21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í D-deild Alþingistíðinda. (3116)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Fsp. sú, sem hér er á dagskrá, er í tveimur liðum og taldi fyrirspyrjandi, að fyrri liðnum væri raunar svarað með bráðabirgðanál., sem útbýtt hefur verið meðal þm. um það, hvað líði störfum þeirrar n., sem þar um ræðir og má það til sanns vegar færa. Ég vil þó aðeins fara nokkrum orðum um þetta nál. og þá í fyrsta lagi vekja athygli á því, að það er lagt fram sem bráðabirgðaálit og í því felst í raun og veru, að n. telur sig eiga eftir að skila fullnaðaráliti og till. í málinu, eins og hennar verkefni var. En það var í fjórum liðum, eins og fram kemur í innganginum að nál. Í fyrsta lagi athugun á því, hvar mest er þörf fyrir aukinn iðnað vegna ónógrar atvinnu, í öðru lagi athugun á því, hvaða iðngreinar er hagkvæmast að starfrækja á hverjum stað, í þriðja lagi að gera till. um, á hvern hátt eigi að útvega fjármagn, svo að hægt sé að starfrækja iðnfyrirtækin og í fjórða lagi að gefa upplýsingar um þá faglegu þekkingu, sem nauðsynleg er, til þess að hægt sé að starfrækja þau iðnfyrirtæki sem n. leggur til að stofnuð verði. Við yfirlestur bráðabirgðanál. verður það ljóst, eins og þm. sjálfsagt hafa áttað sig á, að n. hefur fram til þessa einkum fjallað um fyrstu tvo liðina og ekki talið sig hafa tíma og aðstöðu til þess að komast lengra að sinni, hvað sem um það má segja, þ.e.a.s. athugun á því, hvar mest er þörf fyrir aukinn iðnað og þá vegna ónógrar atvinnu og í öðru lagi athugun á því, hvaða iðngreinar er hagkvæmast að starfrækja á hverjum stað. Um hina liðina er enn sem komið er og í þessu bráðabirgðanál. lítið sem ekkert fjallað. Það má alltaf deila um það, hvort n. hafi haft tíma til að gera meira og skal ég ekki fara fleiri orðum um það í sambandi við það, sem fyrirspyrjandi lét um það mælt. Þó held ég, ef litið er til annarra nefndarstarfa, að þá verði þessi nefnd ekkert ásökuð í þessu sambandi, miðað við þær aðstæður og það tóm, sem hún hafði til athugunar. Hitt er auðvitað alveg ljóst, að það fer hvergi nærri því, að hún hafi tæmt sitt verkefni, enda fer hún ekkert dult með það.

Þegar lítið er á þetta mál, er þó nokkur vinningur að því að hafa nú þegar fengið þetta nál., sem gefur yfirsýn, eins og hv. fyrirspyrjandi vék að, um atvinnuástandið. Hann sagði að vísu, að þetta hefði mönnum verið ljóst. Þetta er náttúrlega vel ljóst þeim mönnum, sem næst standa fólkinu, sem þarna er, og umboðsmönnum þess hér á þingi, en fyrir aðra þm. er það hins vegar fróðlegt að átta sig á þessu, enda lágu ekki fyrir neinar tölur um ástandið í þessu efni og það hefur nú verið unnið að því og leitað upplýsinga víðs vegar að af landinu, ekki aðeins af Norðvesturlandi, eins og nefndin gerði grein fyrir. Sumt af þessu er auðvitað ekkert nýtt. Þetta er algengt fyrirbrigði, sem legið hefur í landi hjá okkur Íslendingum, staðbundið atvinnuleysi í kaupstöðum og kauptúnum við sjávarsíðuna, og verður sjálfsagt nokkuð enn. Hins vegar er mönnum það ljóst, að þetta stafar fyrst og fremst af einhæfni atvinnuveganna og þá fyrst og fremst sjávaraflanum, sem er misjafn og tímabundinn og það er einmitt orsökin til þess, að á síðari árum hafa menn verið með hugmyndir um það að reyna að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf okkar Íslendinga til þess að gera það fjölþættara og vinna bug á þeim vanda, sem af hinu tímabundna atvinnuleysi stafar, ekki aðeins nú, heldur hefur legið í landi hjá okkur víðs vegar um landið.

