03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (2951)

68. mál, Seðlabankinn og hlutverk hans að tryggja atvinnuvegum fjármagn

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt tveimur þm. öðrum að flytja hér till. þess efnis, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að Seðlabanki Íslands kappkosti að fullnægja því hlutverki, sem honum er ætlað í l. frá 1961, að vinna að því, að framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það, að framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.

Ef fylgzt er með þeim ályktunum, sem hafa verið gerðar á undanförnum árum á fundum samtaka atvinnuveganna og atvinnurekenda, kemur glöggt í ljós, að það er eitt mál alveg sérstaklega, sem þrengir mjög að vexti þeirra og viðgangi og kemur í veg fyrir, að framleiðslugeta þeirra sé fullkomlega hagnýtt. Þetta mál eða þessi vandi er lánsfjárskortur. Ég held, að það hafi varla verið haldinn svo fundur af hálfu þessara samtaka, að það hafi ekki komið mjög eindregið fram þar ósk um, að bætt væri úr þessu mikla vandamáli, sem atvinnuvegirnir þyrftu að glíma við. Það er alveg sama, hvort hér er frekar verið að ræða um samtök bænda, útgerðarmanna, iðnaðarmanna eða einhverra annarra atvinnurekenda. Hjá öllum þessum aðilum hefur það komið mjög skýrt og greinilega í ljós, að þeir teldu lánsfjárskortinn vera eitthvert hið mesta vandamál, sem atvinnuvegirnir ættu nú við að fást.

Skv. íslenzkum lögum er einum aðila ætlað alveg sérstaklega það verkefni að koma í veg fyrir lánsfjárskort hjá atvinnuvegunum. Í l. um Seðlabanka Íslands, sem vitnað er til í þessari till., er tekið fram í 2. gr., hvert eigi að vera hlutverk Seðlabanka Íslands og þar segir á þessa leið í upphafi gr., með leyfi hæstv. forseta: „Hlutverk Seðlabanka Íslands er: 1) Að annast seðlaútgáfu og vinna, að því, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt, miðað við það, að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.“ Þetta er sem sagt fyrsta atriðið af því, sem er talið verkefni Seðlabankans og á þar af leiðandi að vera aðalverkefni hans, þ.e. að sjá svo um, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það, að framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.

Ég held, að það, sem ég rakti hér í upphafi um umsagnir atvinnuveganna sjálfra um þetta mál sýni, að mjög skorti á það, að Seðlabankinn hafi fullnægt þessu hlutverki sínu og því alvarlegri er þessi vanræksla Seðlabankans og ég vil segja brot á lögum Seðlabankans, að þetta stafar ekki af því, að Seðlabankinn hafi ekki getað haft nægilegt lánsfé til umráða því að sá háttur hefur verið upp tekinn af hálfu Seðlabankans eða réttara sagt af ríkisstj., sem ræður gerðum hans, að frysta stórar upphæðir af sparifé landsmanna og koma þannig í veg fyrir, að atvinnuvegirnir gætu notfært sér þetta fjármagn. Ég hygg, að frystingin hjá Seðlabankanum nemi nú orðið eitthvað á milli 1.100 og 1.200 millj. kr. Ef þetta fé, þótt ekki væri nema að nokkru leyti, væri hagnýtt í samræmi við það, sem lög Seðlabankans gera ráð fyrir, til þess að tryggja atvinnuvegunum nægilegt lánsfé, þá byggju atvinnuvegirnir ekki við þann gífurlega lánsfjárskort, sem nú ber raun vitni um. M.ö.o.: þessi lánsfjárskortur er búinn til af þeirri stofnun, sem á að sjá um það og vaka yfir því, að atvinnuvegirnir búi ekki við lánsfjárskort. En það finnst mér rétt að taka fram, að hér er ekki fyrst og fremst þá menn að saka, sem eru bankastjórar Seðlabankans, heldur hæstv. ríkisstj., sem fyrst og fremst ræður því, hvernig störfum bankans er háttað og öðrum fremur er hér að sjálfsögðu um að saka hæstv. viðskmrh., sem eins og bankamálaráðh. á að vaka yfir gerðum þessarar stofnunar.

Ég held vegna þess, sem ég hef nú rakið, að það sé fullkomlega tímabært fyrir Alþingi að vekja athygli hæstv. ríkisstj. á þeirri vanrækslu á framkvæmd seðlabankalaganna, sem hér á sér stað og Alþingi gangi eftir því, að þeirri löggjöf, sem það hefur sett um þetta efni, verði framfylgt. Mér finnst rétt að geta þess í þessu sambandi, að sú röksemd hefur stundum verið færð fyrir frystingu Seðlabankans á sparifé, að þetta væri gert, eins og segir í þeirri grein seðlabankalaganna, sem ég hef vitnað til, að frystingin væri gerð til þess að halda verðlagi stöðugu. Ég held, að það þurfi ekki mörg orð til að svara þessari fullyrðingu, því að aldrei hefur verðlag verið óstöðugra hér á landi en einmitt síðan sparifjárfrystingin var upp tekin. Ég er ekki að segja, að sparifjárfrystingin sjálf eigi þátt í þessu nema að takmörkuðu leyti, en þetta sýnir hins vegar, að sparifjárfrysting er ekki neitt ráð eða meðal til að tryggja það, að verðlag sé stöðugt í landinu og þess vegna eru það ekki haldbær rök að ætla að réttlæta sparifjárfrystinguna með því, að hún tryggi stöðugt verðlag í landinu. Nei, sparifjárfrystingunni er haldið uppi vegna þess, að þeir, sem ráða málum í landinu, hafa ekki réttan skilning á því, sem hér þarf að gera, eða m.ö.o. nota vald sitt ekki rétt, hvort sem það er gert viljandi eða óviljandi. En þá röksemd er nú mjög farið að færa til afsökunar fyrir þá stjórnarstefnu, sem nú er fylgt í landinu, að valdhafarnir hafi a.m.k. rétt til að gera þetta, þó að þeirra stefna sé kannske ekki rétt, en vald hafa þeir til þess að framkvæma það, sem þeir vilja, hvort sem það er rétt eða ekki.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta mál frekar að sinni. En ég hygg, að öllum hv. þm., sem hafa fylgzt með aðstöðu atvinnuveganna á undanförnum missirum, hljóti að vera ljóst, hvílíkt vandamál lánsfjárskorturinn er og þess vegna hljóti þeim jafnframt að vera áhugamál um, að þeim lögum sé framfylgt, sem þeir hafa sett til tryggingar því, að atvinnuvegirnir búi ekki við lánsfjárskort og sú stofnun, sem öllum öðrum fremur á að vaka yfir því, að atvinnuvegirnir hafi nægilegt lánsfé, framfylgi þeim fyrirmælum, en geri það ekki á þann hátt að skapa stórfelldan lánsfjárskort, eins og Seðlabankinn gerir nú með frystingu á sparifé.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að þessari till. verði að loknum umr. nú vísað til allshn.