28.10.1964
Sameinað þing: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (2850)

14. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Ég skal reyna að verða fáorður, herra forseti, enda get ég komizt af með stutt mál.

Í sambandi við ræðu hv. síðasta ræðumanns vil ég segja það, að ég held, að hún hafi verið byggð á mjög miklum misskilningi. Hv. þm. virðist líta þannig á, að ekki sé neitt annað gjaldeyrisverðmæti en vörur, sem hægt er að flytja út. En að sjálfsögðu eru þær vörur, sem eru framleiddar í landinu sjálfu og spara innflutning, líka gjaldeyrisverðmæti og verka alveg á sama hátt. Og það er að sjálfsögðu ekkert minna nauðsynlegt að efla þær atvinnugreinar, sem spara okkur innflutning, heldur en þær, sem stuðla að útflutningi. Báðar þessar atvinnugreinar eru jafnnauðsynlegar og við þurfum að leggja kapp á að efla þær báðar. Þess vegna er það, hreinn misskilningur hjá hv. þm., að það eigi ekki að veita þeim iðnaði, sem framleiðir fyrir innlendan markað, svipaða fyrirgreiðslu og þeim atvinnuvegum, sem framleiða fyrir útlendan markað, svo framarlega sem við á annað borð álítum, að hér sé um nauðsynlega framleiðslugrein að ræða.

Það er líka mesti misskilningur hjá hv. þm., þegar hann er að tala um, að þessi till. mundi verða til þess að grafa grunninn undan þeirri aðstöðu, sem aðrir atvinnuvegir, þ.e.a.s. landbúnaður og sjávarútvegur, hafa notið hingað til. Hér er ekki farið fram á annað, en iðnaðurinn njóti sömu aðstöðu og þessir atvinnuvegir hafa haft, en ekki, að það sé verið að taka neitt frá þeim. Og hv. þm. veit mætavel, að það eru ekki nein vandkvæði á að framfylgja þessu af hálfu Seðlabankans. Hann veit það ekki síður en ég, að það eru mörg hundruð millj. kr. af frystu sparifé í Seðlabankanum, sem ætti að nota til þess að veita iðnaðinum þessa fyrirgreiðslu. Og það þarf ekki að taka neitt frá neinum með því að láta iðnaðinn búa við sömu aðstöðu og aðrar atvinnugreinar hvað þetta snertir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að segja, meira um það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Ég held, að þegar hann athugar þessi mál betur og með dálítið meiri yfirsýn, komist hann að þeirri niðurstöðu, að hans ummæli flest hér hafi verið byggð á þeim misskilningi, að það sé eitthvað ónauðsynlegra að framleiða verðmæti og vörur, sem spara innflutning, heldur en þær, sem hægt er að flytja út.

Í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði, þarf ég ekki heldur að segja margt. Hann mótmælti því, að hann hefði gert lítið úr lánsfjárskorti iðnaðarfyrirtækja. En ég held, að hæstv. ráðherra hafi orðað þetta þannig, að bæði ég og málgögn iðnaðarins hefðu gert of mikið úr lánsfjárskortinum, svo að ég hygg, að það hafi ekki verið fjarri lagi, sem ég hafði eftir honum. Þá held ég, að það gildi um hæstv. ráðh., að hann geri allt of mikið úr þeim teknísku framkvæmda örðugleikum, sem eru á því, að hægt sé að veita iðnaðinum hliðstæð lán og landbúnaði og sjávarútvegi, hvað þetta snertir. Hér þarf vitanlega, á sama hátt eins og óseld framleiðsla sjávarútvegs og landbúnaðar er metin nú, að finna reglur til þess að meta óselda framleiðslu og þær birgðir, sem iðnaðurinn liggur með, á sama hátt og veita lán út á það. Og ég held, að það sé ekki neinn erfiðleiki að finna reglur fyrir þessu, ef það mál er tekið til einhverrar athugunar. Enda er það áreiðanlegt, að það er ekki vegna þessa atriðis, sem það hefur strandað, að till. Alþingis frá 1858 kæmi til framkvæmda, heldur hitt, að það hefur verið stefna stjórnarvaldanna að stuðla að vissum lánsfjárskorti í landinu og af þeim ástæðum hefur m.a. verið haldið í þessi lán. En íslenzkur iðnaður er þannig staddur í dag, að hann þolir ekki, að það sé búið að honum á þennan hátt. Hann þolir það ekki, að hann búi við meiri lánsfjárskort, en erlendir keppinautar og önnur vaxtakjör. Í erlendum iðnaði gerist það nú í risaskrefum, að framleiðnin eykst og við þurfum að vinna að því, ekki síður hér á landi en annars staðar, að auka framleiðnina. En að sjálfsögðu er það einn mesti þrándur í götu hennar, þegar ekki fæst lánsfé til að gera þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru til að auka framleiðnina. En það gengur vitanlega út yfir framleiðnina, þegar iðnfyrirtækin þurfa að nota það fé, sem þau gætu notað í þeim tilgangi, sem rekstrarfé og eru samt í skorti með starfsemina. Þess vegna út frá því sjónarmiði einu, að við þurfum að auka framleiðni íslenzka iðnaðarins stórkostlega frá því, sem nú er, þá þarf að létta af honum þeim lánsfjárhöftum, sem á honum hvíla í þessum efnum og þess vegna vænti ég þess, að þessi till. fái góðar undirtektir hjá hv. alþm. nú og einnig hjá hæstv. ríkisstj.