj. skipaði svokallaða stóriðjunefnd, en þó má vera, að það hafi verið eitthvað fyrr, því að af þeirri n. fóru litlar sögur. Það var, eins og hér var sagt í gær, ekkert tilkynnt um skipun hennar, svo að ég muni, þegar hún var skipuð af ríkisstj. En það varð vart við þessa n. á Akureyrarfundinum í júlí, því að formaður hennar mætti á þeim fundi ásamt raforkumálastjóra og þeir fluttu þar allýtarleg erindi, sem fjölluðu um rannsóknir þær, sem farið höfðu fram við Jökulsá fyrir löngu, og hinar nýju rannsóknir í Þjórsá. Og á þessum fundi voru af hálfu þessara aðila birtar ýmsar tölur, samanburðartölur um kostnað við byggingu raforkuvera og raforkuframleiðslu, sem fundarmönnum skildist að ættu að sýna, að það væri eitthvað ódýrara pr. kwst. að virkja við Þjórsá en við Jökulsá. En öllum var það kunnugt þá, að við Jökulsá hafði engin ný rannsókn farið fram á því stigi málsins og að rannsókninni við Þjórsá mundi hvergi nærri lokið, enda hefur það sýnt sig, að sú rannsókn hefur staðið yfir síðan til þessa dags og stendur sennilega yfir enn. Menn þóttust á fundinum finna það á því, sem þessir ágætu starfsmenn ríkisstj. sögðu, að hugur stjórnarvalda stæði til Þjórsárvirkjunar, en ekki til Jökulsárvirkjunar, en að öðru leyti skal það, sem fram kom á þeim fundi, ekki rætt hér.

Svo gerðist það síðar á sama ári á Alþingi, að hv. 1. þm. Norðurl. e. og tveir aðrir flm. till. frá 1961 lögðu fram fyrirspurn til ríkisstj. um það, hvað þessu máli liði. Sú fsp. var í beinu framhaldi af því, sem samþ. hafði verið á Akureyrarfundinum. Það var verið að inna eftir því, hverjar undirtektir hefðu orðið og væru undir þann fundarvilja, sem þar kom fram. Hæstv. raforkumálaráðh. svaraði þessari fsp. 21. nóv. 1982. Mikið af því svari hæstv. ráðh. fjallaði almennt um virkjunarrannsóknir, sem gerðar hefðu verið hér og þar og einkum við Þjórsá, en nokkuð um stóriðjumöguleika og staðsetningu stóriðjufyrirtækis. Hann upplýsti það þá, hæstv. ráðh. að búið væri að verja þá, haustið 1962, til hinna nýju rannsókna í Þjórsá við Búrfell nærri 18 millj. kr., en við Dettifoss 4 millj. þá um sumarið. En varðandi Jökulsárvirkjun fórust hæstv. ráðh. orð m.a. á þessa leið:

„Það er langt síðan Jökulsá á Fjöllum varð fyrir augum manna sem heppilegt vatnsfall til stórvirkjana á íslenzkan mælikvarða. Þetta er mikið vatnsfall og vatnsrennslið er jafnara allt árið um kring, en í flestum öðrum jökulám eða dragám landsins. En augljóslega er það þó fallið kringum Dettifoss, sem bezt liggur við til virkjunar. Allra fyrstu mælingar fyrir virkjun Dettifoss voru framkvæmdar þegar á árunum 1915–20. Kringum 1955 gerði Sigurður Thoroddsen á vegum raforkumálaskrifstofunnar áætlun um fullvirkjun Jökulsár og taldi þá, að aðalfalli árinnar yrði að skipta í tvennt: fall frá Selfossbrún niður fyrir Hafragilsfoss annars vegar og hins vegar það, sem þá var eftir, allt niður fyrir eða niður að Löndum í Axarfirði. Smávirkjun væri þó auk þess hægt að gera upp við Möðrudal. Sigurður miðaði áætlun sína við mjög háa stíflu og á þann hátt fulla miðlun og taldi, að virkja mætti í ánni ½ millj. kw. og vinna í þeim stöðvum um 4 millj. kwst. á ári, meðalári. Árið 1957 var svo að tilhlutun þáv. raforkumrh. leitað til ameríska firmans Harza Engineering Co. til að fá þá til að gera nánari áætlun um virkjun Jökulsár í samvinnu við íslenzka verkfræðinga með það fyrir augum að ákveða með meiri nákvæmni, en enn hafði fengist, á hvaða verði unnt væri að bjóða stóriðju raforku úr Jökulsárvirkjun eða úr svipuðum stórvirkjunum hérlendis. Til að fá fram örugga áætlun á skömmum tíma var það ráð tekið að áætla í fyrstu virkjunartilhögun, sem ekki byggist á háum stíflum og mikilli miðlun, heldur væri miðað við minnsta rennsli árinnar eða lítið eitt þar fram yfir. Þá væri hægt að komast af með lægri og mun ódýrari stíflur og í bili hægt að komast hjá tímafrekum rannsóknum, sem gera þyrfti, ef áætlun fylgdu stórar vatnsuppistöður, sem breiddu sig yfir mikið landflæmi. Með því að hafa samvinnu við þetta heimsþekkta verkfræðifirma vannst það, að erlendir bankar, svo og erlend iðjufyrirtæki, mundu treysta tölum áætlunar, en hætt við, að þessir aðilar mundu ekki vilja láta sér nægja áætlanir gerðar af íslenzkum verkfræðingum einum. Niðurstöður þessara áætlana voru þær, að á þennan hátt mátti fá úr Dettifossfallinu rúmlega 100 þús. kw. og álíka mikið í neðri hluta fallsins. Virkjunarkostnaður við Dettifoss var mjög lágur og orka þeirrar virkjunar því mjög ódýr, en virkjun neðri hluta fallsins, þar sem vega-lengd vatnsvega var mörgum sinnum meiri en upp frá, var miklu dýrari og orkan til muna dýrari.“

