24.03.1965
Sameinað þing: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (3037)

127. mál, útfærsla fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Samkv. þessari till. er lagt til, að sú breyting verði gerð á fiskveiðalandhelgi okkar, að allt landgrunnið út af Vestfjörðum verði innan fiskveiðamarkanna. Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt og greinilega hefur komið fram hér í umr. um þetta mál, var sú stefna mörkuð í landhelgismálinu með landgrunnslögunum frá 1948 að, að því marki væri stefnt, að allt landgrunnið í kringum landið skyldi verða innan íslenzkrar fiskveiðalandhelgi. Þessi löggjöf hefur jafnan verið talin mjög skýr stefnuyfirlýsing okkar í landhelgismálinu og oft til þessarar yfirlýsingar vitnað, enda var fullkomin samstaða hér á Alþingi og meðal allra stjórnmálaflokka í landinu um þessa meginstefnu. Að því að ná fram þessu marki hefur síðan verið unnið, eftir því sem talið hefur verið á hverjum tíma að unnt væri eða hagstæðast væri fyrir íslenzkan málstað.

Hér hefur verið á það bent, að við höfum valið þá leið til þess að ná þessu marki að sækja fram í áföngum. Við vitum, að okkar merkilegustu áfangar í þessum efnum voru í fyrsta lagi útfærslan fyrir Norðurlandi sumarið 1950 og síðan grunnlínubreytingarnar árið 1952 og útfærslan þá út í 4 mílur og síðan útfærslan út í 12 mílur árið 1958. Ákveðnar ástæður lágu til þess í hvert skipti að þessir áfangar voru valdir, en í þessum efnum stefndum við allan tímann að þessu yfirlýsta markmiði okkar, þ.e. að helga okkur meira og meira af öllu landgrunnssvæðinu sem okkar sérstöku fiskveiðalandhelgi.

Það er rétt, að við völdum grunnlínubreytingarnar og fjögurra mílna fiskveiðalandhelgina 1952, einmitt vegna þess, að þá stóðu málin þannig, að það var sérstaklega hagstætt að sækja fram í málinu og ljúka þessum tiltekna áfanga. Þá, sem sagt, hafði fallið dómur í deilu Norðmanna og Breta um nokkuð hliðstætt mál og það var mjög auðvelt fyrir okkur aðskáka í skjóli þessa dóms og reyna að ná í þetta skipti þessu skrefi.

Við vitum svo allir, hvernig þetta tókst og hvaða erfiðleikum það var bundið að komast allan þennan áfanga. Það lágu á sama hátt alveg ákveðnar ástæður til þess árið 1958, að 12 mílurnar voru valdar þá. Þá var ástandið þannig, að fyrir lá, að um 23 þjóðir í heiminum höfðu tekið sér 12 mílna landhelgi og viðurkenningin á því meðal þjóðanna, að sérhver þjóð hefði rétt til þess að helga sér 12 mílna landhelgi, sú viðurkenning var orðin svo almenn, að það skapaði alveg sérstaka aðstöðu fyrir okkur að notfæra okkur þetta álit, þessa viðurkenningu til þess að stíga þetta stóra skref, sem stigið var 1958.

