25.11.1964
Sameinað þing: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (2887)

32. mál, héraðsskóli að Reykhólum

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Það munu vera 15 og þó líklega nær 18 ár síðan síðast var byggður héraðsskóli hér á landi. Afleiðingin af þessu athafnaleysi á sviði skólamála er sú, að það er nú algeng saga, að ungmenni, einkanlega úr sveitum landsins, verða að bíða 1–2 ár eftir því að geta fengið námsvist í héraðsskóla. Þetta er vitanlega alveg óviðunandi, því að það verða að teljast einhver dýrmætustu mannréttindi æskufólks að eiga þess kost að afla sér almennrar menntunar. En hér eru göturnar ekki eins greiðar og vera skyldi og er það athafnaleysi af hendi þjóðfélagsins, sem í vegi stendur. Þetta kemur í viðbót við það, að þjóðfélagið hefur ekki innt af hendi sínar skyldur, til þess að hægt sé að framkvæma gildandi skólalöggjöf á barnaskólastigi í sveitum landsins.

Hér er þjóðfélaginu því vissulega skylt að bæta úr. Héraðsskóla, máske fleiri en einn, þarf nú að reisa vegna þess, hversu löng bið hefur orðið á því, að þar væri fylgzt með þróun tímans. Við leggjum til, sem stöndum að þessari þáltill., hv. 3. þm. Vestf. og ég að byggður verði héraðsskóli að Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu. Reykhólar hafa hin beztu skilyrði til þess að vera skólasetur. Það var áreiðanlega rétt, þegar horfið var að því að velja heita staði til þess að reisa héraðsskólana á. Með tilliti til slíkra náttúruauðæfa var héraðsskólunum á Laugarvatni, Laugum, Reykholti, Reykjanesi og Reykjum í Hrútafirði valinn staður. Reykhólar hafa sama konar náttúruauðæfi og þessir nefndu skólastaðir og eru að því leyti tilvaldir sem skólastaður. Jarðhitinn sparar mikið fé, er ekki lengi að skila byggingarkostnaði skóla í þeim verðmætum, sem sparast við upphitun húsakosts og sundlaugar. Að öðru leyti liggja Reykhólar vel við sem staður fyrir héraðsskóla. Ef þar risi héraðsskóli, væru héraðsskólar á Vesturlandinu tveir, í Reykholti í Borgarfirði og að Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu.

Þá hefur ríkið nokkur afskipti af Reykhólum, þessu fornfræga stórbýli. Það mun vera starfandi sérstök nefnd, Reykhólanefnd, sem á að stuðla að uppbyggingu staðarins. Það er þörf á þéttbýlismyndun í Austur-Barðastrandarsýslu. Reykhólar hafa fyrir löngu verið valdir til þess hlutverks. Reykhólanefndin hygg ég að hljóti að hafa á prjónunum ýmislegt það, sem stuðli þar að aukinni byggð. Og ég hygg, að það sé rétt, að eitt af því, sem Reykhólanefndin hefur mjög í huga sem eitt af því fyrsta, sem gera beri til uppbyggingar Reykhóla sem þéttbýliskjarna í Austur-Barðastrandarsýslu, sé einmitt héraðsskóli. Þessi till. ætti því að falla inn í opinber áform um eflingu Reykhóla.

Héraðsskólarnir eru ekki nema 7 á öllu landinu og eftir þeim upplýsingum, sem ég fékk frá fræðslumálaskrifstofunni, geta þeir ekki tekið við samtals nema 250–300 nýjum nemendum á ári eða um og yfir 30 nemendum hver í 1. bekk. Þessi lága tala sýnir, að því fer fjarri, að unga fólkið eigi þess kost að hefja nám í héraðsskólum svo sem eðlilegt væri.

Ég hygg, að utan þings hljóti þessi till. að fá stuðning úr héraði, af opinberum aðila eins og Reykhólanefndinni og enn fremur trúi ég ekki öðru en hv. alþm. fallist á það, að 16 ára svefn í héraðsskólamálum sé of langur svefn og það sé kominn tími til þess að rumska og byggja a.m.k. einn og líklega tvo héraðsskóla, þar sem þörfin er brýnust í landinu núna, sem allra skjótast,og það sé því tímabært, sem í þessari till. er farið fram á, að ríkisstj. sé falið að undirbúa byggingu héraðsskóla að Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu.

Ég vil svo, herra forseti, að þessum orðum sögðum leggja til, að till. verði vísað til hv. allshn.