21.12.1964
Neðri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

106. mál, söluskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er stórkostleg fáfræði hjá hæstv. félmrh., að dýrtíðin stafi af landbúnaðinum eða of góðum kjörum bændastéttarinnar. Dýrtíðin stafar af hagsmunum og hagsmunabaráttu stórgróðamanna, en ríkisstj. er vesæll þjónn þeirra, eins og ég mun síðar víkja að.

Hæstv. fjmrh. gekk illa að verja slælega innheimtu stóreignaskattsins. Öllum þeim dómstólamálum, sem risið hafa út af skattinum og einhverju skipta, er nú lokið. Því ætti að innheimta eftirstöðvar hans, sem eru 25 millj., með sama hætti og aðra skatta. Fjmrh. hefur látið sér nægja að innheimta aðeins 400 þús. kr. á þessu ári. Það sýnir, að fjmrh. innheimtir öðruvísi af stóreignamönnum en launamönnum, sem margir hverjir hafa aðeins fengið kvittanir í launaumslögum sínum nú fyrir jólin.

Hæstv. ráðh. hafa mjög reynt að gera það tortryggilegt í þessum umr., að framsóknarmenn hafi við 2. umr. fjárlaganna flutt till. um nokkra hækkun á framlögum til verklegra framkvæmda og ýmissa rannsókna í þágu atvinnuveganna. Hæstv. ráðh. hafa sagt, að það geti ekki samrýmzt að flytja till. um hækkun þessara útgjalda og vera jafnframt á móti hækkun skatta. Af þessu gæti ekki annað hlotizt en tekjuhalli hjá ríkinu. Þessu er mjög auðvelt að mótmæla. Framsóknarmenn hafa sýnt fram á það með glöggum rökum, að samkv. venju áætlaði ríkisstj. tekjurnar of lágt á fjárlagafrv. og því væri hægt að hækka nokkuð framlög til umbótamála, án þess að hækka þyrfti skatta eða láta verða halla á ríkisrekstrinum. Reynsla undanfarinna ára styrkir vissulega þessi rök framsóknarmanna. Þegar framsóknarmenn fluttu svipaðar till. við afgreiðslu fjárlaga 1962 og 1963, sögðu talsmenn stjórnarflokkanna, að þetta mundi leiða til tekjuhalla. Hæstv. fjmrh. sór þá og sárt við lagði, alveg eins og nú, að það væri búið að athuga tekjuáætlunina vandlega og hún gæti alls ekki verið hærri. Framsóknarmenn sögðu hins vegar, að hún væri of lágt áætluð. Reynslan hefur staðfest, að framsóknarmenn höfðu rétt fyrir sér. Bæði þessi ár fóru tekjurnar svo langt fram úr áætlun fjárlaga, að það hefði ekki aðeins verið hægt að fullnægja öllum hækkunartillögum framsóknarmanna, heldur einnig að lækka skattana nokkuð til viðbótar, án þess að halli yrði hjá ríkinu. Astæðan til þess, að framsóknarmenn hafa flutt umræddar hækkunartill. nú og á undanförnum þingum, hefur verið sú, að þeir hafa talið rétt að binda umframtekjur ríkisins fyrir fram og verja þeim til gagnlegra framkvæmda og reyna þannig að girða fyrir, að þær færu í sukk og eyðslu hjá ríkisstj.

Það er ekki óeðlilegt að athuga í framhaldi af þessu, hvers vegna hæstv. ríkisstj. hefur kappkostað svo mjög ranga tekjuáætlun fjárlaganna á undanförnum árum, en 1962 voru tekjurnar of lágt áætlaðar um 303 millj. kr. og 1963 um 323 millj., og í ár munu umframtekjurnar einnig skipta hundruðum millj. kr. Ástæðan fyrir þessari röngu tekjuáætlun ríkisstj. er sú stefna hennar að hafa hemil á kaupgetunni í landinu með því að leggja á hærri opinberar álögur en ríkið raunverulega þarf og hafa þannig ríflegan greiðsluafgang hjá ríkinu. Það hefur hins vegar ekki þótt heppilegt að láta það sjást á fjárlögum, að stefnt var að því að hafa skattana úr hófi fram, og því hefur verið horfið að því ráði að áætla tekjurnar allt of lágt. Það er bersýnilegt af því skattafrv., sem hér liggur fyrir, að ríkisstj. hefur enn ekki fallið frá áðurnefndri stefnu sinni.

