19.12.1964
Neðri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

106. mál, söluskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, því að ég vil ekki lengja þessar umr., sé ekki ástæðu til þess, þar sem búið er að taka fram flest af því, sem ástæða er til að draga fram í sambandi við málið. En ég vil aðeins, eftir að hafa hlýtt á þessar umr., taka mjög sterklega undir þær áskoranir, sem hér hafa komið fram til hæstv. ríkisstj. um að draga þetta frv. til baka, a.m.k. í bili, og taka frest í janúarmánuði, til þess að þessi mál geti öll orðið endurskoðuð í tómi.

Ég vil vona, að þessar umr., sem hér hafa farið fram, hafi orðið til þess, að það hafi skýrzt fyrir mönnum, að það er hið mesta óráð að samþykkja þetta frv. vegna þeirra verðhækkana, sem af því stafa, og það hlýtur að vera hægt að finna leiðir, sem gera það að verkum, að ekki þurfi að risa ný verðbólgualda. Ég er alveg sannfærður um, að það er hægt að finna slíkar leiðir, en þá þarf í staðinn fyrir að knýja málið fram að fá frest.