03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (2957)

75. mál, afréttamálefni

Flm. (Karl Kristjánsson) :

Herra forseti. Göngur og réttir eru töfrandi orð í sauðfjársveitum og láta líka vel í eyrum flestra Íslendinga, a.m.k. hinna eldri, hvar sem þeir eru búsettir. Í haust sem leið heyrðist kveðið samstillt frá þilförum nokkurra síldveiðibáta, sem lágu hlið við hlið í höfn einni á Austurlandi: „Eins mig fýsir alltaf þó, aftur að fara í göngur.“ Og þetta var svo að segja mitt í velgengni síldveiðanna. Síldveiðimennirnir kváðu ekki vegna hinnar hugljúfu vísu Jónasar Hallgrímssonar, þótt hún legði þeim orðin á tungu. Þeir kváðu vegna þess, að hugir þeirra leituðu um þetta leyti til þeirrar miklu lífsrómantíkur, sem Íslendingar hafa um aldir notið og njóta enn í göngum og réttum.

Ég hef þetta, sem ég nú hef sagt, sem stuttan formála að því, er ég ætla að segja um till., sem hér liggur fyrir. Með formálanum leyfi ég mér að minna á, að málefnið er þeirrar tegundar, að það verður ekki mælt í krónum einum saman. M.ö.o.: málefnið á dýpri rætur í sögu og lífsvitund þjóðarinnar, en efnishyggjan ein getur spannað eða tölfræðin greint. Af þessum ástæðum eru skyldur forráðamanna þjóðfélagsins og löggjafa þess gagnvart málefninu jafnvel enn þá meiri, en ella væri og uppfylling þeirra skyldna líka skemmtileg.

Þjóðlífsbreytingar eru um þessar mundir svo örar og margvíslegar, að mikils þarf með til þess að virkja afl þeirra til velfarnaðar og gæta þess, að sumar þeirra valdi ekki óbætanlegu tjóni. Röskun búsetunnar er eitt hið viðsjárverða vandamál þjóðlífsbreytinganna. Finna þarf ráð til þess, að fólki, sem eftir situr, þegar aðrir hverfa búferlum burtu, verði ekki félagsleg eða efnahagsleg ofraun, að dveljast áfram við staðfestur sínar, ef frá þjóðfélagslegu sjónarmiði er æskilegt, að byggð haldist á þeim stöðum eða kannske hreint og beint þjóðfélagsleg nauðsyn, að þar sé mannabyggð.

Eitt af því, sem gengið hefur úr skorðum við búseturöskunina, er fjallskilakerfið. Ég tala um fjallskilakerfi, af því að skipulag haustleita hefur undanfarnar aldir verið fastmótað og kerfisbundið um allt land. Hver afréttur hefur verið genginn og hver skiki lands, þar sem kinda getur verið von, hefur verið leitaður. Þetta hefur verið framkvæmt eftir föstum reglum. Héruð hafa skipað málunum með reglugerðum, en ríkisstj. hefur staðfest slíkar reglugerðir. Hins vegar hafa þó hin óskráðu lög venjunnar og þarfanna einna mest haft að segja. Ákveðnar fjallskilaskyldur hafa hvílt á hverri byggð eftir staðháttum, en byggðirnar hver hjá sér jafnað þeim skyldum á búendur og aðra fjáreigendur. Skyldur sveitar gagnvart sveit hafa víða verið merkur þáttur þessarar félagslegu starfsemi, af því að sauðkindur neyta löngum sumarfrelsis til þess að rása langt frá heimastöðvum og afrétti heimabyggða. Fjallskilakerfið hefur um aldir átt að sjá fyrir því, að þessar víðförlu skepnur komi til skila eða a.m.k. andvirði þeirra, ef í mikla fjarlægð er lent. Í Jónsbók eru skilmerkileg ákvæði um þetta. Svo snemma voru þessi málefni skipulögð fyrir landsheildina. Sumir hafa talið, að hin óhjákvæmilegu samtök fjáreigenda við að ná heim til sín fénu af hinum víðáttumiklu heiðum og öræfum landsins hafi leitt til stofnunar sveitarfélaganna og verið frumvísir þeirra. Hvort sem það er eða ekki, er óvefengjanlegt, að nauðsyn sú, er knúði menn strax á fyrstu árum Íslandsbyggðar til þessara samtaka, hefur haft mikil áhrif til að kenna mönnum að taka höndum saman að leysa félagslega það, sem einum eða fáum er ofvaxið að vinna.