Það kemur í ljós í áliti n., að einkum sé um tvær leiðir að ræða til þess að draga úr þeim sveiflum, sem stafa af tímabundnu atvinnuleysi og tímabundnum aflabrögðum. Og það er í fyrsta lagi það, að fyrirtæki, sem við sjávarsíðuna vinna, yrðu óháðari því, hvar og hvenær veiðarnar eiga sér stað. Og það yrði þá gert að áliti n. fyrst og fremst með tveimur aðgerðum, þ.e. flutningi hráefnis í ríkari mæli, en fram til þessa hefur átt sér stað og geymslu hráefnis.

Þar sem spurt er jafnhliða þessu um, hvað ríkisstjórnin hafi gert eða hugsi sér að gera í sambandi við þá erfiðleika, sem hér eru á ferðinni, má skjóta því hér inn, að ríkisstj. átti á s.l. sumri verulegan hlut að því með fjárframlögum, að gerðar voru tilraunir, sem hafa ekki verið gerðar áður, til þess að flytja hráefni, þ.e.a.s. síldina, taka hana á miðunum með dælum í tankskip og flytja til fjarlægari hafna. Ríkisstj. átti hlut að máli um þetta og lagði fram fé til þess, fyrst og fremst, skulum við segja, til þess að með því gæti fengizt reynsla, sem hagnýta mætti síðar til hjálpar þeim kauptúnum, sem erfiðast eiga um flutning hráefnisins. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að í aðalatriðum hafi þessi tilraun gefizt nokkuð vel. Hún varð nokkuð kostnaðarsöm, en verulegur kostnaður hefur lagzt á ríkið í þessu sambandi, með hliðsjón af því að öðlast þá reynslu, sem hér um ræðir, en að öðru leyti lögðu þeir menn, sem þar áttu hlut að máli, fram mikla fjármuni til þessarar tilraunar. Umfram þetta talar svo n. um hina leiðina, að beina atvinnulífi þeirra staða, sem hér um ræðir, að einhverju leyti inn á aðrar brautir og þá er auðvitað fyrst og fremst átt við möguleikana til þess að efla iðnað á viðkomandi stöðum, — iðnað, sem gefur ákveðna og stöðuga atvinnu allan ársins hring.

Þetta var nú það, sem vakti fyrir þeim, sem fluttu till., eins og við munum frá síðasta þingi og kannske fyrst og fremst þetta, eins og till. er orðuð. En við rekum okkur strax á það, að á þessu eru ýmsir örðugleikar og ég geri þetta nú þegar að umtalsefni vegna þess, að ég tel nokkuð hæpið og vafasamt að vekja of miklar vonir hjá fólki á viðkomandi stöðum með flutningi till eins og á s.l. þingi, — þetta er ekki ásökun til þeirra, sem till. fluttu, — og eins með fsp. um og umr. um fsp. hér í þinginu, — vonir, sem vakna kannske af því, að þegar málið sé komið inn í þingið, þá sé nú eiginlega komið atvinnufyrirtæki þarna á staðnum, það séu komnar upp nýjar verksmiðjur og það sé farið að hilla undir nýjar iðngreinar o.s.frv. Mér finnst, að þm. megi gæta töluvert meiri varúðar og varkárni á þessu sviði, en gætt hefur fram til þessa. Og ég get ekki leynt því, að stundum er meira auglýsingabragð af þessum till. og fsp. heldur en raunverulega væri æskilegt.

Það kemur fram á 4. síðu í nál. greinargerð um hlutdeild okkar íslenzka iðnaðar í innanlandsmarkaðinum, eða markaðshlutdeild, eins og þeir kalla, innlendu framleiðslunnar. Og þetta er nokkuð athyglisvert og ég vil biðja menn að festa sjónir við það, að það eru taldar upp ýmsar íslenzkar iðngreinar, þ.e. iðnaður við framleiðslu á kexi, sælgæti, smjörlíki, ull, dúkum, gólfteppum, baðmullardúkum, tilbúnum fatnaði, skóm, húsgögnum, málningu og hreinlætisvörum. Auðvitað er þetta ekki tæmandi upptalning, en ef við lítum bara á þetta, þá kemur það fram um markaðshlutdeild innlendu framleiðslunnar, þ.e.a.s. það, sem þjóðin notar af þessum vörum, að innlenda framleiðslan framleiðir þegar yfir 90% af þessari iðnaðarframleiðslu, eða um 91% að meðaltali í 8 flokkum og svo svolítið minna, ég hef tekið það úr, þegar ég nefndi þessi 90%, eins og baðmullardúka, sem eru aðeins 10%, en að öðru leyti er þetta milli 80 og 100%, svo að við sjáum af þessu, að okkur eru miklar takmarkanir þarna settar, því að þá væri aðeins um það að ræða, þegar svona er komið, að flytja eitthvað af þessari framleiðslu frá þeim stöðum, þar sem hún er, til annarra staða á landinu. En aukningu, miðað við innanlandsmarkaðinn, eru gífurlega mikil takmörk sett.

