24.03.1965
Sameinað þing: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í D-deild Alþingistíðinda. (3036)

127. mál, útfærsla fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þegar hv. fyrri flm. þessarar þáltill. fylgdi henni úr hlaði s.l. miðvikudag, þurfti hann í byrjun ræðu sinnar að fara nokkrum orðum um þm. stjórnarflokkanna á Vestfjörðum í sambandi við flutning þessa máls og lýsti því þá yfir, að hann hefði boðið þeim að vera meðflm. að þessari þáltill., en þeir hefðu af ýmsum ástæðum, er hann rakti, ekki viljað vera flm. málsins. Í sambandi við þetta vil ég segja það, að það er rétt, að hv. frsm. og fyrri flm. þessarar þáltill. bauð mér og ég hygg öðrum þm. Vestfjarða að vera meðflm. þessarar till. síðari hluta dags 10. febr. og svo mikið lá á, að það þurfti að svara fyrir kvöldið, hvort menn vildu vera meðflm. að till., sem var algerlega tilbúin til prentunar. Í suma af þessum þm. náði flm. ekki og næsta dag, þegar við komum í þingið, var þessari till. hér útbýtt fullprentaðri ásamt þeirri löngu grg., sem henni fylgir. Má því ætla jafnvel, að hv. flm. hafi verið búinn að leggja þessa þáltill. inn til prentunar, þegar hann bauð samstarfsmönnum sínum úr Vestfjarðakjördæmi að vera meðflm. að henni.

Ég vil segja fyrir mitt leyti, að fáar óskir á ég heitari en þá, að landgrunnið úti fyrir Vestfjörðum verði friðað að öllu leyti á grundvelli l. nr. 44 frá 5. apríl 1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. En það má líka segja, að það sé mjög auðvelt verk að samþykkja þessa hispurslausu till., sem hérna er lögð fram og er hér til umr. En hins vegar verður flestum þm. sem og öðrum mönnum að hugsa nokkru lengra. Þeir hugsa þá um það, hvernig verður um framkvæmd þessarar till. og hvernig verður sambúð og samvinna við aðrar þjóðir í því sambandi og hvernig verður fyrir okkur að framfylgja þessari samþykkt á hafi úti. Erum við þá um leið að vernda það fólk, sem hér á brýnna hagsmuna að gæta og náum við yfirleitt framgangi þessa máls með góðu móti? Og það er þess vegna, að ég segi fyrir mitt leyti, að ég get ekki fylgt þessari till., að ég tel, að henni sé kastað hér fram í skyndi og ég harma það, að hv. 1. flm. þessa máls skuli ekki heldur hafa farið þá leið að ræða sérstaklega við okkur alla þm. úr Vestfjarðakjördæmi um þetta mál, velta því fyrir okkur, á hvern hátt er skynsamlegast að hreyfa þessu máli til þess að ná sem beztum árangri fyrir það fólk, sem Vestfirði byggir. Á slíkum fundi hefði komið fram sjónarmið okkar. Þá hefði ef til vill getað náðst samkomulag um það, hvaða leið væri heppilegast og skynsamlegast að fara.

Mér er það alveg ljóst, að við útfærslu fiskveiðalandhelginnar 1958, þegar landhelgin var færð úr 4 í 12 mílur og firðir og flóar víða á landinu voru lokaðir, fengum við Vestfirðingar tiltölulega minnst vegna legu Vestfjarða, og það bar því fljótt á því, að ágangur togara jókst á Vestfjarðamiðum, eftir að fjörðum og flóum hér syðra hafði verið lokað og það sýna glöggt hinar tíðu og auknu skipakomur, sérstaklega brezkra togara, til Vestfjarða og þá einkum til Ísafjarðar, að hér hefur orðið stórkostleg aukning á brezkum skipum við veiðar úti fyrir Vestfjörðum.

Við glöddumst innilega yfir útfærslu landhelginnar, en við höfum aftur orðið mjög þunglega fyrir barðinu á togurum á undanförnum árum og þó sérstaklega frá því, því snemma á haustinu og nokkuð fram yfir áramót. Við höfum orðið fyrir þungum búsifjum af þeim sökum. Við höfum misst mikið af veiðarfærum okkar í togarana. Það hafa orðið árekstrar á miðum úti og því var það ekki óeðlilegt eftir erfitt tíðarfar fyrir Vestfjörðum á s.l. hausti og fyrri hluta janúarmánaðar og síðan á eftir mikla ágengni erlendra veiðiskipa, að okkur Vestfirðingum væri umhugað um það, að hér þyrfti að verða breyting á. Og þegar ég kom suður í byrjun febrúarmánaðar, hreyfði ég ásamt öðrum þm. sjálfstæðismanna í Vestfjarðakjördæmi í mínum flokki, því alvarlega ástandi, sem væri að skapast á Vestfjörðum. En mér er það alveg ljóst, að við náum engum árangri og við stöndum ekkert nær því takmarki að vernda okkar fiskimið og bátamið með einstrengingslegri till. sem þessari. Við verðum að fara gætilega í sakirnar og gera það, sem við álitum að sé bezt fyrir okkur sjálfa til þess að ná árangri og þá þurfum við að leita samstarfs við ýmsa aðra og koma saman til þess að ræða þessi mál og mynda okkur að lokum þá skoðun, sem við teljum að sé vænlegt að bera fram til þess að fá einhverjar úrbætur í þessum málum.

