06.11.1964
Sameinað þing: 9. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (2838)

13. mál, stóriðjumál

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Austf. fyrir eina kennslustundina enn í því, hvernig ríkisstj, eigi að hegða sér og engu líkara en að hann haldi bara, að hann sé ráðh. enn. En það er hann nú því miður ekki og þeir, sem á hverjum tíma fara með ráðherraembættin, verða sjálfir að meta það og gera það upp við sig, hvað þeir telja hentugust vinnubrögð og ekki sízt í stórmálunum. Ég stend upp nú aðeins til þess að segja það, að ég sagði ekkert í minni ræðu hér fyrir 2 dögum annað en það, sem ég sagði á þinginu á s.l. vetri, er ég svaraði fsp. um þetta mál og ég hygg, að miklu fremur hefði mátt ásaka mig þá fyrir að tala of mikið um það, sem mig í raun og veru skorti nauðsynlegar undirstöður fyrir af fenginni rannsókn og athugun. En í því fólst einmitt vilji minn til þess að leyna alls ekki neinu, sem mér var kunnugt um. En samfara þessari skoðun minni var svo hitt, að ég áleit, að þau mál, sem um var rætt, þyrftu að komast á nánara stig, lengra stig undirbúningsathugana og rannsókna, áður en það gæti gert þeim gott, að skipuð væri nefnd um þau, eins og þá var lagt til og nú eða gefnar væru frekari skýrslur, en búið var að gera.

Hér hefur hv. 1. þm. Austf. búið til sögu um málatilbúnað ríkisstj. um, hvernig hún hafi unnið að þessum málum, búið til sögu og endurtekið sögu, sem hann er að segja, og segir svo: Þetta eru ekki góðar vinnuaðferðir. — En vinnuaðferðirnar eru ekki svona og það mun sýna sig í þessu máli, að það er rétt skoðun hjá ríkisstj. að gera sitt ýtrasta til þess, að svona mál séu raunverulega rannsökuð og undirbúin nægjanlega, til þess að menn geti tekið afstöðu til þeirra bæði hér á þingi og í nefndum. Það er farsælla en hitt, að flumbrast með svona mál og ætlast til þess, að menn taki afstöðu til þess, áður en þær undirbúnings- og frumrannsóknir liggja fyrir, sem algerlega eru nauðsynlegar. Það er rangt, að það hafi nokkurn tíma vakað fyrir ríkisstj. — og hið gagnstæða sagði ég á þinginu s.l. og það gagnstæða sagði ég í fyrradag, — að stilla þm. frammi fyrir þeirri afstöðu að segja já eða nei, við gerðum hlut. Þetta er alrangt og þetta er fullkomin mistúlkun á því, sem ég hef haldið fram í þessu máli og sagt af heilum og einlægum hug í málinu. Og það hefur verið heill og einlægur hugur minn, að um þetta mál gæti skapazt sem víðtækust samstaða og ég hef lagt mig eins mikið fram og ég hef getað til þess, að þm. þurfi einmitt ekki að kvarta undan því, að þær rannsóknir og undirbúningur þessara mála færu fram, sem leiða má af, að ríkisstj. væri beinlínis skylt að láta fara fram samkv. margítrekuðum ályktunum á þingi og á bændafundum og á öðrum vettvangi, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir áðan. Menn ætlast væntanlega ekki til annars en stjórnin taki alvarlega, þegar slíkar samþykktir eru gerðar á þingmannafundum víðs vegar um landið, þál. samþ. hér á Alþingi og þá felst það í því að reyna að rannsaka málin og undirbyggja þau með rannsóknum þannig, að þm. geti á eðlilegan hátt tekið afstöðu til málsins.

Það hefur oft og iðulega verið rætt um bæði stóriðju á sviði alúminíum- og köfnunarefnisverksmiðju og margt fleira, en ég hygg, að við séum að komast að lokastigi þess máls, að það sé með réttu hægt að ætlast til þess, að þm. taki afstöðu með eða móti virkjunum á vissan hátt og stóriðju í sambandi við þær, vegna þess að það verði lagt upp í hendurnar á þm. það fullkomnar og ýtarlegar rannsóknir og athuganir, sem ég er ekki í nokkrum vafa um, að þeir munu þakka fyrir, þegar þær liggja fyrir. En þær hafa ekki að mínum dómi — og við erum sammála um það í ríkisstj., — legið fyrir í dag. En ég sagði í fyrradag, að ég teldi, að það væri mjög skammt í land, að hægt væri að gefa hv. Alþingi fyllstu upplýsingar um þessi mál.

Að lokum vil ég aðeins endurtaka það, að ég tel, að það hafi verið alger mistúlkun og rangtúlkun á mínum ummælum bæði fyrr og síðar, að við höfum haft nokkra löngun til þess að leyna þingið nokkru eða nokkuð hafi komið fram í mínum yfirlýsingum um það, að þm. yrðu settir í þá aðstöðu að þurfa að taka afstöðu með því að segja já eða nei við meira og minna ráðnum og fyrir fram ákveðnum hlut af hálfu ríkisstj. Það er rangt að stilla málinu í þetta ljós og það gefur manni fyllstu ástæðu til þess að ætla, að flutningur þessarar till. sé eitthvað annað en jafneinlægur og ég vildi, að hann væri, heldur sé reynt að láta líta svo út, að það sé verið að klípa út úr hinni leyndardómsfullu ríkisstj. einhverjar upplýsingar, sem öðruvísi verði ekki gert, en með þessari skeleggu frammistöðu Framsóknarþm. hér á þingi. Það er alveg ástæðulaust að hafa þennan hátt við. Ef við allir viljum vera einlægir, þá er ég sannfærður um það, að þm. hafa ekki undan neinu að kvarta og munu ekki þurfa að hafa undan neinu að kvarta í þessu máli, þegar að því kemur, að menn eiga að taka afstöðu til jafn viðurhlutamikilla mála. Þetta hef ég sagt bæði fyrr og nú og þetta er efni málsins og þess vegna sagði ég, að till. eins og þessi er algerlega óþörf, ástæðulaust að taka afstöðu til þess nú, eins og ég orðaði það, hvort það eigi að setja í gang svona nefnd. Ég held meira að segja, því miður, að meðan málin eru ekki meira upplýst, hvorki fyrir okkur í ríkisstj. en þau hafa verið og þar af leiðandi var ekki hægt að upplýsa þau meira fyrir þm., þá hafi margt verið sagt hérna og eytt töluverðum tíma í það, sem var eiginlega fullkominn óþarfi. En menn þurfa engu að kvíða, því að ríkisstj. mun ekki dylja þingið neitt í þessum málum og það verður staðið við fyrri fyrirheit um það.