21.12.1964
Neðri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

106. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Skammt gerist nú stórra högga milli í skattheimtu ríkisstj. Í tilefni af frv. því um 36% hækkun á söluskatti, sem hér er til umr., þykir mér rétt að rekja með örfáum orðum helztu atriði þessara mála.

Í febrúar s.l. var söluskattur hækkaður um 80%, úr 3 í 51/2%, og rúmar 300 millj. kr. þar með lagðar á þjóðina. Látið var í veðri vaka, að um þriðjungi af þessum fjármunum skyldi varið til fiskiðnaðarins til framleiðsluaukningar, en fljótlega var sú greiðsla felld niður og fjárhæðin látin renna til ríkissjóðs. Skömmu eftir þetta voru gerðar breytingar á l. um tekjuskatt og eignarskatt og álagningu útsvara. Dýrtíðin hafði áruð 1963 vaxið meira en nokkru sinni fyrr, og urðu tekjur manna, að krónutölu allmiklu hærri en verið hafði. Að óbreyttum álagningarreglum hlutu því tekjuskattur og útsvar að hækka langt umfram það, sem nokkur tök voru á að innheimta, og strax í upphafi var augljóst, að lagfæringar stjórnarfrv. voru alls ónógar. Þess vegna báru þm. Framsfl. fram brtt., sem voru aðallega fólgnar í því þrennu að hækka persónufrádrátt til samræmis við dýrtíðaraukningu, að fjölga skattþrepum og taka upp á ný umreikning á persónufrádrætti og tekjutölum skattstigans til þess að forða þeirri afskræmingu verðbólgunnar á álagningunni, sem að öðrum kosti var vís. Þessar till. voru allar strádrepnar af stjórnarsinnum og þeim valin hin háðulegustu eftirmæli af blaðakosti ríkisstj., kallaðar yfirboð, sem ekkert mark væri á takandi, og fleira af þessum venjulegu slagorðum, sem gripið er til, þegar rökin þrýtur.

Um þetta leyti var mikið um dýrðir hjá þeim stjórnarliðum. Væntanlegar skattalækkanir voru reiknaðar út af stjórnarblöðunum til þess að búa menn undir að meðtaka. blessunina og sjálfur fjmrh. ritaði hverja greinina af annarri í blað sitt um það, hverju hann hefði til leiðar komið til hagsbóta fyrir almenning. Dagblaðið Vísir var meira að segja farið að ráðgera utanferðir skattborgaranna í stórum stíl, sem greiðast áttu af því fé, sem að öðrum kosti hefði gengið til hins opinbera. Voru margir farnir að sjá í anda þá tignarlegu sjón, þegar hinir skattfrjálsu meðaltekjumenn Íslands stigu skipsförmum saman á erlenda grund, væntanlega með vin sinn og velgerðarmann, hæstv. fjmrh., í broddi fylkingar. En á skammri stund skipast veður í lofti. Skattstofurnar luku útreikningum sínum og birtu þá öllum lýðum. Þá kom í ljós, að allt, sem við framsóknarmenn höfðum sagt um útkomuna úr skattadæminu, var rétt. Álögurnar urðu svo gífurlegar, að öllum hnykkti við. Jafnvel blaðamenn Morgunblaðsins gátu ekki orða bundizt, heldur lýstu því, hvernig menn handfjötluðu gjaldseðilinn hálfringlaðir, enda vitnaði hann um skattpíningu, sem ekki ætti sér hliðstæðu um mörg undanfarin ár, eins og þar er komizt að orði. Strax varð líka augljóst, að það yrði fjölmörgum heimilum algerlega um megn að rísa undir álögunum. Hófust nú miklar umr. og blaðaskrif um þau mistök, sem þarna höfðu átt sér stað. Hér í Reykjavík tóku öll dagblöðin þátt í því að fordæma álögurnar, og voru stjórnarblöðin engir eftirbátar í því efni. Hér er ekki tími til að rifja þessi skrif upp, enda gerist þess ekki þörf, öllum munu þau í fersku minni. Vísir var raunar lengst að átta sig á því, að draumurinn góði var á enda og veruleikinn kominn í staðinn. Þannig var aðalfyrirsögn blaðsins daginn, sem skattskráin kom út í Reykjavík, að menn væru ánægðir með gjöldin sín. Fljótlega fundu ritstjórarnir þó, að slík skrif mundu ekki falla í góðan jarðveg hjá þeim borgurum a.m.k., sem voru að fá vitneskju um það þessa dagana, að þeir teldust skulda ríki og bæ stóran hluta, ef ekki öll þau laun, sem þeir áttu ófengin til áramóta, og þeim því ætlað að lifa á kvittunum þangað til. Þess vegna var söðlað um og tekið undir það með hinum, að breytinga væri þörf í þessum efnum, en myndskreyttar ritsmíðar fjmrh. hurfu af síðum blaðsins.

