21.12.1964
Neðri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

106. mál, söluskattur

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Flestir minnast þess, að ekki var vænlegt um að litast í efnahagslífi landsins rétt fyrir jólin í fyrra. Þá hafði að vísu tekizt að ná samningum og þó einungis til skamms tíma í víðtækustu verkföllum, sem hér hafa verið háð, en með þeim árangri, að almennt kaupgjald hafði hækkað um nær 30% á árinu. Var það langt umfram gjaldgetu atvinnuveganna, og munu fæstir hafa búizt við, að komizt yrði hjá verðfalli á íslenzku krónunni og nýjum stórátökum á þessu ári. Allt snerist þetta á betra veg. Vinnufriður hefur verið að mestu og krónan haldið gildi sínu. Hér hafa ýmsar orsakir verið að verki: góð aflabrögð, ýmsar ráðstafanir stjórnvalda og siðast, en ekki sízt, júnísamkomulagið. Til að ná því lögðu ýmsir aðilar sig alla fram, og hafa þeir hlotið þakkir flestra fyrir, en ekki allra. Af mismunandi ástæðum gera þó ýmsir of lítið úr þeim kjarabótum, sem í því samkomulagi voru fólgnar, og virðast gleyma annmörkum og kostnaði, sem af því hlaut að leiða. Hér við bætist, að til eru þeir menn, einnig innan veggja Alþingis, sem með öllu móti hafa reynt að gera samkomulagið tortryggilegt. Svo er að sjá sem einn armur Alþb. hafi ætíð verið andvígur samkomulaginu. Í Þjóðviljanum var frá upphafi gert lítið úr þeim ráðstöfunum til styttingar vinnutíma, sem um var samið. Og það voru fleiri en gallhörðustu línukommúnistar, sem voru óánægðir. Á Alþingi hefur talsmaður Framsfl. ögrað umboðsmönnum Alþýðusambandsins með því, að vinnutímastyttingin hafi verið allsendis ónóg, sjálfsagt hefði verið að knýja umsvifalaust fram a.m.k. átta tíma raunverulegan vinnudag. Var þá jafnvel hv. þm. Hannibal Valdimarssyni nóg boðið og sagði, að slíkt yrði ekki gert nema í áföngum á alllöngum tíma. „Tíminn“ hefur engu að síður haldið áfram ögrunum sínum, og í kvöld hafa menn heyrt, að málflutningur hv. framsóknarmanna er mun hófminni en hv. þm. Hannibals Valdimarssonar. Er þessi málflutningur hv. framsóknarmanna gott dæmi hinna gegndarlausu yfirboða, sem eiga sér stað meðal hv. stjórnarandstæðinga og gera þeim þeirra, sem ábyrgir vilja vera, erfitt um að fara sínu fram. Vill þá því miður stundum svo fara, að viljinn reynist helzt til veikur.

Þó að gengið væri til júnísamkomulagsins í góðum hug, væri ofmælt að segja, að tekizt hafi að fylgja því í öllu. Einstakir stéttahópar hafa neytt aðstöðu sinnar sér til framdráttar umfram aðra, án þess að forvígismenn Alþýðusambandsins hafi við það ráðið. Ekki kemur mér þó til hugar að bera þeim á brýn nein brigð, hvað þá svik í því sambandi, en meiri varúð mættu sumir málsvarar Alþýðusambandsins hafa sýnt í þessum efnum.

Það er með öllu fráleitt, að því skuli haldið fram, að skattaálagningin á s.l. sumri hafi rofið grundvöll eða anda júnísamkomulagsins, eins og þó kom fram . hjá hv. þm. Hannibal Valdimarssyni áðan. Tekjuskattslögin voru samþ. nokkrum vikum áður en júnísamkomulagið var gert. Hvað sem menn segja um gildandi skattstiga, er það óvefengjanlegt, að þeir voru kunnir og öllum tiltækir, þegar samið var í júníbyrjun. Svipuðu máli gegnir um útsvarsstigann í Reykjavík. Þegar til kom, var afsláttur frá honum nokkru meiri en gert hafði verið ráð fyrir í þeim útreikningum, sem aðilar höfðu undir höndum við gerð júnísamkomulagsins.

