28.10.1964
Sameinað þing: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (2849)

14. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar till. um það mál, sem hér er nú til umr., hafa verið ræddar hér stundum áður á Alþingi, þ.e.a.s. um að taka upp þann hátt að veita innlenda iðnaðinum sams konar rétt til afurðalána frá Seðlabankanum og vissar greinar sjávarútvegsins og landbúnaðarins hafa notið að undanförnu, þá hef ég stundum gert hér aths. við þann málflutning, sem hafður hefur verið uppi í sambandi við flutning á þessum till. og mér þykir ástæða til þess að gera hliðstæða aths. hér enn einu sinni.

Þeir, sem standa að flutningi þeirrar till., sem hér liggur fyrir, virðast leggja á það höfuðáherzlu í málflutningi sínum, að íslenzkur iðnaður sé sérstök hornreka í sambandi við lánveitingar og hann fái ekki að njóta sömu réttinda og sjávarútvegur og landbúnaður. Og þessu halda þessir menn fram hér ár eftir ár, þó að þeir hafi verið leiðréttir í þessum efnum og ég fullyrði nú orðið, að þeir halda þessu fram gegn betri vitund. Það hefur aldrei verið um það að ræða, t.d. gagnvart sjávarútveginum, að sjávarútvegurinn sem heild geti fengið endurkaupalán, þ.e.a.s. þessi lán, með sérstökum vöxtum, sem Seðlabankinn leysir út, því að stórar greinar sjávarútvegsins geta ekki fengið þessi lán. Þessi lán eru miðuð við alveg tiltekna framleiðslu. Á löngu tímabili var það svo, að okkar togaraútgerð var um það bil helmingurinn af allri okkar útgerð. Þá var ekki um nein afurðalán út á allan togarareksturinn að ræða og er ekki enn. Þó að togararnir framleiddu fyrir mörg hundruð millj. kr., var ekki um það að ræða samkv. þeim reglum, sem í gildi voru, að hægt væri að fá þessi svonefndu afurðalán eða Seðlabankinn veitti lán til þeirrar sjávarútvegsframleiðslu. Um það er ekki að ræða. Þannig mætti vitanlega taka fleiri greinar hjá sjávarútveginum, þar sem þessi lán koma ekki til greina. En það, sem um hefur hins vegar verið að ræða, er það, að þær reglur hafa gilt, að Seðlabankinn hefur skuldbundið sig til þess að lána tiltekinn hluta út á þær afurðir til útflutnings, sem eru framleiddar og er orðið öruggt um sölu á. Seðlabankinn er því að veita tiltekið lán út á raunveruleg gjaldeyrisverðmæti, sem bíða þess að breytast í harðan pening. Það er það, sem um er að ræða.

Þetta kemur t.d. alveg glögglega fram hjá okkur á hverju ári svo að segja í sambandi við síldarsöltun. Á þeirri stundu, sem tilkynning kemur frá síldarútvegsnefnd um það, að nú sé búið að salta upp í gerða samninga, sú síld sem eftir tiltekinn dag er látin í tunnurnar, sé ekki fyrir fram seld og það sé í óvissu um það, hvernig fari um sölu á þessari síld, þá tilkynnir Seðlabankinn: Við lánum ekki út á þessa síld, þótt hún sé framleidd. Um endurkaupalán er þar ekki að ræða. Það er því alveg augljóst mál. að gagnvart sjávar útveginum hefur verið um það að ræða að veita þessi afurðalán, þessi endurkaupalán, með nokkuð sérstökum kjörum og með lægri vöxtum út á framleidda útflutningsvöru. Og iðnaðurinn hefur notið hins sama. Það er þá a.m.k. nýlega, ef breyting hefur orðið á í þeim efnum. Ég veit, að þann tíma, sem ég var í ríkisstj., giltu nákvæmlega sömu reglurnar og endurkaupalán voru veitt úr Seðlabankanum með sams konar vaxtakjörum út á þær iðnaðarvörur, sem framleiddar voru til útflutnings og vitað var um söluverð á og ég fyrir mitt leyti segi það enn, að það væri hreint óvit að setja upp slíkar reglur að neita íslenzkum iðnaði um sams konar fyrirgreiðslulán frá Seðlabankanum í sambandi við vöru, sem iðnaðurinn framleiðir til sölu á erlendum markaði.

Þeir, sem eru í raun og veru að kvarta undan því, að íslenzkur iðnaður eigi í lánsfjárerfiðleikum, eiga því að reka mál sitt á allt öðrum grundvelli, en þeir gera. Þeir eru raunverulega með þessum málflutningi — og það er mjög farið að bera á því hér í framkvæmd líka, — þeir eru að grafa undan þeim sjálfsagða stuðningi, sem þarna á sér stað til hinna atvinnuveganna, sem fullkomin rök eru fyrir að veita. Það hefur einmitt borið á því í umr. hér á Alþingi nú síðustu árin, að það er farið af vissum aðilum að reyna að halda því fram, að Seðlabankinn geti ekki með góðu móti frá peningalegu sjónarmiði séð, veitt þessi afurðalán út á framleiddar útflutningsvörur. Einmitt út frá þessari villukenningu, að það sé verið að mismuna eitthvað nú milli sjávarútvegs og iðnaðar í þessum efnum. En það er rangt. Ég skil það mætavel að íslenzkur iðnaður á nú við lánsfjárskort að stríða, það er rétt. Í mörgum greinum skortir iðnaðinn lánsfé og það er mál út af fyrir sig, hvernig á að leysa það. En það er heldur ekkert vit í því að taka allan íslenzkan iðnað þar í eitt númer og ætlast til þess, að nákvæmlega sömu reglurnar gildi til aukinna lánveitinga til allra greina iðnaðarins. Þeir, sem reka þetta mál á þeim grundvelli, vinna íslenzkum iðnaði ekkert gagn. Það er vitanlega engin ástæða til þess að setja hér upp reglur, sem fyrirskipa Seðlabankanum að lána jafnmikið út á framleiðslu súkkulaðiverksmiðju og annarrar verksmiðju, sem framleiðir miklu nytsamari varning, en súkkulaðið er. En sá málflutningur, sem hér hefur verið hafður í frammi, m.a. af flm. þessarar till., bendir alveg í þá átt, að það eigi að setja reglur um það að skylda Seðlabankann til þess að lána öllum íslenzkum iðnaði út á hvaða framleiðslu sem er eftir sömu reglum.

