19.12.1964
Neðri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

106. mál, söluskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér sýnist svo sem þetta muni verða sú eina umr. um þetta stóra mál, sem hv. dm. almennt geta tekið þátt í, en mér skilst, að 2. umr. muni verða mjög stutt og 3. umr. verður útvarpsumr., þannig að ég vildi þess vegna nota tækífærið til þess að segja mitt álít á þessum hlutum.

Það var mjög mikil gleði í vissum hópum hér í bænum, þegar þetta söluskattsfrv. Var lagt fyrir. Það færðist bros á vör hjá fasteignasölum. Þeir sögðu, að nú færi loksins eitthvað að lifna yfir bisnessinum aftur. Og þeir vonuðust til þess að geta nú heldur farið að koma mönnum til að kaupa hitt og þetta, vegna þess að menn vildu forða peningum sínum frá því að eyðast í eldi verðbólgunnar. Það var líka mikill fögnuður hjá bílasölunum hérna í bænum, sem áttu dálítið af bílum á lager og voru ekki alveg vissir um, hvernig ganga mundi að selja þá. Bílarnir fóru að renna út hjá þeim.— Þáð var vitanlegt frá þeirra sjónarmiði; að eftir nýár mundi þetta allt saman vera hækkað: Þess vegna er um að gera að fá menn nú til þess að kaupa. M.ö.o.: hjá þeim hluta atvinnurekendastéttarinnar í Reykjavík, sem beinlínis stundar braskið sem sinn aðalgróðaveg, varð mikill fögnuður. Þessi braskarastétt, sem er rík og fjölmenn hérna í Reykjavík, situr raunverulega á herðum alls vinnandi fólks í landinu, græðir á þessu fólki, sem sjálft þrælar baki brotnu, féflettir það. Fyrir þessa braskarastétt er hvert frv. eins og það, sem hæstv. fjmrh. nú flytur, eins og eiturlyfjasprauta í sjúkling, sem er orðinn vanur við þetta. Hann tekur kipp og dugir eitthvað ofurlítið betur í sínu þokkalega starfi á næstunni, þangað til það er orðin brýn þörf fyrir hann að fá nýja eitursprautu. Raunverulega er þessi braskarastétt, sem grætt hefur fyrst og fremst á verðbólgunni og lifað á henni, eins og eiturlyfjasjúklingur, en bara ólíkt þeim, sem við þekkjum annars af slíkum í þjóðfélaginu, að þessi stétt drottnar yfir landslýðnum. Hún er fyrirhyggjulaus um, hvernig allt eigi að veltast, og hún álítur, að verkalýðurinn og sjávarútvegurinn eigi alltaf að bera sig uppi, og í hvert skipti sem hún þurfi að fá nýja eitursprautu, skuli bara verkamönnum og sjávarútveginum vera gert að blæða. Og hæstv. fjmrh. er einmitt með þessu frv. að gefa þessa eitursprautu. Hann er sá ekta fulltrúi fyrir þessa braskarastétt í Reykjavík.

Hann var ofurlítið búinn að hugsa um eitthvað af þessari stétt rétt áður. Það var verið hér að pína gegnum þingið að gefa út, — var það ekki 75 millj. kr. í skattsvikabréfum? –sem þyrfti ekki einu sinni að telja fram eða neitt slíkt, en fá bæði háa vexti og vísitöluarð. Það voru 73 millj. Það var búið að gefa þeim, sem þetta keyptu, 2 millj. bara með þessu frv. Hæstv. fjmrh. kann auðsjáanlega mjög vel að hugsa um sína. Svo er ekki að tala um aðfarirnar við innheimtu á þessu. Í Íslandssögunni lærðum við það í gamla daga, að það hefði verið frekar ljótt hjá þeim útlendu konungum, sem við þá heyrðum undir, þegar þeir seldu landið á leigu til skattheimtu, — það hefði þótt frekar ljótt fyrirbrigði. Þá var það sem sagt þannig, að viðkomandi skattheimtumenn, hinir og þessir aðalsmenn, ekki peningaaðalsmenn, eins og nú tíðkast; heldur aðalsmenn, með fínar nafnbætur venjulega. fengu að heimta eins mikinn skatt af þjóðinni og þeir gátu, en áttu svo að skila til kóngsins einhverjum ákveðnum hluta. Ef þeir voru mjög duglegir, heimtu þeir kannske 30% meira inn en þeir skiluðu. Þeir voru jafnvel enn þá harðvítugri, kannske 50%, og þetta þótti ein mesta niðurlægingin í íslenzkri sögu, þegar landið var þannig selt á leigu til skattheimtu. Það er þessi aðferð, sem er tekin upp í dag. Og hún er sérstaklega kærkomin auðsjáanlega þeim mönnum, sem fyrst og fremst treysta á hæstv. fjmrh. til forsjár. Hann virðist ekki mega um neina aðra aðferð hugsa heldur en þessa, að selja sínum skattheimtumönnum þjóðina á leigu til þess að innheimta hjá henni eins og þeir geta og stela undan eins og þeim þóknast. Það er það, sem er að gerast.