Þeirri skattahækkun, sem hér er til umr., er fyrst og fremst ætlað að tryggja greiðsluafgang hjá ríkissjóði. Athyglisvert er, að í greinargerð um efnahagsmál Íslands, sem Efnahagssamvinnustofnunin í París hefur nýlega birt, er bent á það sem aðalúrræðið gegn verðbólgu á Íslandi, að íslenzka ríkið hafi ekki minni tekjuafgang á árinu 1965 en sem svarar 1 1/2% þjóðartekna, en það er álíka upphæð og skattahækkunin, sem felst í þessu frv., eða um 300 millj. kr. Það er opinbert leyndarmál, að skýrslur og till. Efnahagssamvinnustofnunarinnar í París eru fyrst og fremst byggðar á upplýsingum og till. viðkomandi ríkisstj. Það kom líka glöggt fram í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan, að hann taldi nauðsynlegt að hafa ríflegan greiðsluafgang hjá ríkissjóði. Því skal ekki neitað, að það getur stundum verið hyggilegt að hafa nokkurn greiðsluafgang hjá ríkissjóði. Þetta gildir þó einkum, þegar greiðsluafgangurinn er fenginn með aukinni hagsýni í rekstri og sparnaði, sem verður til á þann hátt. Þetta er hins vegar ekki aðeins óhyggilegt, heldur stórhættulegt, þegar greiðsluafgangurinn er fenginn með nýjum sköttum, sem auka dýrtið og verðbólgu og leiða til nýrra kauphækkana. Þess vegna er erfitt að hugsa sér öllu meira óhappaverk en það, sem hæstv. ríkisstj. er hér að vinna, Það sýnir líka þá sorglegu staðreynd, að hæstv, ríkisstj. hefur ekkert lært af reynslu seinustu ára, en sú reynsla sýnir glöggt, að óðaverðbólga hefur öðru fremur stafað af því, að ríkið hefur lagt á hærri skatta en þörf hefur verið fyrir. Þetta hefur skert hag almennings og knúið hann til kauphækkana og kjarabaráttu.

Hæstv. ríkisstj. tilkynnti, þegar hún kom til valda, að hún ætlaði sér mörg og stór verkefni, en eitt var sett ofar öllu öðru. Það var stöðvun verðbólgu og stöðugt verðgildi peninga. Í þessu fremur öllu öðru skyldi fólgin sú viðreisn, sem hæstv. stjórn talaði hátt og mikið um. Stjórnarformaðurinn sagði líka réttilega, að ef ekki tækist að stöðva verðbólguna, væri allt annað unnið fyrir gýg. Þess vegna yrði stöðvun hennar að ganga fyrir öllu öðru. Ég hygg, að í dag séu ekki margir menn í stjórnarflokkunum, sem haldi því fram, að stjórninni hafi tekizt að efna þetta loforð sitt, Oft hefur íslenzka þjóðin búið við dýrtíð og óðaverðbólgu, en aldrei þvílíka sem í valdatið núv. ríkisstj. Ég hygg jafnframt, að erfitt væri að finna ríkisstj. í öðru lýðræðislandi, sem væri ekki löngu búin að segja af sér eftir að hafa svo fullkomlega vanefnt meginloforð sitt. Í hverju öðru lýðræðisríki eru gerðar slíkar kröfur til orðheldni forustumanna, að þeir verða að segja af sér, ef þeir bregðast mikilvægustu loforðum sínum. Það er ein mesta hættan, sem vofir yfir frjálsu þjóðfélagi á Íslandi í dag; að menn gera orðið allt of litlar kröfur til orðheldni og loforða stjórnmálamanna. Meðan kjósendur gera ekki meiri kröfur í þeim efnum, geta þeir ekki gert sér vonir um heiðarlegt stjórnarfar. Þekktur brezkur stjórnmálamaður svaraði ekki út í bláinn, þegar hann var spurður um, hver ætti að vera meginkrafa til stjórnmálamanns, og hann svaraði: „Orðheldni.“

