21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í D-deild Alþingistíðinda. (3079)

149. mál, dráttarbraut á Siglufirði

Flm. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég flyt ásamt hv. 4. þm. Norðurl. v. till. til þál. á þskj. 318, sem er á þá leið, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir útvegun lánsfjár eða annarri fjárhagslegri aðstoð við byggingu dráttarbrautar á Siglufirði, sem geti tekið upp a.m.k. 400 smál. skip. Aðstoðin skal við það miðuð, að byggingarframkvæmdir geti hafizt á yfirstandandi ári.

Ég geri ráð fyrir, að öllum hv. þm. sé vel kunnugt um þá erfiðleika, sem steðjað hafa að Siglfirðingum í þeirra atvinnumálum á undanförnum árum og nauðsyn þess að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf á þessum stað. Reynslan hefur sýnt, að það er valt að treysta svo til einvörðungu á sjávarafla. Heima í Siglufirði er nú mikill áhugi á því að reisa allstóra dráttarbraut, og hafa þegar varið gerðar ýmsar undirbúningsráðstafanir af þessum sökum. Það hefur farið fram rannsókn sérfróðra manna á dráttarbrautarstæði á Siglufirði og hefur sú rannsókn sýnt, að þar er aðstaða hin ákjósanlegasta. Þá er enn fremur verið að gera kostnaðaráætlun um rekstur og byggingu dráttarbrautar. Allt eru þetta nauðsynlegar undirbúningsráðstafanir. En þegar að því kemur, að hefjast þurfi handa um byggingu dráttarbrautanna, er það augljóst mál, að fátækt bæjarfélag eins og Siglufjörður getur ekki staðið undir þessu án verulegrar aðstoðar. Í því sambandi má benda á, að við fjárhagsáætlun þá, sem afgreidd var í Siglufjarðarbæ nú í byrjun þessa árs, er gert ráð fyrir því, að í þeirri ætlun vanti 3.6 millj. kr. upp á það, að endarnir nái saman, þ.e.a.s. fjárhagsáætlunin er afgreidd með 3.8 millj. kr. halla.

Á s.l. ári var skipuð nefnd til þess að athuga um iðnrekstur í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem atvinna er ónóg. Sú n. hefur, eins og kunnugt er, skilað bráðabirgðaáliti, sem útbýtt hefur verið hér á Alþingi. Og þessi n. hefur m.a. athugað um aðstæður á Siglufirði og möguleika á iðnrekstri þar, og eitt af þeim atriðum, sem n. hefur kannað, er einmitt bygging dráttarbrautar, en í áliti n. um þetta atriði segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilliti til þeirrar þýðingar, sem Siglufjörður hefur varðandi fyrirgreiðslu við veiðiflotann fyrir Norðurlandi, þykir n. eðlilegt, að þar sé aðstaða til sem fullkomnastrar þjónustu við fiskiskipaflotann og vill mæla með því, að greitt verði fyrir endurbyggingu dráttarbrautar. Með hliðsjón af athugunum, sem fram hafa farið á vegum iðnmrn. varðandi auknar innlendar skipasmíðar, kemur til athugunar, hvort ekki beri að miða byggingu dráttarbrautar við það, að jafnframt verði aðstaða til nýsmíði skipa.“

Þetta var úr áliti n. til athugunar iðnrekstri í kaupstöðum og kauptúnum.

Eins og kunnugt er, eru flest hin nýrri fiskiskip okkar stálskip og þegar frá líða stundir, er það alveg ljóst, að það verður mikil þörf viðhalds og endurbóta á slíkum skipum. Nú þegar er reyndar ljóst, að þeim stöðum, þar sem dráttarbrautir eru fyrir, eru þær mjög hlaðnar störfum og skip verða að bíða vikum saman eftir því að komast í dráttarbraut til viðgerða og endurbóta. Af þeim, sem bezt til þekkja, er ekki talinn minnsti vafi á því, að það yrðu í framtíðinni nægjanleg verkefni fyrir dráttarbraut á Siglufirði. Ég get svo að öðru leyti leyft mér að vísa til grg. þeirrar, sem með till. þessari fylgir. En svo vil ég að lokum, herra forseti, leggja til, að umr. þessari verði frestað og málinu vísað til allshn.