Það er ósköp eðlilegt, að allir þessir menn, allur þessi hluti verzlunarauðvaldsins í Reykjavík, hafi orðið mjög glaður við að sjá svona frv. Fyrir þessa menn er hæstv. fjmrh. að vinna, hann er þeirra maður. Hins vegar hafa orðið nokkur önnur viðbrögð hjá öllum þorra manna. Forusta verkalýðssamtakanna hefur þegar látið í ljós viðbrögð verkalýðsins. Hjá verkamönnum hefur gripið um sig reiði út af þessu frv. Verkalýðsstéttin í landinu og starfsmannastéttin hugsa ábyrgt um framvindu þessa þjóðfélags og færðu fórnir í sumar til þess að reyna að tryggja, að hér væri hægt að skapa heilbrigt þjóðfélag, en ekki sjúkt eiturlyfja- og braskþjóðfélag. Og verkalýðsstéttin gerði samkomulag um að stöðva verðbólguna, vegna þess að hún áleit, að hún væri að verða þjóðhættuleg. Hjá verkalýðssamtökunum og þeirra forustu, stjórn Alþýðusambandsins, eru þess vegna vonbrigði. Þau höfðu haldið, að hæstv. ráðh. mundu reynast menn til að reka þá pólitík, sem var óhjákvæmileg afleiðing af júnísamkomulaginu. Þess vegna lýsti stjórn Alþýðusambandsins þessu söluskattsfrv. hæstv. fjmrh. alveg réttilega sem eitri í ógróin sár. Það, sem er eiturlyfjasprauta fyrir sjúkan braskslíkama braskstéttarinnar í Reykjavík, er eitur í ógróið sár hjá þeim verkalýð landsins, sem heldur þjóðfélaginu uppi með sinni vinnu og ætlast til þess, að stjórnendur landsins reyni að stjórna því sem sæmilega heilbrigðu þjóðfélagi.

Og svo er hitt, að þessi verkalýður, sem í júní í sumar lagði fram sinn skerf til þess að reyna að skapa friðsamlega sambúð í okkar þjóðfélagi, sér nú, að hann á einskis annars úrkostar en að vígbúa sig til harðrar baráttu. Og það er annar aðili við hliðina á verkalýðnum, sem lítur líka áreiðanlega með óhug og ótta til framtíðarinnar, og það er sá hluti atvinnurekendastéttarinnar, sem rekur sjávarútveginn. Eins og fram kom greinilega áðan í ræðu hv. 5. þm. Austf., er engum efa bundið, að hjá sjávarútveginum og þeim, sem finna til ábyrgðarinnar af rekstri hans og fiskiðnaðarins, er nú reiði og vonbrigði yfir þessum ráðstöfunum.

M.ö.o.: sá hluti atvinnurekendastéttarinnar, sem ekki rekur þá pólitík og getur ekki rekið hana að velta alltaf af sér, heldur verður að standa í samkeppni við útlenda aðila og selja útúr landinu, sá hluti atvinnurekendastéttarinnar sér, að með þessum eiturlyfjasprautum handa braskstéttinni er verið að vega að honum og spilla fyrir honum. Það er þess vegna óhjákvæmilegt fyrir okkur að taka það til alvarlegrar athugunar, hvað hér er að gerast og hvað hér þurfi að gera, hvað þurfti að gera strax í vor, þegar búið var að gera júnísamkomulagið, sem svo að segja allir landsmenn hafa fagnað, líka sá verkalýður, sem fékk þó allt of lítið út úr því samkomulagi, sem vildi leggja það á sig að gera vopnahlé til eins árs, ef það væri hægt að gera þjóðfélagið eitthvað heilbrigðara, þannig að það þyrfti ekki að standa í stríði þrisvar sinnum á ári, eins og seinast var orðið, til þess að koma alltaf út með lægra kaup en áður eftir 3 mánuði frá verkföllunum. Það, sem þurfti að gera strax eftir júnísamkomulagið, var, að hæstv. fjmrh. skildi það, að nú þurfti hann að taka fjárl. til endurskoðunar. Ef það er meining að stöðva verðbólguna og hætta þessari óábyrgu pólítík, þá voru fjárl. það fyrsta, sem varð að taka til endurskoðunar. Og ef hæstv. fjmrh. hefur ekki skilið þetta, hefur hann annaðhvort ekki skilið anda júnísamkomulagsins eða er ekki fær um að framkvæma þann anda, og það þýðir: ekki fær um að vera fjmrh.