Nei, það á vitanlega að gera sér grein fyrir því, að ákveðnar framleiðslugreinar innlenda iðnaðarins eru þurfandi fyrir aukið fé og það á að reyna að leysa fjárhagsmálefni þeirra greina og það er mikil þörf á því í ýmsum greinum. En það á ekki að vinna að því að leysa það mál á þann hátt að stagast á þeim ósannindum, að það sé verið að mismuna almennt íslenzkum iðnaði og íslenzkum sjávarútvegi í sambandi við þessi lán. Við erum ekki einir þjóða með reglur um það að hafa nokkuð sérstök lánskjör fyrir þá framleiðslu, sem miðuð er við útflutning. Það er einmitt það, sem hér hefur nú komið fram í þessum umr. og við erum að verða svo áberandi varir við, þegar við kaupum t.d. frystivélar og þurfum á þeim að halda hér, þegar við kaupum þær erlendis frá, þá getum við fengið þessar frystivélar keyptar með þeim kjörum, að svo sem ¾ af verðinu fást lánaðir til 4–5 ára. En þegar við þurfum að kaupa þessar frystivélar af innlendri framleiðslu hér, segir sú framleiðsla, að hún geti ekki veitt lán á þessu til neins tíma, hún verði að fá þetta borgað strax.

Hvað er það, sem þarna er að gerast? Það er það, að erlendar þjóðir hafa sett upp þær reglur hjá sér, að þær eru að greiða fyrir þeirri iðnaðarframleiðslu sinni, sem er seld út úr landinu. Þar geta framleiðslufyrirtæki þau, sem eru að framleiða fyrir erlendan markað, fengið lán til þeirrar framleiðslu með sérstökum vaxtakjörum og sérstakri fyrirgreiðslu ríkisins. En þessi sömu fyrirtæki erlendis fá ekki sams konar fyrirgreiðslu þar, eins og þau fá til þess að standa undir svonefndum export-credit lánum, þau fá það ekki til þeirrar framleiðslu, þó að sömu tegundar sé, sem er ætluð fyrir heimamarkað. Það er sem sagt enginn vafi á því, að það eru bæði peningaleg rök fyrir því og frá beinu bankalegu sjónarmiði er það hægt og frá þjóðhagslegu sjónarmiði er það rétt og nauðsynlegt að hafa ákveðnar reglur, ekki ósvipaðar þeim, sem við höfum nú í sambandi við framleiddar útflutningsvörur sjávarútvegsins, til þess að gera útflutning kleifan, til þess að stuðla að útflutningsframleiðslu og það er meira að segja meiri þörf á því hér hjá okkur, en mörgum öðrum þjóðum, vegna þess að viðskiptin fara fram á þann hátt hér hjá okkur, að það er lengra bil á milli framleiðslunnar sjálfrar og sölunnar, en hjá flestum öðrum þjóðum. Það er ástæða til þess að halda uppi lánum slíkum sem þessum. Og það eru rök fyrir því líka frá peningalegu sjónarmiði. En hitt er allt annað mál, að það er ekki hægt að þenja þessa reglu út í það að ætla að lána hvaða aðila sem er á sambærilegum grundvelli út á þá framleiðslu, sem fer á innanlandsmarkaðinn. Um það verða að gilda allt aðrar reglur.

Ég vil svo í tilefni af þessu, sem ég hef hér sagt, undirstrika það, af því að maður þekkir nú svo vel að það er svo auðvelt að snúa út úr því, sem maður segir, sérstaklega ef maður gerir einhverjar aths. á svipaðan hátt og ég hef gert hér, að með þessum aths. mínum er ég ekki á nokkurn hátt að draga úr því, að reynt verði að liðka til um rekstrarfé handa íslenzkum iðnaði. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar um ýmsar greinar iðnaðarins, að þær þurfi á verulega auknu rekstrarfé að halda. En sú leið, sem stungið er sérstaklega upp á í þessari till., ég álít, að hún sé ekki framkvæmanleg, hún eigi ekki rök fyrir sér heldur. Og ég vara við því að ætla að sækja þetta mál fyrir íslenzkan iðnað á þeim grundvelli sérstaklega að tefla fram rökum, sem gætu orðið til þess, að niður kynnu að verða felld þau lán, sem nú standa að svo miklu leyti eins og raun ber vitni um, undir okkar sjávarvöruframleiðslu og útflutningsframleiðslu.

Í þessu efni ætla ég ekki að fara neitt inn á lánveitingar til landbúnaðarins. Það er talsvert mikið annað að segja um þau lán frá almennu, peningalegu sjónarmiði, heldur en um útflutningsvöru sjávarútvegsins, enda hafa verið gerðar alveg sérstakar ráðstafanir til þess að hafa peninga þar á móti í bankakerfinu, svo að hægt væri að standa undir þeim lánum.