Ég haga orðum mínum á þennan hátt, þegar ég mæli fyrir till. á þskj. 95 um afréttarmálefni, af því að ég vil leggja á það sérstaka áherzlu, að þau málefni eru að fornu og nýju málefni alls landsins og nærri því að mega heita þegnskylda. Gangnaseðillinn hvert haust í sveitum landsins er nokkurs konar útboð til að gegna herkvöð í þágu þjóðlífsins. Við búsetubreytingarnar, sem orðið hafa á seinni árum, hefur hið forna fjallskilakerfi rofnað á sumum stöðum. Það hafa komið skörð í leitarfylkingarnar. Um langan aldur hefur hver afréttur og hver almenningur á öræfum, sem utan hinna tilteknu afrétta liggur, verið leitaður af íbúum tiltekinna byggða, er næst liggja, „því at þat hæfir ei hverju byggðarlagi einn veg,“ eins og segir í Jónsbók.

Enn eru víðáttur landsins hinar sömu og áður. Enn fara kindur á sömu stöðvar og fyrr. Enn þarf því að leita sömu langvegi og áður, ef fé á að heimtast og ekki að verða úti. En í einstaka sveitum er orðið svo fáliðað, að þær hafa ekki mannafla lengur til þess að rísa undir fjallskilakvöðunum að smala, svo að sauðlaus verði löndin, sem hin aldagamla þróun í þessum málum hefur úthlutað þeim til umsjár, að því er gangnaskyldurnar snertir. Næstu sveitir hafa nóg á sinni könnu og geta ekki hlaupið í skörðin. Til er, að í þessum málum sverfi svo fast að bændum, að þeir telji erfiðleikana með fjallskilin fulla ástæðu til að hætta búskap. Að þessu verða þeir, sem málum þjóðfélagsins stjórna, að gæta og leitast við að ráða bót á, áður en byggðareyðing hlýzt af. Á það ber einnig að líta, að það er þjóðfélagsmál, að löndin verði með einhverjum ráðum smöluð áfram, vegna aðkomu fjárins, þótt enginn fjáreigandi verði lengur í byggðinni. Betra er auðvitað fyrir ríkið að styðja fámenna sveit við þessa þegnskyldu, en að verða að annast fjallskilin alveg, þegar fólkið allt er farið, sem kvöðunum gegnir enn þá af veikum mætti. Eða hver mundi eiga að gera það annar, en þjóðfélagsheildin?

Till., sem ég er að mæla fyrir, er á þskj. 95 og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta í samráði við Búnaðarfélag Íslands gera yfirlit um þá sauðfjárafrétti í landinu, sem eru svo víðáttumiklir, að fullnægjandi haustleitir á þeim eru vegna mannfæðar ofviða þeim sveitum, er að standa. Að fengnu því yfirliti — eða samhliða öflun þess — láti ríkisstj., einnig í samráði við Búnaðarfélag Íslands, gera athugun á því, hvernig haganlegast verði fyrir komið nauðsynlegri og sanngjarnri þátttöku ríkisins í fjárhreinsun þessara afrétta.

Ríkisstj. leggi skýrslu um málið fyrir Alþ., svo fljótt sem við verður komið.

Kostnaður við athugun þessara mála samkv. þáltill. þessari greiðist úr ríkissjóði.“

Við, sem till. flytjum, erum tveir þm. úr Norðurl. e. og tveir þm. úr Vestfjarðakjördæmi. Í kjördæmum okkar eru til sveitir mjög illa settar með fjallskil, eins og bent er á í grg. okkar með till. Hólsfjöllin í Norðurl. e. og Efra-fjalls bæirnir tveir, sem teljast til Austurlandskjördæmis, en hafa svipað hlutskipti í fjallskilamálum og Hólsfjallabæirnir og sennilega ekki betra, eiga í vök að verjast með fjárleitir sínar. Þetta veit ég, að allir geta skilið, sem á Íslandskortið líta og aðgæta umhverfi fjallabyggðarinnar eða hafa farið um þjóðveginn þarna og skyggnzt um víðáttuna. Nú munu aðeins vera 6 bændur eftir á Hólafjöllum og 3 bændur eftir á Efra-fjalli, þ.e. í Víðidal og Möðrudal. Á þessum 9 bændum hvílir sú herkvöð þegnskyldunnar að annast fjárheimtur úr hinum mikla heiðageim þarna, ekki aðeins sjálfra sín vegna, heldur líka vegna annarra sveita, sem eiga fé, sem þangað leitar á sumrin.