Ég tók eftir því í Alþýðublaðinu nýlega, að það voru taldir í leiðara þrír möguleikar sem höfðu staðið fyrir með afgreiðslu fjárl., og fyrsti kosturinn var talinn, að þar hefði þurft að skera niður. Ég kom líka stuttlega inn á þetta við 2. umr. fjárl., að það hefði verið nauðsynlegt, ef menn ætluðu sér að framkvæma þá stefnu, sem lagður var grundvöllur að með júnísamkomulaginu. Í þessum leiðara Alþýðublaðsins var talað um, að stjórnarandstaðan hefði ekki komið fram með neina till. í þá átt. Það er mikill misskilningur, ef menn halda, að það sé stjórnarandstaðan, sem eigi að undirbúa fjárl. Það er verk fjmrh., og það er mjög slæmt, ef maður er búinn að sitja mjög lengi í embætti fjmrh., sem er enn þá ekki farinn að skilja það verkefni sitt. Það, sem fjmrh. bar að gera eftir júnísamkomulagið, var hins vegar í fyrsta lagi að byrja sjálfur að undirbúa fjárl. og í öðru lagi að ræða þá þegar við verkalýðssamtökin um, hvort þau e.t.v. vildu standa að afgreiðslu fjárlaga, sem væru í anda júnísamkomulagsins.

Það, sem þurfti að gera, var í fyrsta lagi sparnaður í rekstri, eins og oft hefur verið talað um. En ég verð að segja, að meðan menn eru að gera eins veigamiklar breytingar og það er að lækna verðbólguna, sem búin er að geisa í 20—25 ár, og taka upp stöðvunarstefnu, þá getur ósköp vel verið, að menn séu ekki búnir að finna út allan þann sparnað eða treysta sér til þess í einu vetfangi. Og þá er það líka annar hlutur, sem vel er hægt að taka þó nokkuð meira út úr fjárlögunum en gert er, og það er fjárfestingin. Það er ekkert spursmál um það, hv. 5. þm. Austf. kom nokkuð inn á það áðan, og ég vil taka mjög undir það, — það er ekkert spursmál um það, að við almennt, bara þessi kynslóð, sem nú er uppi á Íslandi, er látin spara miklu, miklu meira en góðu hófi gegnir. Með þeirri fjárfestingu, sem við framkvæmum, upp undir 30% af öllum þjóðartekjunum, er verið að safna óhemjuauði handa komandi kynslóðum, og þessum auði er safnað með því að láta verkalýðinn vinna lengst allra vinnandi stétta í Evrópu og bera minna úr býtum en í nokkru landi í kring. Og það er verið að láta hann þræla svona til þess að safna eign, sem hann nýtur ekki að neinu leyti að heita má. Menn, sem búnir eru að þræla 20 ár t.d. til þess að koma sér upp íbúð hér, eignast bil máske líka, hafa unnið máske flesta sunnudaga í árinu og aldrei tekið orlof árum saman og eru orðnir útslitnir menn, ekki einu sinni færir um að njóta þess, sem þeir hafa eignazt, — þetta er nokkurn veginn myndin af lífi svo og svo stórs hluta úr þessari kynslóð. Og þetta stafar af vitlausri fjárfestingarpólitík. Hún gildir í þjóðarbúskapnum yfirleitt og gildir um ríkið líka. Bara á einni einustu grein fjárl., 20. gr., eru núna 200 millj., ef ég man rétt. Það væri ekki nokkur vandi að taka 100 eða 150 millj. af þessu út af 20. gr., skella því inn á heimildagr. og taka lán út á það og fyrirskipa Seðlabankanum að lána með 1—2% vöxtum. Engu að síður, þó að allt væri tekið út af 20. gr., sem heita má, þá eru samt stórkostlegar eignaraukningar eftir í frv., allir barna- og gagnfræðaskólarnir og annað slíkt, fyrir utan þorrann allan af öðrum framfararáðstöfunum.