Ástæðurnar til þess, að skattlagningin kom illa við menn á s.l. sumri, voru einkum hinar miklu verðlagsbreytingar, sem orðið höfðu frá fyrra ári, stórhækkað raunverulegt kaupgjald t.d. hjá opinberum starfsmönnum, sem ekki höfðu áttað sig á, hversu miklu meira er tekið í skatta af þeim, sem há laun hafa en lág, og loks, að af þessum sökum höfðu menn greitt hlutfallslega mun minna fyrir fram en ella. Um öll þessi atriði og ýmis fleiri geta menn bollalagt fram og aftur, en ekkert þeirra hafði í sér fólgin nein brigð hvað þá svik á júnísamkomulaginu.

En sumir hafa ekki einungis tilhneigingu til að tengja júnísamkomulaginu mál því með öllu óviðeigandi, heldur sýnast hafa gleymt auðsæjum afleiðingum þess. Þá duldist engum, að einmitt vegna þess hlyti verðlag að hækka á næstu mánuðum til viðbótar öðrum verðhækkunum, sem voru fyrirsjáanlegar. Um þetta voru lagðir fram ágizkunarútreikningar, sem aðilar fengu til athugunar, og þó að ekki væri samið um viðbrögð gegn hækkunum, var ýtarlega rætt um, hver viðbrögð kæmu helzt til greina. Ríkisstj. lýsti yfir því, að hún mundi í fyrstu greiða verðhækkanir niður. Enga fasta ráðagerð um slíkt kvaðst hún þó hafa lengur en þangað til þing kæmi saman. Ágreiningur hefur risið um það, hvort nógu ljóst hafi verið, að stjórnin áskildi sér þá að velja hvern kostinn sem væri: hætta þá þegar hinum nýju niðurgreiðslum eða halda þeim áfram til áramóta án nýrrar skattheimtu til að standa undir þeim eða fá nýja skattstofna þegar í stað í því skyni.

Það var eingöngu til þess að eyða öllum ágreiningi um skilning á þessu, sem ég beitti mér fyrir því, að skattgjald skv. frv. þessu væri lækkað úr 8% í 7 1/2%. Sú fjárhæð sker ekki úr, þótt hún hafi sína þýðingu. En hitt er frumskilyrði, að afsakanlegur misskilningur snúist ekki upp í svikabrigzl, sem engan vanda leysa, en eitra öll samskipti.

Um hitt hefur aldrei verið neinn ágreiningur, að stjórnin hafi berum orðum sagt, að til áframhaldandi niðurgreiðslna eftir áramót mundi þurfa nýjar tekjur í ríkissjóð og mundi ákvörðun tekin um slíka tekjuöflun, hvort hennar yrði óskað eða ekki, og yrði sú ákvörðun tekin í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.

Þetta er höfuðatriði, því að þar með er sannað, hvílík fjarstæða það er að halda því fram, að það geti verið á móti anda júnísamkomulagsins að innheimta slíka skatta. Það er þvert á móti viðurkennt, að ég hafi fyrir undirskriftirnar í júní aðvarað menn um þetta. Hið umdeilda aukaatriði, sem nú er úr sögunni, sýnir enn betur en ella, að um sjálft meginmálið gat enginn verið í vafa.

En hversu miklar hafa þá orðið þær hækkanir, sem menn sáu fyrir og ræddu um viðbrögð gegn, þegar júnísamkomulagið var gert, og af hvaða orsökum eru þær?