En hvers vegna hefur hæstv. ríkisstj. misheppnazt að framfylgja þessu meginloforði sínu? Ekki verður kennt um erfiðu árferði, því að aldrei hefur góðæri af hálfu náttúrunnar verið meira á Íslandi né hagstæðara verðlag á útflutningsvörum en einmitt á undanförnum árum. Engin íslenzk ríkisstj. hefur því fengíð betra tækifæri til að koma fótum undir traustan og heilbrigðan efnahag. Það er kaldhæðni örlaganna, að á tíma þessa mikla góðæris skuli menn vera kvíðafullir og spyrja: Hvar endar þetta? Hvenær stöðvast verðfall krónunnar? Fer þetta á sömu leið hér og í Þýzkalandi eftir fyrri styrjöldina? Í þessum ugg og ótta, sem er sízt minna áberandi meðal stjórnarsinna en stjórnarandstæðinga, felst meira vantraust á stjórnina og stefnu hennar en með orðum væri lýst. En hvers vegna er þetta svona? Hæstv. ráðh. segja, eins og hæstv. félmrh. hér áðan, að framsóknarmenn og kommúnistar hafi espað upp bændur og verkalýð og fengið þessar stéttir til að gera óhóflegar kröfur og stjórnin hafi ekki fengið rönd við reist. Hvað segja hagskýrslur um þessar fullyrðingar hæstv. ráðh.? Hagskýrslur segja, að bændastéttin sé tekjulægsta stétt landsins. Hagskýrslur segja, að eini þátturinn í framleiðslukostnaði atvinnuveganna, sem er lægri hér en í nágrannalöndum okkar og það miklu lægri, er kaup verkalýðsins. Fleira þarf ekki vitnanna við um það, að það er ekki kaup bænda og verkalýðs eða óhóflegar kröfur þessara stétta, sem valda því, hvernig komið er. En hverjar eru þá orsakir sívaxandi öngþveitis í íslenzkum efnahagsmálum þrátt fyrir góðærið? Orsökin er framar öllu öðru röng stjórnarstefna. Hæstv. ríkisstj. byggir stefnu sína á þeirri úreltu íhaldshagfræði, að lausn efnahagslegra vandamála sé fólgin í því að halda sem mest niðri kaupgetu almennings, en láta fjáraflamenn hafa sem mest olnbogarými til athafna, þótt það þrengi að framtaki hinna mörgu, sem hafa minni fjárráð og minni aðgang að lánsfé. Til þess að halda kaupgetu almennings í skefjum hefur verið nokkurn veginn föst regla, að sérhverjum kauphækkunum væri mætt með enn meiri verðhækkun í formi gengisfellingar eða hækkandi skatta. Afleiðing þessarar stefnu hæstv. ríkisstj. er sú, að kaupmáttur daglauna verkamanns er minni nú en hann v ar fyrir 6 árum þrátt fyrir stórauknar þjóðartekjur. Til þess að tryggja útvöldum fjáraflamönnum sem mest athafnafrelsi hefur stjórnin tekið upp stórfelld lánsfjárhöft, sem hafa dregið úr framtaki hinna mörgu, sem ekki hafa notið náðar í bönkunum, og jafnhliða hefur hún fellt niður allar hömlur gegn ónauðsynlegum og ótímabærum framkvæmdum einstaklinga og fyrirtækja. Afleiðingin hefur orðið sú, að einstakir fjáraflamenn hafa getað skapað sér stórfellda gróðaaðstöðu og algjört handahóf og ringulreið hefur skapazt í framkvæmdamálum. Þessi stefna dýrtíðar, lánsfjárhafta og skipulagsleysis í fjárfestingarmálum hefur leitt til þess, að þjóðarauðurinn og þjóðartekjurnar hafa lent æ meira á fáar hendur, en fjöldinn allur borið skertan hlut frá borði, eins og bezt sést hér í Reykjavík, þar sem eru hinar miklu skrifstofuhallir og lúxusbyggingar milljónamæringanna annars vegar, en samdráttur í íbúðarhúsabyggingum almennings hins vegar. Ofan á allt þetta hefur svo bætzt hin nýja stefna í skattamálum, sem hefur verið fólgin í því að færa byrðarnar af breiðu bökunum yfir á veiku bökin, en enginn skattur þjónar betur þeim tilgangi en söluskattur, en leggst á allar vörur í smásölu. En þetta hefur ekki aðeins verið gert með söluskattinum, heldur með breytingum á öðrum sköttum. Hlutur fyrirtækja og stóreigna í tekjuskatti og útsvörum hefur farið síminnkandi undanfarin ár, en hlutur launafólks aukizt að sama skapi. Svo langt hefur verið gengið í þessum efnum, að eitt stjórnarblað, Alþýðublaðið, gat ekki orða bundizt 31. júlí s.l., eða rétt eftir að skattskráin birtist, en þá fórust því svo orð í forustugrein:

„Annað atriði vekur vaxandi gagnrýni borgara í öllum flokkum. Hlutur fyrirtækja, annarra en Loftleiða, í skattabyrðinni er ótrúlega lítill, og fjöldi fyrirtækja með milljónaveltu greiðir ekki meira en miðlungs fastlaunamenn af opinberum gjöldum. Góðæri hefur verið mikið, og hvers kyns fyrirtæki hafa fengið að styrkja sig til muna síðustu ár. Byggingar og aðrar framkvæmdir þeirra sýna ótrúlega fjárhagsgetu. Þessir aðilar verða hér á landi eins og annars staðar að bera mun meira af þunga skattabyrðanna.“

Þetta voru ummæli Alþýðublaðsins 31. júlí í sumar, þegar verið var að róa launþega vegna háu skattanna. Af þessum ummælum hefði vissulega mátt ætla, að fyrsta skattafrv., sem ríkisstj. lagði fram á eftir, hljóðaði ekki um hækkun söluskatts, sem leggst með hlutfallslega miklu meiri þunga á fátæka en ríka. Sú hefur þó orðið reyndin.

Hæstv. ríkisstj. stendur enn sem fyrr trúan vörð um hagsmuni hinna ríku, og hennar eina stóra stefnumið er enn sem fyrr að skerða kaupgetu almennings.

Ég hygg, að það sé næstum öllum ljóst, nema ef vera kynni hæstv. ráðh., að með því frv., sem hér er til umr., hefur verið höggvið í hinn sama knérunn oftar en gæfulegt er. Fyrir verkalýðsstéttir landsins er ekki hægt að una því, að þeim samstarfsvilja, sem þær sýndu á s.l. vori, sé svarað á þennan hátt. Ég tek því eindregið undir þá áskorun til ríkisstj., að hún fresti afgreiðslu þessa frv. og hefji samninga við stéttasamtökin og andstöðuflokkana um lausn efnahagsmála á breiðum grundvelli. Geri ríkisstj. það ekki, þá sýnir hún, að hún vill stríð, en ekki samninga við verkalýðshreyfinguna, og hún mun þá líka fá stríðið. Ef verkalýðshreyfingin sættir sig við þá stefnu, sem felst í þessu frv., getur hún alveg eins vel hætt starfsemi sinni. Það munu margir spyrja: Ef ríkisstj. velur stríðsleiðina með því að samþ. þetta frv., hvar endar þetta? Eg skal játa, að ég er ekki réttur maður til að svara þeirri spurningu, hver verði endir þeirrar óðaverðbólgu, sem þá er verið að magna. En eitt þori ég að fullyrða. Þetta endar ekki vel, nema það takist að draga úr hagsmunaátökum og efla meiri einhug hjá þjóðinni um sjálfstæði hennar og sókn til betri lífskjara. Þessi nauðsynlega eining getur hins vegar aldrei náðst, á meðan sérhagsmunir gróðamanna skipa öndvegi hjá stjórnendum landsins. Hennar stóru og fjölmennu stéttir geta ekki og mega ekki una því að búa við miklu lakari kjör en eðlilegt er vegna þess eins, að fjáraflamenn og braskarar eru látnir leika lausum hala. Því er það grundvallaratriði þeirrar endurreisnar, sem hér þarf að verða, að hnekkt verði þeirri sérhagsmunastefnu, sem fylgt er af núverandi ríkisstj. Það er ekki sízt verkefni þeirra manna í stjórnarflokkunum, sem sjá þetta og skilja, að vinna að slíkri stefnubreytingu. — Ég óska svo öllum áheyrendum mínum gleðilegra jóla.