Ef við ætlum að reyna að stöðva okkur á þessari verðbólgubraut, verðum við að þora að horfast í augu við að gera praktískar ráðstafanir. Og það verður að vera sá maður í fjármálaráðherraembættinu, sem hefur hugrekki til þess eða a.m.k. einhvern vilja til þess að ráðgast við aðra um, hvort það sé hægt. Ef hæstv. fjmrh. hefði, á sama máta og hæstv, forsrh. var búinn að gera áður, snúið sér til verkalýðssamtakanna og talað við þau, sagt við þau beinlínis, sagt við Alþýðusamband Íslands: Treystið þið ykkur til þess að standa að því, ef ég vil reyna að útbúa fjárl. þannig, að þetta verði ekki verðbólgufjárlög og hrindi nýrri skriðu af stað, — treystið þið ykkur til að standa að því? — Það hefði verið það skynsamlega af honum að gera: Verkalýðssamtökin eru mjög sterk hér á þingi. Þau hafa hér mikil áhrif. Og með slíku móti er máske einmitt hægt að halda áfram í anda júnísamkomulagsins. Hvað gerir hæstv. fjmrh. í staðinn? Hann er allt of finn maður til að vera að tala við verkamenn og verkalýðssamtök. Hann bara lætur sína embættismenn útbúa sín fjárlög, útbúa sitt söluskattsfrv. og kasta svo stríðshanzkanum inn í þingsalina.

Það er ekki gott ástand, þegar hægt er fyrir einn aðila, eins og hæstv. fjmrh. í þessu efni, að spilla og eyðileggja allt, sem aðrir eru að reyna að byggja upp. Þegar verkalýðssamtökin og sá hluti ríkisstj., sem stóð að því að koma júnísamkomulaginu á, hafði reynt að skapa vopnahlé í landinu, þá rýkur nú hæstv. fjmrh. fram og kastar stríðshanzkanum til verkalýðssamtakanna. Þar með byrjar gamla kapphlaupið. Ég skal ekki segja endilega, að það verði skæðara en það væru ólögleg verkföll. Við sjáum, að ólöglegu verkföllin voru byrjuð áður. En hitt er gefið, að þar er um leið stílað upp á harðvítuga stéttabaráttu í landinu á ný og vopnahlé rofið. Er virkilega þörf á að láta fara svona? Er þörf á að láta þá menn, sem fyrst og fremst finna sig sem fulltrúa braskaranna í Reykjavík, en ekki heilbrigðs atvinnulífs í landinu, — er þörf á að láta þá ráða um, hvað gert er hér á Alþ.?

Hv. 5. þm. Austf. kom hér áðan með áskorun til ríkisstj. um að fresta nú þessu máli, og ég vil taka undir þá áskorun. Það er það eina af viti, sem hægt er að gera núna, ef ekki á að taka hvern kollhnísinn á fætur öðrum. Það er að fresta þessu máli núna, og nota tækifærið í janúar til þess að taka upp þá samninga, sem átti að taka upp strax og júnísamkomulagið var gert til að semja við verkalýðssamtökin um framvinduna, um afgreiðslu fjárl. og slíkt.

