19.12.1964
Neðri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

106. mál, söluskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er bakað til jólanna í hverju eldhúsi á Íslandi og í eldhúsi hæstv. ríkisstj. er auðvitað stærsti jólabaksturinn. Hann er líka ætlaður allri þjóðinni, og allir verða að fá eitthvað af honum, því hnossgæti. Mig langar til að leggja hér nokkur orð í belg um þennan ágæta jólabakstur hæstv. ríkisstj. og kann þó eiginlega illa við mig í ræðustólnum, horfandi upp á auðan stól hæstv. yfirbakara ríkisstj. Mér fyndist, að hæstv. bakari ætti að vera hér í bakaríinu, þangað til búið er að matreiða réttina alveg og skila þeim til þjóðarinnar.

Það er kunnugt, að allt frá því að stjórnarstefnan „viðreisn“ var mótuð, var það augljóst mál, að hún gekk mjög öndvert gagnvart hagsmunum launþegastéttanna í landinu. Það er því saga þessa tímabils, að það hefur verið látlaust stríð milli launþegasamtakanna í landinu og ríkisstj. Árekstrarnir hafa verið tíðir. Það hafa skipzt á nýjar skattálögur, upptaka nýrra skatta, gengisfellingar og hvers konar úrræði, sem ágengt ríkisvald hefur til þess að skerða hlut launastétta þjóðarinnar. Og mikil hugvitssemi hefur verið sýnd í því að finna nýjar og nýjar leiðir. Þetta hafa launþegasamtökin í landinu auðvitað ekki getað látið afskiptalaust og hafa svarað með því að gera kröfur um hækkað kaup í krónutölu með það markmið fyrir augum að reyna að varðveita raungildi vinnulaunanna, til þess að lífskjörin rýrnuðu sem allra minnst, og hafa talið sig hafa góðan grundvöll í þessari baráttu með tilliti til þess, að þjóðarauðurinn færi vaxandi, þjóðartekjurnar hækkandi og þannig úr meira að skipta. Og við höfum litið svo á, að fólkið, sem framleiðslustörfin vinnur í þjóðfélaginu, ætti nokkurn siðferðilegan rétt á því að fá aukinn raunverulegan kaupmátt launa sinna með vexti þjóðartekna. En sá skilningur hefur ekki fengizt viðurkenndur af núv. hæstv. ríkisstj., það verð ég að segja. Þar hefur verið litlum skilningi að mæta. Aldrei hefur þessi barátta verið harðari og þessir árekstrar milli launþegasamtaka og ríkisstj. tíðari en ú árinu 1963. Þá voru endurskoðuð laun þrisvar sinnum á einu og sama ári. Og eftir því sem lengra leið á árið, harðnaði þessi barátta. Hún náði hámarki sínu, þegar ríkisstj. hafði á miðju árinu fært upp laun opinberra starfsmanna allt frá 20 og upp í 90% eða fast að 100% hjá þeim hæst launuðu, og þar á meðal voru auðvitað hæstv. ráðh. sjálfir. En þegar þeir höfðu þetta gert, sem voru allmyndarlegar sárabætur til hinna opinberu starfsmanna fyrir rýrnandi kaupmátt þeirra launa í hraðvaxandi dýrtíð, sem ríkisvaldið hafði búið til, fannst hæstv. ríkisstj. vera viðeigandi að tala til þeirra lægst launuðu í landinu héðan frá Alþingi. Það gerðist í lok októbermánaðar 1963, þá gerðist sú ótrúlega saga, að ríkisstj. lagði fram frv. til l. um að lögbinda óbreytt kaup verkafólks, banna því alla samninga um endurskoðun á sínu kaupi og banna öll verkföll, taka verkfallsréttinn af launþegasamtökunum.

Þetta var eitthvert fávíslegasta viðbragð og seinheppilegasta úrræði, sem nokkurri ríkisstj. gat dottið í hug. Ranglætið var svo augljóst, að þjóðin öll, líka þeir, sem voru nýbúnir að taka við 90% kauphækkun, töldu þetta vera svo ofstopalegt ranglætisverk, að þeir gætu ekki stutt það, og meginþorri þjóðarinnar snerist til varnar með launþegasamtökunum og launastéttunum, sem svo grálega átti að leika. Og þegar þetta mál hafði verið lengi rætt á Alþingi Íslendinga, verður það að játast, að hæstv. ríkisstj. fékk sjálf skilning á því, að þetta hefði ekki verið heppilegt hjá henni. Og þá bætti hún að verulegu leyti fyrir sitt heimskupar með því að bjóða að fresta lokaafgreiðslu þessa óhappamáls um sinn og reyna heldur að leysa málin yfir samningaborði. Ef menn halda, að hæstv. ríkisstj. hafi misst af sér gullhringa við þetta tiltæki eða lækkað í álíti hjá þjóðinni, fara menn villir vegar, því að það er alveg áreiðanlegt, að þarna valdi hún þó þann skynsamlegasta kost, sem fyrir hendi var. Hún hvarf af braut þeirrar fávizku að ætla sér að ganga frá slíkri löggjöf í byrjun desembermánaðar 1963 og sá, að það var í raun og væru ekki ómaksins vert, því að slík lagasetning hefði aldrei verið virt af þjóðinni. Á henni hefði verið traðkað og hún hefði verið niður brotin á skömmum tíma, það er ég sannfærður um. Hæstv. ríkisstj. lét ekki á þetta reyna op hvarf frá þessari óskynsamlegu lagasetningu, og það var hennar vitið meira, og hennar sómi er meiri af, eftir að hún gerði þetta.

Það gekk svo sem ekki þrautalaust, þegar við gengum að samningaborðinu, fulltrúar ríkisvalds, atvinnurekenda og svo launþegasamtakanna í desembermánuði 1963. En þó fór svo að lokum, að menn stóðu upp sáttir að kalla og sömdu um að skilja ekki láglaunastéttirnar með öllu eftir. Þær fengu í þeim samningum um 15% kauphækkun. En það þótti svo ófullnægjandi lausn á þeirra málum, bæði samanborið við aðra og miðað við þá brýnu nauðsyn, sem var fyrir hækkaðar tekjur hjá þeim lægst launuðu í landinu, að þessir samningar voru aðeins til naumra bráðabirgða, og það blasti við; að næsta vor yrði að taka til að fást við þennan vanda á ný, vorið 1964. Og þá var það, að alþýðusamtökin skrifuðu ríkisstjórninni bréf, í aprílmánuði núna s.l. vor, og lýstu þróun málanna undanfarin ár með föstum rökstuðningi, sem sýndi það, að dýrtíðarstefna stjórnarinnar hafði verið „prímus mótor“ í allri ógæfuþróuninni í verðlags- og dýrtíðarmálum, að launþegasamtökin höfðu alltaf reynt að ná sínum rétti eftir á og þó aldrei náð honum til fulls.

