24.02.1965
Sameinað þing: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (2943)

67. mál, vegasamband milli Fljótshverfis og Suðursveitar

Flm. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umr. um opnun í vegasambandi á milli Fljótshverfis og Suðursveitar, er nú flutt hér af mér í þriðja sinn. Ég vænti því, að ég þurfi ekki að hafa hér langa framsögu fyrir þessari till. að þessu sinni. Mál þetta hefur verið hér allýtarlega rætt nokkrum sinnum, bæði á undanfarandi þingum og eins fyrr á þessu þingi, þar sem önnur till., sem mjög fór í sömu átt, hefur verið hér til umr. áður. En orðalagið á þessari till. minni er nokkuð á annan veg, en orðalag á þeirri annarri till., sem ég minntist hér á, að flutt hefur verið um þetta sama mál.

Meginefni þessa máls er í rauninni það, að unnið verði að því að koma á hringvegasambandi um landið, þ.e.a.s. að lagður verði akfær vegur á um það bil 30 km vegalengd yfir Skeiðarársand, þar sem nú er veglaust, og brúuð verði þau vatnsföll, sem þar þarf yfir að fara, og þá fyrst og fremst Skeiðará. Það var lengi svo talið, að það mundi vera mjög erfitt að brúa þessi vatnsföll, sem þarna eru á leiðinni, á þann hátt, sem fengi staðizt hin miklu jökulhlaup, sem þarna eiga sér stað alltaf annað slagið. Hins vegar hefur nú á seinni árum orðið veruleg breyting á því, hvernig þessi jökulhlaup haga sér og reynslan bendir til þess, að miklar líkur séu á því, að sæmilega vel gerðar brýr mundu standast þessi hlaup, eins og þau eru orðin nú. En í till. er þó gert ráð fyrir því, að e.t.v. sé réttmætt að fara þá leið að koma þarna upp ódýrari brú, þar sem hættan teldist vera mest, trébrú og þá hreinlega gert ráð fyrir því, að það geti þurft að byggja þá brú upp með ákveðnu millibili, eða þegar þessi stórhlaup koma í ána, sem e.t.v. eyðilegðu þá brúna. En það er skoðun mín, að það eigi ekki lengur að dragast að leggja í það að koma á þessu vegasambandi, koma þarna upp brúm, þrátt fyrir þá annmarka, sem á þessu eru í framkvæmd, en þeir séu þó ekki meira en sumt, sem við þurfum við að glíma annars staðar á okkar vegakerfi, þótt með öðrum hætti sé þar. En þar verðum við að ganga út frá því að hafa sífellt mikinn kostnað af vegagerðum og viðhaldi á vegunum og halda þeim opnum árlega og slíkur kostnaður mun vera í ýmsum tilfellum ekki minni, en þó að þyrfti að byggja þarna upp heldur ódýra brú í þeim tilfellum, sem þarna yrðu meiri háttar jökulhlaup.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið að þessu sinni, en vænti þess nú, að þetta mál fái afgreiðslu á þessu þingi, svo góðar undirtektir sem málið hefur fengið, þegar það hefur borið hér á góma í umr. og það hefur komið í ljós, að menn úr öllum flokkum telja nú, að það sé orðið rétt, að ráðizt verði í þessar framkvæmdir.

Ég leyfi mér svo að óska eftir því, að umr. um till. verði frestað og till. verði vísað til n., sem mun vera allshn., sem hefur fengið þetta mál áður.