Sauðaneshreppur á Langanesi er einnig afar illa settur nú orðið vegna þess, hve hann hefur fáum á að skipa til að ganga á þau afar víðáttumiklu landflæmi, sem honum tilheyra.

Á Vestfjörðum er Snæfjallahreppur augljóst dæmi. Þar eru, að mér skilst, aðeins 7 bændur eftir. Þeir þurfa nú, síðan Grunnavíkurhreppur fór í eyði, að leita hans lönd auk sinna.

Skyldi nokkur vera til, sem telur ekki allmiklu fórnandi til þess, að Hólsfjöllin fari ekki í eyði? Það er einmitt þjóðarnauðsyn, að þau haldist í byggð, vegna umferðarinnar milli Norður- og Austurlands. Og hver ætli sæi eftir, að þjóðfélagið kostaði einhverju til, að vildisjarðirnar á Snæfjallaströnd, sem enn er búið á, haldist í byggð? En það þarf að byrgja brunninn, áður en barnið er dottið ofan í, rétta hjálparhöndina, meðan einhver er til að taka í hana.

Ég hef nefnt ákveðin dæmi um sveitir, sem er aðstoðar þörf vegna afréttamála. Án efa eru þær fleiri, sem þannig eru settar. Þess vegna er líka till. okkar flm. á þessu stigi ekki um ákveðinn stuðning við ákveðnar sveitir, heldur um að ríkisstj. láti í samráði við Búnaðarfélag Íslands rannsaka ástæður byggða landsins í þessum efnum og síðan einnig í samráði við Búnaðarfélag Íslands gera till. um úrbætur. Ætti með því móti að mega treysta því, að glöggt yfirlit fáist, svo að réttlæti geti orðið fullnægt í þessum efnum. Fyrir mitt leyti á ég ekki von á því, að sveitirnar reynist mjög margar, sem aðstoðar þurfa við fjallskilin. En jafnsjálfsagt er og skylt, að þjóðfélagið komi til liðs við þessar byggðir, þótt þær séu ekki margar. En nauðsynlegt er, að kannaðar séu aðstæður í þessum efnum um land allt, svo að sem gleggst yfirlit fáist og misrétti skapist ekki. Búnaðarfélag Íslands er þannig sett, að því er auðvelt að láta gera þetta yfirlit. Búnaðarfélagið er í alla staði réttur aðill til þess.

Þetta er ekki stórmál, en það er eigi að síður brýnt mál. Hið aldagamla net samtakanna, sem riðið var af reynslunni eftir staðháttum um land allt til þess að ná fé af fjalli, má ekki fá á sig möskvaföll, svo að féð verði eftir þess vegna. Jafnvel þó að ekki væri um eignatjón að ræða fyrir þá, sem fé eiga og heimta það ekki, er annað, sem er ákaflega þungt á metum líka: Það er mannúðarskylda að láta ekki sauðkindina, sem er húsdýr þjóðarinnar, verða úti eða líða nauð í vetrarhörkum fyrir tómlæti. Þetta er í og með dýraverndunarmál, sem fámennið ræður ekki við.

Hér er ekki verið að leggja til, að gert sé það, sem ríkisheildinni geti orðið mikil gjaldabyrði, þó að rætt sé um að létta oftaksbyrðum, sem lagzt hafa fyrir breytta búsetu þjóðarinnar á herðar nokkurra þýðingarmikilla útvarða dreifbýlisins. Það er fáliðanum í þessum efnum oftaksbyrði, sem þjóðarheildina munar ekkert um að lyfta svo undir, að vel bær verði.

Til eru þau verk, sem menn fást helzt ekki til þess að vinna, þótt gjald sé í boði. En svo vel vill til í þessu sambandi, að fjárframlagi af þjóðfélagsins hálfu til stuðnings fjallskilum, ætti að vera auðvelt að breyta í vinnu við fjallskil, því að svo marga fýsir alltaf að fara í göngur. Göngurnar eru öðrum þræði ævintýralegt sport, þótt svaðilfarir fylgi þeim stundum. Þess vegna eru þær með vinsælustu verkum. Það gerir þessi mál allmiklu auðveldari í úrlausn en sum önnur mál.

Herra forseti. Ég legg til, að þegar fyrri umr. till. er lokið, verði henni vísað til síðari umr. og hv. fjvn.