Sá iðnaður, sem ætti að koma til fyrir utan fiskiðnaðinn á þessum stöðum til úrlausnar þeim vanda, sem hér er um að ræða, yrði iðnaður fyrst og fremst, sem framleiðir vörur úr öðrum hráefnum, sem hér eru fyrir hendi og iðnaður, sem framleiðir úr innfluttum hráefnum og þjónustuiðnaður. Þessar iðngreinar eru orðnar mjög mikilvægur liður í íslenzkum þjóðarbúskap og það má m.a. marka af því, eins og nefndin bendir á, að meir en helmingur af því vinnuafli, sem er í öllum iðnaði í landinu, þar með talinn fiskiðnaðurinn, er í öðrum iðnaði, en fiskiðnaðinum eða 60%. Og sennilega er þessi tala nokkru hærri, ef nýrri upplýsingar lægju fyrir hendi en n. hefur haft með höndum til þess að vinna úr.

Þegar litið er í heild yfir iðnaðinn, sem er nú fyrir hendi, þá hefur það verið svo, að hann hefur safnazt saman á tilteknum svæðum, þ.e. í Reykjavík og nágrenni og svo aðallega á Akureyri og þar um kring. Eins og n. bendir á til sönnunar þessu, ef miðað er við iðnlánasjóðsgjaldið, sem greitt er af innlenda iðnaðinum, þá verður um 70% alls álagðs iðnlánasjóðsgjalds í Reykjavík og nágrenni, þar er þá átt við Kópavog, Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfjarðarkaupstað og ef Akureyri er talin með, um 81%. Ég held, að n. hafi dregið þá niðurstöðu af því, sem ég nú hef sagt, að ekki væru miklir möguleikar til aukningar á þeim iðnaði, sem fyrir hendi er, bæði vegna markaðsins og staðsetningarinnar, að vísu mætti flytja það, en væri þá fyrst og fremst í hinum nýja og aukna iðnaði, sem fram undan væri. Þetta orðar n. á bls. 8: „Nefndin álítur, að möguleika til aukins iðnrekstrar úti á landsbyggðinni sé nú sem stendur ekki nema að takmörkuðu leyti að leita í þeim iðngreinum, sem nú eru bundnar við sölu á hinum innlenda markaði.“ Hún kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu, eins og eðlilegt er, að þetta mundi gerbreytast, ef einhverri þessara iðngreina tækist að ryðja sér braut á erlendum mörkuðum. Nú hafa margir tengt vonir við það, að ýmsar af okkar innlendu iðngreinum gætu rutt sér braut á erlendum markaði, byggt það m.a. á möguleikum um ódýra raforku og jarðhita og önnur slík gæði, sem gætu skapað Íslendingum aðstöðu til að vera samkeppnisfærir á hinum stóra erlenda markaði. Skal ég ekki frekar út í það fara, en augljóst er, að ef svo yrði, þá sköpuðust auðvitað í þessu máli alveg ný viðhorf, sem liggja ekki enn fyrir, nema þá a.m.k. að ákaflega litlu leyti.

Ég bið hv. þm. að taka eftir því, hverjar niðurstöður n. eru að þessu leyti, sem ég nú hef um fjallað, að hún telur það ljóst í fyrsta lagi, að ekki er um verulega fjölbreytni að ræða í iðnaðarmálum þjóðarinnar, í öðru lagi, að í þeim iðnaði, sem eingöngu byggir á innlendri eftirspurn, leyfir stærð markaðs ekki marga framleiðendur í sömu grein, að þær iðngreinar, sem hafa náð fótfestu á innlendum markaði, hafa þegar að mestu mettað eftirspurnina og því um takmarkaða vaxtarmöguleika í þeim greinum að ræða og í fjórða lagi, að mest af þeim iðnaði hefur risið upp í eða nálægt aðalþéttbýli landsins.