Það er alger misskilningur, sem maður hefur séð hér í blöðum stundum, þegar þetta mál hefur verið rætt nú upp á síðkastið, að með þeirri afstöðu, sem við tókum árið 1958, þegar 12 mílna mörkin voru ákveðin, að þá höfum við í rauninni markað okkar afstöðu þannig, að við vildum binda landhelgina við 12 mílur og ekkert meira, vegna þess að við studdum þessa almennu skoðun, sem þá var uppi, að rétt væri að slá því föstu, að sérhver þjóð hefði ein og út af fyrir sig rétt til þess að helga sér 12 mílna landhelgi. Við Íslendingar tókum það mjög skýrt og greinilega fram í allri þeirri baráttu, sem átti sér stað á þessum tíma, að það væri ekki okkar meining, að þótt við ættum óskoraðan rétt til þess að taka 12 mílur, þá væri þar með okkar landhelgismálabaráttu lokið. Við lýstum því margsinnis yfir, að við stefndum að því að helga okkur allt íslenzka landgrunnið og við teldum okkur eiga siðferðilegan rétt til þess og sambærilegan rétt við margar aðrar þjóðir, sem höfðu gert nokkuð hliðstæðar ráðstafanir og að ýmis efnahagsleg rök lægju einnig til þess, að við gætum tekið okkur þennan rétt. Eins og fram hefur komið í þessum umr., kom það alveg ótvírætt frá íslenzkum stjórnarvöldum og beint frá Alþ. í yfirlýsingarformi, að við áskildum okkur þennan rétt og lýstum því yfir, að við stefndum að því að færa landhelgina út fyrir 12 mílna mörkin og stefndum að því að helga okkur allt landgrunnið. Um þetta var m.a. yfirlýsing Alþ. frá því í maí árið 1959 alveg ótvíræð. Og í þessa átt fór einnig sú yfirlýsing, sem fólst í samningagerðinni við Breta, sem fram fór í marzmánuði 1961, þar sem því var beinlínis lýst yfir, að áfram yrði unnið að því að vinna að viðurkenningu þess, að Íslendingar gætu haft innan sinna fiskveiðatakmarka allt landgrunnssvæðið. Þannig hefur stefnan í þessu þýðingarmikla máli verið mörkuð og þannig hefur verið unnið að þessu máli í aðalatriðum.

En með þeim samningum, sem gerðir voru við Breta 1961 um sérstök fríðindi þeim til handa innan íslenzku fiskveiðalandhelginnar um 3 ára tímabil, voru hins vegar gefin fyrirheit, sem að margra dómi voru æði hættuleg einmitt varðandi aðstöðu Íslands til þess að ná þessu setta marki sínu í landhelgismálinu. Þá var því nefnilega lýst yfir, að þó að Ísland ætlaði sér áfram að vinna að frekari útfærslu fiskveiðalögsögunnar við landið, skuldbyndi íslenzk ríkisstj. sig til þess að gera það ekki nema á þann hátt að tilkynna Bretum um slíkar ráðagerðir og ef Bretar vildu ekki fallast á þær, skuldbindi Ísland sig til þess að skjóta þeim ágreiningi, sem þá kynni að koma upp, undir úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag.

Þegar þetta mál var rætt hér mest á árinu 1961 eða um það leyti sem verið var að gera þennan samning, bentum við á það, sem vorum gegn þessari samningagerð, að í þessu ákvæði væri fólgin mikil hætta og þetta gæti orðið mjög til þess að hefta Íslendinga í þeirri viðleitni að reyna að helga sér allt landgrunnssvæðið, eins og var þó yfirlýst stefna okkar. En þeir, sem að samningagerðinni stóðu, vildu ekki viðurkenna það, að með þessu ákvæði væri verið að hefta, okkar baráttuaðstöðu í þessu máli, við hefðum eftir sem áður lausar hendur í málinu og gætum unnið að því að ná því marki, sem við höfðum sett okkur í þessum efnum.

