31.03.1965
Sameinað þing: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (2998)

110. mál, sameining sveitarfélaga

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér er á dagskrá, er á þá leið, að Alþingi skori á ríkisstj. að láta í samráði við Samband íslenzkra sveitarfélaga gera tillögur um nýja skiptingu landsins í sveitarfélög. Skulu þær miðast við að stækka sveitarfélög og sameina, eftir því sem staðhættir leyfa.

Þetta mál er ekki nýtt af nálinni. Á Alþingi í fyrra flutti fyrri flm. þessarar till., Unnar Stefánsson, einnig þáltill. um fækkun og stækkun sveitarfélaga. Sú till., sem Unnar Stefánsson flutti í fyrra, var á þann veg, að Alþingi ályktaði að skora á ríkisstj. að láta gera nýjar till. um skiptingu landsins í sveitarfélög, sem miðist við að stækka sveitarfélögin í dreifbýli með því að sameina hina fámennari hreppa, eftir því sem staðhættir leyfa. Þessari till., sem flutt var á þinginu í fyrra, var vísað til allshn., og till. var afgreidd frá þeirri n. N. leitaði þá m.a. álits Sambands íslenzkra sveitarfélaga á till., og mælti sambandið með því, að þessi till. næði fram að ganga, en benti þó jafnframt á, að það væri einnig ástæða til þess að láta efni till. ná til sameiningar sveitarfélaga í þéttbýli.

N. klofnaði í þessu máli í fyrravetur og vildi minni hl. leggja til, að þessi till. yrði samþ. með tilteknum breyt., þ.e.a.s. að endurskipulagningin á sveitarfélögunum færi fram í samráði við Samband íslenzkra sveitarfélaga og sýslunefndirnar og það var einnig fellt úr till. að takmarka þetta við hina fámennari hreppa, heldur gæti þessi samþykkt náð til allra sveitarfélaga. Og þessi nýja till., sem hér liggur fyrir, er þess vegna nokkuð frábrugðin till. frá því í fyrra. Henni hefur verið breytt til samræmis við álit minni hl. allshn. Meiri hl. allshn. vildi hins vegar láta vísa till. frá með rökstuddri dagskrá með tilvísun til ákvæðanna í sveitarstjórnarlögunum um sameiningu sveitarfélaga og taldi ekki þörf á því, að Alþingi hefði afskipti af þessum málum.

Um nauðsyn þess að sameina sveitarfélögin, bæði í þéttbýli og dreifbýli, get ég að mestu látið nægja að vísa til grg., sem fylgir þessari till. Að því er þéttbýlið varðar höfum við nokkuð skýr dæmi um samfellda byggð, þar sem ríkar ástæður eru fyrir hendi til þess að athuga gaumgæfilega, hvort eigi sé rétt að sameina sveitarfélögin í náinni framtíð. Það má nefna sem dæmi Keflavík og Njarðvík og einnig það dæmi, sem bezt blasir við augum, þ.e.a.s. Reykjavík og umhverfi hennar, þ.e. Seltjarnarneshrepp, Reykjavík, Kópavog, Garðahrepp og Hafnarfjörð. Ef það getur talizt eðlilegt að hafa 5 sveitarfélög á þessu svæði í framtíðinni, þá mætti í raun og veru alveg eins bæta því sjötta við með því að kljúfa Reykjavík í tvennt í austurbæ og vesturbæ. Í dreifbýlinu eða úti í sveitunum er þörfin fyrir sameiningu og nýskiptingu landsins í sveitarfélög hins vegar almennari en í þéttbýlinu og þar liggja aðrar ástæður til grundvallar. Um það efni vil ég leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að vísa til nokkurra ummæla í erindi sem Árni G. Eylands hélt í ríkisútvarpið um þetta mál hinn 13. jan. s.l. Hann segir svo m.a.:

„En þjóðfélagslegt og stjórnarfarslegt skipulag sveitanna hefur ekki breytzt í samræmi við það, sem hefur verið að ske með þjóðinni á hraðstígan hátt hin seinni ár og áratugi. Þar situr mestallt við það sama og verið hefur í aldir, jafnvel í þúsund ár, jafnvel ekki laust við, að sumt hafi breytzt til hins verra. Hreppar hafa verið klofnir og sýslum skipt í smærri eindir en áður var, á sama tíma sem félagssamtök fólksins hafa gerzt víðfeðmari. Getur slíkt verið rétt og heppilegt? Ég held ekki og svara spurningunni ákveðið neitandi.“

Enn fremur segir Árni G. Eylands:

„Tala hreppa á öllu landinu er 214. Af þeim var einn í eyði 1962, þegar tölur þessar eru skráðar, en eru nú tveir. Meðalfólksfjöldi í hreppi eru því 278 manneskjur, ef miðað er við 214 hreppa, en 281, ef miðað er við 212 byggða hreppa. Skiptir engu, hvor talan er. Af hinum byggðu hreppum voru 1962 39 hreppar með minna en 100 íbúa.“

Í erindi sínu bendir Árni G. Eylands á það m.a., að hvergi í Norðurálfunni hafi verið unnið markvissara að þessum málum en í Svíþjóð, og segir svo m.a. um það:

„Eitt af frumatriðunum í þessu skipulagsstarfi öllu, sem er enn ekki til loka leitt, var að stórfækka hreppum í landinu, afnema fámenn hreppsfélög og efna til langtum stærri hreppaheilda, heldur en áður var algengt. Þannig fækkaði hreppsfélögum í Svíþjóð á árunum eftir 1945 úr 2.281 niður í 811 hreppsfélög, allt vegna skipulagsaðgerða, en ekki við það, að heilir hreppar legðust í eyði.“

Þá segir Árni G. Eylands, þar sem hann dregur saman niðurstöðurnar úr erindi sínu: „Hinar stjórnarfarslegu einingar þjóðfélagsins þurfa nauðsynlega að verða stærri og sterkari heldur en hinir fámennu hreppar eru nú.“

Fyrir okkur, sem flytjum þessa þáltill., vakir það ekki að neyða sveitarfélög til sameiningar gegn vilja sínum. En við teljum, að í þessum efnum sé þó ekki nægilegt að treysta ákvæðum sveitarstjórnarlaganna um heimild til sameiningar tveggja eða fleiri sveitarfélaga, þegar vilji þeirra er fyrir hendi. Þetta mál verði að leysa á miklu breiðara grundvelli. Ríkisvaldið verði í samráði við samtök sveitarfélaganna að hafa frumkvæði að því að gera heildartill. fyrir landið allt, þar sem framtíðarstefnan í þessum málum verði mörkuð. Síðan verði að hrinda till. í framkvæmd smátt og smátt, eftir því sem skilningur sveitarfélaganna vex á nauðsyn þessarar endurskipulagningar.

Herra forseti. Ég leyfi mér að lokum að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.