10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í D-deild Alþingistíðinda. (2920)

41. mál, verðlags- og peningamál

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi, að það eru mjög mörg atriði í grg. hv. flm. fyrir þessari till., sem ég er ósammála, enda fer hann þar út í almennar stjórnmálahugleiðingar. En m.a. með tilliti til þess, að hv. flm. á nú ekki lengur sæti á þingi. þá mun ég ekki ræða það frekar. Hvað snertir hins vegar efni þeirrar tillögu, sem hér er flutt, þá tel ég hana mjög athyglisverða og ég get meira að segja sagt það, að ólöstuðum öllum þeim öðrum þáltill., sem eru á dagskrá þessa fundar, — en þær snerta margar hverjar nytsöm málefni, — þá tel ég þó, að þetta sé stærsta málið, sem fyrir þessum fundi liggur, því að, að mínu áliti var það engan veginn ofsagt, sem fram kom í framsöguræðunni, að hér er beinlínis um það að ræða að taka upp nýtt efnahagskerfi.

Ýmislegt er að öðru leyti í orðalagi bæði grg. og framsöguræðunnar, sem er dálítið nýstárlegt og skal ég ekki fullyrða, að ég skilji flm. í öllum atriðum rétt. Þennan fyrirvara tel ég rétt að hafa fyrir því, sem ég segi og þeirri túlkun, sem ég gef á hugmyndum hv. flm. En mér skilst, að hér sé um tvö nýmæli að ræða og eru bæði að mínu áliti hin athyglisverðustu. Annað nýmælið er það, að hv. flm. leggur til, að í stað framfærsluvísitölukerfisins, sem nú er yfirleitt miðað við í vísitölusamningum, hvort sem um er að ræða kaupgjaldssamninga, lánasamninga eða annað, sé tekin upp vísitala, sem sýni framleiðni eða framleiðsluafköst eða framleiðsluvísitala, eins og hv. flm. kallar það. Og lætur hann þá skoðun í ljós í grg., að skynsamlegra sé og heilbrigðara að miða við slíka vísitölu heldur en þá, sem nú er miðað við. Ég er honum í rauninni alveg sammála í þessu efni, og er það önnur meginástæðan til þess, að ég tel tillögur hans athyglisverðar. En á því eru þó framkvæmda örðugleikar, sem ég tel rétt, að sé vakin athygli á og stafa þeir aðallega af tvennu. Í fyrsta lagi hefur það komið í ljós, þegar sú hugmynd hefur verið sett fram, að eðlilegra væri að miða kaupgjaldsvísitölu við framleiðsluaukningu, heldur en vísitölu framfærslukostnaðar, að verkalýðurinn hefur verið tortrygginn gagnvart þeirri hugmynd og sú skoðun útbreidd meðal launþega, að slíkt fyrirkomulag yrði þeim óhagstæðara en það, sem nú er. Þetta tel ég að vísu á misskilningi byggt með tilliti til þess, að kjarabæturnar geta ekki undir neinum kringumstæðum orðið umfram aukningu framleiðsluafkasta. Það er að vísu hægt að semja um meiri kauphækkanir, en svarar til aukningar framleiðsluafkasta og mörg dæmi um, að slíkt hafi verið gert. En þá hlýtur það, sem umfram er aukningu framleiðsluafkasta, alltaf að renna út í sandinn, þannig að verkalýðurinn gæti aldrei orðið verr settur, þó að miðað væri við framleiðsluaukninguna, en vísitölu framfærslukostnaðar, en hins vegar vel hugsanlegt, að þegar miðað er við vísitölu framleiðslukostnaðar, þá beri verkalýðurinn oft meira úr býtum en vera mundi, ef miðað væri við hitt atriðið, svo að þetta er að mínu áliti á misskilningi byggt. Annar vandi er þó í þessu efni að mínu áliti meiri, og hann er sá, að miklir örðugleikar eru á því að finna mælikvarða á framleiðniaukninguna og að jafnaði er það þannig, að þær upplýsingar, sem í því efni yrði að byggja á, liggja ekki fyrir, fyrr en kannske löngu eftir að þessar upplýsingar þarf að nota. Hér er um meira vandamál að ræða. En þó finnst mér, að full ástæða sé til þess, að athugun sé gerð á þessum málum. Hugmyndin er auðvitað engan veginn ný og mig rekur minni til þess, — ég held, að það hafi verið fyrir einum 16 árum eða árið 1948, — að ég átti sæti í nefnd ásamt þeim hæstv. núv. menntmrh. og hv. 1. þm. Norðurl. v. og var okkur falið það verkefni að gera athugun á því, hvort hægt væri að finna einhverja vísitölu fyrir verðmæti útflutningsframleiðslunnar, eins og mig minnir að það hafi verið orðað. Við reyndum að leysa þetta verkefni, sem okkur hafði verið falið, af höndum eftir beztu samvizku, en erfiðlega gekk okkur samt að komast að einhlítri niðurstöðu í því efni og rek ég það ekki nánar. En þess má nú geta í því sambandi, að upplýsingar um þau atriði, sem máli skipta í þessu efni, voru auðvitað miklu fátæklegri á þeim tíma, en nú er.