Ég verð að segja það, að mér finnst, að bæjarstjórn Ísafjarðar hafi tekið ólíkt viturlegar á þessu máli með samþykkt, sem hún gerði í janúarlok og send var til Alþingis og ríkisstj., en þar segir hún í sambandi við þessi mál, orðrétt: „Gera verður nú þegar ráðstafanir til að friða ákveðin veiðisvæði bátaflotans fyrir Vestfjörðum,“ — og bendir bæjarstjórnin í því sambandi á brýna nauðsyn þess að friða Djúpálinn, Nesdýpið og Víkurál. — „frá því að haustvertíð bátaflotans hefst og til vetrarvertíðarloka. Jafnframt verði unnið markvisst að því yfirlýsta takmarki að friða allt landgrunnið hið skjótasta.“ Útvegsmenn á Vestfjörðum komu saman um líkt leyti og þeir og sjómenn hafa auðvitað brýnustu hagsmuna að gæta, og í þeirra viðræðum og ályktunum, sem samþ. voru, var mjög bent á það sama, sem bæjarstjórn Ísafjarðar gerir í sinni ályktun. Nú er það ekki fyrir það, að bæjarstjórn Ísafjarðar eða Útvegsmannafélag Vestfjarða vilji ekki friða allt landgrunnið, heldur er það, að þeir telja, eins og allir aðrir, sem um málið hugsa af skynsemi, en láta ekki eingöngu tilfinningarnar ráða, að það verði að fara gætilega í þessu máli og undirbúa það enn betur, en gert hefur verið. Og þá er bent á það vegna þess alvarlega ástands, sem hefur skapazt sérstaklega á fiskimiðunum úti fyrir norðanverðum Vestfjörðum og á Húnaflóa, sérstaklega þó á norðanverðum Vestfjörðum, hvort það sé ekki rétt að reyna þessa leið og ræða auðvitað við sérfræðinga, hvort hún sé framkvæmanleg eða ekki og á það leggjum við mikla áherzlu, að hún sé athuguð mjög gaumgæfilega, enda hefur dómsmrh. tekið þessu máli mjög vel og það er í athugun, en hins vegar er of snemmt að segja neitt um á þessu stigi málsins, hvað út úr því kemur.

Ég vil vekja athygli á því, að það eru fleiri þm. Vestfirðinga, sem ekki eru flm. að þessari þáltill., en stjórnarliðarnir frá Vestfjörðum. Þar er ekki 1. þm. Vestf., Hermann Jónasson, fyrrv. forsrh. Ég trúi því ekki, að hv. 5. þm. Vestf. hafi ekki boðið 1. þm. Vestf. að vera flm. að þessari þáltill. Það hlýtur því að vera þess vegna, að 1. þm. Vestf. hefur haft mjög svipaða afstöðu og við hinir, að honum hefur kannske fundizt tíminn skammur og jafnvel hitt, að honum finnst of geyst af stað farið og ekki líklegt að ná sem beztum árangri. En þess gat hv. flm. ekki s.l. miðvikudag, að Hermann Jónasson hefði ekki óskað eða viljað vera meðflm. að þessari till.

Ég ætla ekki að ræða meira um efni till. og þó sérstaklega ekki þetta viðkvæma mál. Þessari till. verður vafalaust vísað til n. og þar gefst tækifæri til þess að athuga hana nánar, en ég vil aðeins segja það, að það hefur verið mín skoðun alltaf, að ég tel, að landhelgismálið eigi að vera hafið yfir alla flokkadrætti og pólitískt dægurþras og að íslenzkir stjórnmálamenn eigi að ræða það mál fyrst sín á milli, áður en það er rætt opinberlega, til þess að finna skynsamlegar leiðir hverju sinni, en einstakir þm. eigi ekki að stefna að því að fá í sambandi við landhelgismálið einhverjar sérstakar rósir eða fjólur í hnappagatið.