09.12.1964
Sameinað þing: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (2908)

39. mál, verðtrygging sparifjár

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er um að ræða, er raunverulega þáttur í því, sem við höfum verið að ræða síðustu 20 árin hér á Alþingi. Það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það hefur riðið að falli ýmsum ríkisstj. viðureignin við þetta. Hins vegar er það alltaf rétt, áður en maður gerir ákveðnar ráðstafanir, að reyna eins mikið og hægt er að gera sér ljóst, hverjar afleiðingar þeirra verða, því að það er ekki gott fyrir þjóðfélagið, að maður geri það bara að tilraunastöð fyrir meira eða minna vanhugsaðar till. Við höfum prófað heilmikið með þessar vísitölutryggingar og raunverulega gert með þetta heilmargar tilraunir. Allir þekkja baráttuna viðvíkjandi vísitölukaupi, og þarf ég ekki að fara út í það.

Það hefur verið vísitala á ýmis skuldabréf, sem það opinbera hefur gefið út og var núna nýlega verið að gera slíkt. Stundum hefur þetta verið gert undir, að því er ég álít, alveg hlægilega vitlausum kringumstæðum. Ég vil nefna sem dæmi, að það var núna nýlega verið að gefa upplýsingar um það, að bréf, sem Reykjavíkurbær eða Sogsvirkjun, — ég man ekki, hvort var, — hefði gefið út, hefðu verið endurgreidd með 40% álagi vegna rafmagnsvísitölu, sem á þeim var. Ef ég man rétt, var þetta ca. 25 millj. eða 30 millj. kr. lán, sem Sogsvirkjunin var látin taka. Til hvers? Til þess að borga ríkissjóði tolla af vélunum til Sogsvirkjunarinnar. Og ég sýndi fram á það hvað eftir annað í þeim umr., sem fram fóru, þegar þetta var samþ. hér á Alþingi, að þetta væri „ídiótisk“ verðbólguráðstöfun, að ríkið, sem á Sogsvirkjun að hálfu leyti á móti Reykjavíkurbæ, leggur toll á vélarnar, sem það er sjálft að kaupa til þess að setja í Sogsvirkjunina, síðan ákveður ríkið, af því að engin lánsstofnun úti í þeim stóra heimi vildi náttúrlega fara að lána einu ríki fé til þess að borga skatta til sjálfs sín af sinni eigin eign, þá ákveður ríkið að gefa út skuldabréf upp á, að ég held, 25 millj. kr., ríki og Reykjavíkurbær, sem skuli vera rafmagnsvísitala á, til þess að þau seljist, til þess að borga ríkinu þessa tolla. Og þetta var gert. Hvað þýddi þetta? Auðvitað þýddi þetta ekkert annað en beina verðbólguráðstöfun, ekki nokkurn skapaðan hlut annan og kemur nú, þegar borgað er til baka, 40% álag. Svona er ekki hægt að stjórna, ef menn ætla að stöðva verðbólgu. Þá bar fjmrh. að segja: Hér er talað um, að ríkið eigi að fara að borga sjálfu sér 25 milij. kr. tolla. Þetta gerum við ekki. Við afnemum þessa tolla. Þessir tollar á vélum til rafmagnsframleiðslu eru ekkert annað, en að ákveða að minnka peninga í verði, að hækka rafmagn. Það var ómögulegt að koma neinu viti fyrir menn með þetta. Og enginn talar auðvitað um þetta núna, þetta er bara hið almenna sukk, 40% álag, það er ekki verið að spyrja um það, þó að það sé kastað þarna út um 10–12 millj. kr. Það er ekki talað um það. En það er þarna, sem verður að stöðva, ef menn ætla sér að fara að ráða eitthvað við verðbólgudrauginn, en ekki bara að velta svona yfir.

