11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (2878)

25. mál, akvegasamband um Suðurland til Austfjarða

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Ég vil nú ekki verða til þess að tefja fyrir því, að þetta mál fái að komast til n., heldur gera aðeins örstutta aths. En hún er sú, að hér hefur komið upp allbroslegur metingur um það, hverjir hafi lagt tiltekið mál hér fyrir þingið og hverjir hafi fyrst staðið að því og líklega hefur það sært menn nokkuð, sem ég sagði í þeim efnum. En það, sem komið hefur hér fram í þessu máli í sambandi við þessa tilburði manna til þess að reyna að eigna sér till. um þetta má,. hefur allt sannað það, að fyrstu till., sem komu hér fram um það að leggja veg yfir sandana og leysa samgöngumálin þannig, komu fram hjá mér og Karli Guðjónssyni. Hinar till. voru um allt annað, voru um það að kaupa tæki til þess að selflytja þarna yfir í ákveðnum vandræðum og rannsaka um brúarstæði yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi og hér urðu m.a. umr. á Alþingi um það, hvort ætti að leggja meiri áherzlu á að fara þá leið, sem við bentum á, að leysa stór og mikil vegamál og brúargerð eða hverfa að því að kaupa þetta selflutningstæki. En sem sagt, þetta skiptir mjög litlu máli. Við erum allir sammála um aðalatriði málsins og þurfum því að reyna að vinna að því, að málið sjálft verði leyst.