Við vorum því, þegar við litum yfir þetta svið, forustumenn launþegasamtakanna, ekkert ánægðir með árangur þessarar hörðu baráttu, sem átt hafði sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum árum, og við skrifuðum því hæstv. ríkisstj. um það, hvort við ættum nú ekki að reyna önnur vinnubrögð. Og það má hæstv. ríkisstj. eiga, að hún tók í þá útréttu hönd og tilnefndi hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. sem sína fulltrúa til að eiga í þessum samningum við launþegasamtökin, og svo áttu launþegasamtökin auðvitað einnig í samningum við sinn eðlilega viðsemjanda, atvinnurekendasamtökin í landinu. Með þessum þríhyrndu samningum nú s.l. vor var að ýmsu leyti farið inn á nýjar brautir, og skal ég ekkert rekja það. En það er sannfæring mín, að fulltrúar ríkisstj., forsrh. og félmrh., gengu heils hugar að þessu vandasama verki og reyndu alls staðar, þar sem þeir gátu, að koma til móts við okkur og leysa úr örðugustu hnútunum og flækjunum, og það fékkst lausn, sem báðir aðilar sættu sig nokkurn veginn við, í nokkru lengri tíma en áður hafði gerzt, því að nú var samið um að reyna að búa við þessa niðurstöðu um eins árs skeið. Það var samið um lausn nokkurra aðkallandi þjóðfélagsvandamála, sem vitanlega hefði fyrst og fremst heyrt undir hv. Alþingi að leysa, en fékkst þó lausn á, eftir að Alþingi hafði lokið störfum og eftir að Alþingi hafði raunar neitað að leysa ýmis af þessum málum, fellt till. þar um. Og í launamálunum gerðist það, að á það var fallizt að taka upp aftur vísitölu á laun og tengja þannig verðlagsþróunina og kaupgjaldsþróunina saman á ný. Það var í raun og veru stærsta atriðið, sem gerðist í launamálunum. En í kjaramálunum að öðru leyti var sammæli beggja aðila um að vinna að því í áföngum að stytta hinn óhóflega langa vinnutíma í landinu. Ég hélt, að hér væri ekki verið að prófa þessa nýju leið bara fyrir þetta eina ár, 1964, og fram á vordaga 1965. Ég stóð í þeirri meiningu og hélt, að það væri ætlun hæstv. ríkisstj., að hér væri aðeins fyrsti kapítuli og hér ætti að reyna til þrautar að halda áfram á þessari braut og vita, hvort ekki næðist árangur, sem affarasælli reyndist fyrir þjóðfélagið með slíkum vinnubrögðum heldur en hinum, sem við höfðum reynt árum saman, stríðsaðferðinni.

En ég vil segja það, að þegar skattskráin birtist s.l. sumar, fannst mér sem þau öfl hefðu komið hér við, sem vildu, að þessi leið yrði dæmd úr leik og ekki fetuð miklu lengra. Það var áreiðanlega grundvöllur fyrir þessu samkomulagi, sem gert var í júnímánuði 1964, að ríkisvald og önnur öfl þjóðfélagsins byndust um það samtökum, að kjör launþegastéttanna yrðu ekki rýrð á þessu friðar- eða stéttatímabili — eða þessu vopnahléstímabili, sem kannske er réttara að kalla það. En það varð öllum ljóst, að við þær skattálögur, sem blöstu við mönnum á blöðum skattskrárinnar sumarið 1964, var sannarlega haggað lífskjaragrundvelli launastéttanna og á hann gengið. Það var opinbert, að þær skattabyrðar, sem þar höfðu verið lagðar á menn, jafngiltu verulegri kauplækkun, en áður hafði verið samið um, að kaup skyldi óbreytt haldast út þetta ár. Það var að vísu ekki riftað hinum nýgerðu kaupgjaldssamningum, enda var ekki á færi neinna illra afla í þjóðfélaginu að gera það, en það var farin þessi leið, að skerða launin með skattaráni.

Það má kannske segja það, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki þarna verið sökudólgurinn. Það, sem þarna var fyrst og fremst gert, var að seilast ofan í vasa launþeganna frá stjórnarvöldum Reykjavíkurborgar. En grundvöllurinn á bak við það var þó lagasetning, sem hæstv. ríkisstj., hæstv. fjmrh. hafði knúið hér gegnum Alþingi og haldið um fjálgar ræður að væri fyrst og fremst til þess sett, sem breyting á eldri skattalöggjöf, að létta skattabyrðar á láglaunafólki og fólki með miðlungstekjur. En svartari lygi hefur sjaldan verið sögð úr ræðustól á Alþingi, og það sáu menn fyrst bezt, þegar skattskráin blasti við augum.

Það varð ókyrrð mikil í landinu, og það er ekki til neins að halda því fram, að það hafi verið stjórnarandstöðublöðin, sem hafi búið til þann æsing, sem varð út af skattaráninu s.l. sumar. Nei, það var ekki neitt uppgerðarvæl hjá skattþegnunum. Þar var komið ónotalega við marga, svo marga, að það varð í raun og veru samstemmt neyðaróp þjóðarinnar, að skattpíningin væri komin út í svo miklar öfgar, að ekki næði neinu tali. Og það fór svo, að jafnvel steinarnir töluðu. Alþýðublaðið fór jafnvel að bera hag launþeganna sem skattþegna fyrir brjósti og Morgunblaðið jafnvel líka annan hvern dag, auk þess sem stjórnarandstöðublöðin veittu rúm náttúrlega kvalastunum skattþegnanna, sem kváðu við úr öllum áttum.