Nú er auðvitað enginn vafi á því að, að því hlýtur að koma, að menn verða að gera það upp við sig í framhaldi af þessu, sem gerzt hefur í málinu, hvernig menn hugsi sér að vinna að frekari útfærslu eða stækkun íslenzku fiskveiðalandhelginnar frá því, sem nú er, með hvaða hætti og eins hvenær á að taka málið upp að nýju. Ég álít, að sá tillöguflutningur, sem hér hefur nú orðið, þar sem þetta mál hefur nú verið lagt fyrir Alþ. í formi þáltill., sé mjög eðlilegur og í fullu samræmi við það, sem áður hefur gerzt í þessu máli. Á árunum 1955 og 1958 voru fluttar hér á Alþ. margar þáltill., sem mjög fóru í svipaða átt og þessi, þar sem einstakir kjördæmaþm. komu fram hér á Alþ. með óskir sinna héraða um útvíkkun landhelginnar á þeim slóðum. Og þessar fjölmörgu till., sem hér voru fluttar í þessa átt, höfðu vitanlega sin áhrif og lágu fyrir sem ótvíræð viljayfirlýsing frá fjöldamörgum þm., auk þess sem þær voru síðar valdaðar af beinum flokkslegum yfirlýsingum stjórnmálaflokkanna í landinu. Þessar till. urðu auðvitað til þess að ýta á stjórnarvöldin með það að taka málið upp og reyna að finna þann flöt á málinu, sem beztur þótti eftir atvikum til þess að vinna að stækkun íslenzku fiskveiðalandhelginnar, helzt í kringum allt landið. Ég lít einmitt þannig á þessa till., sem hér liggur fyrir.

Hér kemur fram till., frá tveimur þm. úr kjördæmi Vestfirðinga, þar sem eindregið er lagt til, að nú verði fiskveiðalandhelgin fyrir Vestfjörðum stækkuð og unnið að því að framkvæma yfirlýsta stefnu Alþ. og þá stefnu. sem ég ætla að allir stjórnmálaflokkarnir í landinu vilji standa að. Ég tók eftir því, að þegar hæstv. dómsmrh. ræddi hér þessa till., vildi hann af skiljanlegum ástæðum ekki mæla á neinn hátt gegn till. Hann tók till. miklu fremur vel, en lýsti þó mjög litlu yfir um afstöðu sína til till. Hann vék að vísu að því, að till. mundi ganga til n. og færi bezt á því, að þar yrðu höfð samráð um það, hvernig skyldi snúast við þessu verkefni. En með þessu er auðvitað harla lítið sagt. Margar till. hjá okkur hafa nú gengið til nefnda, og það hefur auðvitað á vinsamlegan hátt verið minnzt á þær till. í nefndum, en meira hefur ekki heldur gerzt. En ég álít, að þetta mál sé þannig, að það sé ómögulegt að bregðast þannig við að senda till. sem þessa til n. og láta hana lognast þar út af hreyfingarlítið. Ég álít, að annað sé ekki sæmandi en það, að ríkisstj. taki þannig tillöguflutningi sem þessum að setja a.m.k. niður nefnd, sem er falið það sérstaka verkefni að vinna að því að samræma afstöðu og aðstöðu þm. til þess að vinna að framgangi málsins, því að það gefur alveg auga leið, að ekki síður þeir, sem stóðu að samningagerðinni við Breta árið 1961 og þeirri yfirlýsingu, sem þá var gefin, ekki síður þeir en hinir, sem voru á móti þeirri samningagerð, verða fyrr eða síðar að gera það upp við sig, hvernig þeir ætla að standa að því að framkvæma þá stefnuyfirlýsingu, sem hér er staðfest í l. hjá okkur um það, að Íslendingar stefni að því að helga sér allt landgrunnið. Hvernig ætla þeir að standa að því að vinna að því máli eftir þá samningagerð og þá yfirlýsingu, sem þeir stóðu að því að gefa með samningunum við Breta frá því í marz 1961? Hafa þeir hugsað sér að halda þannig á málinu, að Alþ. Íslendinga eða íslenzk stjórnarvöld geti ekkert gert annað í málinu af sinni hálfu, en ræða málið við Breta og leita álits þeirra um það, hvort þeir gætu fallizt á einhverja stækkun landhelginnar? Og ef Bretar geta ekki fallizt á stækkun. — sem við þurfum raunar ekki að spyrja um, við vitum það, að þeir geta ekki fallizt á hana, á því getur enginn vafi leikið, miðað við allar þær yfirlýsingar, sem við höfum frá þeim um það mál. — hvað hyggst ríkisstj. þá, gera? Ef það liggur skýrt fyrir, að stjórn Bretlands getur ekki fallizt á stækkun íslenzku fiskveiðalandhelginnar, hvað er þá meiningin að gera? Er þá ekki meiningin, að til þess komi, að Alþingi Íslendinga eða íslenzk stjórnarvöld taki ákvörðun um beina útfærslu í einu eða öðru formi sem miðar að stækkun fiskveiðalandhelgina, og við förum þá svipaðar leiðir og við höfum farið allar götur fram til þessa tíma, að við verðum einhliða að taka ákvarðanir í málinu sjálfir, velja okkur sjálf-ir aðstöðu og tíma, en við verðum sjálfir að taka einhliða ákvörðun, en ekki semja fyrir fram um málið við aðra?