Nú nýlega var tekin ákvörðun og hún hefur reyndar verið gerð áður, um að það skuli vera vísitala á lánunum til húsnæðisbygginga. Þetta var í gömlu lánunum eða vissum þætti þeirra og er einhver óvinsælasti partur af þeim lánum, B–ánin svokölluðu. Ég þori ekki að fara með þessar tölur nú, hvað það er orðið, sem verður að borga nú í hækkanir á þeim vísitölubréfum, það er mikið. Og það var eitt, sem var einkennandi, þegar rætt var um þessa hluti, bæði í gamla daga, þegar B-lánin voru ákveðin og eins núna með þessi, að menn kunna enn þá ekki að hugsa í raunverulegum vöxtum, þegar menn eru að tala um þetta. Að vísitölutryggja skuldabréf og vera að tala um vexti frá 4% og jafnvel upp í 7%, það er „ídiótí.“ Það á að tala um 2–3% vexti í hæsta lagi á bréfum, sem menn ætla að vísitölutryggja. Hitt er bara að gefa mönnum einhver sérréttindi í þjóðfélaginu.

Ef við ætlum að komast niður á það stig að reyna að stöðva verðbólgu, þá verðum við um leið að þora að horfast í augu við, að það verður að lækka vextina og fyrst og fremst vextina á þessum hlut og það svo, að það muni verulega um það. Meðan Ísland var bláfátækt og ekki öll þessi peningahringiða og vitleysa komin, sem nú er, þá þótti eðlilegt að lána til húsnæðisbygginga með 2½% vöxtum til 42–80 ára. Það fátæka Ísland skildi það. En þeir vitleysingar, sem hafa ráðið stefnunni í sambandi við fjármálin upp á síðkastið á Íslandi, eru orðnir svo trylltir í háa vexti, sem eru mesta bölvun fyrir hverja þjóð, sem er að byggja sitt land upp, að þeir leyfa sér jafnvel, þegar talað er um vísitölutryggingar, að fara upp í 4–7% vexti.

Menn hafa verið að reyna það á undanförnum árum á öllum mögulegum sviðum, við útlán, við innlán og kaup og annað slíkt, að miða við vísitöluna. Og það hefur alltaf verið ósköp góður vilji, sem býr þarna á bak við, hvort þetta gæti á einhvern hátt bætt mönnum upp verðbólguna eða stöðvað verðbólguna. Nú vil ég segja það sem mína skoðun, ég hef að vísu ekki þrauthugsað þessi mál, en mér finnst það, þegar ég athuga þau, ef það er ákveðið að vísitölubinda sparifé og vísitölubinda útlán, þá hlýtur þetta í framkvæmd að verða nokkurn veginn óframkvæmanlegt nema með einu einasta móti. Ef það er framkvæmt og það er byrjað að framkvæma þetta, þá hlýtur þetta að verða hringiða, sem verður alveg óþolandi, sem maður ræður ekki við. Það er aðeins eitt stórt og gott, sem getur í þessu falizt og það er, ef það er tekin ákvörðun um að vísitölubinda útlán og vísitölubinda sparifé, þá er það raunverulega siðferðileg yfirlýsing frá hálfu stjórnarvalda um, að verðbólga verður ekki látin eiga sér stað, — og það getur verið alveg stórkostlega þýðingarmikið — eða hæg verðbólga, eins og er nú almennt í þjóðfélögunum og er almennt nauðsynleg í þjóðfélögunum, svo hæg verðbólga, að hún komi ekki að sök. Ég held þess vegna, að þegar við athugum þessa hluti, þá geti að vísu vel komið til mála að vísitölubinda sparifé og vísitölubinda útlán, en menn verða um leið að gera sér ljóst, að þetta er ekki ráðstöfun til þess að láta neina verðbólgu halda áfram og bæa úr henni með þessu, heldur er þetta eingöngu harðvítug yfirlýsing frá hálfu viðkomandi stjórnarvalda, að öll verðbólga verði stöðvuð.