Hinn 17. ágúst í sumar gerðu fulltrúar þingflokkanna grein fyrir afstöðu sinni til skattamálanna í útvarpinu. Við það tækifæri sagði fjmrh. m.a., að fleiri og fleiri kæmust of ört upp í hina hærri skattstiga. Hann taldi breytinga þörf á skattareglunum og nefndi þar til aðallega þrjú atriði: að hækka persónufrádrátt, breikka þrepin í skattstiganum og taka upp umreikning. Eins og sjá má, eru hér komnar till. okkar framsóknarmanna, sem ráðh. hafði þó sjálfur kallað óraunhæf yfirboð þrem mánuðum áður. Í útvarpsþættinum sagði viðskmrh., að tekjuaukning manna á árinu 1963 hefði ekki verið raunveruleg, heldur mynduð af verðbólgunni, og líklegt mætti telja, að skatta- og útsvarsstigarnir hefðu verið hafðir öðruvísi en reyndin varð, ef menn hefðu vitað um tekjuaukninguna á s.l. ári. Þannig var það allra manna mál, að of langt hefði verið gengið í álagningu opinberra gjalda. Almennt mun hafa verið álitið, að ekki kæmi annað til greina en þessi mistök yrðu leiðrétt, og menn biðu vongóðir eftir því, að Alþingi kæmi saman, þar sem þeir bjuggust við, að úrræði ríkisstj. til lausnar þessum vanda yrðu með allra fyrstu málum þings.

Þegar í ljós kom, að þessi von hafði brugðizt, báru nokkrir þm. Framsfl, fram frv. um lækkun skatta og útsvara þann 19. okt. s.l. Engin leið hefur reynzt til þess að fá þetta frv. afgreitt þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni af okkar hálfu. Stjórnarliðar í viðkomandi nefnd hafa farið undan í tæmingi og borið við einni tylliástæðunni eftir aðra, án þess þó að hafa kjark til að fella frv. Illur grunur hafði læðzt að mönnum á síðustu vikum um, að sá áhugi, sem um tíma virtist fyrir því hjá ríkisstj. að leiðrétta mistökin frá því í sumar, væri í rénun, ef hann hefði þá nokkurn tíma verið annað en uppgerð. Staðfestingu þessa fengu menn síðan ótvírætt hjá fjmrh. fyrir nokkrum dögum, þegar hann lýsti því yfir, að engin lagfæring mundi fást.