Þá kemur auðvitað líka upp sú spurning, ef Bretar nú bregðast þannig við, sem lítill vafi er víst á, að þeir mundu mótmæla sérhverri útfærslu af okkar hálfu, er þá ætlunin að túlka þannig yfirlýsinguna í samningnum frá 1961, að við séum þar með skuldbundnir til þess að lúta úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag um þessa útfærslu? Ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um það, eftir að hafa hlýtt á margar og miklar ræður meðal alþjóðalögfræðinga einmitt um landhelgismálið, að það er með öllu vonlaust, eins og málin standa núna, að við getum vænzt þess að fá úrskurð hjá Alþjóðadómstólnum um það, að við höfum lagalegan rétt til þess að stækka okkar fiskveiðalandhelgi frá því, sem nú er, einfaldlega af þeirri ástæðu, sem margsinnis hefur verið bent á af fjöldamörgum alþjóðalögfræðingum, sem fjalla um þessi mál, að Alþjóðadómstóllinn hefur ekki eftir neinum lögum að fara í þessum efnum. Það er viðurkennt, að um þau atriði, sem fjalla um stærð landhelgi, eru engin alþjóðalög viðurkennd af þjóðum. Þar halda hinar ýmsu þjóðir fram mismunandi kenningum. En hitt er langalmennast viðurkennt, að alþjóðalagagrundvöllur sé þarna ekki fyrir hendi. Er þá ætlunin sú, ef ríkisstj. vill túlka áfram þetta ákvæði í þessum 3 ára samningi, sem gerður var við Breta, á þessa lund, að með því sé allri frekari baráttu okkar til stækkunar á íslenzkri fiskveiðalandhelgi lokið, nema aðeins á þeim eina grundvelli, að Bretar vilji fyrir sitt leyti samþykkja stækkunina?

Því hefur verið haldið fram af mörgum íslenzkum stjórnmálamönnum og þá ekki síður m.a. af hálfu forustumanna Sjálfstfl., að landhelgismálið væri þess eðlis, að um það gætum við ekki samið eða um rétt okkar í þeim efnum við aðrar þjóðir, það væri slíkt lífshagsmuna spursmál fyrir okkur Íslendinga, slíkt efnahagslegt öryggismál okkar, að við gætum ekki samið við aðrar þjóðir um réttindi okkar í þeim efnum. Ég held enn sem fyrr, að þetta sé rétt, það sé með öllu útilokað fyrir okkur að afsala okkur þeim rétti, sem hefur reynzt okkur sterkastur í þessu máli, það er okkar einhliða ákvörðunarréttur í málinu. Hitt er svo allt annað mál, að þótt við höldum við þann rétt, að við höfum, eins og aðrar þjóðir, okkar einhliða rétt í málinu, eigum við gjarnan að beita þeim rétti á þann hátt, að við lendum í sem minnstum vandræðum, við séum ekki að egna til óvildar við aðrar þjóðir umfram það, sem lífshagsmunir okkar krefjast á hverjum tíma.