Og þá komum við að hlut, sem ég veit ekki hvort nokkur maður hér á Alþingi kærir sig um að ræða um eða horfast í augu við. Við skulum ekki vera að fara í neinar grafgötur um það, hvað verðbólga hefur á vissan máta þýtt fyrir Ísland á þeim 25 árum, sem hún hefur geisað. Það er ekkert spursmál um það, að verðbólgan er pískur, sem pískar menn í það að festa fé, að byggja upp, að forða sínu fé í fasteignir og þær fasteignir eru mismunandi: atvinnutæki, hús og allt mögulegt annað. Það hefði varla verið byggt svona mikið á Íslandi, — það má segja alveg hreinskilnislega, — það hefði varla verið byggt svona mikið á Íslandi, eins og hefur verið byggt á undanförnum árum, ef það hefði ekki verið um leið sá spori, sú hvöt hjá mönnum að bjarga sínu fé, þeim sem fé áttu. Húsbyggingar og íbúðabyggingar hafa verið sparisjóðurinn, sem menn hafa sett sitt fé í. Það er ekkert spursmál um það. Við vitum líka, að þegar aukning hefur verið í atvinnurekstrinum hjá okkur, þá hefur það verið ákaflega mikið það, að okkar útgerðarmenn og okkar atvinnurekendur og aðrir slíkir, sem hafa getað fengið lán, þeir hafa vitað, að þessi lán minnkuðu alltaf í verði, þannig að það var beinn gróði að því, þó að enginn gróði væri á atvinnurekstrinum, að fá lánað fé og byggja sína báta og sín hraðfrystihús eða annað slíkt.

Við skulum gera okkur ljóst, að verðbólga hefur verið pískur á framkvæmdirnar í landinu á vissum skeiðum. Það er ekkert spursmál um það. Og það held ég líka, að þeir lærðu hagfræðingar hljóti að vera sammála mér um. M.ö.o.: ef við þess vegna tækjum svona ákvörðun, sem getur verið út af fyrir sig mjög viturleg, þá þurfum við að reyna að sjá allar afleiðingarnar af henni. Í fyrsta lagi, við verðum að stórlækka vexti. Vextirnir, sem við þá förum að tala um, eru frá 2% upp í 4%, líka á sparifénu. Það verður að haldast í hendur allt saman. Í öðru lagi það, sem við komum til með að byrja að horfast í augu við, ef við stöðvum verðbólguna, það er það, sem menn hafa stundum verið að tala um, að menn fara að fara á hausinn í hópum, eins konar hrun, „ökonómískt“ hrun. Verðbólgan hefur verið aðferð til þess að losna við vissar afleiðingar, sem alltaf hljóta að vera í „ökonómísku“ lífi kapítalismans. Við flýjum undan þeim afleiðingum. Í þeim almenna kapítalisma gengur það þannig fyrir sig, að þeir smáu og veikari fara á höfuðið og þeir stóru og sterkari kaupa upp þeirra fyrirtæki, ef þeir láta þau þá ekki bara verða einskis virði. Og þá gengur þróunin í þá átt, að það verði fá og sterk og vel rekin fyrirtæki, en þeim bjargálna atvinnurekendum, sem áður var talað um fækki. Ég segi þetta nú, af því að hv. framsóknarmenn hér á þinginu flytja þetta frv., að við skulum horfast alveg í augu við þetta. Þetta er reynslan í öllum þeim löndum, þar sem verðbólgan ekki er. Það er ekkert spursmál um það, að verðbólgan hefur bjargað mörgum smáatvinnurekendum hér á Íslandi. Við skulum bölva henni og við vitum allir, hve hún er slæm, en við skulum bara um leið sjá hitt, sem hún hefur gert. Meiri eða minni kreppa þýðir, að þeir smáu fokka og þeir stóru lifa af og verða ríkari og voldugri.