Ég veit, að margur verður fyrir vonbrigðum með þessi málalok, ekki sízt þeir, sem fram undir þetta hafa treyst ríkisstj. og trúað orðum hennar. Hinir, sem varlegar fara í þær sakir, hafa sjálfsagt getað búizt við því, að svona mundi fara. En ég er sannfærður um, að enginn — enginn — hefur átt von á þeirri ósvífni, sem nú er í ljós komin. Með því að svara réttmætum óskum um sjálfsagðar leiðréttingar á sköttum, ekki aðeins með neitun, heldur líka með nýjum sköttum, er gengið lengra í vægðarleysi og storkun við þjóðina en nokkur maður hefði að óreyndu viljað ætla. Hér hefur verið sett það met í skattpíningu, sem lengi mun standa, þar sem á þessu eina ári hafa tekjuskattur og útsvör verið hækkuð stórlega og söluskatturinn vaxið um 150% auk vegaskatts, launaskatts og fjölda annarra liða, sem lagðir hafa v erið á til viðbótar. Þessi hækkun er því alveg fráleit, auk þess sem hún er gersamlega óþörf, eins og ég mun koma að síðar.

En málið er alvarlegt af enn fleiri ástæðum. Stærstu launþegasamtök landsins hafa haldið fundi um það. Í ályktun stjórnar A.S.Í. er því lýst yfir, að með slíkum aðgerðum til stórfelldra nýrra verðhækkana sé rift þeim grundvelli, sem lagður var með samkomulaginu 5. júní s.l., og sagt, að skattahækkun nú ofan í skattránið í sumar verki sem eitur í ógróin sár og brjóti niður trú manna á því, að ríkisstj. vilji stöðva verðbólgu og dýrtíð. Og stjórn BSRB harmar, að ekki skyldi vera haft samráð við launþegana, og skorar á Alþingi að fella frv.

Með samningunum í vor vannst stundarfriður; sem gaf vonir um áframhaldandi samstarf til lausnar efnahagsvandans, en framkoma ríkisstj. síðan, bæði í sambandi við tekjuskattinn og söluskattinn, er öll á þann veg að eyða trausti og torvelda nauðsynlega samvinnu þessara aðila. Af hálfu ríkisstj. er því oft haldið fram, að beinir skattar hafi verið lækkaðir á undanförnum árum. Hitt mun þó mörgum finnast, að skattar og útsvör hafi verið þeim þungbærari á þessu ári en áður. A.m.k. er það í fyrsta skipti árið 1964, að stjórnskipuð nefnd gerir till. um nokkurs konar kreppulán handa almenningi til þess að borga með beina skatta til ríkis og sveitarfélaga. Samkv. fjárlagafrv. 1965 er áætlað, að tekju- og eignarskattur á næsta ári verði 375 millj. kr. Hann var 135 millj. kr. árið 1358, og nemur hækkun hans því 240 millj. eða 176%. En réttur samanburður á álögum nú og fyrir daga núv. ríkisstj. fæst aðeins með því að taka saman beina og óbeina skatta, þ. e. tekju- og eignarskatt og tolla og söluskatt, en síðustu árin hafa tekjur ríkissjóðs af tollum og sölusköttum aukizt gífurlega. Þær álögur leggjast með miklu meiri þunga á allan almenning og þyngst á þá, sem flesta hafa að framfæra. Sé borið saman, hver þessi heildartala var í ríkisreikningi 1958 og hver hún er áætluð í fjárlagafrv. 1965, og fullt tillit tekið til niðurgreiðslna, kemur í ljós, að hækkunin er 1756 millj. kr. eða 289%, og það er þessi tala ein, sem gefur rétta mynd af álögunum.