Það, sem einkum hefur ráðið staðsetningu iðnaðarins að áliti n., er svo tíundað í nokkrum liðum. Það er auðveld útvegun hráefnisins. Það er í öðru lagi ódýr og auðveld sala á miklum hluta framleiðslunnar. Það er í þriðja lagi greiður aðgangur að fjármagni, bæði til uppbyggingar og rekstrar. Í fjórða lagi möguleikar á ýmsum þjónustuiðnaði og þar kemur auðvitað mannfjöldinn til greina. Í fimmta lagi, að fyrir hendi séu hæfir menn til forstöðu slíkrar starfsemi, sem og tæknileg þekking við uppbyggingu og rekstur. Og í sjötta lagi er vinnumarkaðurinn það stór og breytilegur, að óvæntar eða árstíðabundnar sveiflur á eftirspurn eftir vinnuafli þurfi ekki að hafa truflandi áhrif á reksturinn. Allt þetta er íhugunarefni og sýnir, að það er ekki auðvelt úrlausnarefni að fylla í skörðin með iðnaði, þar sem hann hefur ekki verið, þar sem atvinnuleysi eða ónóg atvinna hefur verið við sjávarsíðuna.

Það er niðurstaða nefndarinnar, að það verði ódýrast og fljótlegast og til mestrar frambúðar að aðstoða þann fiskiðnað, sem fyrir er á þessum stöðum. Í fyrsta lagi með tilliti til aukinnar framleiðslu og frekari nýtingar hráefnisins og í öðru lagi með tilliti til aukins hráefnis og öruggari öflunar þess.

Þetta eru almennar hugleiðingar, sem ástæða er til að veita athygli og gera sér grein fyrir. Síðan hefur n. í sínu bráðabirgðanál. fjallað nokkuð um einstaka staði og þá, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, einkum um kauptún og kaupstaði á Norðvesturlandi og ber þar kannske mest á Siglufirði annars vegar og Skagaströnd hins vegar. Á Siglufirði er ástandið mjög alvarlegt, eins og fram hefur komið og fyllsta ástæða til þess, að úr þeim erfiðleikum verði að einhverju leyti reynt að bæta með aðstoð almannavaldsins, ríkisstj. og Alþingis og almennum fjárveitingum í bili. Hins vegar er rétt að festa sjónar á því, sem n. vekur athygli á, að atvinnufyrirtækin á Siglufirði eru nægjanleg til þess, að þar geti verið blómlegt atvinnulíf, ef rekstur þeirra væri tryggður. Og því mætti segja, að á Siglufirði beinist athyglin fyrst og fremst að því, hvaða ráðstafanir sé hægt að gera til þess, að þau atvinnutæki, stórvirku og mikilvægu atvinnutæki sem þar eru fyrir hendi, geti orðið hagnýtt og starfrækt.

Þarna veldur náttúrlega langmestu síldin, þegar hún bregzt, ekki í fyrsta skipti og kannske ekki síðasta hjá okkur Íslendingum. Og fyrr og síðar hefur síldaraflinn valdið hinum stórkostlegustu truflunum og erfiðleikum. Það er skemmst að minnast þess, þegar Austfirðirnir voru í sinni miklu niðurlægingu, ef ég má segja svo, atvinnulega séð eftir gífurlega uppbyggingu, sem byggðist á síldinni. En svo hefur aftur breytt til, þannig að nú hefur síldin veiðzt einmitt fyrst og fremst fyrir Norðaustur- og Austurlandi og hefur gerbreytt lifnaðarháttum og atvinnumöguleikum fólks á þessum stöðum, en um þessar síldargöngur fá hvorki ríkisstj. né Alþingi neinu ráðið. Hins vegar getur það verið á þeirra valdi að gera ráðstafanir til þess að hagnýta þær sem bezt, þegar þær á annað borð eru fyrir hendi, enda hefur það verið gert með margvíslegum ráðstöfunum, sem ég skal ekki fara út í, eins og hv. þm. er fullkunnugt um.

