10.03.1965
Sameinað þing: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (2981)

94. mál, síldarleitarskip

Flm. (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Á þskj. 140 flytjum við 4. þm. Framsfl. svofellda till. til þál., með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að ákveða nú þegar að kaupa eða láta smíða a.m.k. tvö vel útbúin síldarleitarskip til þess að annast síldarleit allan ársins hring umhverfis landið, enn fremur að efla fjárhag síldarleitarinnar, svo að unnt verði að taka leitarskip á leigu yfir mesta annatímann á sumar- og haustsíldveiðum.“

Síldarleit á sjó hefur nú verið starfrækt um 11 ára skeið með árangri, sem alþjóð þekkir. Til þessarar nauðsynlegu starfsemi í þágu síldveiðiflotans hefur ríkisvaldið útvegað leiguskip, ekki ætíð þau sömu ár eftir ár. Síldarleitin er ákaflega mikilvæg fyrir síldveiðarnar og hefur þegar sannað ágæti sitt. Hins vegar eru þeir, sem vinna að síldarleitinni, mjög óánægðir með þær úrlausnir, sem þar eru á gerðar frá ári til árs. Bæði er, að þetta fyrirkomulag, að leigja skip yfir háannatímann og setja í þau tæki, er nokkuð dýrt og eins hitt, sem er aðalatriðið, að það skapar þessari nauðsynlegu starfsemi ekki það öryggi, sem hún þarf að búa við, ef vel á að vera.

Okkur flm. þessarar till. sýnist því nauðsynlegt, að ríkið kaupi hentug skip til þessara nota og búi þau þeim tækjum, sem nauðsynleg eru, til þess að þau geti sinnt því verkefni, sem þeim er ætlað. Við teljum, að sæmilega væri séð fyrir þörfum síldarleitarinnar, ef tvö skip 200–300 tonna væru keypt og þau sæmilega útbúin. Og það vill svo til, að hingað hafa verið flutt skip til landsins á undanförnum árum, þ.e.a.s. 250 lesta austur-þýzku skipin, sem nokkuð hafa verið notuð í sambandi við síldarleitina og hafa sýnt sig vera mjög nothæf til þessarar starfsemi. Það er að vísu svo, að um aðalannatímann nægir e.t.v. ekki að hafa tvö skip til síldarleitar. Bæði fer veiðisvæði sem síldin finnst á, mjög stækkandi og eins hitt, að síldveiðiskipunum fjölgar nú ört. Þess vegna gerum við ráð fyrir, að enda þótt ríkið keypti tvö síldarleitarskip, gæti orðið nauðsynlegt að leigja til viðbótar eitt eða fleiri skip, þegar nauðsyn er mest fyrir hendi.

Við flm. þessa máls höfum flutt það, að ég held, á þrem þingum, án þess að till. hafi náð samþykki. Ég hef mælt fyrir málinu öll þau skipti, sem það hefur verið flutt og sé því ekki ástæðu til að orðlengja það mikið núna. Ég legg því til, að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.