Um þær hef ég fengið yfirlit frá Efnahagsstofnuninni, og segir þar, að vísitala framfærslukostnaðar hefði hækkað um 8.4 stig frá 1. maí til 1. nóvember 1964, ef engin breyting hefði orðið á niðurgreiðslum. Af þessari hækkun stafa 5.7 stig af hækkun á verði landbúnaðarafurða í september, en þá hækkaði afurðaverð bænda um 11.7%, auk þess sem vinnslu- og dreifingarkostnaður hækkaði. Enn fremur hækkaði vísitalan um 1.3 stig vegna hækkunar opinberra gjalda, en sú hækkun kom inn í vísitöluna 1. sept. Munaði hér mest um hækkun iðgjalda almannatrygginga um 1.26 stig, sem hins vegar var afleiðing kauphækkananna á árinu 1963, og hækkun sóknargjalda. Á móti þessu kom nokkur lækkun tekjuskatts og útsvars. Þá hækkaði húsnæðisliðurinn um 0.3 stig. Er hér um að ræða hækkanir á ýmsum matvörum og fatnaðarvörum. Stafa þær að nokkru af kauphækkunum á árinu 1963, sem ekki koma fram fyrr en þetta, en einnig af verðhækkunum erlendis, einkum á kaffi. Á móti vegur svo veruleg verðlækkun á sykri.

Á því tímabili, sem hér um ræðir, hafa niðurgreiðslur verið auknar sem svarar 7.4 stigum, en það jafngildir 207—228 millj. kr. árlegum kostnaði eftir því, hvaða vörur eru teknar.

Af þessu er ljóst, að langsamlega mestur hluti þeirra hækkana, sem hér um ræðir, er vegna hækkana landbúnaðarafurða. Og beri menn nú þessar óhagganlegu staðreyndir saman við það, sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson leyfði sér að fullyrða hér áðan. En þessi hækkun landbúnaðarafurða var umsamin af fulltrúum neytenda og framleiðenda, raunar með fyrirgreiðslu ríkisstj. Er þá þess að minnast, að af hálfu framleiðenda hafði í fyrstu verið krafizt miklu meiri hækkana. Þær hækkanakröfur voru mjög studdar í „Tímanum“, enda hljóta þeir, sem skrif hans taka alvarlega, að hafa orðið fyrir gífurlegum vonbrigðum yfir, að hækkunin varð þó ekki meiri en raun ber vitni.

Framsóknarmenn þykjast vera öðrum mönnum meiri bændavinir. En það er vissulega grár leikur í garð bændastéttarinnar að róa nú að því öllum árum að magna tortryggni og fjandskap út af þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til að milda þessa hækkun. Framsóknarmenn vita vel, að ekki sízt innan verkalýðshreyfingarinnar er það býsna almenn skoðun, að slíta verði tengslin milli kaupgjalds og landbúnaðarvöruverðs, því að í þeim tengslum sé að finna aflvaka verðbólguþróunarinnar. Á bak við þessa skoðun býr sú trú ýmissa, að landbúnaðinn beri að draga saman, vegna þess að Íslendingar hafi ekki efni á að veita þeim, sem hann stunda, við núverandi aðstæður sambærileg lífskjör á við aðra, einkum sökum hins mikla kostnaðar, sem strjálbýli og vegalengdir skapa. Við, sem teljum, að hér sé ekki eingöngu eða jafnvel fyrst og fremst um fjárhagsmál að ræða, heldur viðhald eins helzta eðlisþáttar íslenzku þjóðarinnar, hljótum að undrast skammsýni framsóknarmanna, þegar þeir nú gera sér leik að því að efna til hatramms ófriðar einmitt af þessum sökum.

Ég segi: við hljótum að undrast, en sennilega hef ég ofmælt og bið afsökunar á því. Eftir að hafa heyrt talsmann Framsóknar hér í þingsalnum ögra hv. þm. Hannibal Valdimarssyni og hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni með því, að þeir séu ekki nógu skeleggir í því að krefjast styttingar vinnutíma, og heyrt hinn sama talsmann fagna með fögrum orðum frv. hv. þm. Einars Olgeirssonar um verkfallsrétt til handa opinberum starfsmönnum og eftir að hafa lesið till. hv. framsóknarmanna um 220 millj. kr. aukin útgjöld á fjárl., án þess að ætla til þess einn eyri í auknum tekjum, eftir allt þetta getur enginn undrazt ábyrgðarlausa hegðun hv. framsóknarmanna. Fyrir þeim vakir það eitt að koma núv. ríkisstj. á kné. Til þess að ná því takmarki svífast framsóknarmenn einskis.

