06.11.1964
Sameinað þing: 9. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (2839)

13. mál, stóriðjumál

Arnór Sigurjónsson:

Herra forseti. Ef ég verð ekki þinglegur í því, sem ég segi um þetta mál. þá er það fyrir það eitt, að ég kann ekki þingsköp þau, sem hér gilda. En ég gekk hér upp í stólinn til þess að varpa fram till. eða við getum kallað hana uppástungu, ekki til þál., ekki til afgreiðslu hér í sameinuðu þingi, heldur til afgreiðslu utan þingsins á milli stjórnarandstöðunnar og stjórnarflokkanna. Það er till. um hrossakaup, sem ég held, að báðir mundu græða dálítið á. Og hrossakaupin eru þessi: að stjórnarliðið samþykki þessa till., sem hefur komið frá Framsfl., en í staðinn láti Framsfl. þessa till., sem hann fékk hér samþykkta í gær, liggja dauða í gröf sinni, þar sem hún er nú komin, í nefnd. Þetta er vegna þess, að ég lít þannig á, að það sé blátt áfram vansi fyrir stjórnina og stjórnarliðið að neita um samþykkt þessarar till. Við verðum að gæta þess, að stjórnin, sem nú situr, situr a.m.k. að nafni til í umboði alls þingsins. Við getum að vísu sagt, að hún hafi ekki fengið beina kosningu aðra, en stjórnarliðsins, en það hefur þó verið viðurkennt hingað til, að hún væri sú rétta ríkisstj. og það er ekki hægt frá mínu sjónarmiði séð fyrir stjórnina að neita sínum umbjóðendum að fylgjast með þeim málum, sem eru virkileg stórmál og það er viðurkennt, að þetta mál, sem hér um ræðir, er stórmál.

Ég veit það vel, að ráðh. sagði hér áðan, ég heyrði það alveg skýrt fram tekið, — að hann ætlaði ekki að leyna stjórnarandstöðuna neinu, þegar þær upplýsingar, sem stjórnin hefur undirbúið og óskað eftir, væru fram komnar. En hún neitar um hitt, að stjórnarandstaðan fái nokkra þátttöku í undirbúningi málsins og þetta álít ég, að stjórnarliðinu og stjórninni sé ekki sæmilegt, þar sem virkilegt þingræði gildir. Það er ekki af illvilja við stjórnina og ekki stjórnarliðið heldur, að ég óska þess, að utan þingfundar verði blátt áfram samið um það, að þessi till. verði samþ. Ég lít aftur á hitt málið, sem rætt var í gær, að það sé í raun og veru ekkert annað en svo lélegt kosningaflesk, að það sé Framsfl. til háborinnar skammar að hafa eytt löngum þingtíma í að ræða það. Það var hvorki hugsað sem réttlætismál né nokkur sú lausn, sem nokkur gat tekið alvarlega. Og ég ætla líka að beina því til stjórnarinnar og fylgismanna stjórnarinnar að gera það fyrir Framsfl., ef hann getur ekki gert það sjálfur, að láta þetta dautt liggja.

Eins og ég hef þegar sagt, er þetta, sem ég segi núna, kannske ekki þinglegt, af því að það er uppástunga eða till. um það, að þm. geri þetta utan þingfundar, en ég flyt þetta a.m.k. að vissu leyti í fullri alvöru, því að ég álít, að það sé nauðsynlegt, að um þetta séu gerð hrossakaup.