03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (2976)

87. mál, hækkun íbúðarhúsalána hjá stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm (Ásgeir Bjarnason) :

Herra forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Norðurl. e. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið um, að það hafi alltaf verið gert ráð fyrir því, að lánin vegna íbúðarhúsabygginga í sveitum hækkuðu til jafns við það, sem önnur hliðstæð lán hafa hækkað. En eins og hann upplýsti, er ekki enn þá búið að taka ákvörðun endanlega um þessa hluti og tel ég, að það hafi dregizt allt of lengi. En ég vil ítreka það, að ég tel brýna nauðsyn á því, um leið og ég fer fram á hækkun á þessum lánum, að þá verði sú hækkun látin ná til þeirra, sem hafa verið að byggja síðustu árin. Vegna þess að dýrtíðaraukningin hefur verið það mikil í landinu, þá munar verulega mikið um það, hvort þessir menn fá aðeins 150 þús. kr. að láni eða 280 þús. kr. Á þessu er reginmunur og getur bjargað mörgum frá því að lenda í ógöngum, sem annars eru fyrir hendi.

Þá er ég hv. 8. þm. Norðurl. e. sammála um það, að ég tel ekki hyggilegt að taka upp vísitölulán í landbúnaði, a.m.k. ekki meðan sú ráðstöfun er ekki víðtækari í efnahagakerfi þjóðarinnar, en nú er. En meðan allt leikur jafnlausum höndum og nú er, tel ég mjög óhyggilegt að lána þessi lán með vísitöluálagi. En ég sé heldur ekki, að það sé neitt því til fyrirstöðu, að vextirnir séu lækkaðir fyrir því og vextir hafa verið lækkaðir almennt í landinu síðan þessi till. var borin fram. Þeir lækkuðu nú um síðustu áramót nokkuð. Og það er líka vitað mál. að bændur hér á landi búa við miklu óhagstæðari vaxtakjör við alla sína uppbyggingu, en bændur nágrannaþjóðanna. Þegar verið er að bera saman verðlag á landbúnaðarafurðum hjá hinum ólíku þjóðum, er sagt, að íslenzkir bændur framleiði dýrustu vöruna. En hver er ástæðan fyrir því? Er ekki ein af þeim ástæðum sú, að landbúnaðarvörur þurfa að kosta meira hér á landi, en annars staðar, að ríkisvaldið gerir minna fyrir sína bændur til þess að koma til móts við þá fjárhagslega, en önnur ríki hafa gert við sína bændur. Þess vegna er það, að ég tel, að vaxtalækkunin í þessu skyni eigi fullkominn rétt á sér, enda þótt lánin séu ekki lánuð út sem vísitölulán.