Nú vilja framsóknarmenn t.d. bæta þeim 207 eða 228 millj., er þarf á næsta ári í auknar niðurgreiðslur, fyrst og fremst vegna landbúnaðarvöruverðshækkunarinnar í haust, ofan á hinar 220 millj., sem framsóknarmenn hafa flutt hækkunartill. um við sjálf fjárl., allt án nokkurs tekjuauka. Um slíka tillögugerð þarf ekki að fjölyrða. Hún dæmir sig sjálf. Slíkt hið sama gerir sparnaðarhjal þeirra. Þeir flytja sjálfir ekki eina einustu sparnaðartill., og í málflutningi sínum linna þeir aldrei á kröfum um nýjar framkvæmdir og stofnun nýrra embætta í ólíkustu greinum. Sjálfir eiga þeir svo sökum langrar valdasetu áður fyrr meiri þátt í skipan og uppbyggingu núverandi embættiskerfis en nokkur annar flokkur.

Mér kemur ekki til hugar annað en að ýmislegt megi spara og koma hagkvæmar fyrir í ríkisrekstri. En það verður ekki gert, svo að verulega þýðingu hafi, nema á löngum tíma og með markvissu, samfelldu starfi, sem minna ber á en ella vegna eðlilegrar þenslu í þjóðfélagi, sem er ört vaxandi að fjölda og velmegun, en allt hefur þurft að byggja upp að nýju á örfáum áratugum. Á það ber einnig að líta, að sums staðar, þar sem auðvelt virðist að skera niður útgjöld, er með öllu óvíst, hvort það borgi sig. Glöggt dæmi um það er utanríkisþjónustan. Ég segi það af því, að ég veit, að það er vegna utanríkisþjónustunnar og fyrir atbeina hæstv. utanrrh., að Loftleiðadeilan leystist okkur í vil á s.l. hausti. Svo mætti lengi telja. En efni málsins er það, að enginn vandi verður leystur með lausu hjali, heldur ákveðnum athöfnum.

Sú mikla aukning, sem framsóknarmenn oft tala um að orðið hafi á útgjöldum fjárl. í tíð núv. stjórnar, hefur ekki orðið vegna þess, að stjórnin hafi ausið í botnlausa eyðsluhít sína, eins og þeir segja, heldur vegna þess að með tryggingum og niðurgreiðslum hefur hinn verr setti og fátækari hluti þjóðarinnar fengið stórkostlega lífskjarabót og öryggi, sem hann áður bjó ekki við. Með þessu hefur, eins og Páll heitinn Hermannsson sagði fyrir, þegar hann skarst úr liði flokksbræðra sinna og greiddi tryggingarlöggjöfinni atkvæði, tekizt að skapa nýtt og betra þjóðfélag. Margt hefur farið verr en skyldi, og verst af öllu er, að enn hefur okkur ekki tekizt að ráða við verðbólguna. En við skulum ekki þess vegna gleyma því, sem vel hefur tekizt fyrir okkar kynslóð, og þar á meðal ber að telja það, sem áunnizt hefur með tryggingunum. Sumir segja, — við heyrðum það í dag hér á þingi hjá einum framsóknarmanni, — að þær séu of víðtækar og þar megi mikið spara. E.t.v. má það að vissu marki. En þótt hinir betur stæðu njóti þeirra einnig, en út á það er einkum sett, þá greiða þeir jafnvel öðrum fremur til trygginganna, en fyrst og fremst eru það hinir fátækari, sem nú búa við allt annan hag en ella vegna trygginganna.

Þeirri gerbreytingu er oft gleymt, þegar verið er að telja fram, hversu kaupgildi tímakaups almennra verkamanna sé nú lakara en stundum áður. Allur er sá samanburður meir en lítið villandi, hæpinn viðmiðunartími valinn og ýmsu sleppt, sem er skilyrði þess, að rétt mynd fáist, eins og margoft hefur verið sýnt. Það er algerlega rangt hjá hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, að kaupmáttur dagkaups sé minni nú en fyrir 6 árum. Það er líka rangt hjá honum, að hlutur verkamanna í þjóðartekjum sé nú minni en áður. Á tímabilinu 1958—1963 hafa hreinar þjóðartekjur á mann aukizt um 15.6%, á sama tíma hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna kvæntra verkamanna í Reykjavík hækkað um 18.5% frá árinu 1958 til ársins 1963, og ef sjómenn og iðnaðarmenn eru taldir með, er meðalhækkunin 23.3%. Á öllu landinu munu þessar tölur vera lítið eitt lægri, en þessar stéttir hafa fyllilega haldið sinni hlutdeild í þjóðartekjunum og þó heldur betur.