Ég tek eftir, að í málgagni Alþfl., í Alþýðublaðinu, er talað um nauðsyn á víðtæku samkomulagi. Það víðtæka samkomulag þarf vissulega að gera, en það þarf að gera það áður en þessir hlutir eru afgreiddir. Það þarf að byrgja brunninn, áður en barnið dettur ofan í. Það þarf að semja um áframhaldið .af þessu, áður en verðbólgunni er hleypt af stað. Ég held, að það hafi líka staðið í Alþýðublaðinu, að það hafi þurft traust tök á þessum málum, — þar með gefin í skyn þessi linu tök á fjárl. Þetta á að láta reka fyrir vindi, í staðinn fyrir að reyna að stjórna því. Það er rétt, það vantar traust tök. Og þau tök eru ótraust vegna þess, að ríkisstj. er of veik til þess að framkvæma þá pólitík, sem byrjað var á í júnísamkomulaginu. Þegar byrjað er á að reyna að stöðva verðbólgu, sem búin er að geisa svona lengi, þá þarf oft að gera ráðstafanir, sem kunna að vera dálítið óvinsælar hjá mönnum. Deyfilyfjasprautur geta verið mjög vinsælar, þær geta meira að segja skapað alls konar fjörkippi, en mönnum er ljóst, að til lengdar eru þær skaðlegar. Og þegar menn byrja að venja sig af þeim, getur það verið dálítið erfitt fyrst og máske alveg sérstaklega erfitt fyrir braskstéttina í Reykjavík, sem er vön að safna til sín óhemjuauðæfum með þessari verðbólgu. Þess v egna þurfti að vera sterk ríkisstj. Það þurfti sterka ríkisstj. til þess að geta skapað framhaldið af júnísamkomulaginu í vor. Og ef menn vildu ekki gera þá ríkisstj. sterkari með því að breyta sjálfri ríkisstj., þá þurftu menn að gera hana sterkari með því að reyna að tryggja samninga við verkalýðssamtökin, samninga við verkalýðssamtökin um stjórnina á efnahagslífinu, því að það var það, sem verið var að gera í vor. Það er þetta, sem ekki hefur verið gert, og það er hart, að tækifærinu skuli hafa verið sleppt. Og því er sleppt, nema því aðeins að þetta frv. sé stöðvað nú og janúarmánuður notaður til þess að taka upp þá samninga, sem átti að vinna að síðari hluta þessa árs. Það væri hægt að afgr. fjárl. með einhverju gati í þau, sem stundum hefur verið gert áður, og lokið við þau í janúarlok. Það væri enginn vandi, ef vilji væri fyrir hendi að reyna að afstýra þeirri ógæfu, sem hér er að skella yfir.

Hvað gerir svo hæstv. fjmrh. með þessu frv. gagnvart verkalýðssamtökunum? Hæstv. fjmrh. stingur með þessu frv. í sinn vasa 3% kauphækkun alls þorra launþega á Íslandi. Atvinnurekendastéttinni á Íslandi má vera sama, hvort hún borgar þau 3%, sem hér er gengið út frá að kaup eigi að hækka um, sem hækkun vegna vísitölu á kaupgjald eða sem raunverulega grunnkaupshækkun. Það kemur í sama stað niður fyrir atvinnurekandann, en fjmrh., sem stundum áður hefur látið þung orð falla til verkalýðshreyfingarinnar um, að hún væri að heimta og setja fram kröfur, sem þjóðfélagið þyldi ekki, hann kemur nú, fer í vasa hvers atvinnurekanda, tekur úr vasa hans 3% kauphækkun til sín frá hverjum einasta verkamanni í landinu, sem atvinnurekendur síðan sjá um raunverulega innheimtu á. Hann er ekki smátækur, hæstv. fjmrh. Hann mótmælir víst ekki, þegar verkamenn koma og heimta 10—20%, þegar hann einn í sinn eyðslusjóð heimtar 3% kauphækkun þarna, og hvað sjávarútveginn snertir, eins og var sýnt fram á áðan, miklu, miklu meiri, upp í 25%. Hvað þýðir þetta? Það þýðir, að í vor, þegar verkalýðssamtökin leggja fram sinn reikning, sem þau frestuðu í júní síðasta ár, þá koma þau ekki aðeins til með að leggja fram þessi 3%, sem fjmrh. er í dag að taka af þeim, heldur miklu, miklu hærri kauphækkun, sem atvinnurekendur verða að borga ofan á það, sem fjmrh. gerir ráð fyrir að láta borga nú. Og þá stendur líklega ekki á hæstv. fjmrh. að hrópa upp: Nei, þetta þolir þjóðfélagið ekki.