Ég veitti því athygli, að þegar samningurinn við Breta árið 1961 var gerður um sérstök fríðindi þeim til handa innan íslenzkrar fiskveiðalandhelgi, litu ýmsir af forustumönnum t.d. brezkra togarasamtaka þannig á þann samning, að með honum hefðu Íslendingar einu sinni fyrir allt afsalað sér rétti til þess að geta fært landhelgismörk sín út fyrir 12 mílur. Á sínum tíma var á það bent, að varaformaðurinn í samtökum brezkra togaraeigenda hefði svarað spurningu í sambandi við þennan samning og hann hefði svarað spurningu um þennan samning, sem þá var gerður, á þá lund, að hann teldi, að brezka ríkisstj. hefði unnið mjög þarft og gott verk með þessari samningagerð, með því að takast að halda Íslendingum innan 12 mílna markanna, því að þeir hafi verið hræddir um það, að Íslendingar ætluðu sér að færa landhelgismörkin út fyrir 12 mílna mörkin. Forustumenn brezkra togarasamtaka litu svo á, eins og margir hér á Íslandi óttuðust, að þessi samningagerð kynni að þýða það, að við værum þarna að glata möguleika okkar til frekari stækkunar, ef ætti að standa að öllu leyti við þessa sérstöku samningagerð, sem þarna fór fram. En ég vil ekki trúa því, að þeir aðilar, sem stóðu að þessari samningagerð við Breta af hálfu Íslendinga og stóðu fyrir því að lýsa yfir í þessum samningum jafnhliða, að áfram yrði unnið að viðurkenningu á frekari stækkun landhelginnar, hafi hugsað sér að gefast upp í þessu máli, jafnvel þótt þeir fengju hart nei frá Bretum, sem þeir hafa ekki getað efazt um. Ég vil því vænta þess, að þrátt fyrir þessi ákvæði, sem þarna voru skráð í þennan 3 ára samning, viðurkenni íslenzk stjórnarvöld það enn í dag, að það beri að halda áfram baráttunni fyrir frekari útfærslu fiskveiðamarkanna og það sé kominn tími til þess nú, að Íslendingar reyni að samstilla krafta sína um það, hvernig skuli taka á vandamálinu, hvað skuli næst gera.

Hér er borin fram till. um það að færa út landhelgina á takmörkuðu svæði kringum landið, þ.e.a.s. stækka fiskveiðalandhelgina aðeins úti fyrir Vestfjörðum, þar sem þörfin nú í dag er tvímælalaust mest. Ekki vil ég neita því, að það geti komið til mála fleiri tillögur. Ein till. er sú, sem hér var aðeins minnzt á af hv. 11. landsk. þm. og aðrir menn á Vestfjörðum, hafa verið að minnast á. Hún er sú, að út verði gefin reglugerð um ákveðna friðun tiltekinna veiðisvæða, t.d. úti fyrir Vestfjörðum, fyrir veiðum með ákveðnum veiðarfærum og þá gildi að sjálfsögðu slík ákvæði jafnt fyrir Íslendinga sem útlendinga. Með því að beita þessu ákvæði á réttan hátt, er vitanlega hægt að ná okkar tilgangi að mjög verulegu leyti í ýmsum tilfellum. Mér er það alveg ljóst, að væri t.d. sett reglugerð um það, að á tilteknum tíma væri á ákveðnum svæðum út af Vestfjörðum bannað að veiða með botnvörpu, jafnt Íslendingum sem öðrum, en aðeins heimilað t.d. á þeim svæðum að veiða með línu eða á öðrum svæðum að veiða þar aðeins með netum, mundi það í reynd þýða það, að Íslendingar svo að segja einir ættu þá þennan veiðirétt, því að það er mjög ólíklegt, að aðrar þjóðir gætu notfært sér slíkan rétt að neinu ráði. Það má segja, að slíkar ráðstafanir miðuðu í þessa átt, sem okkar stefnuyfirlýsing beindist að, þ.e. að Íslendingar einir gætu búið að fiskimiðunum á öllu landgrunninu í kringum landið. En ég tel, að hæstv. ríkisstj. verði nú í þessum umr. að svara því af sinni hálfu: Hvað hyggst hún gera í þessu máli? Það getur vitanlega ekki verið fullnægjandi að segja það eitt í þessum umr., að ríkisstj. vilji láta vísa þessari till. til n. og þar verði hún athuguð og meira verði ekki sagt. Ríkisstj. verður að láta eitthvað koma fram um það, hvernig hún hugsar sér að vinna að stækkun íslenzku fiskveiðalandhelginnar, hvernig hún ætlar að taka málið upp. Og er það kannske tilfellið, að hún líti þannig á málið, að hún telji, að Íslendingar einir geti ekkert í málinu gert, þeir verði að spyrja aðra? Ef þetta er álit ríkisstj., er bezt, að það komi fram, því að í jafnmikilvægu máli fyrir Íslendinga á hið sanna vitanlega að koma fram.