Ríkisstj. segist þurfa að hækka söluskattinn til þess að geta afgreitt greiðsluhallalaus fjárlög. Við framsóknarmenn höldum því fram, að þessi staðhæfing sé röng. Fyrir því færum við fram þessi rök: beyddar eru verulegar fjárhæðir af greiðsluafgöngum fyrri ára, sem sjálfsagt er að grípa til, áður en nýir skattar verða lagðir á. Reynslan undanfarið hefur sýnt, að tekjur hafa farið fram úr áætlun svo að hundruðum millj. skiptir ár hvert, og með hliðsjón af því teljum við þær einnig of lágt áætlaðar nú. Sjálfsagt er að gripa til þeirra sparnaðarúrræða, sem ríkisstj. hefur mikið rætt um, en hvergi sýnt í verki. Sukk og óráðsía verður að hverfa, en ráðdeild að koma í staðinn. Með tilkomu rannsóknardeildar í skattamálum standa vonir til þess, að betri heimtur verði á ríkistekjunum en verið hefur. Auk þess er hér sýnilega um fullkomlegan handahófsútreikning að ræða á því, hvað talið er vanta í ríkissjóð. Þetta kemur fram á margan hátt. T.d. er því slegið föstu í aths. frv., að 68 millj. kr. vanti til þess, að tekjur og gjöld standist á árið 1964. Uppgjör þessa árs liggur þó ekki fyrir, og þess vegna er ekkert hægt um þetta að segja að svo stöddu og allar fullyrðingar út í hött. Þá tala síðustu viðbrögðin skýru máli um þetta. Eins og kunnugt er, greindi forsrh. á um það við viðsemjendur sína frá í vor, hvort í samkomulaginu hefði falizt heimild til nýrrar skattálagningar til að afla tekna á móti niðurgreiðslum þessa árs eða ekki. Þegar horfið var að því ráði að falla frá umræddri tekjuöflun, var það gert á þann hátt að lækka söluskattinn um 1/2 %. Ekki er nú minnzt á það einu orði, að ríkissjóður geti ekki misst þessar 68 millj., sem þarna er slakað til um. Milli þess, að ágreiningurinn reis og lækkunin var kunngerð, leið aðeins ein nótt, og væri vissulega ástæða til að óska þess, að hæstv. forsrh. eyddi í það fleiri nóttum að rannsaka, hvort ekki væri hægt að slaka meira til. Mætti þá hæglega svo fara, að unnt yrði að fella söluskattsaukann alveg niður. Ef svo gæti til tekizt, er óhætt að fullyrða, að næturverk forsrh. hefði ekki í annan tíma borið gifturíkari ávöxt.

Við framsóknarmenn erum á móti hækkun söluskattsins vegna þess, að við teljum hana óþarfa, eins og ég hef nú lýst. Fleira kemur þar einnig til. Söluskattur er óheppilegur vegna þess, að hann leggst jafnt á því sem næst alla vöru og alla þjónustu, nauðsynjar sem óþarfa, og hann kemur þyngst niður á þeim, sem minnsta getuna hafa. Söluskattinn verða allir að greiða og í því ríkara mæli sem þeir hafa fyrir þyngri heimilum að sjá. Auk þess vita allir, að innheimta söluskatts er hér stórlega ábótavant og skortir áreiðanlega mikið á, að hann komi allur til skila. Í ritstjórnargrein Fjármálatíðinda er um þetta sagt, að mikið af söluskattskyldri starfsemi sé þess eðlis, að nákvæmt, opinbert eftirlit sé vandkvæðum bundið, svo að freistingin til skattsvika er þar af leiðandi veruleg. Enn fremur er á það bent, að eftir að söluskattur hér á landi hefur verið hækkaður í 5 1/2%, sé full ástæða til að fara varlega, svo að ekki skapist á þessu sviði sama vandamálið og nú er við að glíma varðandi hina beinu tekjuskatta. Þessi aðvörun er áreiðanlega ekki úr lausu lofti gripin, og munu íslenzk yfirvöld hafa fengið að reyna þetta eins og aðrir, sérstaklega eftir hækkun þá á söluskattinum, sem gerð var í febr. s.l. Þegar söluskattur á nú að hækka í 7 1/2%, er augljóst, að þær freistingar, sem hér um ræðir, vaxa enn stórkostlega, og eru þær þó mörgum fullerfiðar fyrir. Það er því fullkomið ábyrgðarleysi að láta þá hækkun koma til framkvæmda án þess að stórherða eftirlit með framtölunum, en engin ákvæði í þá átt er að finna í frv. og allar till. um það hafa verið felldar.