Verkalýðssamtökin í landinu sýndu mikið langlundargeð í júnísamningunum í vor, — svo mikið langlundargeð, að margir undruðust. En ég býst við, þykist vita það með vissu, að það var misskilningur verkalýðssamtakanna þá, að það væri vilji innan ríkisstj. fyrir að reyna að stöðva verðbólguna. Hins vegar er okkur öllum, sem þekkjum pólitík auðmannastéttarinnar í Reykjavík, Ijóst, að þar eru skiptar skoðanir. Þar eru menn, sem búnir eru að græða á verðbólgu áratugum saman, og þeir vilja ekki sleppa þeim gróða, og þeir eiga líka sína fulltrúa í ríkisstj. Ég býst þess vegna við, að þó að það hafi verið erfitt fyrir verkalýðssamtökin að knýja fram að ganga að því samkomulagi, sem gert var í vor, þá hafi líka verið erfitt fyrir ýmsa innan ríkisstj. að koma því í gegn í sínum hóp. Og það sér maður á því, sem nú gerist með þessum söluskatti. Þarna eru öfl — að verki, sem áreiðanlega voru undir niðri á móti því að gera júnísamkomulagið í sumar, þó að þau yrðu undir. Nú ætla þau að ná sér niðri, nú ætla þau að hleypa sinni verðbólgu af stað aftur, nú ætla þau að ræna af verkalýðnum og gera honum erfiðara fyrir um að fá raunverulega grunnkaupshækkun fram í vor, og hæstv. fjmrh. virðist vera foringinn fyrir þeim hóp braskstéttarinnar í Reykjavík.

Ég verð að segja það, að svona er ekki hægt að stjórna einni þjóð. Þegar sú stétt landsins, sem þarna á um sárast að binda og verkalýðurinn, sú stétt landsins, sem býr við 10% raunverulega lægri kaupmátt dagvinnukaups en gerðist fyrir 20 árum, leggur það á sig að gera vopnahlé til eins árs til þess að reyna að fá verðbólguna stöðvaða, þá skuli vera innan yfirstéttarinnar sjálfrar svo óábyrg öfl, að þau leiki sér að því, eins og með þessu söluskattsfrv., að eyðileggja það samkomulag.

Þjóðfélagið, okkar litla þjóðfélag, þolir ekki svona vitlausa fjármála- og efnahagspólitík. Þessir hlutir verða að breytast, og menn voru að vona í vor, að þeir væru að breytast. Ég heyri meira að segja sagt, að sérfræðingar ríkisstj., þessir blindu kettlingar, sem hún hefur treyst á, væru farnir að sjá. Ég hef sagt, að bæði Jóhannes Nordal hafi skrifað í Fjármálatíðindin um, að nú þyrfti að leggja á aðra skatta en söluskatta, skatta, sem kæmu jafnvel við eignastéttina, og Jónas Haralz hafi sagt á fjvn.-fundi, að nú þyrfti jafnvel að leggja á skatt eins og benzínskatt heldur en að fara að leggja á söluskatt á ný. Blindu kettlingarnir virðast bara vera eftir í fjmrn. Það er anzi hart, þegar þeir, sem hafa mikið til stjórnað verðbólgupólitíkinni fram að þessu, eru nú loksins farnir að sjá, að þetta gangi ekki lengur, þá skuli hæstv. fjmrh. gera sig sekan um að halda áfram þessari vitlausu pólitík, þegar þó ríkisstj., sá meiri hl. hennar, var þó búinn að staldra við og var búinn að taka höndum saman við verkalýðshreyfinguna um að reyna að stöðva þessa óheillaþróun. Að vísu, svo að maður láti allt gaman til hliðar, — ég veit, að hæstv. fjmrh. er enginn blindur kettlingur. Hann veit það alveg hreint, hvað hann er að gera með þessu söluskattsfrv. Það er tvennt, sem fyrir honum vakir. Það er í fyrsta lagi að reka þá hagsmunapólitík, sem braskarastéttin í Reykjavík heimtar án tillits til sjávarútvegsins og tillits til verkalýðsins. Og það er í öðru lagi, það sem fyrir honum vakir, að eyðileggja þá pólitík hæstv. forsrh., sem var tekin upp með júnísamkomulaginu í vor, það samstarf stéttanna, það samstarf verkalýðsins í landinu og sjávarútvegsins og allra heilbrigðra atvinnurekenda í landinu, sem þá var reynt að skapa. Það er þetta, sem hæstv. fjmrh. er að gera með þessu söluskattsfrv. Við vitum ósköp vel, að innan yfirstéttarinnar hér í Reykjavík eru og hafa verið á undanförnum árum og áratugum hagsmunamótsetningar. Það hefur annars vegar verið hér það braskaravald, sem lifir sníkjudýralífi á þessu þjóðfélagi, fólk, sem krefst þess, að verðbólga sé rekin af fullum krafti og það miklum krafti, að það sé rænt jafnóðum öllum þeim kjarabótum af verkamönnum, sem þeir eru að afla. sér með stéttabaráttu sinni. Og við vitum, að það er hins vegar sá hluti atvinnurekendastéttarinnar, fyrst og fremst í sjávarútveginum, sem getur ekki velt af sér á sama máta og braskararnir gera, en á sjávarútveginum byggist öll afkoma Íslands. Þess vegna hefur það verið svo hvað eftir annað á undanförnum áratugum, að verkalýðshreyfingin og sjávarútvegurinn hafa orðið að taka höndum saman og reyna að skapa heilbrigt þjóðfélag á Íslandi í baráttu við þá braskarastétt hér í Reykjavík, sem alltaf hefur skapað alla spillinguna í okkar þjóðfélagi.