Það var með hæstv. fjmrh. þá eins og sagt er um fálkann, hann kenndi til, þegar kom að hjartanu, og hann var afskaplega ljúfur viðmælis um það, að jú, það væru nú þarna misfellur á, hefði jafnvel orðið óvart, að skattarnir hefðu orðið þyngri en til hefði staðið, og það væri sjálfsagt að koma til móts við launþegana í þessu. Og hann sagði, að við skyldum setja sérfræðinganefnd til þess að kanna þetta og sjálfsagt að leiðrétta öll mistök og líklega koma til móts við kröfur launþegasamtakanna um að lækka, gefa eftir. Svo var starfað í nefnd. Það tók langan tíma. Það var liðið fram á haust, þegar sú nefnd hafði lokið störfum, og hún taldi á því ýmis tormerki að finna leiðir til lagfæringar eftir á, þegar sveitarfélögin væru búin að fá þessa skatta að sumu leyti innheimta, að sumu leyti búin að nota þá og þar fram eftir götunum, og vissulega voru mörg vandkvæði á því, því var ekki að neita. En þegar menn höfðu heyrt boðskap þessarar starfsnefndar, kom aftur til kasta launþegasamtakanna, og þau voru engan veginn ásátt um það, að þarna væri hægt að láta málið niður detta. Þau voru þess fullviss og höfðu sannfærzt um það enn betur, eftir því sem tíminn leið, að hér var ekki aðeins brýn þörf, heldur brýn nauðsyn að bæta úr á þann veg að létta eitthvað á skattabyrðum almennings, einkanlega hinna tekjulægri. Þar kom þó um síðir, að við fengum algera neitun hæstv. fjmrh., enda var þá liðið mjög á skattárið, — algera neitun um nokkrar lækkanir. En hins vegar stóð til boða að veita þeim sárþjáðustu og verst meðförnu skattþegnum lán, tveggja ára lán með fullum vöxtum, til þess að dreifa þessari ofurþungu byrði á lengra tímabil og taka þá pinklana frá árinu 1964 á sig ofan á milli með þeim skattapinklum, sem mönnum verða búnir á árunum 1965 og 1966.

Þetta var úrræðið, sem boðið var. Ekki var þetta gott, en samt töldum við í forustu launþegasamtakanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og stjórn Alþýðusambandsins, að hversu magurt sem þetta væri, þessi kreppulánaleið, og ógeðfellt, hefðum við varla efni á því fyrir okkar umbjóðendur að neita jafnvel þessu, og gerðum það kunnugt í byrjun nóvembermánaðar, biðum svo eftir svari. Það leið mánuður eða meir, ekkert heyrðist frá hæstv. fjmrh., hann virtist vera að bíða eftir því, að síðasti gjalddagi liði hjá. Annað var ekki hægt að ætla. En þá, — og ég hygg þó jafnvel fyrir milligöngu hæstv. forsrh., þegar hann kom frá Jerúsalem, — þá var þó málið tekið upp aftur, og þá komu frá hæstv. fjmrh. reglur, sem menn geta nú fengið lánin eftir, og þegar við höfðum athugað þessar reglur, kom í ljós, að þær voru þannig úr garði gerðar, að helzt gátu þó þeir hæst launuðu í landinu fengið einhverja kreppuhjálp eftir þessum reglum, en þeir lægst launuðu nærri því útilokaðir frá því og þeir, sem harðast höfðu orðið fyrir barðinu af skattaráninu, mjög fáir. T.d. af þeim 1600, sem höfðu sárast borið sig upp við stjórnarvöldin í Reykjavík í sumar og óskað eftir að fá að nota sér fleiri gjalddaga á sköttunum, 1/5 af þeim gat komið undir þessar nýju reglur um kreppulánin, 20%. Þetta töldum við algerlega ófullnægjandi og vildum ekki standa að þessu kreppulánakerfi á grundvelli þessara reglna, og þannig standa málin enn, að ekki er búið að fá nein vilyrði fyrir því, að þessi kreppulán verði veitt á neinum þeim grundvelli, sem þeim, sem mest þyrftu á því að halda, kæmi að verulegu gagni.

En áður en þetta er útkljáð, kemur hér fram á Alþingi frv. til l. um nýjan skatt, hækkun söluskatts, eitthvað rúmar 300 millj. kr., og það er þessi jólabakstur, sem við erum nú hérna að fást við. Ég hefði haldið, að eftir júnísamkomulagið í vor hefði það verið augljóst hverjum meðalgreindum manni, að ef það samkomulag átti að bera árangur, allra helzt ef það átti að gefa einhver framtíðarfyrirheit, var rétt hjá ríkisstj. að verja af fé ríkisins til niðurgreiðslna til þess að halda vöruverði í skefjum fyrstu mánuðina eftir samkomulagið, til þess að skapa, þó að það væri falskt stöðvunarástand, sem kostaði fé úr ríkissjóði, en búa sig frá undirskriftadegi samkomulagsins í vor undir það, að þegar búið væri að framkalla þessa stöðvun með niðurgreiðslum af hendi ríkisins út þetta ár, væri búið að afgreiða fjárlög á þann veg, og það átti að vera auðvelt í því góðæri, sem við búum við, að ekki þyrfti að verja fjárfúlgum til þess að halda dýrtiðinni í skefjum, heldur sníða þann ramma, sem fjárl, og ríkisbúskapnum væri ákveðinn, þannig, að jöfnuður næðist án niðurgreiðslna, herða sem sé á öllum taumum í höndum fjmrh. að því er snertir útgjöldin og stefna að því, að jafnvægisástand næðist, án þess að það væri falskt, án þess að það væri gert með niðurgreiðslum. En þetta var ekki gert. Það var látið vaða á súðum eftir sem áður, alveg eins síðari hluta ársins 1964 og fyrri hlutann, og að engu leyti stefnt að því að breyta neinu í hófsemdarátt eða jafnægisátt, að því er nú er augljóst. E.t.v. hafa umframgreiðslur ríkissjóðs aldrei verið óhóflegri en á árinu 1964. Mundi það vera rétt, að þær séu eitthvað um eða yfir 500 millj., umframgreiðslur ríkissjóðs? Þó að sú upphæð væri ekki svo há, gæti það verið ærið, en það skyldi nú ekki vera, að svona lítils hafi verið virt síðustu fjárlög og látið vaða á súðum svona óhóflega?

