21.12.1964
Neðri deild: 34. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

106. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Mér skilst, að um það hafi verið samið, að 2. umr. um þetta mál yrði mjög stutt, henni yrði mjög í hóf stillt, og ég vil fyrir mitt leyti verða við þeim áskorunum, en tel mér þó skylt að gera örlitla grein fyrir nál. okkar, mínu og hv. 1. þm. Norðurl. v., sem skipum 1. minni hl. fjhn. um þetta mál.

Samkv. þessu frv. er lagt til, að söluskattur af andvirði seldrar vöru og verðmæta og endurgjaldi fyrir hvers konar starfsemi og þjónustu verði hækkaður úr 5 1/2% í 7 1/2%. Af því mundi leiða samkv. áætlun fjárl. hækkun, er nemur 245.1 millj. kr. Fyrr á þessu ári var söluskatturinn, eins og kunnugt er, hækkaður úr 3% í 5 1/2, og þannig nemur söluskattsviðbótin á þessu eina ári 150%, og má segja, að skammt sé nú stórra tíðinda á milli í skattheimtu hæstv. ríkisstj. Þó kemur þar vissulega fleira til, eins og oft hefur verið hér á drepið.

Þegar skattalagabreytingarnar voru hér til umr. í vor, lög um tekjuskatt og eignarskatt og breytingarnar á reglunum um útsvar, voru, eins og kunnugt er, felld niður þau ákvæði l., sem höfðu tryggt það, að skattþunginn væri nokkuð í hlutfalli við verðlagið. Afleiðingarnar urðu náttúrlega þær, að gjöldin urðu miklu þyngri en þau höfðu áður verið, hlutfallslega. Dýrtíðin óx hröðum skrefum árið 1963, og þar af leiddi verulegar launahækkanir, sem gerðu það að verkum, að menn lentu í miklu hærri skattstiga heldur en rétt og sanngjarnt var og heldur en að því er virtist um tíma a.m.k. ætlað var, að þeir gerðu. Breytingarnar, sem gerðar voru í vor á skattalögunum, nægðu til þess að afstýra þessari skattahækkun, og þær brtt., sem við framsóknarmenn bárum fram við skattafrv. og miðuðu að því að hækka persónufrádráttinn, fjölga skattþrepunum og taka upp á ný umreikninginn miðað við verðgildi tekna, voru ekki samþykktar, og afleiðingin varð sú, að þegar niðurstöður álagningarinnar lágu fyrir, var hún svo þung, að ég hygg, að ekki sé ofmælt, að öllum hafi ofboðið. Og þá virtust allir sammála um það, að leiðréttinga væri þörf. Stærstu launþegasamtökin, Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, fóru fram á viðræður um þessi mál, fengu þær, og niðurstaðan af þeim viðræðum varð sú, að ríkisstj. skipaði nefnd til þess, eins og þar segir, að athuga alla möguleika á því að veita afslátt og frekari greiðslufrest á álögðum opinberum gjöldum. Og ég hygg, að almennt hafi þetta verið skilið svo, að leiðrétting á þessum mistökum, sem áttu sér stað, mundi fást. Ég hygg, að það hafi verið almenn skoðun, og ég býst við því, að flestir, sem urðu fyrir barðinu á skattal. að þessu sinni, hafi beðið með nokkurri óþreyju eftir því, að Alþingi kæmi saman, og átt von á því, að úrræði stjórnarinnar í þessum vanda yrðu með allra fyrstu málum, sem þetta Alþingi tæki fyrir. En það kom þó brátt í ljós, að svo varð ekki, og dagarnir liðu hér einn af öðrum, án þess að nokkuð heyrðist frá ríkisstj. um þessi mái, og þegar svo var komið, bárum við nokkrir þm. Framsfl. fram frv. til lækkunar skatta og útsvara. Þetta frv. lögðum við fram hér í hv. Nd. 19. okt., og eftir nokkurt þjark og þras var því visað til fjhn. þann 5. nóv. s.l. Síðan höfum við á öllum fundum, sem fjhn. hefur haldið, reynt að fá afgreiðslu á þessu máli, en aldrei tekizt, og hv. meiri hl. hefur ávallt færzt undan því að afgreiða þetta mál, borið

við ýmsum ástæðum, sem ég get ekki nefnt annað en tylliástæður, þangað til á síðasta fundi eða á fundi n. 11. þ.m., þá var loksins kveðið upp úr með það, að meiri hl. teldi ekki, að afgreiða bæri þetta frv, fyrr en með væntanlegum breytingum á skattalögum einhvern tíma á næsta ári. Þessi afgreiðsla jafngildir því að sjálfsögðu að fella frv., og hefði auðvitað verið hreinlegra að gera það, því að þetta frv. okkar um lækkun skatta og útsvara fjallar um álögur yfirstandandi árs og lækkun þeirra, en ekki um framtíðarskipulag þessara mála.

Það er óhætt að fullyrða það, að þessi málalok urðu mörgum vonbrigði, því að eins og ég sagði upphaflega, áttu menn von á því, að lagfæring fengist. En út yfir tekur þó, að réttmætum óskum um sjálfsagða leiðréttingu skuli vera ekki aðeins neitað, heldur mætt með því að leggja á stórkostlegar nýjar álögur, eins og þetta frv., sem hér er til umr., fjallar um.

Því hefur oft verið haldið fram af hálfu hæstv. ríkisstj., að beinir skattar hafi lækkað á undanförnum árum. Ég hygg þó, að mörgum muni finnasi, að skattar og útsvör hafi verið þungbærari á þessu ári en oftast nær áður. A.m.k. er það í fyrsta skipti á þessu ári, 1964, sem stjórnskipuð n. gerir till, um eins konar kreppulán handa almenningi til þess að borga með beina skatta til ríkis og sveitarfélaga.

