11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (2877)

25. mál, akvegasamband um Suðurland til Austfjarða

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessarar till. hefur nú gert svo skýra grein fyrir þessu máli, að í raun og veru er litlu við það að bæta og allir þeir, sem tekið hafa til máls, hafa látið í ljós áhuga sinn á því, að lausn fengist á samgöngumálum hér um suðurland og er það vissulega vel farið. En það hefur komið fram í þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar, að menn hafa farið að rifja upp það, sem áður hefur verið lagt fram í þessu máli hér á hv. Alþingi, en vegna þess að í þeim samanburði gleymdist upphafið, þá þykir mér rétt að segja um þetta örfá orð.

Það var strax á árinu 1956, að þetta mál — efnislega sama máið og hér er til umr. — kom fyrst fram hér á hv. Alþingi. Það var með till. til þál., sem ég bar fram í sameinuðu þingi. Og er hún svo hljóðandi, efni ályktunarinnar er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta í samráði við vegamálastjóra athuga nýjar tegundir samgöngutækja til samgangna um torfærur á landi með hliðsjón af reynslu, sem fengin er af slíkum tækjum erlendis. Síðan skal gera tilraunir með ný samgöngutæki á eyðisöndum Skaftafellssýslu, ef ætla má að athugun lokinni, að þau muni reynast hæf til samgöngubóta þar. Kostnaður, sem leiðir af athugun þessari og tilraunum með ný samgöngutæki, greiðist úr ríkissjóði.“

Þessari till. var á þinginu 1956 vísað til fjvn. og hún átti góðum skilningi að mæta hjá hv. fjvn., því að n. skilaði áliti um till.; sem er dagsett 18. marz 1957, samhljóða áliti, þar sem hún lagði til, að till. mín yrði samþykkt óbreytt, enda var hún afgreidd sem ályktun frá sameinuðu Alþingi á því þingi. En nál. fjvn. 1956 er örstutt, og ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa það. Það er svo hljóðandi:

„Nefndin telur, að mikil þörf sé á, að athuganir séu gerðar um það, á hvern hátt verði unnt að yfirstíga þá miklu farartálma, sem eru á aðalþjóðvegakerfi landsins í Skaftafellssýslu. Margt bendir til, að ný tækni geti komið þarna að liði og því er nauðsynlegt, að yfir því sé vakað, að fylgzt sé með þeim nýjungum, sem þar gætu komið til greina. N. mælir með því, að till. verði samþykkt “

Og undir þetta álit skrifa Karl Guðjónsson; Halldór Ásgrímsson, Sveinbjörn Högnason, Halldór E. Sigurðsson, Magnús Jónsson, Karl Kristjánsson, Jón Kjartansson, Áki Jakobsson og Pétur Ottesen. Þetta gerðist áður en hv. 3. þm. Austf. gekk inn í þennan sal og áður en hv. 5. þm. Austf. flutti þá till., sem hann var að vitna hér til.

Nú má segja, að í þessari ályktun Alþingis 1956 hafi ekki beinlínis verið rætt um brúargerðir, heldur fremur aðrar leiðir. En til þess liggja alveg augljósar ástæður, því að þá var eftir að leysa af hendi svo mörg önnur verkefni í Skaftafellssýslu, sem að allra manna dómi, bæði verkfræðinga og hinna kunnugustu manna, þar búsettra, hlutu að sitja í fyrirrúmi fyrir framkvæmdum á Skeiðarársandi vegna aðstöðunnar og hvers eðlis verkefnin eru. Ég minni á það, að þegar hér voru sett lög um, eða lagabreyting var gerð á vega- og brúarlögum á þingi 1943, þá var tæknin í þessu landi ekki lengra komin en það, að þáv. vegamálastjóri, Geir Zoëga, sem var reyndur verkfræðingur og hafði mikla lífsreynslu í starfi, hann taldi vafa á, að það væri hægt að brúa Hornafjarðarfljót og þá var gerður sérstakur fyrirvari í l. um, að sú brú skyldi því aðeina reist, að rannsókn væri áður látin fara fram á því, hvort það væri kleift. Síðan hefur þetta þróazt stig af stigi. Með aukinni tækni hefur verið hægt að leysa af hendi stærri og stærri verk. Jökulsá í Lóni var brúuð 1952, eitt af stórvötnum Skaftafellssýslu. Það var lokið við brú á Hornafjarðarfljótum 1961. Brú á Fjallsá á Breiðamerkursandi, sem er nærri 140 m á lengd, var byggð 1962, brú á Steinavötn smíðuð 1964. Og nú er, eins og hér hefur komið fram hjá fyrsta flm. þessarar till., verið að gera áætlun og teikningar af brú að Jökulsá á Breiðamerkursandi og við vonum, að það eigi ekki langt í land, að sú brú verði byggð. Öll þessi verkefni hlutu að ganga á undan brúargerðum á Skeiðarársandi og þess vegna var það alveg eðlilegt, að 1956 væri ekki verið að stefna að því að gera samþykktir um það hér á hv. Alþingi, heldur aðra úrlausn mála. Nú er aftur búið að leysa af hendi hin stóru verkefni, sem ég hef talið upp og það má segja, að nú hillir undir það, að það sé alveg tímabært að fara í alvöru að huga fyrir brúargerðum á Skeiðarársandi.

Ég man nú ekki betur — en að því má náttúrlega gæta í Alþingistíðindum — en ég tæki hér í þingræðum mjög jákvæða afstöðu með till. þeirri, sem Karl Guðjónsson og Lúðvík Jósefsson fluttu og enn er fram borin hér á þingi. Mín skoðun hefur alla tíð, síðan ég kom til starfa í þessari stofnun, verið óbreytt um það að vinna að því að bæta samgöngur í Skaftafellssýslu og tengja svo fljótt sem auðið er akvegasambandið um Suðurland. Við framsóknarmenn höfum yfirleitt staðið saman um þá stefnu. Og sem betur fer hefur mér virzt vera almennur skilningur á þessu máli og vitna ég þar enn til samstöðunnar, sem fjvn. hafði strax um hina fyrstu till. í þessu efni, sem kom hér inn á þingið og það gleður mig sannarlega, að þær umr., sem hér hafa farið fram, virðast benda til þess, að slík samstaða sé enn fyrir hendi og að almennur skilningur sé á þeirri nauðsyn, sem fyrir hendi er í þessum efnum.