Um þetta frv. vil ég segja það, að ég veit aðeins eitt í þingsögunni, sem hefur af hæstv. ríkisstj. verið gert óskynsamlegra en þetta, og það er þegar hún reyndi að setja þvingunarlagafrv. Ég játa, að það var stærra mál, en það var eins óskynsamlegt að flytja það mál eins og nokkuð gat verið. Og þó að hér sé um smærra mál að ræða, er vitleysan eins stór, — barnaskapurinn, glópskan, að bera slíkt mál inn á Alþingi, er eins stór. Og mér er nær að halda, að hafi ríkisstj. riðað til falls út af þvingunarlagafrv., geti þetta, þessi vala hérna, orðið hæstv. ríkisstj. eins hættuleg og hitt stóra málið, og þess vegna væri eins mikil ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. að kunna fótum sínum forráð og grípa til þess sama skynsamlega úrræðis, sem hún notfærði sér haustið 1963, þegar hún tók þvingunarlagafrv. aftur. Það er enn eins og þá skynsamlegasta úrræðið, sem hæstv. ríkisstj. getur gripið til, og það á hún að gera. Nú kynni hæstv. fjmrh. að segja, ef hann væri hér við, eins og hann á að vera: Já, en það er eyða, það er gat, og þess vegna er þetta frv. fram borið. Við þurfum auknar tekjur. — Já, maður skyldi ætla það, að þetta frv. hafi verið borið fram af nauðsyn, illri nauðsyn. En það er ég alveg sannfærður um, að þar hafa hæstv. ráðh. villt alveg um fyrir sjálfum sér. Hér er um enga nauðsyn að ræða. Í frv. er farið fram á að afla tekna vegna þeirra 55 millj. kr., sem fjárlagafrv. hafði hækkað í meðförum þingsins. Það var í frv., þegar það var lagt fram, farið fram á að fá 68 millj. kr. til þess að endurborga með niðurgreiðslur á síðari hluta ársins 1964, og það var farið fram á 207 millj. kr. hækkun á söluskattinum til þess að geta haldið niðurgreiðslum óbreyttum frá því, sem nú er. Og svo er játað í raun og veru, að þessar aðgerðir, tekjuöflun í því formi, sem ég hef nú nefnt, mundi leiða af sér 43 millj. kr. tekjuþörf til þess að standast þær hækkanir, sem þessi tekjuöflun leiðir af sér, það hækki kaup við þetta og það verði að hækka tryggingar og annað þess konar og til þess þurfi 43 millj. vegna þessarar skattlagningar.

Þegar maður lítur á þetta mál, eru tæpar 200 millj. kr., sem þarna er um að ræða, sem ríkisstj. sjálf telur að hún þurfi að afla með nýjum tekjustofni. Nú eigum við fjmrh., sem er hinn mesti hagleiksmaður í sparnaði í munninum. Ég veit engan, sem er meiri hagleiksmaður í sparnaði í munninum heldur en hann. Og ég er að vona, að slíkur snillingur í sparnaðartali hljóti að kunna eitthvað til sparnaðar í verki. Og ef hann er jafnsnjall í verki og í orði, þegar kemur til sparnaðar, þá held ég, að það hefði verið hægt að finna leiðir til þess að spara í öllum fjárl. 200 millj. Ég trúi ekki öðru. Ef það hefði verið vilji til að spara ofan frá og niður í gegn á fjárl. og e.t.v. færa eitthvað af þeim 200 millj. framkvæmdum, sem nú eru færðar á 20. gr., yfir á heimildagr. og sjá til þannig, t.d. með 100 millj. þar, þegar kæmi fram á árið 1965, hvort árferðið væri þannig og þróun efnahagsmála, að ástæða væri til að fara í þessar framkvæmdir, og gera það þá, eða hvort ástæða væri til þess að láta sér takast stöðvun, og það er ekkert smáræði, að fresta þá einhverju af þessum framkvæmdum fram á næsta ár eða svo, eða þá, eins og sagt var hér áðan, að taka að einhverju leyti lán til þeirra. Þar að auki er upplýst, að það er búið á undanförnum árum að skattleggja íslenzka skattþegna umfram rekstrarþarfir ríkissjóðs, svo að nemur mörgum hundruðum millj. kr., og það hefur verið sagt, að það sé til af þessu skattafé, sem tekið hefur verið umfram þarfir, það er sagt, að við eigum 100 millj. kr. á bók, og það mun rétt vera, og það er enn fremur upplýst nú ný skeð af hæstv. fjmrh., að við eigum 220 millj., að ég hygg, einnig af þessu afgangsfé óráðstöfuðu. Það hefði því ekki þurft annað, þegar maður sparaði sér 43 millj. af setningu þessarar löggjafar, heldur en taka þetta óráðstafaða afgangsfé í staðinn fyrir að leggja á nýjan söluskatt.

Sparisjóðsbókin með 100 millj. á að vera geymd til mögru áranna. (Gripið fram í: Það er heilög kýr.) Heilagar kýr á náttúrlega ekki að drepa, það á ekki að farga þeim. En hvað er magurt ár? Er ekki góðæri, sem veldur því, að stórkostlegt þjóðfélagsvandamál skapast? Þjóðfélaginu liggur við að farast í verðbólgu og dýrtíðarflóði. Er það ekki góðæri, sem er búið að snúa upp í hallæri af manna völdum, og ástæða til þess að verja einhverjum peningum til að reyna að varðveita það sem góðæri? Ég held það. Ég held, að það að reyna að brjóta í blað og stöðva dýrtíðar- og verðbólguþróunina, það sé þess virði að taka jafnvel þessa heilögu kú hæstv. fjmrh. og leggja fallið af henni á borðið til þess að bjarga þessu. Og það hefði verið miklu skynsamlegra en vaða að þjóðinni núna eftir skattarán sumarsins og segja: Nú tökum við af ykkur 300 millj. kr. í hækkuðum söluskatti. — Það er ekkert vit.

Það má vel vera, að það sé erfitt að finna sameiginlega lausn um sparnað og niðurskurð á fjárlögum. Hæstv. stjórn vildi kannske skera niður allt annað en fulltrúar stjórnarandstöðunnar vildu skera niður og þannig fengist ekkert samkomulag. En ég er alveg sannfærður um það, að ef gengið hefði verið í haust að því verki með ámóta góðum hug frá báðum hliðum eins og gengið var að vandamálunum s.l. vor, hefði það líka tekizt. Og það hefði verið skammar nær að reyna þá leið heldur en hella yfir okkur hér á jólaföstunni þessu óburðarfrv., sem hér er búið að taka marga daga þingsins að ræða. Það er alger misskilningur, að það sé rétt aðferð málanna að skella fyrst inn þessu frv., gera það að l., velta sköttunum þannig á yfirhlaðnar herðar skattþegnanna og byrja svo að tala saman um vandamálin, sem búið er að skapa, og bæta við lögfestingu á frv. eins og þessu. Það er að búa fyrst til erfiðleika og fara svo að glíma við þá.

