17.03.1965
Sameinað þing: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (3018)

124. mál, tækniaðstoð við nýjungar í vinnslu og veiði sjávarafla

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með þeim hv. þm., sem hér hafa talað, að hér er um mjög merkilegt mál að ræða, sem þarf að gefa miklu meiri gaum, en gert hefur verið að undanförnu, þó að vissulega hafi talsvert áunnizt í þessum efnum seinustu áratugina. En mér finnst rétt að vekja athygli á því, að hér er ekki um nýtt mál að ræða á Alþ. og það eru til stofnanir hér á landi eða stofnun, sem hefur haft þetta mál með höndum um meira, en þriggja áratuga skeið.

Í tíð fyrri vinstri stjórnarinnar, fyrir forgöngu Haralds Guðmundssonar, sem þá var sjútvmrh., voru sett lög um fiskimálasjóð og fiskimálanefnd og fiskimálanefnd og sjóði var m.a. falið það verkefni að styrkja ýmiss konar rannsóknir á veiðarfærum og vinnslu fiskafurða. Á fyrstu árunum var talsvert mikið að þessu gert og því hefur verið haldið áfram á undanförnum árum, þó að fjárráð til þeirrar starfsemi hafi verið miklu naumari, en þurft hefur. Ég vil samt benda á það, að þessi stofnun, þ.e. fiskimálanefnd, sem nú er að vísu kölluð stjórn Fiskimálasjóðs, átti mikinn þátt í því á sínum tíma, að flotvarpan var tekin hér til athugunar og hefur það gefið mjög góða raun, eins og kunnugt er. Ég vildi því, áður en þetta mál fer til n., vekja athygli á því, hvort það sé ekki rétta lausnin á því að efla starfsemi fiskimálanefndar eða fiskimálasjóðs frá því, sem nú er, til að annast þetta verkefni og m.a. til þess e.t.v. að koma upp alveg fastri stofnun til þess að annast rannsókn og athugun þeirra mála, sem þessi till. fjallar um og sömuleiðis till. sú, sem hv. 5. þm. Reykn. hefur flutt og minntist hér á áðan. Ég held, að það sé ekki rétt að hefjast handa um þetta mál á nýjum grundvelli, án þess að það hafi áður verið athugað, hvort sú stofnun, sem hefur haft þessa starfsemi með höndum á undanförnum árum, sé ekki fær um að hafa hana áfram. En að sjálfsögðu verður þá að auka fjárráð hennar stórlega frá því, sem hún hefur haft til umráða að undanförnu.

Ég vil sem sagt vekja athygli þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, á því, hvort það sé ekki rétta lausnin að efla Fiskimálasjóð til að sinna þessu verkefni betur en hann hefur getað gert að undanförnu.