10.03.1965
Sameinað þing: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3008)

117. mál, samdráttur í iðnaði

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Efni þessarar till. er að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta fara fram, í samráði við Félag ísl. iðnrekenda og fulltrúa iðnverkafólks, athugun á samdrætti, sem orðið hefur í ýmsum iðngreinum að undanförnu. Athugun þessi skal beinast að því að finna þær orsakir, sem samdrættinum valda og hvaða ráðstafanir megi gera til að koma í veg fyrir hann.

Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að á undanförnum mánuðum hefur átt sér stað verulegur samdráttur í ýmsum iðngreinum, sérstaklega í svo kölluðum verksmiðjuiðnaði. Þessu valda að sjálfsögðu ýmsar orsakir, en sú er vafalaust veigamest, að hæstv. ríkisstj. hefur leyft innflutning á ýmsum erlendum iðnaðarvarningi án þess að búa viðkomandi íslenzkar iðngreinar undir þá samkeppni svo sem vera skyldi. Þessi samdráttur er orðinn svo alvarlegur, að samtök iðnverkafólks hér í Reykjavík. í Hafnarfirði og á Akureyri hafa kvatt til sérstakrar ráðstefnu til þess að ræða um þetta mál. Ályktunin, sem þessi ráðstefna gerði, var birt í dagblöðunum í morgun og vil ég vísa til efnis hennar þessu máli til frekari sönnunar. Og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér upp nokkur atriði úr þessari ályktun, en í henni segir svo m.a.:

„Vill fundurinn vekja athygli á, að á undanförnum árum hafi verið gerðar þær ráðstafanir í tolla- og innflutningsmálum, sem leitt hafa til þess, að íslenzkur iðnaður á nú í vök að verjast vegna, harðnandi samkeppni við erlenda framleiðslu og hefur jafnvel orðið að heyja samkeppni við innlendar iðnaðarvörur, sem seldar eru undir eðlilegu kostnaðarverði. Á sama tíma hefur verið látið undir höfuð leggjast að veita iðnaðinum þá fyrirgreiðslu, sem nauðsynleg verður að teljast til að gera iðnaðinum kleift að mæta hinni auknu samkeppni. Er nú svo komið, að vissar greinar iðnaðarins fara halloka vegna hinnar harðnandi samkeppni og er atvinnuöryggi þeirra, sem í þeim greinum starfa, stefnt í hættu.

Því skorar sameiginlegur fundur fulltrúa iðnverkafólks á hæstv. ríkisstj. að staldra við á þeirri braut, sem farin hefur verið á síðustu árum á sviði tolla- og innflutningsmála, og hefjast nú handa um aðgerðir, er miði að aukinni fyrirgreiðslu til styrktar samkeppnishæfni iðnaðarins.“

Mér finnst enn fremur rétt að vekja athygli á því í þessu sambandi, að í Alþýðublaðinu í dag birtist grein eftir kunnan iðnrekanda, þar sem segir m.a. um þessi mál á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Innflutningur hefur verið gefinn frjáls á fjölda iðnaðarvarnings, án þess að sams konar íslenzkum iðnaði hafi verið gefið nokkurt tækifæri til endurskipulagningar og aðlögunar að breyttum aðstæðum. Má til dæmis nefna fataiðnað, veiðarfæraiðnað, skóiðnað, véla-framleiðslu og kexframleiðslu.“

Ég hygg, að það, sem hér hefur verið rakið og er komið frá hinum kunnugustu mönnum á þessu sviði, nægi til að sýna, að það er nauðsyn á þeirri rannsókn, sem þessi tillaga fjallar um, þ.e. að ríkisstj. láti fara fram í samráði við Félag ísl. iðnrekenda og fulltrúa iðnverkafólks athugun á þeim samdrætti, sem orðið hefur innan iðnaðarins að undanförnu og þessi athugun nái einnig til þess, að menn geri sér grein fyrir þeim ráðstöfunum, sem gera þarf til að tryggja samkeppnishæfni íslenzks iðnaðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni, en leyfi mér að leggja til, að umræðum verði frestað og málinu vísað til allshn.