Ég held því fram, að það hafi verið til fleiri en ein leið til þess að leysa þennan vanda, sem við er að glíma hjá hæstv. ríkisstj., og öll úrræði betri en ný álagning söluskatts. Ég held því, að þetta frv. verði ekki afsakað með hinni brýnu, óumflýjanlegu nauðsyn, sem höfð hefur verið að yfirvarpi. Eg hef haft gaman af því að líta í stjórnarblöðin núna undanfarna daga, eins og oft. Einmitt á því, sem eru ósannindin í málinu, er hamrað. Á forsíðu Vísis segir: „Söluskattsfrv. nauðsynlegt.“ Í leiðaranum stendur: „Nauðsynleg ráðstöfun.“ Og svo í innrammaðri grein utan um hæstv. fjmrh. og helztu atriðin í framsöguræðu hans um söluskattinn stendur á miðri síðunni með stórkarlaletri: „Söluskattshækkun nauðsynleg til þess að halda áfram niðurgreiðslum.“ Það var þá líka tilgangurinn: Nauðsynleg til þess að halda áfram niðurgreiðslum. Þetta sannfærir mig ákaflega vel um það, einmitt þegar búið er að þrítaka þetta í málgagni hæstv. fjmrh., að það væri nauðsynlegt, af hverju þeir segja þetta. Það er af því að þeir vita, að þetta var ónauðsynlegt með öllu, og eru að reyna að fela það fyrir þjóðinni með stórkarlaletri. En það, sem mér finnst miklu stærra í þessu máli, er, að það var ekki aðeins ónauðsynlegt, heldur var það fyrst og síðast óskynsamlegt að setja þetta frv. fram, leggja þau fram og ætla að lemja það gegnum Alþingi. Ef hæstv. ríkisstj. hefði ekki fundið neinar aðrar leiðir, held ég, neinar leiðir til þess að komast hjá nýrri skattlagningu, vil ég halda því fram, að sérhverjir aðrir skattar en söluskattur hefðu verið heppilegri, eins og nú stöð á. Söluskatturinn er fyrst og fremst umfram alla aðra skatta verðbólguaukandi og hrindir dýrtíð af stað. Og ég veit ekki betur en sú kenning sé ekki ein af öfgakenningum stjórnarandstöðunnar, hún hafi a.m.k. um alllangt skeið verið kenning annars stjórnarflokksins, Alþfl. Og ég veit ekki, í hvaða gleymskudá hann hefur fallið, þegar hann nú stendur fyrst og fremst að því að velja söluskatt sem úrræði. Það var á dögum Haralds Guðmundssonar, sem hann lýsti afstöðu sinni og Alþfl., sagði hann, til söluskatts. Hann sagði um söluskattinn, að hann væri af öllum tollum, sem væru á lagðir hjá okkur, ranglátastur og óskynsamlegastur. Og hann rökstuddi þetta vandlega: ranglátastur af því, að hann lendir langþyngst á þeim, sem minnsta getu hafa til að greiða til opinberra þarfa. Hann fellur langþyngst á barnmargar fjölskyldur og stór heimili. Og það þarf ekki að eyða orðum að því, hversu ranglátt slíkt fyrirkomulag er til innheimtu opinberra gjalda. Aðrir tollar ýmsir, — ég vil ekki segja flestir, — eru þó á lagðir með það sjónarmið fyrir augum, sagði Haraldur Guðmundsson, að þeir séu mismunandi þungir, eins og t.d. verðtollur eftir því, hvaða vörur eiga í hlut og hvort hægt er að komast af án þeirra eða ekki. En til þessa sjónarmiðs er ekki tekið tillit við álagningu söluskatts, heldur þvert á móti. Í öðru lagi, sagði hann, liggur í augum uppi, að söluskattur hlýtur að hækka verðlag í landinu og þar með dýrtíðina, a.m.k. sem skattinum nemur og þeirri álagningu, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma á hann í öllum viðskiptum, og það er kannske ekkert lítill hluti í viðbót. Sú aukna dýrtíð, sagði Haraldur Guðmundsson, enn fremur, sem af þessu stafar, kemur svo fram í hækkuðum framleiðslukostnaði, og af því leiðir aftur, að útflutningsvörur okkar, sem framleiddar eru með þessum háa framleiðslukostnaði, verða torseldari og standa þess vegna lakar að vígi í samkeppni við hliðstæðar vörur á heimsmarkaðinum. Tollur þessi og skattur er því hvort tveggja í senn ranglátur gagnvart þeim, sem greiða hann, og mjög óskynsamlegur frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar. Og hver treystir sér til þess að hnekkja þessum orðum Haralds Guðmundssonar? Mundi hæstv. viðskmrh. vera nú orðinn svo lærður, að hann gæti hnekkt þessu?

En það er meira blóð í kúnni, eins og þar stendur. Hæstv. viðskmrh. hefur sjálfur borið vitni um söluskatt, og það er í þingtíðindunum eftir honum haft á þennan veg:

„Við þetta allt saman bætist svo, að söluskatturinn er í eðli sínu ranglátur. Þetta er einhver ranglátasti skattur, sem lagður hefur verið á af íslenzka löggjafanum. Og það er ekki nóg með, að hann sé ranglátur í eðli sinu. Framkvæmdin á söluskattsinnheimtunni hefur og verið þannig, að á því er enginn vafi, að enginn skattur hefur verið svikinn jafnstórkostlega og söluskatturinn. Það er ekki aðeins ríkissjóður, sem tekur inn mikið fé í skjóli þessara lagaákvæða um söluskattinn, heldur taka ýmiss konar atvinnurekendur einnig inn stórfé í skjóli þessara ákvæða. Það er auðvelt að svíkja tekjuskatt fyrir þá, sem hafa stórfelldan atvinnurekstur með höndum, en þó er margfalt auðveldara að svíkja söluskatt. Það er jafnopinbert leyndarmál og skattsvikin í tekjuskattinum, að þau eru alveg gífurleg í söluskattinum.“

Þetta er tekið upp úr þingtíðindum og haft eftir hæstv. núv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasyni, varaformanni eða ritara Alþfl. Og til þess að fullkomna það er ekki ágreiningur innan forustu Alþfl. um þennan skatt, því að formaður Alþfl., núv. hæstv. félmrh. og sjútvmrh., Emil Jónsson, hefur líka vitnað um söluskattinn og eðli hans og segir samkv. Alþingistíðindum:

„Og hann (þ.e. Alþfl.) vill allra sízt, að versti skatturinn úr dýrtíðarl. sé framlengdur, því að ég fullyrði, að sá af sköttum dýrtíðarl., sem almenningi er tilfinnanlegastur, er söluskatturinn, og hann kemur allra verst við, en það er einmitt hann. sem ríkisstj. gerir ráð fyrir að framlengja,“ sagði hann þá.