En þegar við lítum á þessa staði, Skagaströnd og Siglufjörð, þá eru þarna atvinnufyrirtæki, sem fyrst og fremst og langstórvirkustu fyrirtækin byggjast á fiskiðnaðinum. Það er tunnuverksmiðja á Siglufirði. Úr því máli er nú að rætast hjá Siglfirðingum, því að eftir því sem ég veit bezt, þá er gert ráð fyrir, að hin nýja tunnuverksmiðja geti tekið til starfa á þessum vetri upp úr áramótum. Það er niðurlagningarverksmiðja á síldarafurðum, niðursuðuverksmiðja á síldarafurðum, svo eru það síldarverksmiðjurnar og frystihúsin, eins og annars staðar í sjávarþorpunum og svo þjónustuiðnaður, dráttarbraut og annar þjónustuiðnaður í sambandi við þennan iðnað, sem þarna er fyrir hendi.

Þegar horft er til Skagastrandar, þá er þar raunverulega sama sagan. Þar eru uppi hugmyndir hjá íbúum þorpsins um tunnuverksmiðju, eins og á Siglufirði, niðurlagningarverksmiðju tala þeir um, eins og á Siglufirði, en þar fyrir utan eru þar 2 fyrirtæki nefnd, sem heimamenn hafa haft áhuga á að láta rannsaka nokkuð. Það er grasmjölsvinnsla í síldarverksmiðjunni og svo hugmyndir um sútunarverksmiðju, sem þeir hafa haft áhuga fyrir að koma á laggirnar. Það eru sem sagt ekki fjölbreytilegar hugmyndir um annað en það, sem byggist á fiskiðnaðinum, eins og menn sjá við yfirlestur þessa og menn sjálfir verða varir við, þegar þeir eru að hugleiða möguleikana til meiri iðnaðar á þessum stöðum. Þetta nefni ég, eins og ég sagði áðan, til þess að menn geri sér ekki allt of glæstar vonir um að bæta úr erfiðleikum með auknum iðnaði, þar sem ónóg atvinna er.

Á Siglufirði er eitt atriði, sem n. bendir á, sem er kannske athyglisvert. Það er í niðurlagi á bls. 23. Nefndin víkur að því, að atvinnustarfsemin sé að langmestu leyti þar af opinberri hálfu og segir:

„Varðandi rekstur hins opinbera þar almennt álítur n., að athuga beri, hvort ekki væri heppilegra fyrir atvinnulíf staðarins í heild, ef einstakar iðngreinar og þá einkum þjónustuiðnaðurinn væri ekki eingöngu í höndum hins opinbera. Væri ekki óhugsandi, að breytt fyrirkomulag drægi úr flutningi fólks og fjármagns frá kaupstaðnum og gæti jafnframt stuðlað að því, að ný fyrirtæki festu rætur. Enn fremur mundi slíkt fyrirkomulag stuðla að úrbótum í skattamálum bæjarfélagsins.“

Að sjálfsögðu mætti bæta eitthvað úr skattamálum bæjarfélagsins með breyttu fyrirkomulagi á skattlagningu hinna opinberu aðila. En ég hygg, að það, sem fyrir n. vakir þarna sé, að þarna sé svo mikill opinber atvinnurekstur, að einstaklingarnir hugsi sem svo: Það þýðir ekki að vera að setja sig niður hér með þetta. Hið opinbera mun gera það og það í svo stórum stíl, að það skyggir á okkar möguleika. Og þeir halda því að sér höndunum og stöðnun á sér stað, í stað þess að þar mætti e.t.v. efla þróun í smærri stíl í höndum fleiri einstaklinga.

Aðrir staðir, sem hér er sérstaklega vikið að, eru staðir eins og Sauðárkrókur, sem reyndar, þegar var verið að ræða um þessi mál, stóð höllum fæti og menn þaðan báru sig illa. Nú er það töluvert öðruvísi og það má segja, að þegar maður kemur á Sauðárkrók og hefur talað við menn þar seinni part sumarsins, þá sé þar allt með sæmilegum kjörum og atvinnulíf ekki bágborið, heldur að sumu leyti þvert á móti. Þeir hafa sjálfir, Sauðkræklingar, haft mikinn hug á því að efla hjá sér iðnað, sett upp iðnaðarmálanefnd af hálfu bæjarstjórnar, sem unnið hefur í sambandi og samvinnu við iðnaðarmannafélag staðarins. Og það er nokkuð athyglisvert, að í ekki stærri kaupstað, en þarna eru starfandi um 30 iðnfyrirtæki. Sum af þeim eru ný, en þó ekki nema örfá. Flest eru það þjónustufyrirtæki fyrir Sauðárkrók og Skagafjörð, þessa stóru byggð, sem er með um 4.000 manns. Og þjónustufyrirtæki veita þarna allverulegum fjölda atvinnu. En það er þó mikils virði, að það er heima fyrir áhugi á uppbyggingu fjölbreytilegs iðnaðar á staðnum og þar af stafa þessar nefndir og þær hafa átt nokkurn hlut að máli um það, að iðnaður, að vísu í smáum stíl, hefur verið fluttur frá Reykjavík til Sauðárkróks og nýjum iðnaði hefur verið komið þar upp.