Það hefur verið sagt í þessum umr., að það sé orðin meiri þörf á, því að stækka fiskveiðalandhelgina úti fyrir Vestfjörðum en annars staðar við landið og ég er fyrir mitt leyti ekki í neinum vafa um, að þetta er rétt. Það er rétt, að tiltölulega minni hluti af fiskimiðum bátaflotans úti fyrir Vestfjörðum er nú kominn inn í íslenzku fiskveiðalandhelgina, en fiskimið á öðrum stöðum við landið. Þeir hafa að vísu haft fyrir Vestfjörðum 12 mílna beltið alveg óskorað. Það hefur engin skerðing verið gerð á því, á sama tíma sem nokkur skerðing er á 12 mílna beltinu við alla aðra landshluta, því að við vitum, að íslenzkir togarar mega á alllöngu tímabili á hverju ári sums staðar veiða upp að 4 mílum, annars staðar upp að 6 mílum og á enn öðrum stöðum upp að 8 mílum, en fyrir Vestfjörðum er íslenzku togurunum haldið utan við 12 mílna mörkin allt árið um kring. En Vestfirðingar hafa hins vegar ekki fengið neina frekari stækkun en 12 mílna mörkin beinlínis gefa, ekki vegna breytingar á grunnlínum, svo að neinu nemur, en allir aðrir landshlutar hafa fengið sína fiskveiðalandhelgi allverulega stækkaða bara á grundvelli breytinga á grunnlínudrætti. Þannig má segja það, að Vestfirðingar hafi fengið í sinn hlut, þrátt fyrir allt, nokkru minna út úr útfærslunni, en flestir aðrir. En það er líka annað og meira, sem þarna kemur til. Aðstæður eru þannig, að það er eðli málsins samkvæmt miklu meiri ágangur togara á Vestfjarðamið, en á mið annars staðar kringum landið og það hefur verið svo um margra ára bil. Togaraflotinn, bæði innlendi togaraflotinn og þó sérstaklega erlendur, hefur stundað miklu meir og miklu lengri tíma veiðarnar úti fyrir Vestfjörðum en annars staðar.

En það væru líka til, og mér dettur í hug að minnast á það í sambandi við þetta mál — það væru líka til fleiri leiðir til þess að aðstoða Vestfirði í þessum efnum. Ég hef hér tvívegis flutt á Alþ. frv. um það, að l. um bann við botnvörpuveiðum í landhelgi væri breytt á þann hátt, að sektir væru hækkaðar mjög verulega frá því, sem verið hefur og önnur refsiákvæði líka þyngd, sem sérstaklega mundu bitna þungt á erlendum veiðiskipum, þ.e.a.s. reglur varðandi að gera upptæk veiðarfæri á raunhæfan hátt, en ekki á þann gervihátt, sem verið hefur í framkvæmd. Slíkar ráðstafanir mundu hafa orðið mjög heilladrjúgar fyrir Vestfirðinga í þessum efnum. En þessi tillöguflutningur minn hefur ekki komizt lengra en svo, að málið hefur að vísu fengið að fara í n., bæði í þinginu í fyrra og eins nú. Nú var það sent í n. snemma í nóvembermánuði og þar liggur málið enn óafgreitt. Og ekki vil ég neita því, að það væri hægt að gera enn fleiri ráðstafanir, sem gætu miðað að því að aðstoða Vestfirðinga og aðra þá, sem á hallar í þessum efnum, ef fyllilega væri vilji fyrir hendi.