Og nú á að framlengja söluskatt og ekki aðeins að framlengja, nú á að hækka hann. Og hversu hófsamlega er að verki verið á árinu 1964 með Alþfl. með 3 ráðh. í ríkisstj. og með svona álít á söluskatti? Jú, hann var í ársbyrjun 1964, söluskatturinn, bara 3%. Hann var 3%. Í byrjun þessa árs eða snemma á því er hann hækkaður í 5 1/2%. Og nú var ætlunin að skella honum upp í 8%.

Og það er fyrst þegar við úr forustuliði A.S.Í. núna fyrir 2—3 dögum ræðum um það við hæstv. forsrh., að viti teljum a.m.k. 68 millj. kr. í þessum skatti vera beina brigð við samkomulagið frá því í júní í vor, að því fæst til vegar komið, að hæstv. ríkisstj. tekur aftur 68 millj. kr. upphæð af þessu söluskattsfrv. og flytur um það brtt. Að vísu skal það fram tekið, að hæstv. forsrh. taldi sig vera eins vissan í sinni sök og við í okkar um það. Við töldum, að það hefðu verið gefnar skýlausar yfirlýsingar um, að það yrði ekki bætt á nýjum sköttum til að standa undir niðurgreiðslum á vísitölu út árið 1964. Hæstv. ráðh. taldi sig jafnvissan í sinni sök um það, að yfirlýsingar hefðu verið gefnar, sem við hefðum mátt skilja á þann veg, að þetta kynni að verða tekið til ákvörðunar, þegar Alþingi kæmi saman. En hann beitti sér þrátt fyrir þetta fyrir því, að þessi tekjuöflun væri nú lækkuð um 68 millj. kr., og það skal hér tekið fram af mér, að ég virði það mikið, að hæstv. forsrh. vill vinna nokkuð mikið til, að það sé hafið yfir allan efa, að hann standi við orð sín frá samningagerðinni s.l. vor. Það hefur hann gert með sínum afskiptum af þessu máli. Mér þykir líka næsta ólíklegt, að hæstv. forsrh. fylgi þessu máll í hjarta sínu. Og hverjir geta það þá verið, sem fylgja því? Það getur ekki verið, að Emil Jónsson fylgi því. Það getur ekki verið, að Gylfi Þ. Gíslason fylgi því, með það álít, sem hann hafði a.m.k. fyrir nokkrum árum á söluskatti, ranglátasta skatti, sem auðveldast væri að fremja skattsvik með. Það væri ólíklegt, að þriðji ráðh. Alþfl., hæstv. utanrrh., væri skattinum fylgjandi, þegar öll forusta Alþfl. hefur svo fordæmt söluskatt sem ég hef nú gert grein fyrir. Ég get ekki séð nokkra minnstu skynsamlega ástæðu til þess, að hæstv. landbrh. sé ginnkeyptur fyrir söluskatti. Það kynni þá að vera, að þetta væri ástfóstur hæstv. fjmrh. eins. Og hvers vegna ástfóstur, þegar unnt er að sanna það, að enga brýna nauðsyn ber til þess að knýja þetta lagafrv. fram og það er hægt að leysa allt málið með ýmsum öðrum leiðum og fullur vilji til þess a.m.k. hjá mörgum í stjórnarandstöðunni.

Ég heyrði það líka frá umr. í Ed., að tveir Alþfl.-menn hefðu eitthvað hikstað á því að eiga að greiða atkv. með söluskattsfrv. þar, og þeir munu hafa gert þann fyrirvara um sinn stuðning, að þeir fylgdu þessu frv. því aðeins, að það yrðu reistar við því rammar skorður, að skatturinn yrði 100% innheimtur. En hver treystir sér til þess að innheimta söluskatt 100%? Hefur ekki einn aðalfjármálaráðunautur hæstv. ríkisstj. nýlega sagt það, að þegar söluskattur hækki, sé það alls staðar segin saga um allar jarðir, að þá sé erfitt að ná honum inn og svik fari vaxandi, og þessa aðvörun gaf hann, meðan skatturinn var 5 1/2%?. Nú á hann að verða 7 1/2%, og hættan á að svíkja skattinn eykst, ef hann hækkar mjög. Er þetta þá bara gert fyrir skattsvikarana, en til þess að egna alla einstaklinga þjóðarinnar aðra upp á móti hæstv. ríkisstj.?

Ef þessir tveir Alþfl.-menn hefðu nú lagt fram till. t.d. um það, að jafnframt þessari hækkun söluskattsins yrði sérhverjum kaupsýslumanni gert að skyldu að gefa nótu og setja á hana söluskattsmerki, sem sýndi það við hverja einusta nótu, að söluskatturinn væri greiddur til fulls, þeir tækju á móti söluskattsmerkjunum og yrðu að skila fullu andvirði þeirra og kæmu þannig ekki undandrætti við um einn einasta eyri eða krónu, ef þessir hv. Alþfl.-menn hefðu borið fram einhverja slíka till, og gert framgang hennar að skilyrði fyrir sínu atkv., þá teldi ég, að þeir hefðu unnið fyrir mat sínum þann daginn. En að tala um þann möguleika, að söluskattur 7 1/2% skili sér án skattsvika, er ofan í alla vitneskju, bæði þeirra og annarra, enda kemur þar niður, að ef einhverjar ráðstafanir væru gerðar til þess, að söluskattur, sem nú er bundinn í lögum, innheimtist 100%, þyrfti hæstv. fjmrh. engar viðbótartekjur og ekkert nýtt frv. um hækkaðan söluskatt, það er alveg fullvíst. Þá hefði hann a.m.k. 197 millj. kr. í viðbót, á því er enginn vafi.

