11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (2854)

14. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru nú liðnir allmargir dagar síðan umr. var frestað hér um þetta mál, en þá hafði ég kvatt mér hljóðs til þess að gera hér stutta aths. út af ummælum, sem hv. 5. þm. Reykv. lét hér falla um það, sem ég hafði sagt um mál þetta. En það er nú svo, þegar þannig stendur á, að langt er um liðið frá umr., þá er næstum að segja þörf á því að fara að rifja upp mikið af því, sem áður hafði verið sagt, til þess að menn megi skilja samhengið í málflutningi. En aðalatriðið í því, sem hv. 5. þm. Reykv. hafði sagt í tilefni af ummælum mínum, var, að hann taldi, að mínar aths. væru í rauninni á misskilningi byggðar, vegna þess að ég hefði ekki gætt þess, að í rauninni væri jafnmikil þörf á því að veita lán til þeirrar framleiðslu í landinu, sem sparar landsmönnum gjaldeyri, eins og til hinnar framleiðslunnar, sem er til gjaldeyrisöflunar fyrir landið. Og hann vildi því telja, að það væri jafneðlilegt út af fyrir sig, að Seðlabankinn veitti lán til hvers konar smáiðnaðar, sem rekinn er í landinu, eins og t.d. út á framleidda útflutningsvöru, sem hann lánar eftir föstum reglum út á, eins og mönnum er kunnugt um.

Þeir, sem tala á þessa lund sem hv. 5. þm. Reykv. gerði, gera í rauninni engan mun á því, hvaða starfsemi seðlabanki á að hafa og aftur aðrir viðskiptabankar. Þeir virðast líta þannig á, að banki sé banki og það verði að gilda nákvæmlega sömu almennu reglurnar um alla banka. En þessu er ekki svona farið. Mér er það alveg ljóst, að það væri vitanlega á sama hátt hægt að segja, eins og rétt þykir, að Seðlabankinn veiti lán með þeim hætti, sem hann gerir nú út á framleiddar útflutningsvörur sjávarútvegsins, að jafnmikil þörf væri á því, að Seðlabankinn lánaði útgerðinni lán t.d. til þess að kaupa sér veiðarfæri, kaupa olíu til rekstrarins og annað þess háttar. Auðvitað verður útgerðin ekki rekin, nema fé sé til staðar, til þess að kaupa þessar nauðsynjavörur og ef sá, sem annast útgerðarreksturinn, á ekki nægilegt fé til sjálfur til þess að leggja í það að kaupa þessar nauðsynlegu vörur, þá þarf vitanlega reksturinn að fá lán í þessu skyni. En engum manni hefur vitanlega komið til hugar að setja upp þá kröfu, að seðlabanki landsins færi að lána útgerðinni í landinu til þess að kaupa þessi veiðarfæri eða til þess að kaupa olíu. Með slíka lánsbeiðni snúa menn sér til viðskiptabankanna, af því að það er þeirra verksvið að annast um slík lán. Hins vegar er það verksvið Seðlabankans að lána öðrum bönkum, miðla fé í vissum tilfellum eða að lána ríkissjóði stutt lán, sem öruggt má telja að ríkissjóður geti aftur endurgreitt, venjulega á sama ári eða þá að Seðlabankinn lánar stutt lán út á gjaldeyrisvöru, sem framleidd er og nokkurn veginn er tryggt með sölu á og skilar sínu andvirði í hendur Seðlabankans innan tíðar. Þessa starfsemi á Seðlabankinn að hafa með höndum með eðlilegum hætti. Hins vegar er það hlutverk viðskiptabankanna í landinu að lána til hvers konar annarrar starfsemi eða framleiðslu í landinu, sem aðallega gengur þar manna á milli.

Það er enginn ágreiningur, eins og ég hef sagt hér áður, á milli mín og hv. 5. þm. Reykv. um, að það geti verið mikil þörf á því að útvega lán handa innlendum iðnaði og ég efast ekkert um það, að ýmsar iðngreinar okkar þurfa á auknu lánafé að halda. Og ég vil standa með honum í því að gera kröfur um það, að úr þessu verði bætt. En mér dettur hins vegar ekki í hug að koma fram með þá kröfu, að það skuli verða hlutverk Seðlabankans út af fyrir sig að leysa úr slíkri lánafyrirgreiðslu. Það er óeðlilegt. Það stenzt ekki. En þegar þannig stendur á hjá iðnaðarfyrirtækjum, að þau framleiða vöru til útflutnings, sem tryggð er sala á, þá eiga þau að hafa nákvæmlega sama rétt eins og t.d. sjávarútvegurinn til þess að njóta lánanna úr Seðlabankanum.

Ég tók líka eftir því, að hv. 5. þm. Reykv. sagði hér, að Seðlabankinn gæti vel veitt þessi endurkaupalán til iðnaðarins, vegna þess að það væri búið að draga inn svo mikið af sparifé landamanna og binda í Seðlabankanum. Ég skal taka undir það með honum, að þegar það er gert, að sparifé landsmanna er dregið inn í Seðlabankann, þá skapar það Seðlabankanum aðstöðu til þess að geta farið að taka að sér almenn viðskiptalán, það er rétt. En nú veit ég, að hv. 5. þm. Reykv. er eins og ég á móti þessari sparifjárbindingu og leggur til, að henni verði hætt,og sá, sem er á móti þessari sparifjárbindingu og leggur til, að henni verði hætt, getur ekki á sama tíma komið fram með till. um, að það verði farið að efna til lánveitinga úr Seðlabankanum einmitt í krafti þessarar lánsfjárbindingar. Slíkt er vitanlega ekki hægt heldur. Í þessum efnum verður maður að vera samkvæmur sjálfum sér og halda sér fast við efnið.

Ég veit, að það er rétt, að það er uppi sú tilhneiging nú að fara einmitt inn á þessa braut og það kom í fyrsta skipti fram á síðasta þingi. Þá kom einmitt fram hér till. á vegum hæstv. ríkisstj. um, að þessi einkennilegi háttur yrði hafður á, að það yrði aukið við sparifjárbindinguna í Seðlabankanum, væri dregið þangað inn meira fé og það var rökstutt með því, að síðan ætti Seðlabankinn að taka að sér að lána m.a. innlendum iðnaði eða öðrum slíkum aðilum. En þá er að mínum dómi farið að snúa hlutunum við og haga þeim hér á landi á allt annan veg, en þekkist í öllum öðrum löndum. Sparifé og önnur söfnun, sem getur átt sér stað og á að koma auðvitað inn í viðskiptabankakerfi landsins, á að nota til þess að lána almenn rekstrarlán og til að greiða fyrir ýmiss konar framleiðslu. En það er ekki neinum til góðs að fara að hafa þann hátt á að draga fé með valdi inn í Seðlabankann og ætla svo að láta Seðlabankann fara að taka að sér almenn viðskiptabankastörf.

Ég þarf í rauninni ekki að gera frekari athugasemd við það, sem hér var sagt. Ég veit það, að við hv. 5. þm. Reykv. skiljum vel hvor annan og ég er næstum viss um það líka, að flestir alþm. hafa skilið meginatriði þessara mála. Mín afstaða er þessi: Ég vil í fyrsta lagi gera mikinn mun á því, þegar rætt er um íslenzkan iðnað, hvaða iðngreinar eiga í hlut. Ég vil ekki leggja allan íslenzkan iðnað þar undir ein og sömu ákvæði. Ég vil ekki skylda neinn banka í landinu til þess, að hann skuli lána öllum íslenzkum iðnaði, hverrar tegundar sem hann er, ákveðin framleiðslulán. Ég geri t.d. í þessum efnum mjög mikinn mun á því, hvort á að veita lán til okkar mjög svo þarfa járnsmíðaiðnaðar eða t.d., eins og ég hef nefnt hér áður til sælgætisgerðar. Ég vil ekki leggja þetta að jöfnu. Ég vil ekki skylda neinn banka til þess að kaupa framleiðsluvíxla hvors um sig eftir sömu reglum. Og í öðru lagi er það afstaða mín, að það sé mikil þörf á því að leysa úr lánaþörf ýmissa iðngreina og það sé hægt að gera það. En ég vil ekki heldur gera það með því að leggja kvaðir á Seðlabankann, sem augljóslega leiða til þess, að hann fer að binda til sín sparifé með þeim hætti, sem gert hefur verið eða kæmi hér á fót óeðlilegri bankastarfsemi. Og ég vil ekki heldur reka þetta mál á þann hátt að halda því fram, að sjávarútvegur okkar njóti í þessum efnum varðandi Seðlabankalánin nokkurra sérstakra hlunninda fram yfir aðra atvinnuvegi landsins, því að það gerir hann ekki.

Það mundi hvergi sýnast mikið, þó að hægt sé að fá lán til nokkurra mánaða úr seðlabanka út á framleidda útflutningsvöru og þegar selda, eins og nú er gert. En þeir, sem flytja málefni iðnaðarins á þeim grundvelli, sem hér hefur að talsverðu leyti verið gert, eru raunverulega að taka þátt í því að grafa undan því, að sjávarútvegurinn t.d. fái haldið þeim lánum, sem hann hefur í þessum efnum, en oft og tíðum einmitt heyrist á það minnzt, að hann njóti þarna sérstakra hlunnindalána, sem vafasamt sé að veita honum. Allar aðrar starfsgreinar landsmanna geta notið hins sama, ef eins stendur á fyrir þeim, að þær eru að framleiða vöru, sem þegar er seld fyrir erlendan gjaldeyri. Um vörur, sem seldar eru hér almennt á innanlandsmarkaði, gildir allt anna, og það er í rauninni hlutverk viðskiptabankanna að sjá um rekstrarlán í slíkum tilfellum.

Þetta er sem sagt í aðalatriðum mín afstaða í sambandi við þann málflutning, sem hér hefur komið fram hjá flutningsmönnum þessarar till.