05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í D-deild Alþingistíðinda. (3101)

161. mál, klak- og eldisstöðvar fyrir laxfiska

Flm. (Jónas G. Rafnar) :

Herra forseti. Þm. Norðurl. e. ásamt hv. 8. landsk. þm. hafa leyft sér að flytja á þskj. 360 eftirfarandi till. til þál.:

,„Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að stofnsett verði á Norðurlandi klak- og eldisstöð fyrir lax og silung. Skal í því sambandi athugað, hvort ekki sé heppilegt að hafa það fyrirtæki við vatnasvæði Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, m.a. vegna góðra skilyrða og hagnýtingar á volgu vatni og jarðhita þar um slóðir.“

Eins og fram er tekið í grg. með till., hefur áhugi almennings fyrir lax- og silungsveiði farið stórum vaxandi hér á landi á undanförnum árum. Má hiklaust fullyrða, að þessi íþrótt, þ.e.a.s. stangarveiði, sé ein vinsælasta dægradvöl þeirra, sem hafa bæði aðstöðu og efni á að stunda hana. Með aukinni eftirspurn hefur gjald fyrir veiðirétt og sérstaklega í laxveiðiám farið stórhækkandi. Þá kemur það og til, að erlendir laxveiðimenn sækjast mjög eftir að komast í íslenzkar laxveiðiár og bjóða hátt verð fyrir. Margir þeirra eru svo vel efnum búnir, að gjaldið, sem þeir þurfa að inna af hendi, skiptir þá ekki miklu máli, nokkuð örugg veiði við sæmilegan aðbúnað er þeim aðalatriðið. Ég sá nýlega frá því skýrt í blaði að bændur í Húnavatnssýslum leigðu ár sínar til stangarveiða fyrir á 5. millj. kr. samtals á þessu ári og er það allmikið fé, ekki hvað sízt ef tekið er tillit til þess, er fékkst fyrir þessar sömu ár fyrir nokkrum árum. Það er því ljóst, að aðsókn í íslenzkar veiðiár mun verða mjög mikil á komandi árum, en það þýðir sama og öruggar tekjur fyrir þá mörgu aðila um land allt, sem veiðiréttindi eiga. Fiskigengd í ám og vötnum er því stórfellt hagmunamál fyrir fjöldamarga landeigendur. Með því að stofna með sér veiðifélög og með öðrum aðgerðum hafa þeir leitazt við vernda þessa hagsmuni sína.

Víða erlendis hefur laxveiði farið minnkandi. Virkjanir og ýmiss konar úrgangur úr iðjuverum og milljónaborgum hafa spillt laxagöngum. Laxveiði í sjó er víða stunduð af kappi og dregur að sjálfsögðu úr laxagöngum upp í árnar. Til þess að hamla á móti þessari þróun hefur í mörgum löndum verið hafizt handa um fiskirækt í ám og vötnum. Vísindi og tækni hafa verið tekin í þjónustu þessarar starfsemi, sem jafnt og þétt hefur fært út kvíarnar. Í þessum efnum höfum við Íslendingar ekki fylgzt með, sem skyldi. Án efa stafar það af því, að lax- og silungsveiði hefur verið hér nokkuð jöfn í mörgum ám um árabil og því ekki orðið vart þeirrar hnignunar á stofnum þessara nytjafiska, sem annars staðar hefur gætt í svo ríkum mæli. En nú er vaknaður almennur áhugi fyrir fiskeldi. Með því að hagnýta sér reynslu annarra þjóða á þessu sviði sjá menn fram á það, að með starfrækslu klak- og fiskeldisstöðva megi með tíð og tíma auka mjög fiskisæld í ám og vötnum. Jafnvel verði unnt að ala upp sterka stofna í ám, sem aldrei hafa skilað arði. Þeir, sem kynnt hafa sér það, sem aðrar þjóðir hafa fengið áorkað í klak- og fiskeldismálum, telja víst, að hér á landi megi stórlega auka veiðina í laxám okkar og ala upp silung í vötnum og flytja hann út í stórum stíl með góðum hagnaði. Úr þessu mun reynslan skera á sínum tíma.

Þór Guðjónsson veiðimálastjóri hefur ritað allmikið um þessi mál. Hann segir m.a. í einni grein sinni um fiskeldi:

„Ný atvinnugrein, sem unnið er við að koma á fót hér á landi, er laxfiskaeldi. Geysimiklar framfarir í laxfiskaeldi erlendis og fjárhagsleg þróun síðasta hálfan annan áratug hefur aukið möguleika okkar á að gera þessa atvinnugrein arðvæna. Sjálfsagt er að notfæra sér þær sérstöku aðstæður, sem eru hér á landi til laxeldis.“

Þá bendir hann á, að styðjast verði annars vegar við erlenda reynslu og hins vegar beri að taka tillit til íslenzkra aðstæðna og nauðsynlegt sé að forðast allt flaustur.

Fyrir nokkru kom ríkið upp laxeldisstöð í Kollafirði, en haldið er áfram uppbyggingu hennar. Við þessa stöð eru miklar vonir bundnar og ástæða til að ætla, að vel hafi verið af stað farið. Ætlazt er til þess, að Kollafjarðarstöðin, auk þess að vera skóli í fiskeldi, selji í stórum stíl í framtíðinni seiði til annarra veiðistöðva og eigenda eða umráðamanna veiðivatna. Hins vegar er ekki unnt að búast við því, að hún geti séð fyrir þörfum allra landsmanna í þessum efnum.

Flm. þessarar þáltill. telja, að tímabært sé, að ríkið komi upp annarri klak- og eldisstöð laxfiska eða beiti áhrifum sínum til, að hún verði stofnsett. Leggja þeir til, að sú stöð verði reist á Norðurlandi og athugað verði þá sérstaklega, hvort ekki verði þá heppilegt, að hún verði staðsett við vatnasvæði Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Telja má víst, að þar sé hægt að fá frá jarðhitalindum volgt vatn til afnota fyrir stöðina eftir þörfum.

Eins og kunnugt er, eru margar laxveiðiár og ótal smærri silungsár og stöðuvötn með silungi á Norðurlandi. Þar eru því mikil fiskræktarskilyrði, sem bíða framkvæmda. Það er mikill áhugi fyrir þessu máli og því víst, að fullkomin klak- og fiskeldisstöð fengi strax örugg viðskipti.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að till. verði vísað til hv. fjvn.