Hitt meginnýmælið, sem felst í tillögum h.v. flm., er, að mér skilst, að hann hugsar sér að allir lánasamningar verði vísitölubundnir, og byggi ég þetta á því, sem stendur í lok grg., þar sem hv. flm. kemst svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skoðun flm., að við Íslendingar þurfum og eigum að taka upp vísitölukerfi á öllum sviðum fjármála okkar og skilja ekkert eftir.“

Mér finnst ótvírætt, að í þessu liggi það, að allir lánasamningar eigi að verða vísitölubundnir. Í því sambandi finnst mér rétt að vekja athygli á því, að fyrir jólin var til umr. hér á hv. þingi till. frá nokkrum hv. framsóknarmönnum, sem gengur að mínu áliti mjög í sömu átt, eða till. um verðtryggingu sparifjár. En þó er það þannig, að till. þeirra hv. framsóknarmanna gengur allmiklu skemmra, en hér er um að ræða, því að hér er gert ráð fyrir því, að allir lánasamningar verði vísitölubundnir. Þessari till., sem fjallar um mjög skylt efni, hefur þegar verið vísað til n. og vildi ég því vekja athygli á því, að mér finnst eðlilegt, að það verði sama þingnefndin, sem fjallar um báðar þessar till. Ef ég man rétt, þá var till. þeirra framsóknarmannanna vísað til fjvn., en hér hefur verið lagt til, að þessari till. væri vísað til allshn. Ég mundi telja eðlilegt, að það væri sama n., sem um þetta fjallaði.

Hvað snertir þessa hlið till., get ég raunar í meginatriðum vísað til þess, sem ég sagði um það efni, er till. þeirra framsóknarmannanna var hér til meðferðar og skal því ekki verða orðmargur um þetta, en rétt er að vekja athygli á því. Ég tel ástæðu til að endurtaka það, að hér er að mínu áliti raunverulega um lausn verðbólguvandamálsins að ræða, ef það fyrirkomulag væri tekið upp að vísitölutryggja alla lánasamninga, því að í hverju er það, sem vandi verðbólgunnar er fólginn? Hann er í sjálfu sér ekki fólginn í því, að reiknað sé í hærri tölum, en áður hefur verið gert. Það er út af fyrir sig hvimleitt, en það á út af fyrir sig ekki að valda svo geysimikilli röskun. Nei hinn raunverulegi vandi verðbólgunnar er fólginn í því, að verðbólgan skapar öryggisleysi á lánamarkaðinum. Í nútímaþjóðfélagi er lánamarkaðurinn einn þýðingarmesti þáttur efnahagskerfisins. Og rétt er að vekja athygli á því, þó að það sé hlutur, sem því miður sést oft yfir, að til þess að hægt sé að fá lán, þá þurfa auðvitað að vera tveir aðilar, lántakandi og lánveitandi, en um nauðsyn þess, að fyrirtæki og einstaklingar geti fengið lán, hljóta auðvitað allir að vera sammála. Það er atriði, sem öllum er ljóst. En til þess að hægt sé að fá lán, þarf einhver aðili auðvitað að fást til þess að veita lánin. En ef verðgildi peninganna fer stöðugt rýrnandi og menn tapa trú á því, þá kemur þar, að enginn vill eiga peninga eða peningakröfur og þá verður ekki heldur hægt að fá nein lán. Og skapist öngþveiti á lánamarkaðinum, skapar það einnig öngþveiti annars staðar í efnahagskerfinu, á gjaldeyrismarkaðinum o.s.frv. Það er í þessu, sem vandinn er fólginn.

Nú er vitanlega til önnur einfaldari og að mínu áliti æskilegri leið til þess að leysa þann vanda, sem hér er um að ræða. Leiðin er sú, að samkomulag takist um ráðstafanir, sem nægi til þess að halda verðlaginu í skefjum og koma í veg fyrir áframhaldandi verðbólguþróun eða samkomulag milli ríkisstj. og hagsmunasamtakanna. Þetta er sú leið, sem beinast liggur að markinu og vitanlega er æskilegast að fara. En fyrir því er auðvitað því miður ekki trygging, að sú lausn sé fáanleg og þá verður að svipast um eftir öðrum leiðum.

Á því að fara þá leið, sem hér er um að ræða, eru vitanlega miklir framkvæmda örðugleikar. Í því efni vil ég leyfa mér að vísa til þess, sem ég sagði, þegar þetta mál var til meðferðar hér á hv. Alþingi fyrir jólin, en þessi leið hefur, eins og fram kom í þeim umr., verið farin í ýmsum löndum og sé hin einfaldari og skynsamlegri leið af einhverjum ástæðum ekki fær, þá hlýtur það að koma mjög til álita að mínum dómi, að þessi leið sé athuguð og jafnvel farin, ef önnur úrræði eru ekki fyrir hendi. Hin svo kallaða haftaleið, sem ástæða er til að ætla, að ýmsir líti hýru auga, er að mínu áliti engin leið, en ég vil ekki lengja umr. hér með því að fara út í það atriði. En ég vil endurtaka það að lokum, sem ég minntist áðan á, að ég teldi eðlilegt, að sama n. fjallaði um þessa till. og till. um verðtryggingu sparifjár, en það var hv. fjvn.