Ef við viljum koma í veg fyrir þetta, þá höfum við aðeins eina leið og það er að „kontrolera“ af hálfu ríkisins alla þróun efnahagslífsins og atvinnurekstrarins í þjóðfélaginu, þannig að slíkt gerist ekki, en tryggja samt, að þróunin sé það praktísk, að það verði alltaf stærri og betur skipulögð fyrirtæki, sem taka við. Ég veit, að menn sjá, hvert ég er að fara. Ég vil aðeins vekja athygli manna á þessu. Þetta er ekkert auðvelt mál að glíma við. Og við skulum hugsa þetta alveg til enda og ræða þetta til enda og sjá lok brautarinnar, um leið og við förum inn á hana, því að með okkar reikningsheilum, sem nú eru til, eigum við að geta reiknað þetta út, meira að segja alveg nákvæmlega, hvað margir færu á hausinn og hvað margir stórir risu upp.

Við höfum lifað hér á Íslandi án verðbólgu. Auðvitað höfum við lifað hér án verðbólgu. Þeir, sem muna tímabilið frá 1920–30, þeir muna ósköp vel, hvernig gengur án verðbólgu. Það gengur með kreppum og gjaldþroti og nokkrir stórir „dóminera“ á endanum yfir öllu saman og kannske á endanum, ef kreppan er mjög harðvítug, fara þeir allir saman á hausinn líka og draga jafnvel bankana með sér. Eða þá að maður stöðvar þetta allt saman, stöðvar þessa þróun og fer inn á þá leið að láta ríkið fara að tryggja allt saman. Það var það, sem við upplifðum milli 1930 og 1940. Við erum búnir í 25 ár að lifa án þess að fá að kynnast nokkurri kreppu. Við höfum komizt hjá því, komizt hjá þeim venjulegu afleiðingum kapítalistísks atvinnulífs með því að láta verðbólguna ganga alltaf. Þetta er ósköp vel hægt. En það er ekki hægt að halda áfram með það. Þannig er það, það er ekki hægt að halda áfram með það alla tíð. Og þess vegna erum við komnir þarna að mörkum, sem við eigum að stanza við.

Og þá vil ég segja það og kasta fram þeirri spurningu hér að lokum: Er nokkur möguleiki fyrir því að ræða þessi mál hér í þingi eða nefndum þannig, að við ræðum þetta virkilega, ég mundi helzt vilja segja eins og vísindamenn, til þess að taka þessi mál fyrir og reikna þau út og allar þeirra afleiðingar? Það getum við, ef við viljum leggja saman. Er það möguleiki? Eða á að skella fram einni tillögu í dag til að tryggja sparifjáreigendur? Blessaðir sparifjáreigendurnir, það er búið að stela frá þeim í 20 ár. Eigum við ekki að tryggja þá? Því ekki það? Við skulum segja þá um leið: Jú, við verðum að tryggja útlánin líka. Útgerðarmennirnir og allir þessir, sem kaupa sína báta, þeir skulu héðan af ekki skáka í því skjólinu, hvorki nafni minn Sigurðsson né aðrir, að verðbólgan hjálpi þeim til þess að borga þetta. En við verðum að tryggja um leið, að það verði keyptir bátar, að menn vilji reka þá. Þjóðfélagið verður að tryggja það. Og við skulum reikna með, að það þurfi að kaupa eins mikið af bátum og byggja eins mikið af hraðfrystihúsum og við höfum gert. Og það verður að liggja fyrir um leið, hverjir ætla að gera það. Þeir verða að taka upp áætlunarbúskap með það sama, ef þeir ætla ekki að lenda í kreppum og öðru slíku.