Ég álít, að það sé í mesta máta óviðeigandi og óeðlilegt, að hér sé sagt í umr. um þetta mál, að sú till., sem hér liggur fyrir, sé einstrengingsleg till. Till. er vitanlega í fyllsta máta eðlileg og sjálfsögð og í fullu samræmi við yfirlýsingar allra stjórnmálaflokka í landinu. Spurningin getur ekki verið um neitt annað en það, hvort við teljum okkur hafa sakarafl til þess að koma till. í framkvæmd eða hvort það kann að vera rétt að doka við einhvern tíma og t.d. taka eitthvað minni áfanga en hér er stungið upp á. Ég tel líka mjög óeðlilegt, þegar talað er um það hér, að það eigi ekki að fara svona geyst í málið og það eigi að undirbúast betur og framvegis, á sama tíma sem menn koma þá ekki fram með neinar till. um það, hvernig að málinu skuli staðið á þann hátt, að það geti fengið einhvern árangur. Þegar Íslendingar réðust í það að stækka landhelgina úr 4 mílum í 12 1958, kvað þetta líka við, að nú væri farið of geyst í málið, að nú þyrfti að undirbúa málið betur, við þyrftum að láta það liggja enn lengur í nefndum, en gert hafði verið. Og ýmsir vildu fara sér miklu hægar og helzt ekki gera neitt í málinu án þess að hafa fengið fyrir fram samþykki Breta til þess, sem gert yrði. En það varð okkar hamingja í það skiptið, að það var ekki farið að ráðum þessara úrtölumanna, því að annars er hætt við því, að við sætum uppi með 4 mílna landhelgi enn í dag. Málið lá þannig og það liggur þannig eðli málsins samkvæmt, að við getum ekki fengið Breta fyrir fram til þess að samþykkja aðgerðir í þessa átt. Þar verðum við að stilla þeim upp fyrir gerðum hlut, við verðum að vísu að hafa öll okkar rök í lagi fyrir því, sem við gerum hverju sinni, en við verðum að standa einarðlega á því, sem við gerum og við gerum að sjálfsögðu ekki annað en það, sem okkur er nauðsynlegt á hverjum tíma. En hin leiðin, að ætla í rauninni með einhverjum hætti að afhenda t.d. Bretum valdið í þessum efnum, þýðir sama og það, að ekkert geti gerzt til árangurs í málinu fyrir okkur.

Ég lít þannig á þetta mál að, að sjálfsögðu hljóti að koma til þess, að útfærslan úr 12 mílum nái ekki aðeins til Vestfjarða. Ég er ekki í neinum vafa um það, að hliðstæð útfærsla verður að ná til fleiri landshluta tiltölulega fljótlega. Við vitum, að þýðingarmestu fiskimið austfirzkra fiskibáta eru nú fyrir utan 12 mílna mörkin, alveg eins og þýðingarmestu fiskimið þeirra á Vestfjörðum liggja fyrir utan 12 mílna mörkin, því að það eru í rauninni ekki nema hinir minni bátar, sem stunda sínar aðalveiðar innan 12 mílna markanna. Ég álít því, að það verði að koma til þess tiltölulega fljótlega, að það verði um frekari stækkun á fiskveiðalandhelginni að ræða á fleiri stöðum, en aðeins úti fyrir Vestfjörðum. En ég sætti mig vel við, að það verði næsti áfangi í málinu, að við komum landgrunninu úti fyrir Vestfjörðum inn fyrir mörkin, jafnvel þó að við með okkar landgrunn og okkar fiskimið út af Austfjörðum verðum að bíða eftir næsta áfanga. Mér er ljóst, að við verðum að velja okkur nú eins og áður áfanga í þessu máli. Ég fyrir mitt leyti er fyllilega til viðtals um það einnig, að áfangarnir geti orðið aðrir, en hér er stungið upp á, en ég vil ekki sætta mig við það, eins og þetta mál er nú komið, að Íslendingar leggist út af í þessu máli og þeir hætti að berjast fyrir sinni yfirlýstu stefnu, svo brýn nauðsyn sem er á því, að við aukum friðunarsvæði okkar eða tileinkum okkur stærra veiðisvæði í kringum landið en nú er. Við ættum því að fara að gera það upp við okkur, hvernig við ætlum að taka á málinu, hvenær og hvernig við getum bezt staðið saman í þessum málum.

