02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (2895)

34. mál, landafundir Íslendinga í Vesturheimi

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Till. þessi fjallar um það, að Alþingi skori á ríkisstj. að leita samvinnu við ríkisstjórnir Kanada og Bandaríkjanna um rannsóknir varðandi landfundi Íslendinga í Vesturheimi á 10. eða 11. öld. Það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm., að landfundir Íslendinga í Vesturheimi eru tvímælalaust sögulegasta afrek, sem íslenzkir siglingamenn hafa unnið. Þess vegna er það líka skylda Íslendinga að sjá um, að þetta afrek verði viðurkennt og aflað um það upplýsinga, svo sem kostur er. Það er að sjálfsögðu mjög mikilsvert, sem nýlega hefur gerzt í þessum málum, að þing Bandaríkjanna hefur gert 9. okt. ár hvert að sérstökum fánadegi til minningar um, að Leifur Eiríksson hafi fyrstur Evrópumanna fundið Ameríku. Með því hefur það verið staðfest enn þá rækilegar, en áður eða viðurkennt, að frásagnir íslenzkra fornrita um landfundi Íslendinga vestanhafs hafi við gild rök að styðjast. Hins vegar er enn margt órannsakað í þessum efnum, sem æskilegt er, til þess að fá þessum málum fyllri og betri staðfestingu. Enn þá eru stór landssvæði vestanhafs, sérstaklega í Kanada, sem eru órannsökuð, en þar sem líklegt er, að finna megi enn frekari minjar um siglingar og landnám Íslendinga á þessum slóðum en þær, sem nýlega hafa fundizt á Nýfundnalandi. Það á að sjálfsögðu að vera skylda Íslendinga að hafa frumkvæðið um, að þessar rannsóknir séu gerðar og jafnframt eðlilegt, að í þeim efnum sé leitað samvinnu við ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Kanada, sem þetta mál snertir einnig og hafa að ýmsu leyti góða aðstöðu til að hjálpa til við slíkar rannsóknir. T.d. hafa fróðir menn bent á það, að floti og flugher þessara ríkja gæti unnið nokkurt starf í þessum efnum í samráði við vísindamenn, vegna þess að þessir aðilar halda sig allmikið á þeim slóðum, sem enn hafa ekki verið rannsakaðar. Ég tel efalaust, að slíkri málaleitun af okkar hendi sem þessi till. fjallar um yrði vel tekið af þessum ríkisstj. og þess vegna standi hér ekki á öðru, en skorti á okkar eigin frumkvæði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þessa till. að sinni, en leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.