Þetta var það, sem að hæstv. raforkumrh. upplýsti þá sem svar við þessari fsp. varðandi Jökulsá á Fjöllum og var það í raun og veru lítið fram yfir það, sem kunnugt var fyrir af hinum fyrri rannsóknum þar.

Á síðasta þingi gaf hæstv, iðnmrh. skýrslu um þessi mál að gefnu tilefni, fsp., sem fram var lögð, mig minnir af hv. 3. þm. Reykv. Þar kom það fram í skýrslu hæstv. iðnmrh., að uppi væri hugmynd um að virkja Þjórsá og leggja línu norður yfir fjöll til alúminíumverksmiðju við Eyjafjörð. Engin ákvörðun væri þó um það tekin, sagði ráðh. og yfirleitt engin ákvörðun um það, hvort í stórvirkjun yrði ráðizt og þá hvar henni yrði valinn staður. En það var einmitt í tilefni af þessari skýrslu hæstv. iðnmrh., sem sú till., sem hér liggur fyrir, var í öndverðu flutt, sú sem nú hefur verið endurflutt og liggur fyrir um kosningu 7 manna n. frá hinu háa Alþingi til að kynna sér niðurstöður þeirra rannsókna á stórvirkjunar möguleikum hér á landi, sem fram hafa farið á vegum raforkumálaskrifstofunnar, svo og athugana stóriðjunefndar á möguleikum til stóriðju.

Eftir að umr. fóru fram hér á Alþingi um þessa skýrslu, mun það hafa gerzt, líklega í vor, að hæstv. ríkisstj. skipaði tvær nýjar n. enn til viðbótar stóriðjunefnd. Um þetta hefur ekki verið tilkynnt, svo að ég viti, fremur en um stóriðjunefndina á sínum tíma. Allar þessar n. hæstv. ríkisstj. eru það, sem kalla mætti huldunefndir, þ.e. menn vita, að þær eru til, en það hefur ekkert verið frá þeim sagt. En önnur n. er, eftir því sem frétzt hefur, 4 manna n. og er kölluð tækninefnd, — ég skal taka það fram, að ég hef ekki séð nein gögn um þetta opinberlega birt, en ég hef spurnir af því, að skipun n. muni vera á þessa leið, sem ég nú nefni, — önnur n. mun vera þessi 4 manna tækninefnd og það hefur frétzt, að henni hafi verið falið að gera till. um, á hvern hátt haganlegast yrði leyst úr raforkuþörf Norðurlands og þá líklega Austurlands líka, ef Þjórsá yrði virkjuð við Búrfell og alúminíumverksmiðja byggð hér í nánd við Reykjavík eða á því svæði, sem nú er kallað Stór-Reykjavík. Hin n. er sögð vera 10 eða 11 manna n. Ég hef ekki fengið glöggar fréttir, hvort heldur er, en hún er allfjölmenn, og það hef ég heyrt, að þeirri n. sé ætlað að gera till. um einhvers konar samvinnu milli raforkufyrirtækja, sem nú eru starfandi, Sogsvirkjunar og Laxárvirkjunar, og ríkisins, — samvinnu þessara aðila í sambandi við hugsanlega stórvirkjun. Enn þá er þó allt nokkuð á huldu um hug stjórnarvalda í þessu máli. Síðast nú í fyrradag sagði hæstv. iðnmrh., sem ræddi þá till., sem hér liggur fyrir, að athuganir væru ekki taldar vera komnar það langt, að ástæða sé til að gefa upplýsingar, en hann sagði, að það mundi ekki dragast lengi að gefa slíka skýrslu. Það ríkir sem sé mikil leynd á því, sem gert er í þessum málum og meðferð þeirra er sú, að hún er öll á vegum hæstv. ríkisstj. og að yfir henni hvílir meiri leynd, en æskilegt væri.

