03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (2975)

87. mál, hækkun íbúðarhúsalána hjá stofnlánadeild landbúnaðarins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í tilefni af þessari till., sem ég taldi rétt að kæmu fram við upphaf umr.

Það hefur alltaf staðið til, að lán úr stofnlánadeild landbúnaðarins yrðu hækkuð hlutfallslega við lán, sem veitt eru frá húsnæðismálastjórn í kaupstöðum. Breyting í þá átt var gerð síðast, þegar íbúðalán voru hækkuð í 150 þús. kr. og þó að ekki hafi verið tekin um það formleg ákvörðun enn þá, er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að íbúðalán hækki á þann veg, að bændur búi þar ekki við lakari kost en fólk í kaupstöðum, hvað þessi hlunnindi snertir eða þessa fyrirgreiðslu.

Varðandi hitt atriðið, að þetta taki til þeirra húsa, sem lokið er á árinu 1984, þori ég ekki á þessu stigi málsins að segja neitt um það efni. Mér þykir að vísu mjög ólíklegt, að það hafi verið talið fært að gera það, enda hefur ekki verið hugmyndin sú, að hækkun íbúðarlána nái til húsa, sem fullgerð eru á árinu 1964. Það hafa að vísu ekki verið settar um það reglur enn þá, af húsnæðismálastjórn, hvenær hækkun lánanna skuli taka gildi. Það verður að sjálfsögðu fyrst og fremst með hús, sem byrjað er á á árinu 1965 og það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því með íbúðarhús í sveitum, öll, sem byrjað er á, á þessu ári að hækkun lánanna nái til þeirra, en hvort að einhverju leyti verður tekið tillit til húsa, sem byrjað var á á árinu 1964, þori ég ekki um að segja á þessu stigi málsins að öðru leyti en því, að það má teljast öruggt, að hliðstæðar reglur verði látnar gilda í því efni.

Varðandi hitt atriðið, um vextina, er það að segja, að ég geri naumast ráð fyrir því að hv. þm. geti út af fyrir sig búizt við, að það verði gerð breyting á vöxtunum, nema þá í sama mæli og gert er í sambandi við íbúðarhús í kaupstöðum,og má segja, að till. sé ekki óeðlileg, ef þannig væri á málið litið. En þó er þar um eitt, atriði að ræða, sem ég er alls ekkert viss um, að bændur mundu telja sér hagkvæmt, þ.e. að taka öll þessi lán með vísitölukjörum. Ég hef átt tal um það við marga bændur, hvort þeir mundu heldur vilja njóta þeirra fríðinda að taka þessi lán með 6% vöxtum, eins og er í dag, og með föstum höfuðstól eða taka lánin með þeirri áhættu, sem gert er ráð fyrir í l. um veðdeild Landsbankans eða húsnæðismál í kaupstöðum, að vaxtafótur sé að vísu ekki nema 4%, en það sé háð að öllu leyti vísitöluákvæði og höfuðstóllinn hækki í hlutfalli við hækkaða vísitölu. Þetta tel ég a.m.k. verulega ástæðu til þess að íhuga nánar, áður en því er slegið föstu, að það sé æskilegt eða til hagsbóta fyrir bændur, að þessi leið verði farin. Ég er ekkert að segja um, nema það væri alveg eins fært að fara þá leið fjárhagslega séð fyrir stofnlánadeildina, miðað við útvegun fjár til hennar, en ég er a.m.k. þeirrar skoðunar, að það sé mjög vafasamt, að þetta væri æskilegt fyrir bændur, að þessi vaxtabreyting yrði gerð, og varðandi hina hlið málsins, að vaxtabreytingin verði gerð, án þess að því fylgi hliðstæðar kvaðir og gert er ráð fyrir með húsnæðislán í kaupstöðum, þá reikna ég naumast með, að hv. flm. geri ráð fyrir því. Það er þá spurning um heildarvaxtakerfið í sambandi við stofnlán yfirleitt, sem yrði að takast til meðferðar, en getur ekki verið ákveðið eitt út af fyrir sig varðandi þessi einstöku lán.

Eins og menn vita, er nú veittur til íbúðarhúsa í sveitum að ég hygg yfirleitt öllum, sem byggja í sveit, 60 þús. kr. styrkur til viðbótar þessu láni, þannig að nú, eins og sakir standa, er fyrirgreiðslan hvað þetta snertir varðandi íbúðarhús í sveitum fyrir alla þá, sem fá þennan styrk, 210 þús. kr.

En ég vildi sem sagt, herra forseti, aðeins koma þessu að í þessu sambandi, sem að sjálfsögðu verður nánar rætt á sínum tíma í samráði við hæstv. landbrh. og bankaráð Búnaðarbankans, hvaða aðferðir verði hafðar varðandi ákvörðun á hækkun lánanna, en það hefur alltaf verið gengið út frá því, að sambærileg hlunnindi yrðu veitt bændum í sambandi við íbúðarhúsabyggingar og gert er ráð fyrir að veita í kaupstöðum.