Ég kem aftur að því. Það var ein leið, sem blasti við eftir júnísamkomulagið, og aðeins ein þá, sem sjálfsagt var að reyna til þrautar, og það var sparnaðarleið, — sparnaðarleið í öllum undirbúningi fjárl. og að þrautreyna það, hvort stjórnarandstæðingar fengjust ekki með í það að styrkja þjóðfélagið í efnahagsmálum með sparnaðarpólitík. Ef við hefðum sýnt það ábyrgðarleysi að neita því samstarfi, þá a.m.k. stóð stjórnin miklu betur að vígi um að bera fram slíkt frv. eins og hún hefur nú gert. En þetta reyndi hún ekki, því miður.

Hæstv. fjmrh. var ekki búinn að sitja lengi í sínum þægilega fjmrh.-stól, þegar hann sagðist hafa komið auga á, að það væru til ýmsar leiðir til sparnaðar í fjármálabúskap ríkisins. En þegar hann hafði fyrst orð á þessu, sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þeim skamma tíma, sem liðinn er frá myndun stjórnarinnar,“ — þetta var meðan stjórnin var í vöggu, var að stíga sín fyrstu spor, — „hefur mestur hluti dagsins að jafnaði farið í að undirbúa efnahagsmálafrv. Tími hefur því ekki unnizt til að koma fram sparnaði í einstökum greinum, og er fjárlagafrv. því að verulegu leyti byggt á og reiknað út með kostnaði og útgjöldum við ríkisreksturinn eins og hann er nú. Margir eru þeir útgjaldaliðir í þessu frv., sem ríkisstj. telur sjálfsagt að reyna að lækka, en slíkt krefst undirbúningsvinnu, og það þýðir ekki að áætla þá lægri á fjárl., fyrr en komin er niðurstaða um hvert einstakt atriði varðandi nýtt skipulag og hvern sparnað það leiðir af sér. Nokkur slík atriði skal ég þó nefna hér, sem verður að endurskoða á árinu og ætti að vera hægt að lækka á fjárlögum næsta árs.“

Og nú er ekki aðeins það ár liðið. Nú hefur áreiðanlega unnizt tími til að vinna að þessum sparnaðaráformum og til þess að framkvæma þá undirbúningsvinnu, sem nauðsynleg var. En þarna bara á fyrstu stundunum, án nokkurrar undirbúningsvinnu og án þess að hafa nokkurn verulegan tíma kom hæstv. ráðh. auga á 10 atriði, þar sem ætti að koma sparnaði við. Það var í fyrsta lagi varðandi utanríkisþjónustuna. Er ekki sjálfsagt að athuga það, ef ekki er búið að framkvæma þar þann sparnað, sem hæstv. ráðh. sá strax að hægt væri að koma við, þegar hann settist í stólinn? Utanríkismálin eru allútgjaldafrek, og þar er e.t.v. hægt að spara nokkuð stórar fúlgur. Í öðru lagi var það framkvæmd skattamála, og framkvæmd skattamála er mjög útgjaldafrek. Og nú þætti a.m.k. góðra gjalda vert, ef innheimtu skatta og öllu því væri við komið fyrir svipaðar upphæðir og þá var. Það mundi spara a.m.k. einn milljónatug, bara að koma því í samt lag og var, þegar hæstv. ráðh, sagði, að þarna væri auðvelt að koma við sparnaði. Í þriðja lagi má nefna rekstrarhalla Skipaútgerðar ríkisins. Ég er ekki viss um, að það sé svo auðvelt kannske, en hann sagði, að það væri það þriðja, sem væri hægt að framkvæma á sparnað, í fjórða lagi innflutningsskrifstofan og í fimmta lagi kostnaðurinn við skyldusparnað og alla skriffinnskuna í sambandi við hann. Það er vafalaust hægt að afnema þessa skriffinnsku. Í sjötta lagi kostnaður við framkvæmd orlofslaganna, og í sjöunda lagi kostnaður við eyðingu refa. Það væri alveg sjálfsagt, allir gætu orðið sammála um að spara eitthvað verulega í eyðingu refa. Í áttunda lagi að fyrirbyggja halla á rekstri póstsjóðs, í níunda lagi að endurskoða bílakostnað ríkisins og starfsmanna ríkisins, og í tíunda lagi hægt að leggja niður ýmsar launaðar nefndir. Eitthvað er nú til af þeim enn þá og hægt að leggja þær niður. Í ellefta lagi skal ég svo loks geta þess, sagði hæstv. ráðh., að bráðnauðsynlegt er að ganga fastar og betur eftir innheimtu ríkistekna og útistandandi skulda, eins og yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna hafa bent á ár eftir ár svo greinilega.

Þetta var sparnaðarpistillinn, sem hæstv. ráðh. kom með, rétt þegar hann var setztur í stólinn og hafði ekki neinn tíma til þess að vinna að sparnaði. En siðan íhugaði hann málið miklu betur, og ein tvö ár eftir þetta lengdist sparnaðarlistinn, svo að hann var ekki lengur 10—11 atriði, hann var kominn a.m.k. upp í 29 atriði, og framsóknarmenn segja, að það séu 59 sparnaðarliðir, og kannske hafa þeir rétt fyrir sér í því. Og smáir eru þessir sparnaðarliðir, ef þeir 59 samtals eða þó að þeir væru ekki nema 29, — það man ég glöggt, að eitt sinn var ráðh. kominn upp í 29 sparnaðarliði, — ef ekki er hægt að ná út úr þessu hátt á 2. hundrað millj. og losna þannig við söluskattsfrv., sem flestum ber saman um, að að mestu leyti fari til skattsvikara.

En það, sem mestu máli skiptir í sambandi við þetta mál, er það, hvort hefði verið hægt að finna leiðir, sem hefðu leitt til stöðvunar verðbólgu og dýrtíðar eða komið þar á meira jafnvægi en verður, eftir að þetta frv. er orðið að lögum. Ég hef drepið á ýmis atriði, sem benda í þá átt, og ég held því enn fram, að það sé hægt að finna leiðir gegnum sparnað og niðurskurð og með því þá heldur en hækka söluskatt að grípa til sparisjóðsbókarinnar góðu og þeirra 220 millj., sem hæstv. ráðh. segir að enn séu til utan bókarinnar. Ég útiloka jafnvel ekki þann möguleika að ákveða að fresta einhverju af þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru og fé ætlað til af tekjum ársins á 20. gr., og setja þær á heimildargrein og sjá svo til, hvernig árar á árinu 1965 um þær framkvæmdir og hvort þannig þætti þá vera ástatt efnahagslega, að skaðlaust væri að taka lán til þeirra framkvæmda, eða þá að láta það ganga dálitið hægara og bíða eitthvað, 1—2—3 ár eða svo, hægja sem sé ganginn. Þegar mikill þrýstingur er í atvinnulífi þjóðarinnar á vegum einstaklinga, er helzt ástæða til þess, að hið opinbera dragi eitthvað úr framkvæmdum hjá sér, en herði um allan helming á framkvæmdum, þegar minni er athafnageta einstaklinganna í atvinnulífinu.