Ég álít, að hæstv. fjmrh. komi fram með því frv., sem hér liggur fyrir, sem fulltrúi þessarar rótlausu braskarastéttar í þjóðfélaginu, sýni þar með algert skilningsleysi, ekki bara á þörfum verkalýðsins, þess náttúrlega gat maður ekki ætlazt til af honum, en á þörfum sjávarútvegsins. Er máske einn liður í þeim fyrirætlunum, sem þetta braskaravald hefur, að reyna að brjóta niður þá þjóðlegu atvinnuvegi Íslendinga og reyna að koma útlendu auðvaldi hér inn í landið, en láta það innlenda drepast. A.m.k. er það engin tilviljun, þó að slíkum mönnum sé ekki samhengið ljóst, að hæstv. fjmrh. skuli vera fylgjandi hvoru tveggja.

Það er um tvær leiðir að ræða í pólitíkinni hér hjá okkur, eins og nú standa sakir. Önnur leiðin er að halda áfram þá leið, sem hafin var með júnísamkomulaginu. Það er leið samstarfs á milli stéttanna í okkar þjóðfélagi, samstarfs á milli verkalýðs- og starfsmannasamtakanna annars vegar og þess, sem heilbrigt er í íslenzkri atvinnurekendastétt, hins vegar. Sú leið þýðir stöðvun verðbólgunnar. Af því að fara þá leið hlýtur alltaf að leiða í fyrsta lagi festu og sparnað í fjármálum ríkisins. Í öðru lagi hlýtur at því að leiða, að það verður að hafa yfirsýn, sem raunverulega þýðir yfirstjórn samkvæmt fyrirframgerðum áætlunum á okkar þjóðarbúskap í stað þeirrar ringulreiðar, sem annars er. Það er óhugsandi að ætla að stöðva verðbólguna öðruvísi en að stjórnarvöldin sjálf hafi yfirsýn yfir þróunina í landinu. Verðbólgan er annars vegar sem hættan, atvinnuleysið er hins vegar sem hættan. Það eru þessir tveir klettar, sem þjóðarskútan rekur upp í, annan hvorn þeirra, ef alltaf er látið reka fyrir öldum og vindi. Ef þjóðarskútuna á ekki að reka upp í annan hvorn klettinn, verður að vera stjórn á henni. Þá verða að vera hugsandi menn við stýrið, sem verða að vita, hvert þeir ætla að fara, og gera sér sínar áætlanir um, hvert þeir séu að stefna, en rekur ekki á einhverjum öldum framboðs og eftirspurnar eða einhvers brasks upp í annan hvorn klettinn.

Ég ræddi hér nýlega, þegar ég var að sýna fram á ýmislegt, sem verðbólgan hefði skapað, um fjörkipp, sem hún hefði valdið í þjóðfélaginu, og sýndi fram á hætturnar, sem gætu orðið af atvinnuleysi, og það er alveg gefið, að hjá svo lítilli þjóð eins og okkur verður að varast þetta hvort tveggja, og það er ómögulegt án þess að hafa stjórn á þjóðarskútunni. Þetta verða menn að gera sér ljóst. Það þýðir, að það verður smátt og smátt að breyta um þá stjórnarstefnu, sem verið hefur, að láta reka fyrir vindi. Það verður að skapa ákveðna fyrirhyggju og móta fyrirætlanir um, hvað menn ætla að gera í þessum efnum. Júnísamkomulagið var aðeins lítið upphaf að því að fara slíka leið, og það þurfti að halda því áfram. Í svona litlu þjóðfélagi eins og okkar er góð sambúð á milli sterkustu stéttanna í þjóðfélaginu alveg lífsspursmál og eina leiðin til öruggra framfara og til raunverulegra bættra kjara hjá verkalýðsstéttinni. Þess vegna er það, að verkalýðshreyfingin hefur orðið fyrir miklum vonbrigðum einmitt af þessu frv. Með þessu frv. er farið að hverfa frá þeirri leið, sem hafin var með júnísamkomulaginu. Maður getur ósköp vel skilið, að það geti gengið nokkuð skrykkjótt til að byrja með fyrir þá aðila, sem hafa staðið í verðbólgunni öll þessi undanförnu ár og áratugi jafnvel, að hverfa frá því. En þá þurfti að taka því betur höndum saman um að reyna að halda áfram þá leið, sem byrjað var á með júnísamkomulaginu.

