21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í D-deild Alþingistíðinda. (3118)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hefur að nokkru leyti komið inn á það mál, sem ég ætlaði sérstaklega að benda á. En það er augljóst, að það er víðar slæmt ástand í atvinnumálum, en á vestanverðu Norðurlandi, eins og hér hefur aðallega verið til umr. og n. sú, sem skipuð var til þess að athuga það mál, sem hér hefur sérstaklega verið rætt, hefur einkum beint athugunum sínum að. Við vitum það úr okkar kjördæmi, Norðurl. e., að þar er ástandið víða engu betra, en það hefur reynzt við Húnaflóa og Skagafjörð og á Siglufirði.

Eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, hefur verið mikill aflabrestur á þorskfiski nú s.l. 2–3 ár og allir þekkja líka, að almennt síldarleysi hefur verið fyrir öllu Norðurlandi. Ég vil sérstaklega nefna staði eins og Ólafsfjörð, Dalvík og Þórshöfn, sem hafa orðið mjög hart úti í atvinnumálum síðustu árin og þar sem nauðsynlegt er að bæta úr. Allir þessir staðir byggja á sjávarútvegi að langmestu leyti eða svo til öllu leyti. T. d. má segja, að aðalatvinnutæki Ólafsfirðinga og Dalvíkinga séu hraðfrystihús og síldarsöltunarstöðvar og þeir bátar, sem afla hráefni fyrir þessar fiskvinnslustöðvar. En aflabresturinn aftur hefur valdið þarna gífurlegu atvinnu- og fjárhagstjóni, sem lamað hefur atvinnulífið, svo að það verður að gera einhverjar róttækar ráðstafanir til þess að fá úr því bætt. Sem dæmi vil ég nefna það, að nú liggur við borð, að Dalvíkingar missi tvö af stærstu skipum sínum á nauðungaruppboði, sem vofir yfir útgerð þessara skipa, en hefur verið frestað um sinn og það væri mjög illa farið, ef Dalvíkingar þyrftu að missa þessi skip sín, því að þau eru — óhætt að segja —langsamlega mikilvægasta stoðin undir atvinnurekstri í því kauptúni. Það eru Björgvin og Björgúlfur, þessi tvö skip, 250 lesta togarar, sem hafa verið aðalgrundvöllurinn undir því að afla hráefnis fyrir hraðfrystihús staðarins. Auk þess hefur svo síldarleysið fyrir Norðurlandi bætzt ofan á aflabrest, og þá ætti líka að verða ljóst, hver áhrif þetta hefur á Dalvík og Ólafsfirði og fleiri fiskiþorpum norðanlands, þar sem svo mjög er einnig byggt á síldarsöltuninni.

Ég tel því, að meðal þeirra ráðstafana, sem gera þurfi nú mjög fljótlega og aðallega í atvinnumálum Norðurlands, sé að tryggja það með þeim ráðum, sem tiltæk eru, að atvinnutæki eins og skip verði ekki sett undir hamarinn og ráðstafað til annarra staða og að undinn verði bráður bugur að því að kanna, til hlítar, hvaða möguleikar séu á því að flytja síld af austurmiðum til vinnslu og söltunar í sjávarplássum á Norðurlandi. Nokkrar athuganir hafa verið gerðar á þessu, eins og hæstv. ráðh. nefndi hér áðan og ég tel, að þær hafi gefið góða raun og bendi eindregið í þá átt, að rétt sé að halda slíkri starfsemi áfram í miklu ríkara mæli, en verið hefur, án tillits til þess, hver kostnaðurinn kann að sýnast nú í svipinn. Og í þriðja lagi tel ég, að hraða beri undirbúningi að stofnun stórrar síldarverksmiðju á Þórshöfn, enda vart efamál, að Þórshöfn er legu sinnar vegna ákjósanlegur staður fyrir síldarverksmiðju, auk þess sem hafnarskilyrði eru þar mjög batnandi og gera það fyllilega mögulegt að afgreiða þar síldarskip í allstórum stíl. Hið sama má segja um Dalvík og Ólafsfjörð, sem ég hef gert hér sérstaklega að umtalsefni, að þar er það framtíðarverkefni, að reistar verði afkastamiklar síldarverksmiðjur, jafnframt því sem möguleikar verða nýttir til nauðsynlegra og sjálfsagðra síldarflutninga af austurmiðunum eða fjarlægum síldarmiðum, en það tel ég, eins og ég hef áður sagt, eitt af því brýnasta, sem nú liggur fyrir að gera. En auk þess sem svo grundvöllur fiskvinnslunnar og útgerðarinnar er þannig treystur með myndarlegu átaki og víðtækum aðgerðum, ber þó að sjálfsögðu að leita allra ráða til þess að efla varanlegan iðnað, fyrst og fremst þjónustuiðnað, en einnig framleiðsluiðnað, þar sem þess er nokkur kostur.

Herra forseti. Ég hef lokið að mestu því, sem ég vildi segja, og skal láta staðar numið.