Heildarmyndin er í stórum dráttum sú, að mikill hluti iðnfyrirtækjanna á Sauðárkróki veiti útgerðinni á staðnum og landbúnaðinum í nálægum sveitum þjónustu. Þá eru þarna, eins og áður hefur verið drepið á, segir nefndin, tvö frystihús, en þau geta veitt um 130 manns atvinnu. Enn fremur eru rekin tvö véla- og bifreiðaverkstæði í kaupstaðnum, og vinna þar um 30 manns. Allmörg trésmíðaverkstæði og byggingafyrirtæki eru starfandi og hefur eitt þeirra nýlega hafið framleiðslu á harðviðarhurðum. Í þessum fyrirtækjum vinna að jafnaði 40–50 manns. Við sjáum, að fyrirtækin eru yfirleitt í smáum stíl. Þá eru enn fremur starfrækt tvö ný fyrirtæki á Sauðárkróki og framleiðir annað þeirra einangrunarplast, en hitt ýmsa smáhluti, svo sem búsáhöld og efni til raflagna. Þessi tvö fyrirtæki, svo og trésmiðjan, sem framleiðir harðviðarhurðir, selja framleiðsluvöru sína til annarra staða að meira eða minna leyti. Þetta sýnir auðvitað, að það er hægt að tryggja og styrkja atvinnuástandið á viðkomandi stöðum með nokkuð fjölþættum iðnaði, þó að í smáum stíl sé. En það má segja, að mannfjöldinn er meiri þarna, en t.d. á Skagaströnd og gefur að því leyti betri aðstöðu. Eitt er svo það, sem verulega hefur lyft atvinnuástandinu á Sauðárkróki og Hofsósi og það er dragnótaveiðin. Bar mönnum saman um það, eftir því sem ég komst næst, þegar ég var þarna á ferð í sumar, að til mikilla hagsbóta væri sú dragnótaveiði, sem bátar frá þessum stöðum stunduðu nú og sem skilaði verulegum og auknum aflabrögðum til vinnslu í frystihúsunum á þessum stað. Þarna hefur opnazt nýr möguleiki, eftir að samkomulag hefur orðið um það, sem þó á undanförnum árum hefur verið deilt gífurlega mikið um og skal ég ekki víkja að þeim deilum.

Svo er loksins það, sem ég vildi nefna í sambandi við þetta nál., að hv. fyrirspyrjandi minntist á Drangsnes og þaðan þyrftu 80% af verkamönnum að fara til vinnu til annarra staða. Þetta hljómar náttúrlega ekki vel. Þó er nú á það að líta, að þarna eru ekki nema 145 íbúar, og það eru þó 28 karlmenn og 11 konur, sem leita atvinnu utan þorpsins mestan hluta. En hvort er nú að horfa raunsætt á þessa hluti að reyna að gera einhverjar ráðstafanir til þess að efla þennan stað að nýju eða gera sér grein fyrir, að sumir staðir verða að meira eða minna leyti annaðhvort að dragast aftur úr um tíma eða fyrir fullt og allt, þangað til þjóðin er orðin miklu fjölmennari, en hún er og aðstaða hennar að öðru leyti styrkari.

Á Drangsnesi hefur íbúunum fækkað frá 1954 úr 280 niður í 145. Þar er talið, að kostnaður við að byggja örugga höfn sé óviðráðanlegur og þá blæs nú ekki byrlega í svona litlu sjávarþorpi.

En hér erum við komnir að öðru verkefni, sem ég vil aðeins víkja að, að það hefur ekki aðeins verið þessi n. starfandi til þess að gera athuganir og till. um bætt atvinnuástand á tilteknum stöðum á landinu og þá einnig á stað eins og Drangsnesi, sem er fækkandi, heldur hafa Vestfirðir verið til alveg sérstakrar athugunar í annarri nefnd, sem starfar að því, sem stundum er kallað Vestfjarðaáætlun. Og þar hygg ég liggja fyrir allverulegar athuganir nú þegar, þó að ekki hafi verið skilað áliti, en innan tíðar megi vænta fyrstu athugana og till. frá n., sem unnið hefur nokkuð gagngert að því, með hverjum hætti sé hægt að koma í veg fyrir fólksflótta frá tilteknum svæðum á landinu, eins og í þessu tilfelli Vestfjörðum og af því, þegar það liggur fyrir, mætti draga nokkurn lærdóm, kannske fá verulega góðan árangur varðandi Vestfirðina og draga nokkurn lærdóm varðandi aðra staði á landinu.