Þetta, sem ég nú hef sagt, er reyndar orðið nokkuð langt. En ég tel gagnlegt að rifja upp ýmis gögn í þessu máli, sem fram hafa komið nú síðustu árin. Þetta, sem ég hef sagt, er upprifjun til athugunar og minnis. En áður en ég lýk máli mínu, vil ég fara nokkrum orðum um þessi mál almennt eða fáein atriði varðandi þessi mál, eins og þau horfa við frá mínu sjónarmiði persónulega.

Mér finnst þetta stórvirkjunarmál ekki vera komið á ákvörðunarstig. Ég hef litið svo á, að stórvirkjunar- og stóriðjumálunum annars vegar og hins vegar aðkallandi framkvæmdum til að bæta úr rafmagnsskorti á Suðvesturlandi hafi verið óþarflega mikið blandað saman undanfarin ár. Mér þykir það ekki ólíklegt, að nauðsynlegt geti reynzt að bæta með sérstökum og minni vatnsvirkjunarframkvæmdum bæði á Norður- og Suðvesturlandi úr rafmagnsskortinum, áður en ákvörðun verður tekin um stórvirkjun. Ég segi, að mér þykir það ekki ólíklegt, að það geti reynzt svo. Ef hægt er að sameina þetta hvort tveggja, svo að viðunandi sé, þá er það vel. Og hugmyndin um orkulínu suður eða norður yfir fjöll er vissulega athyglisverð, ef hún er í alvöru fram sett. En mér finnst það undarlegt, sem nú liggur í loftinu, en ekkert hefur verið tilkynnt um, að nú sé það ef til vill efst á baugi að virkja Þjórsá til almennra nota fyrir Suðvesturland og til að reisa alúminíumverksmiðju hér í nágrenni Reykjavíkur, en koma upp gastúrbínustöðvum fyrir Norðlendinga og Austfirðinga.

Við, sem stóðum að till. um virkjun Jökulsár á Fjöllum og höfum haft vilja til að ýta því máli fram eða einhvers konar stórvirkjun á Norðurlandi af heilum hug, höfum ekki gert þá kröfu, að sú framkvæmd yrði hafin nú þegar eða á tilteknum tíma. Við höfum hins vegar lagt áherzlu á, alveg eins og bændafundurinn á Egilsstöðum gerði á sínum tíma og ýmsir fundir á Norðurlandi, að hún yrði fyrsta stórvirkjunin, sem ráðizt yrði í með orkufrekan iðnað fyrir augum, ef að því yrði horfið. Ég lít svo á, að nauðsynleg rannsókn því til undirbúnings hafi enn ekki farið fram. Í því sambandi eigi að athuga til hlítar þær tegundir iðnrekstrar, sem til greina koma og ég held, að notkun raforku til hitunar á stóriðjuveri eigi einnig að koma til athugunar. Viðhlítandi undirbúningsrannsókn vegna staðsetningar hugsanlegs iðjuvers eða iðjuvera hefur ekki heldur farið fram, svo að mér sé kunnugt, t.d. athugun hafnarskilyrða á austanverðu Norðurlandi. Ég minnist þess, að þegar hæstv. raforkumrh. svaraði fsp. 1962, í nóv. þá, sagði hann um þetta atriði, þ.e.a.s. um athugun hafnarskilyrða fyrir verksmiðju, þá sagði hann m.a. þetta um Norðurland:

„Norðanlands er í rauninni meira vafamál, hvar staðsetja ætti alúminíumverksmiðju og hefur í því sambandi augum verið rennt yfir land- og sjókort allt frá Eyjafirði og austur á Seyðisfjörð og dregnar fram þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru og hægt var að afla á þessum tíma um hafnarskilyrði á þessari strandlengju landsins.“

Þessi rannsókn á hafnarskilyrðum á Norðurlandi fyrir slíkt fyrirtæki var þá ákaflega lausleg, eins og þessi ummæli ráðh. benda til, og mér er nær að halda, að hún sé það enn, það hefur víst lítið verið gert í því efni síðar.