Þá er enn fremur á það að líta, að hér er til þess ætlazt, að sveitarfélögin fái ekkert af þessum söluskatti í sinn hlut. Augljóst er þó, að vegna hans verða þau fyrir talsverðri útgjaldaaukningu. Því er það engum vafa undirorpið, að sveitarfélögin munu m.a. af þessum sökum hækka útsvörin enn þá, enda eru fréttir þegar farnar að berast af því. Borgarstjórn Reykjavíkur afgreiddi fjárhagsáætlun sína þann 17. þ.m., og eru útsvörin á næsta ári áætluð 47 millj. kr. hærri en í ár, þrátt fyrir mjög mikla hækkun á öðrum liðum, svo sem fasteignagjöldum, vatnsskatti og gatnagerðargjöldum. Um þetta segir Alþýðublaðið í ritstjórnargrein þann 19. þ.m., með leyfi forseta:

„Stjórnendur Reykjavíkurborgar virðast kæra sig kollótta um fjárhag þjóðarinnar. Þeir hafa stórhækkað álögur á borgarbúa og átt meginsök á þeirri megnu óánægju, sem spratt upp í fyrrasumar, er skattgreiðendur fengu seðla sína. Nú virðast þeir ekkert hafa lært, því að borgarreksturinn er enn aukinn og lagðir á tugir millj. á íbúa höfuðstaðarins til viðbótar því, sem áður var komið. Því miður er afgreiðsla fjárl. að ýmsu leyti sama marki brennd.“

Þetta er vissulega hárrétt athugað hjá Alþýðublaðinu og fullkomin þörf á að undirstrika, að íhaldið hefur ekkert lært, hvorki í borgarstjórn Reykjavíkur né á Alþingi. Hitt er verra, að sama daginn og framangreind ummæli eru rituð, rétta Alþfl.- menn á Alþingi upp hönd til þess að samþykkja með íhaldinu aukna skattheimtu.

Fyrir nokkrum dögum var borin á borð þm. ný útgáfa af Skólaljóðum. Ég vona, að hæstv. ráðh. hafi einnig fengið hver sitt eintak og þeir dragi lærdóm af einhverjum þeirra hollu leiðbeininga, sem þar er að finna. Sérstaklega vil ég leyfa mér að benda á þetta heilræði Hallgríms Péturssonar:

„Hugsa um það helzt og fremst,

sem heiðurinn má næra.

Aldrei sá til æru kemst,

sem ekkert gott vill læra.“

Árið 1964 er nú senn á enda runnið. Jafnan mun þess verða minnzt sem eins gjöfulasta árs, sem þjóðin hefur lifað. T.d. hefur fiskaflinn verið um 30% meiri en árið 1963, sem þó einnig var metár að aflabrögðum, og aðrir atvinnuvegir hafa líka yfirleitt átt góðu að mæta frá náttúrunnar hendi. Því hörmulegra er til þess að vita, að þróunin skuli að ýmsu leyti hafa verið aftur á bak í efnahagsmálum okkar. Á þessu einmuna veltuári hefur ríkissjóður haft um 3 milljarðar tekjur. Þrátt fyrir það segir ríkisstj. nú, að sig skorti fé. Þessi er sú mynd, sem þjóðinni er birt af fjármálastjórninni. Er hægt að hugsa sér ömurlegri uppgjöf, og er það ofsagt, að sú ríkisstj., sem þannig heldur á málum, sé búin að glata trausti þjóðarinnar? Ég held ekki. Það er skylda alþm. að láta þjóðarheill jafnan ráða atkv. sínu. Bitur reynsla undanfarinna ára hefur sýnt og sannað, að efnahagsúrræði viðreisnarinnar henta ekki íslenzkum staðháttum og verða ævinlega til ills, en aldrei til góðs. Ég skora því á alla hv. alþm., hvar í flokki sem þeir standa, að láta sér vítin til varnaðar verða og fella þetta frv., því að um þm. ekki síður en ráðh. gildir hið fornkveðna, að

„aldrei sá til æru kemst,

sem ekkert gott vill læra.“

Góða nótt.