Ég tel, að kjarni þessa máls sé þessi: Í fyrsta lagi liggur það alveg ótvírætt fyrir, að það er stefnuyfirlýsing Íslendinga, sem er mörkuð í lögum, í landgrunnsl. frá 1948, að við ætlum okkur að færa inn fyrir íslenzku fiskveiðamörkin allt landgrunnssvæðið. Að þessu stefnum við alveg tvímælalaust. Við höfum hingað til valið okkur þá leið að nálgast þetta mark í áföngum. Nú álít ég, að aðstæður séu orðnar þannig, að orðin sé brýn þörf á því, að við förum að marka okkar næsta áfanga í þessu máli, það sé orðin brýn þörf á því, að við stækkum fiskveiðalandhelgi okkar frá því, sem verið hefur nú um skeið. Við þurfum að hafa það í huga, að landsmönnum fjölgar, við þurfum að sækja meira á miðin, en áður og miklu harðara, en áður var gert. Við þurfum að senda á miðin miklu stærri og afkastameiri skip, en áður voru send á þessi mið. Fiskimiðin þurfa að gefa okkur alltaf meiri og meiri verðmæti og af þeim ástæðum m.a. knýr það á, að við getum tileinkað okkur meira og meira af þessum landgrunnsfiskimiðum. Ég álít, að meira að segja samningurinn við Breta frá 1961 hafi skuldbundið okkur til þess að halda áfram baráttunni í þessu máli. Ég álít líka, að við verðum að gera okkur fyllilega ljóst, að það eru ekki fyrir hendi nein alþjóðalög um víðáttu landhelgi eða fiskiveiðalandhelgi. Það er því með öllu vonlaust að ætla að bíða eftir því í sambandi við baráttu fyrir þessu máli, að Alþjóðadómstóllinn í Haag geti dæmt okkur frekari stækkun, en nú er orðin á okkar fiskveiðalandhelgi, nema þá við bíðum allt of langan tíma, svo langan tíma, að okkar aðstæður leyfa slíkt ekki. Ég tel því, að það sé orðin brýn þörf á því, að við komum okkur saman um vinnubrögð í þessu þýðingarmikla máli og ég teldi mjög eðlilegt, að stigið verði það skref t.d., sem lagt er til í þessari þáltill. Ég held, að það mundi styrkja og bæta stöðu ríkisstj. að fá samþykkt a.m.k. í þá átt, sem þessi till. fjallar um, ef hún vill reyna að undirbúa málið jafnhliða með viðræðum við aðrar þjóðir um það, hvað til standi að gera í þessum efnum hjá okkur. En það vildi ég alveg sérstaklega, að hæstv. ríkisstj. gerði sér fulla grein fyrir því, að eins og þessi mál liggja fyrir nú í dag, er engin ástæða til þess fyrir hana að ætla að geyma þetta mál í nefnd, án þess að hún láti það uppi, hvað hún hyggst fyrir í þessu máli.