Samkv. fjárlagafrv, fyrir árið 1965 er tekjuskattur og eignarskattur áætlaður 375 millj. kr. á því ári. Þessi skattur var 135 millj. árið 1958. Hann hefur hækkað á þessu tímabili um 240 millj. kr. eða 176%. En hér er ekki öll sagan sögð. Réttan samanburð á skattþunga nú og fyrir daga þessarar hæstv. ríkisstj. er aðeins hægt að fá með því að taka saman beina og óbeina skatta, bæði tekjuskatt og eignarskatt og tolla og söluskatt. En eins og kunnugt er, hafa tekjur af hinum síðartöldu, tollum og sölusköttum, vaxið gífurlega síðustu árin og það eru þær álögur, sem leggjast með miklu meiri þunga á allan almenning heldur en þó tekjuskatturinn og þyngst á þá, sem flesta hafa að framfæra. Til þess að sýna þá hækkun á tollum og sköttum, sem orðið hafa á þessu umrædda tímabili, höfum við í 1. minni hl. fjhn. tekið saman yfirlit um þessar greiðslur samkv. ríkisreikningi 1958 og samkv. fjárlagafrv. 1965, eins og það nú liggur fyrir. Þá kemur í ljós, að þessi gjöld voru 608 millj. kr. árið 1958, en þau eru nú 2907 millj. Þannig hefur hækkunin á tollum og sköttum á þessu tímabili numið 2299 millj. kr. Við þennan samanburð er það þó að athuga, að nú á næsta ári eru niðurgreiðslur vöruverðs reiknaðar inn í fjárlög, en eins og kunnugt er, voru þær greiddar úr útflutningssjóði árið 1958. Til þess að gera samanburðinn réttan er því nauðsynlegt að draga frá væntanlegri fjárlagaupphæð 1965 það, sem áætlað er til niðurgreiðslna á því ári, en það er samkv. frv., eins og það nú liggur fyrir, 543 millj. kr. Ég dreg það því frá fyrrnefndum 2299 millj. kr. og fæ þá út hækkunina 1756 millj. eða 289%. Og það er þessi samanburður, sem einn sefur rétta mynd af því, hvað álögurnar hafa hækkað, en ekki tekjuskatturinn tekinn út af fyrir sig. Þó er þess að geta, að vafalaust verður þessi hækkun mun meiri en ég hef hér greint frá, og það er vegna þess, að miðað er við raunverulegar tekjur árið 1958, en fjárlagaáætlun fyrir árið 1965, en tekjur af þessum gjöldum til ríkissjóðs hafa á undanförnum árum farið svo að hundruðum milljóna skiptir fram úr áætlun, og ég tel enga ástæðu til að ætla annað en að svo verði enn á næsta ári, þannig að munurinn verður enn þá meiri.

Hæstv. ríkisstj. segist þurfa að hækka söluskattinn til þess að geta afgreitt greiðsluhallalaus fjárlög. Við, sem skipum 1. minni hl. fjhn. í þessu máli, höldum því fram, að þessi staðhæfing sé röng. Og við bendum á því til staðfestingar, að verulegar fjárhæðir eru óeyddar af greiðsluafgöngum fyrri ára, sem sjálfsagt er að grípa til, áður en nýir skattar eru lagðir á, að tekjuliðir fjárlagafrv. árið 1965 séu eins og áður of lágt áætlaðir, að aukið eftirlit eigi að tryggja betri skattheimtu, en aukið eftirlit hefur nú verið boðað og ráðstafanir gerðar til þess að koma því í framkvæmd, og með sparnaði og ráðdeild megi draga úr ríkisútgjöldunum. Hér er um fjárhæð að ræða, sem nemur 245 millj. kr. Þar af stafa um 42 millj. af álagningu þessa fyrirhugaða skatts sjálfs, svo að hér er um það bil 200 millj. kr. fjárhæð um að ræða, og við teljum, að henni sé hægt að ná með þeim ráðstöfunum, sem ég hef hér talið upp. Þess vegna teljum við umrædda skattheimtu óþarfa og erum frv. andvígir af þeirri ástæðu. En þó kemur þar fleira til. Með samningum verkalýðssamtakanna, ríkisstj. og atvinnuveganna, sem gerðir voru 5. júní í vor, vannst stundarfriður, sem gaf vonir um áframhaldandi samstarf til lausnar efnahagsvandans. En framkoma ríkisstj., bæði í þessu máli og tekjuskattsmálinu, er hins vegar á þann veg, að hún eyðir trausti og torveldar áframhaldandi samvinnu. Þess vegna er frv. líka hættulegt. Þá er þess enn fremur að geta, að söluskattur er að okkar dómi ákaflega óheppileg tekjuöflunarleið, ekki sízt þegar hann verður svo hár sem hér er ráðgert. Söluskatturinn leggst jafnt á nauðsynjar sem óþarfa, og hann kemur þyngst niður á þeim, sem minnsta getuna hafa. Þar að auki er það á allra vitorði, að innheimtu söluskattsins er stórlega ábótavant hér á landi, og skal ég ekki tefja tímann með að fara lengra út í það að þessu sinni.

Af þessum ástæðum, sem ég hef nú í eins stuttu máli og ég taldi mér fært gert grein fyrir, leggjum við til, að frv. verði fellt. En verði ekki á þá skoðun fallizt, áskiljum við okkur rétt til þess að flytja við 3. umr. málsins brtt. um það að hækka hluta sveitarfélaganna af söluskattinum og um það, að inn í frv. verði tekin ákvæði um ýtarlegri rannsóknir á framtölum en það hefur nú að geyma.