Ég tel, að það sé gengið að því opnum augum, og verður aldrei lagt út öðruvísi en ríkisstj. hæstv. gangi að því með ráðnum hug að hverfa frá stöðvunarstefnunni, sem hún gekk inn á að reyna s.l. vor, ef hún knýr þetta lagafrv. fram. Það er vitað, að dýrtíðarhjólið fer í gang, og það er ekkert auðvelt að stöðva það á ný, eftir að það er farið í gang, þegar ríkissjóður hefur gengið á undan að taka nýja skattstofna, svo að skiptir hundruðum millj. Sveitarfélögin koma næst á eftir, einkaatvinnureksturinn lætur líka vaða á súðum. Og hvernig ættu þá launþegasamtökin í landinu að sitja með krosslagða arma og aðhafast ekkert og bera ekki fram neinar kröfur um að fá eitthvað í sinn hlut líka? Það er ógerningur, og þá er öll vitleysan í gangi á ný. En þessi stefna er innleidd með samþykkt þessa frv., það getur engum dulizt.

Við vorum á fundi í miðstjórn Alþýðusambandsins nú fyrir fáum kvöldum, það var rétt eftir að frv. var komið fram, og ég minnist þess ekki, nema þegar við fjölluðum um þvingunarlagafrv., að annar eins hiti hafi verið í mönnum á miðstjórnarfundi eins og þetta kvöld, og þegar uppkast hafði verið lagt fram að ályktun, kom sífellt ný og ný till. um að herða á orðalaginu, og það, að ekki var haldinn útifundur um þetta mál hér í Reykjavík núna, var eingöngu af því, að komið er fast að jólum. Annars hefði enginn getað spornað við því, að það yrði haldinn útifundur um þetta mál eins og um þvingunarlagafrv. En ályktunin, sem ég hygg að túlki skýrum orðum afstöðu Alþýðusambandsins og gerð var á miðstjórnarfundi 17. des., var þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega frv. því, sem nú liggur fyrir Alþingi um hækkun söluskatts og mun hafa í för með sér nýjar álögur, sem nema 300—400 millj. kr. á ári. Miðstjórnin telur, að með frv. þessu sé ýtt af stað nýrri verðbólguöldu, sem stefni hagsmunum launþega og eðlilegri þróun efnahagsmála þjóðarinnar í mikinn háska og torveldi stórlega alla möguleika á friðsamlegum samningum um eðlilegar kjara- og launabætur til handa vinnustéttunum. Miðstjórnin telur, að með slíkum aðgerðum til stórfelldra nýrra verðhækkana sé rift þeim grundvelli, sem lagður var með samkomulagi ríkisstj., verkalýðssamtaka og atvinnurekenda hinn 5. júní s.l. Alveg sérstaklega lýsir miðstjórnin mótmælum sínum við þá beinu brigð á þeim yfirlýsingum, sem gefnar voru í sambandi við júnísamkomulagið um það, að engar nýjar álögur yrðu á lagðar vegna niðurgreiðslna á árinu 1964, en í frv. eru 68 millj. kr. áætlaðar í því skyni.“

Þessi kafli þarna í ályktuninni er nú niður fallinn í rauninni vegna yfirlýsingar hæstv. forsrh. og þeirrar till., sem fram er borin á þeim grundvelli. En niðurlag ályktunarinnar er svo hljóðandi:

„Miðstjórnin telur, að skattahækkun nú ofan á skattrán sumarsins verki sem eitur í ógróin sár og brjóti niður trú manna á, að ríkisstj. vilji heils hugar vinna að stöðvun verðbólgu og vaxandi dýrtíðar. Þess vegna varar miðstjórnin alvarlega við því, að söluskattsfrv. verði samþykkt, og heitir á ríkisstj. að hverfa frá því óráði að gera það að lögum, en freista heldur að draga úr óhófseyðslu í rekstri ríkisins og leita sérhverra ráða til að hamla gegn verðbólgu og dýrtíð.“

Ég er sannfærður um, að það hefði ekki staðið á fulltrúum Alþýðusambandsins á liðnum haustmánuðum að ræða við ríkisstj. um sérhverja leið til áframhaldandi stöðvunar, og það mun jafnvel ekki standa á henni enn að gera þetta, þó að nú sé á elleftu stundu, ef þetta frv. væri dregið til baka og svigrúm gæfist þannig til að hugleiða möguleika til lausnar á þessum smávægilega vanda.

Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, samtök hinna opinberu starfsmanna, samþykkti einnig sama kvöldið ályktun, sem markar afstöðu þess til þessa frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur rætt frv. ríkisstj. um hækkun á söluskatti. Bandalagsstjórnin telur það mjög miður farið, að frv. þetta skyldi lagt fram, án þess að fyrst væri haft samráð um þessi mál við launþegasamtökin. Opinberum starfsmönnum hefur verið synjað um leiðréttingu á laun

um sínum, og hafa þeir því orðið að taka á sig bótalaust allar verðhækkanir frá 1. júlí 1963, en síðan hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um 23.5%. Eru þeir því illa við því búnir að taka á sínar herðar nýjar álögur. Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja skorar þess vegna á Alþingi að samþykkja ekki frv. um hækkun á söluskatti, heldur leita í þess stað úrræða til stöðvunar verðbólgu og hafa um það fullt samráð við launþegasamtökin.“

Mér þykir það illa farið, ef horfið verður frá þeirri viðleitni, sem uppi var höfð s.l. vor og þjóðin fagnaði og spáði góðu, ef haldið væri áfram á þeirri braut, og hins vegar valin vitandi vits sú óheillastefna, sem áreiðanlega leiðir til verðbólgu, aukinnar dýrtíðar, ófarnaðar fyrir þjóðina og stríðs um þau mál, sem bezt leysast með friðsamlegu samstarfi.