Mjög ber á milli um þessar tölur, sem hinir fróðustu menn hafa látið mér í té, og hinar, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa á milli tannanna. Almenningur á að vonum erfitt með að gera sér grein fyrir, hvernig stendur á þessum mikla mun á útkomu dæmisins, en um allt þetta mál má lesa stórfróðlega ritgerð í 13. hefti ritsins Úr þjóðarbúskapnum, sem út kom á þessu ári, og hafa niðurstöður hennar ekki verið vefengdar. Þræta um þessar tölur skiptir og ekki öllu máli. Almenningur veit bezt af eigin raun, hvílík gerbreyting til hins betra hefur orðið á kjörum hans undanfarna áratugi og þá ekki sízt s.l. 3 ár, þó að stórátak þurfi að gera til þess að stytta vinnutíma, því er ég sammála. En stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar eiga vafalaust minni hlut að máli um þessar kjarabætur, bæði til góðs og ills, en bæði þeir sjálfir og aðrir oftast láta. Mestu veldur tækniþróun, dugnaður almennings og framtak athafnamanna. En víst er, að stjórnmálamenn — og verkalýðsleiðtogar geta bæði greitt fyrir og tafið.

Öllum kemur okkur nú orðið saman um, að kaupgjaldsbarátta undanfarinna áratuga hefur verið einstaklega ófrjó og síður en svo skilað erindi sem erfiði. Við allir, sem hlut áttum að júnísamkomulaginu, teljum okkur menn að meiri fyrir þá hlutdeild. Við erum ósammála um margt, og eðli málsins samkvæmt eru viðhorf okkar harla ólík. Stjórnmálabaráttan er keimlík í flestum lýðræðislöndum. „Hlutverk stjórnarandstöðu er að vera í andstöðu,“ er haft eftir Taft heitnum, foringja íhaldssamari arms Repúblikana í Bandaríkjunum. Hv. þm. Framsóknar og Alþb. fylgja þessu boði hins alræmda íhaldsgarps dyggilega og vilja þar frekar fara að hans ráðum heldur en kenningu Bernharðs Stefánssonar, sem hér var áður vitnað til.

Gagnrýni er öllum holl, er ríkisstjórn má ekki hverfa frá skyldu sinni, einungis af því að hún veit, að hún á von á gagnrýni og skömmum. Við vissum ofur vel, þegar við gerðum júnísamkomulagið, að allir mundu vilja taka sinn hlut af hrósinu fyrir það. En við vissum einnig, að því fylgdi sitthvað, sem ekki var líklegt til vinsælda, en ríkisstj. yrði engu að síður að annast um framkvæmd á. Engir sjá betur en við annmarkana á söluskattshækkun nú. En annmarkarnir á því að skjóta sér undan að afla nauðsynlegs fjár eru enn þá meiri. Þá fyrst yrði með öllu vonlaust að ráða við verðbólguna. Við höfum sannfærzt um, að eins og horfir er þessi skattlagning eina færa leiðin til óhjákvæmilegrar fjáröflunar, — óhjákvæmilegrar, ef ekki á að verða halli á ríkissjóði og þar með enn ný verðbólguorsök bætast við hinar, sem fyrir eru.

Þeir, sem tekið hafa að sér að vera í ríkisstj., verða að vera við því búnir, að á þeim mæði, þegar taka verður óþægilegar, óvinsælar ákvarðanir. Undan þessari skyldu munum við ekki skjóta okkur. En við treystum því, að áður en yfir lýkur, muni gæfa Íslands endast til þess, að á ný verði leitað sameiginlegrar lausnar á vanda, sem steðjar að allri íslenzku þjóðinni og okkur ber því öllum að gera allt, sem við megnum, til að leysa. — Ég þakka þeim, sem hlýddu. Góða nótt og gleðileg jól, allur landslýður.