Það er engin auðveld völ í þessum efnum. Við erum að stjórna þjóðfélagi, sem er hvað rekstur snertir eins og eitt stórt fyrirtæki. ASEA, það sænska rafmagnsfyrirtæki, hefur, ef ég man rétt, 38 þús. verkamenn í sinni þjónustu, svipað og er í Alþýðusambandi Íslands. Og ef við viljum tryggja okkar fólki lífsstandard, sem sé jafnhár og í Svíþjóð, eða annað slíkt, þá verðum við að reka hlutina jafnvel og stærstu auðfélögin gera þar. Og þegar ég heyri hjá sumum mönnum, að við viljum hafa ákaflega marga sjálfstæða, bjargálna atvinnurekendur, kannske með einn verkamann í sinni þjónustu, hvernig ætlið þið að reka nútímaþjóðfélag með slíku móti? Það er ósköp fallegt að segja það. En ég veit, að skynsamari menn meðal framsóknarmanna mundu segja: Nei, við viljum hafa nákvæma samvinnu milli allra þessara manna. — En það munu nú kannske ekki allir vera á því. Þess vegna er, þegar við förum út í að ræða þessi mál, ákaflega vinsælt að koma fram með svona hluti: Við skulum verðtryggja spariféð — og segja svo í grg.: Náttúrlega er um leið óhjákvæmilegt að vísitölubinda útlán. — En ef við ætlum svo að ræða allar afleiðingarnar af þessu, skoða það niður í kjölinn og það þarf að gera í þeirri nefnd, sem þetta fer til, þá koma öll vandamálin upp fyrir okkur, sem við mundum glíma við næstu 10–20 árin eftir stöðvun verðbólgunnar á Íslandi, sem er orðin mjög nauðsynleg fyrir okkur, a.m.k. að stöðva hana það mikið, að hún verði ekki nema sú hæga verðbólga, sem annars á sér yfirleitt stað í þjóðfélögunum og er alveg nauðsynleg. Viss hæg verðbólga er nauðsynleg í hverju þjóðfélagi, af því að það þýðir mátt lífsins sjálfs á móti því dauða eignarréttarskjali. Það er krafa framvindunnar og framþróunarinnar í sjálfu þjóðfélaginu og framfaranna á móti skuldabréfinu, sem sá maður á, sem upphaflega hafði kannske til fé þarna. Öll þróunin hefur alltaf gengið út á það að smáafskrifa skuldabréfin í þjóðfélaginu.

Ég vildi nú aðeins koma með þessar hugleiðingar, fyrst farið var að ræða þetta mál hérna og það mjög skynsamlega og vel yfirleitt. Við vitum, að einmitt okkar atvinnurekendastétt hefur sérstaklega grætt á verðbólgunni allan þennan tíma. Ef við værum dómarar yfir henni með spursmálinu, því gamla latneska „qui bono“ hverjum til góðs, þá sjáum við, að atvinnurekendastéttin í dag er orðin forrík auðmannastétt á Íslandi; sem þarf að láta gera sérstakar ráðstafanir til þess að fela sinn auð og vera skattfrjáls, eins og aðallinn í Frakklandi fyrir stjórnarbyltinguna. Okkar peningaaðali hér í Reykjavík hugsar nokkuð svipað og álíka skammsýnt og franski aðallinn. Verkalýðurinn hins vegar býr við það, að laun lægst launuðu verkamanna eru í dag 10% lægri, en þau voru 1945, þrátt fyrir það að það hafi verið barizt allmikið í 20 ár fyrir því að reyna að leiðrétta hans hag.

Við sláum því þess vegna föstu, að verðbólgan hefur verið atvinnurekendastétt Íalands til góðs, og ýmislegt hefur hlotizt af henni líka, sem er til góðs, þó að hún hafi hins vegar í heild verið á kostnað fyrst og fremst sparifjáreigendanna og þar næst launþeganna almennt. Ef við nú sláum því föstu, að nú stöðvum við, nú setjum við vísitölutryggingu á sparifé og við tökum upp vísitölutryggingu á útlán, þá skulum við um leið á þessu þingi, þar sem við gerðum svona ákvarðanir, gera okkur ljóst, hvernig við rekum atvinnulífið á Íslandi framvegis án þess að fá atvinnuleysi og án þess að fá kreppu, því að hvorugt viljum við.

Það er vandasamt að sigla þar á milli og rekast á hvorugan klettinn, verðbólguna eða kreppuna. Og það er erfið sigling. Ef við ættlum að stjórna þeirri siglingu, þurfum við að þekkja öll lögmál sjávar og vinda, sem um okkur leika þar, lögmál þjóðfélagsins, sem við búum í.