Ég vil minnast jafnframt á það, sem síðar er fram komið í þessu máli, þar sem eru virkjunarmöguleikarnir í Laxá í Þingeyjarsýslu, að viðbættum þverám Skjálfandafljóts, sem ráðgert hefur verið að veita þangað vestur, en um þessa möguleika komu fram ýtarlegar skýrslur og verkfræðilegar einmitt nú á þessu ári. Ég vil segja það, að ég mundi telja, að það væri full ástæða til þess að athuga það mál gaumgæfilega, áður en ákvarðanir yrðu teknar um stórvirkjun. Til þess þarf auðvitað nokkurn tíma. Það getur að vísu verið, að eitthvað meira hafi verið rannsakað á þessu sviði, en almennt er kunnugt, þótt skýrsla ráðh. hér á Alþingi í fyrradag bendi ekki til þess sérstaklega. Og einmitt í því sambandi er ástæða til að vekja enn einu sinni athygli á því, hve óheppileg sú leynd er, sem hvílt hefur yfir meðferð þessa máls í nefndum hæstv. ríkisstj. Sú leynd er, held ég, engum að gagni. Margs konar lausafregnir berast út um eitt og annað, sem fram hefur komið í sambandi við þessar rannsóknir sérfræðinga og nefnda, sem hvorki er staðfest né borið til baka, t.d., svo að maður nefni dæmi, um virkjunarskilyrðin við Þjórsá og Búrfell, hvernig þau séu og örðugleika, sem komið hafi fram í sambandi við athugun þess máls, að útlendir aðilar, sem ríkisstj. hefur leitað eftir aðstoð hjá, séu ekki sammála um það, hvernig virkjunarskilyrði séu eða hvernig bezt sé að leysa virkjun Þjórsár o.s.frv. Ég gæti útskýrt þetta nokkru nánar, sem ég hér er að minnast á, en tel ekki ástæðu til þess að gera það, því að mér þykir líklegt, að hæstv. ríkisstj. fallist á, að kosin verði sú nefnd, sem till. fer fram á og þá koma slíkar upplýsingar að sjálfsögðu fram í n. En hitt er annað mál, að ef sú nefnd verður ekki skipuð eða kosin, þá verða menn að sjálfsögðu hér á hinu háa Alþingi að reyna eftir þinglegum leiðum að afla sér upplýsinga um atriði í sambandi við þessi mál, sem eðlilegt væri að fá á annan hátt á vettvangi nefndar, þar sem alþm. hafa aðstöðu til að fylgjast með.

Ég vil enn einu sinni taka undir það, sem ýmsir aðrir hafa sagt, að ef ráðizt verður í stórvirkjun hér á landi með iðjuver eða slíkt fyrir augum, ætti byggðajafnvægið milli landshlutanna að ráða mestu um staðsetningu slíkra framkvæmda. Ég tel, að það væri stórslys í skipulagamálum landsbyggðar að láta þetta sjónarmið gleymast. Það er hárrétt, sem hv. 1. flm. þessarar till. sagði í fyrradag, þegar hann spurði eitthvað á þessa leið: Hvenær á að kryfja jafnvægismálin til mergjar, af ekki í sambandi víð stórvirkjun og stórfellda iðnaðarbyltingu? Undir þau orð vil ég taka. Og ég vil bæta við: Afstaðan til staðsetningar stóriðjufyrirtækis, ef til kemur, mun sýna, hver alvara mönnum er, þegar þeir tala um nauðsyn jafnvægis í byggð landsins, hve djúpt sú alvara stendur, þegar á reynir. Það mun sýna sig, að slíkt atvinnufyrirtæki hefur aðdráttarafl, jafnvel meira en mannfjöldinn, sem við það mundi vinna, bendir til, að það verður m.a. miðstöð verkfróðra og tæknimenntaðra manna, þar sem það verður staðsett.