Hver er svo hin leiðin, sem verið er að fara inn á núna með þessu frv. Það er leið verðbólgunnar á ný. Það er leið harðnandi stéttastríðs hjá þjóðinni. Það er leið þeirra kippa í þjóðarbúskapnum, í braskinu, þegar sprauturnar eru gefnar. Það er leið braskaravaldsins, sem ögrar þjóðinni, um leið og það arðrænir hana. Það er leið þess ófarnaðar, sem endar með efnahagslegu ósjálfstæði þjóðarinnar. Og það var einmitt það sérstaklega, sem verkalýðshreyfingin gerði, þegar hún félist á júnísamkomulagið í vor. Hún sá fram á, að með áframhaldandi verðbólgu mundi þetta allt saman enda með því, að Ísland missti fyrst sitt efnahagslega sjálfstæði og síðan sitt pólitíska sjálfstæði, því að þau lögmál, sem sérfræðingar ríkisstj. hafa oft ráðlagt henni að beita hér á Íslandi, það eru lögmál, sem aðeins eiga við í stórum, voldugum auðvaldssamfélögum, eins og t.d. Bandaríkjunum eða efnahagssamvinnu Evrópu. Og innlimun Íslands í slíkar stórar efnahagsheildir var eina rökrétta afleiðingin af því að reyna að framfylgja þeirri pólitík að láta kapitalismann „kontrolera“ sig sjálfan.

Fyrir okkur á Íslandi, er ætlum að halda áfram efnahagslegu sjálfstæði okkar, er enginn annar möguleiki en að reyna að stjórna Íslandi sem sjálfstæðri efnahagslegri heild, og til þess þarf sú heilbrigða atvinnurekendastétt í landinu og verkalýðs- og starfsmannasamtökin að geta tekið höndum saman. Þess vegna harma ég það ákaflega mikið, að þetta frv. skuli hafa komið fram. Eftir að það hefur komið fram, ef það verður samþykkt, þá á verkalýðurinn og starfsmannastéttin enga aðra leið en að herða nú baráttuna um allan helming, fátækari að vísu að jarðneskum munum en menn voru, þegar þeir háðu hana seinast, en ríkari af reynslunni. Og það er hart, því að við þurfum einmitt í okkar þjóðfélagi að geta tekið höndum saman. Þess vegna vil ég enda þessi orð með því að taka undir enn á ný þá áskorun, sem kom fram hér hjá formanni okkar þingflokks, hv. 5. þm. Austf., að hæstv. ríkisstj. stöðvi nú þetta frv., hún taki þetta mál til endurskoðunar, hún geri það, sem hæstv. fjmrh. vanrækti að gera, að tala við verkalýðssamtökin og vita, hvort hægt er að fá samkomulag um slíka afgreiðslu mála hér á Alþ., að við förum ekki aftur að steypa okkur hvern kollhnísinn á fætur öðrum. Við vorum byrjaðir að standa á tveim fótum og ganga eins og menn. Nú á sem sé að byrja fyrsta kollhnísinn og síðan þann næsta í sambandi við sjávarútveginn og svo hvern á fætur öðrum. Þetta er ekki okkar virðingu samboðið. Þetta er í beinni andstöðu við alla hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, og þetta er stórhættulegt fyrir hennar efnahagslega sjálfstæði, ef þannig á að ganga.

Ég þykist sjá það, að hæstv, fjmrh. álítur sig ekki þurfa að tala við Alþ. og vera hér við, þegar verið er að ræða hans mál, frekar en honum fannst hann þurfa að tala við verkalýðssamtökin, eftir að júnísamkomulagið var gert í sumar. En hann má vita það, að verkalýðssamtökin koma samt sem áður til með að tala við hann, þegar þar að kemur.