Ég er of ókunnugur þessari Vestfjarðaáætlun og hvernig hún stendur, til þess að geta rætt hana hér, en vík aðeins að henni sem ábendingu í þessu sambandi, að málið er í heild mun víðtækara, en aðeins þessi n. hefur haft um að fjalla.

Niðurstöðu- eða lokaorð í þessu bráðabirgðanál. eru eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta: „Enn fremur hefur n. leyft sér að nefna nokkrar þær leiðir, er til úrbóta mættu verða, án þess þó að hafa haft tækifæri til að rannsaka hagnýtt gildi þeirra fyrir hvern stað né heldur kynna sér tæknilega og fjárhagslega örðugleika við framkvæmd þeirra og með tilliti til þess, hversu umfangsmikilla athugana lausnir atvinnuvandamála byggðarlaga krefjast og hversu marga aðila þær snerta, vaknar sú spurning, hvort ekki sé rétt, að einn ákveðinn aðili annist slíkt fyrir hönd ríkisvaldsins og annar fyrir hönd sveitarfélaga viðkomandi byggðarlaga.“

Þannig lýkur þessu bráðabirgðanál. og það kann vel að vera, að ábendingar, sem í síðustu orðunum koma fram, muni eiga rétt á sér og þarf það mál nánari athugunar. En af þessu leiðir, eins og ég sagði í upphafi, að þessi nefnd, hvað sem framtíðinni líður, á verulegt verk óunnið enn þá og mun ég nú eiga nánari viðræður við þessa nefnd. Ég hef átt viðræður við hana, meðan hún hefur starfað, um áframhaldandi starf hennar og hvernig því yrði hagað og með hve skjótum hætti það gæti verið leyst af höndum.

Þá vil ég aðeins í lokin víkja að síðari fsp.: „Hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstj. gera til að ráða bót á hinu ískyggilega atvinnuástandi á vestanverðu Norðurlandi.“ Um það vil ég segja það, að ríkisstj. hefur þegar tekið til athugunar nokkur atriði í þessu sambandi, að svo miklu leyti sem sveitarstjórnirnar á viðkomandi stöðum eða bæjarstjórnir hafa snúið sér til ríkisstj. Enn fremur, eins og ég gat um áðan, voru þær ráðstafanir og aðstoð, sem ríkisstj. veitti með tilflutning á síldaraflanum, einmitt hugsaðar með hliðsjón af að fá reynslu til úrbóta, ekki aðeins fyrir þá, sem þar áttu hlut að máli, heldur einnig á öðrum stöðum, sem stendur svipað á um. Sem sagt, til athugunar eru nú þegar tilteknar ráðstafanir. Ég nefni Skagaströnd, þar er sérstaklega snúið sér til ríkisstj. Er hægt að hjálpa þeim til þess beinlínis, eins og oft hefur áður verið gert fyrir einstök kauptún og einstök byggðarlög, með einhvers konar hallærishjálp úr atvinnuaukningarsjóði, ríkissjóði eða á annan hátt, til þess að frystihús þeirra gætu verið starfandi í vetur. Þetta eru bráðabirgðaráðstafanir, sem eru til athugunar og oft endranær hafa komið til athugunar og einstökum þorpum hefur verið hjálpað með, þó að það hafi aldrei verið rætt hér í þinginu sérstaklega. Ég minnist t.d. Þórshafnar á s.l. vetri og svona mætti auðvitað lengi telja. En hvað ríkisstj. að öðru leyti hyggst almennt gera í sambandi við þá fsp., sem hér hefur verið fram borin, þá mundi ég vilja segja það, að hún mundi vilja byggja ákvarðanir sínar á þeim niðurstöðum, sem fyrir liggja, þegar n., sem skipuð var í þessu máli, hefur skilað sínu endanlega áliti og á það verður lögð áherzla, að það geti orðið svo skjótt sem verða má.