Í sambandi við stofnsetningu orkufreks iðnaðar eða stóriðnaðar hér á landi er nú margt spjallað hér innan þings og utan um hættu af útlendu fjármagni, að fremur beri að efla hina fornu undirstöðuatvinnuvegi, að iðjuver mundi veita of mörgum — eða of fáum — mönnum atvinnu o.s.frv. Ég held, að málið liggi ekki þannig fyrir, að ástæða sé til að spyrja t.d., hvort við eigum heldur að efla sjávarútveg eða stóriðnað eða hvort heldur landbúnað eða stóriðnað t.d. Það er nefnilega ekki svo nú, að svo að segja öll þjóðin stundi þessa tvo gömlu undirstöðuatvinnuveg. Landbúnað, fiskveiðar og fiskverkun stunda nú um þessar mundir samtals, allar þessar þrjár atvinnugreinar, að ég ætla, rúmlega 30% af þjóðinni. Síðustu tölur um landbúnaðinn, sem eru líklega 2–3 ára gamlar, sögðu, að um 17% af þjóðinni lifði á landbúnaði, það mun vera færra nú. Og þeir, sem vinna við fiskveiðar og fiskverkun, virðast ekki vera mjög miklu fleiri samtals en þeir, sem að landbúnaði vinna. Nálægt 70% af þjóðinni vinna þá að einhverju öðru, en þessum undirstöðuatvinnuvegum okkar. Hér hefur sem sé orðið ákaflega mikil breyting á frá því, sem var fyrir nokkrum áratugum. Fólkið hefur, ég verð að segja: því miður, horfið í stríðum straumum frá undirstöðuatvinnuvegunum, að vísu mjög margt af því til annarra þarflegra atvinnugreina, en þó misjafnlega þarflegra.

Við eigum auðvitað að efla sjávarútveginn eins og unnt er og landbúnaðinn líka, annað kemur ekki til mála að mínum dómi og sjálfsagt margra. En þjóðinni fjölgar, að því er virðist, ef fjölgunin verður svipuð framvegis og hún hefur verið undanfarið, um 100 þús. manns á næstu 23 árum, 54% .Við gerum víst ekki ráð fyrir, að þetta fólk fari allt í búskap og á fiskiskipin eða í frystihúsin. Onei, það þarf víst fleira að koma til.

Ég hef ekki, — það er annað mál. — en ég hef ekki nein gögn fyrir því, sem ég tek gild, að það sé fullreynt, að ekki sé hægt að koma hér upp stóriðjuveri af einhverju tagi nema með beinni útlendri fjárfestingu. Ef slíkt liggur fyrir, býst ég við, að íslenzkir alþm. verði að vera menn til þess að meta, hvort það, sem koma skal, sé þess virði og á þann hátt gert, að framtíð Íslands og sjálfstæði sé ávinningur að því, að áhættan sé tekin. Það er nú víst svo, að án nokkurrar áhættu er ekki hægt að lifa þessu lífi, hvorki fyrir menn né þjóðir. En áhættan verður helzt að vera þess virði, að hún sé tekin.

Ég verð að segja það eins og það er, að ég hef alltaf tekið það trúanlegt, að orkan í fallvötnunum og jarðhitanum sé mikils virði fyrir Íslendinga. En því aðeina getur slíkt orðið mikils virði, að notin af því séu mikil eða verði einhvern tíma mikil. Nú koma að vísu fram ýmsar nýjar kenningar um þessa hluti, t.d. að landið, er sagt, ef ég man tölurnar rétt, það getur verið, að það hafi ruglazt eitthvað hjá mér, en ef ég man tölurnar rétt, þá er sagt, að Ísland eigi 35 milljarða kwst. í auðnýtanlegri vatnsorku og noti nú um þessar mundir ½ milljarð. Ég vil ekki alveg fullyrða, að ég muni þessar tölur rétt, en þær gefa samt nokkra hugmynd um það raunverulega, sem haldið hefur verið fram af verkfræðingum og orkufróðum mönnum um þetta. Og nú heyrir maður stundum, að fólk óttist um það, að við kunnum að verða uppiskroppa þá og þegar með þessa orku. Einnig kemur fram sú hugmynd, að orkulindir séu ekki lengur undirstaða framfara og muni kannske aldrei verða. Ekki verður því þó neitað, að öll iðnaðarstórveldi 19. aldar og framan af þessari öld áttu kol í jörðu og olíu og svo kom vatnsorkan. Það er hægt að flytja inn olíu. Það er hægt að framleiða raforku í dísilstöðvum, stórum og litlum díselstöðvum, það er hægt að flytja inn alla skapaða hluti, en það þarf að borga fyrir það allt. Ég vil að svo stöddu halda mig við það, að orkan í vötnum og jarðhitanum sé verðmæt eins og önnur náttúrugæði hérlend og ég held, að við eigum að stefna að því að nota hana og þá fyrst og fremst að nota hana til þess að hjálpa okkur, þessari fámennu þjóð, til þess að byggja okkar stóra land. Skal ég svo ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni.