21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í D-deild Alþingistíðinda. (3117)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er nú mjög erfitt að ræða þetta mál í fsp.-tíma, þar sem tími er mjög takmarkaður,og eðlilegt, að það verði gert á öðrum vettvangi. En það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi þó láta koma fram.

Það virðist koma alveg ljóst fram af þeirri skýrslu, sem hér liggur fyrir frá hinni svokölluðu iðnaðarnefnd, að þau vandamál, sem hér er við að glíma, miðað við það svæði, sem hún hefur sérstaklega athugað, eru í rauninni algerlega orsökuð af hinum mikla aflabresti, sem verið hefur fyrir Norðurlandi nú um það bil tvö ár, enda eru flestar till. n. við það miðaðar að efla vinnslu úr sjávarafurðum og að uppbygging þessara byggðarlaga hljóti að byggjast á því, að það sé hægt, bæði með því að flytja til afla, eða þá, ef svo skyldi fara, sem maður vonar, að afli glæðist aftur fyrir þessu landssvæði. En það er hins vegar ljóst jafnframt af nál. þessarar n., að hún hefur takmarkað starf sitt ákaflega mikið og ég vil segja óhæfilega mikið, þannig að það fæst ekkert yfirlit um þann vanda, sem hér er við að glíma.

Það eru meira að segja beinlínis ekki réttar upplýsingar, sem eru í þessu nál., eins og þar sem talað er um aflabrest fyrir Norðurlandi vestra á annað ár og síðan algert síldarleysi fyrir öllu Norðurlandi á þessu sumri. Aflabresturinn fyrir Norðurlandi hefur verið fyrir öllu Norðurlandi, allt frá Horni austur á Langanes og þetta hefur valdið stórkostlegum erfiðleikum, sem m.a. komu fram í því, að á s.l. vori var leitað til ríkisstj. af útvegsmönnum af öllu þessu svæði um það að fá sérstaka fyrirgreiðslu til þess að koma í veg fyrir, að bátafloti á öllu þessu svæði yrði boðinn upp vegna þess geigvænlega ástands, sem skapazt hefur af þessum sökum. Því miður hefur ekki vænkazt í þessu efni og mjög versnað á þessu sumri vegna þess, hvernig síldveiði brást algerlega fyrir Norðurlandi. Ég tel því ástæðu til að harma það, þó að ég sé ekki að gera lítið úr vandamálum þeirra staða, sem hér er við átt í þessu nál., að þá skuli vera gefin sú hugmynd, að hér sé í rauninni aðeins um þessa fáu staði að ræða og allt sé í góðu gengi annars staðar. Málið er miklu víðfeðmara en það og í rauninni má segja, að þótt það sé góðra gjalda vert að fá yfirlit sem það, sem hér um ræðir og fá jafnframt sérstaka athugun einnig varðandi Vestfirði, þá er það skoðun mín, að þessar nefndarskipanir fyrir takmörkuð svæði séu ákaflega óraunhæfar og óeðlilegar og þetta sýni okkur aðeins nauðsyn þess að, að þessu þurfi að vinna með miklu kerfisbundnari hætti. Þessar áætlanir geta allar verið góðra gjalda verðar og ekki skal lítið úr þeim gert. En það er enn ekki séð fyrir, nema þær kunni að vissu leyti að rekast á, þar sem tveir aðilar hafa með að gera athugun á t.d. hluta af þessu svæði, sem er hluti Vestfjarðanna og enn fremur hitt, að algerlega hefur verið gengið fram hjá, vandamálum annarra landssvæða.

Það er engum efa bundið, að eins og ástatt er nú, horfir mjög alvarlega með atvinnulíf á öllu Norðurlandi og allverulegum hluta Vestfjarða. Og þetta mál þarf allt að vinna með kerfisbundnum hætti. Ég tek það fram, að það má ekki heldur villa fólki sýn með því, að á einhverjar nefndir, sem settar séu á laggirnar, sé mænt um það, að allt leysist í gegnum þær, og ég álít, að það sé mjög varhugavert að byggja allt upp á því, að það eigi að krefjast þess, að ríkisstj. geri þetta og hitt. Ríkisstj. grundvallar ekki iðnrekstur okkar eða atvinnulíf á hinum einstöku stöðum. Það verður aldrei gert með raunhæfum hætti, nema það séu öfl heima fyrir, sem að því standi og kemur svo aftur að ríkisvaldinu, hvað það vill gera til að greiða fyrir í þeim efnum.

Það var minnzt hér á t.d. Sauðárkrók í þessu sambandi, þar sem hafa heima fyrir verið gerðar ýmiss konar ráðstafanir til eflingar atvinnurekstri. En það, sem þarf að gera, er að vinna kerfisbundið að þessu máli. Það getur vel verið nauðsynlegt að setja einhverja stofnun á laggir, svipað og hefur verið gert í Noregi, til þess að vinna, kerfisbundið að þessu. Atvinnubótasjóður var settur á laggirnar á sínum tíma til þess að veita aðstoð til eflingar atvinnulífi. Hann hefur ekki haft aðstöðu til þess. Það kann vel að vera, að það mætti efla hann þannig og veita honum slíka aðstöðu, að hann geti haft með höndum víðtæka athugun á atvinnulífi á hinum ýmsu stöðum og reynt á þeim grundvelli að gera sér grein fyrir því, hvar skórinn kreppir helzt og hvert ætti að einbeita því fjármagni, sem þar er um að ræða. Einnig kemur vel til álita, að það verði tekinn upp sá háttur að veita sérstök fríðindi atvinnufyrirtækjum, sem vildu setjast að á þessum stöðum. Það verður engu fyrirtæki skipað að gera það og það er ábyggilega á engan hátt heppilegt. Það hefur sýnt sig með Siglufjörð, að það hefur ekki orðið Siglufirði nema til takmarkaðs gagns, að það ætti allt að byggjast upp á því, að ríkið gerði allt það, sem þar hefur átt upp að byggja og allir mændu til þess.

Herra forseti. Ég skal ekki syndga upp á náðina í þessu efni, en ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram, án þess að ég geri á nokkurn hátt lítið úr þeim erfiðleikum, sem hér er við að glíma, að mér finnst, að þetta sýni okkur glögg merki þess, að við þurfum á kerfisbundinn hátt að vinna að þessum efnum og ég vil vænta þess, að ríkisstj. hafi nú forustu um það að skipuleggja víðtæka starfsemi á því sviði, ekki þá, sem er miðuð við tímabundnar nefndir, sem skila plöggum eftir nokkra mánuði, meira og minna yfirborðskenndum, heldur að það verði reynt með sem fjölþættustum úrræðum að tryggja það, að eðlilegt jafnvægi geti haldizt í byggð landsins.