11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (2875)

25. mál, akvegasamband um Suðurland til Austfjarða

Flm. (Óskar Jónsson):

Herra forseti. Ég fagna þeim undirtektum, sem þessi þáltill. hefur fengið hjá hv. þm., sem hér hafa talað um þetta mál og ég vænti, að það bendi til þess, að þingið taki vel á þessum málum og ýti þeim áfram í höfn.

Ég vil aðeins segja hv. 5. þm. Austf. það, að við framsóknarmenn höfum ekki alltaf verið tómlátir um þetta mál, því að þegar Karl Guðjónsson var með það hér á sínum tíma, þá studdi ég hann eindregið og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að þm. Framsfl. hafi haft fullan áhuga á og séð nauðsyn þess, að þetta stóra mál kæmist áfram, því að þetta er stórmál. Það er ekkert minna mál að fá vegasamband gegnum Skaftafellssýslu við Austfirði heldur en fyrir Vestfirðinga eða Vestmanneyinga eða aðra að fá skip. Það er alls ekki minna mál fyrir þá, og þess vegna er það, að það ber vissulega að fylgja því fast eftir.

Það má deila um það, hvernig brýr eigi að byggja á Skeiðarársandi, en ég vil bara benda á það, að 1922 var byggð brúin á Jökulsá á Sólheimasandi úr steinsteypu með steinsteypustöplum og síðan hafa komið þar mörg og stór hlaup, einkanlega fyrst eftir að brúin kom. Hún hefur staðið þetta allt af sér, það hafa aldrei orðið neinar skemmdir á henni, því að yfirleitt munu það hafa verið frekar litlir jakar, sem komu í þessum hlaupum, ekki gríðarlega stórir, heldur smáir og þeir skaða ekki vel gerða steinstöpla.

Ég hef svo ekki fleira um þetta að segja, en þakka hið góða hljóð, sem þetta mál fær, og vænti, að þingið afgreiði það frá sér á raunhæfan hátt.