21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (3121)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mig langar til þess að leggja fáein orð í belg við þessar umr., þar sem það málefni, sem þar er rætt, snertir, að ég tel, alveg sérstaklega það kjördæmi, sem ég er umboðsmaður fyrir.

Ég vil þá byrja með því að láta í ljós ánægju mína yfir áliti þeirrar n., sem skipuð var á sínum tíma til þess að athuga aukinn iðnrekstur í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem atvinna er ónóg, sem nú hefur verið útbýtt til þm. Ég verð að segja það, að ég hefði að vísu kosið, að hún hefði hraðað störfum öllu meir, en ég verð samt að segja, að mér sýnist, að hún hafi unnið yfirleitt gott starf. Það má að vísu segja, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að n. bendi kannske ekki á mörg ný úrræði, sem engum mönnum hafi áður komið til hugar. Hún bendir, eins og eðlilegt má telja, einkum á þau úrræði, sem forsjármenn þessara byggðarlaga hafa áður komið auga á og bent á og hafa sérstaklega verið að velta fyrir sér að undanförnu.

Ég vil nú láta það álit í ljós, að þó að mér sé ljóst, eins og hér hefur komið fram, að það sé víða pottur brotinn í þessu efni og atvinnuástandið sé víðar alvarlegt, en á Norðurl. v., þá hafi það verið rétt af n. hálfu að snúa sér fyrst og fremst að athugun á þeim stöðum, sem hún gerði. Það byggi ég á því, að það eru og hafa verið alveg sérstakar ástæður þarna fyrir hendi, eins og öllum má vera ljóst, t.d. að því er varðar Siglufjörð, sem byggir afkomu sína og hefur byggt alveg sérstaklega á síldveiðum. Og í annan stað vil ég segja það, að það var eðlilegt, að þessi n. færi eftir þeim svörum, sem henni bárust. Það er náttúrlega ekki eðlilegt, að hún fari að snúa sér fyrst til byggðarlaga, sem ekki hafa haft fyrir því að svara þeim fsp., sem n. sendi þeim.

Ég held, að ef það væri nú skjótt við brugðið og unnið af opinberri hálfu að þessum málum, þ.e.a.s. unnið að úrbótum í atvinnumálum hlutaðeigandi staða á grundvelli þeirra till. og ábendinga, sem þessi n, hefur gert, þá mætti sæmilega við una og þá yrði komizt hjá alvarlegum vandræðum á þessum stöðum, en þó því aðeins, að það verði skjótt við brugðið og á það vil ég leggja sérstaka áherzlu. Ég vona, að það sé fyrst og fremst um að ræða tímabundna atvinnulífsörðugleika á þessum stöðum, t.d. eins og á Siglufirði. En þessir staðir þurfa samt á nokkurri aðstoð og fyrirgreiðslu að halda af opinberri hálfu til þess að komast áfallalítið yfir þessa tímabundnu atvinnuerfiðleika og ég verð að segja það, að mér finnst fólkið á þessum stöðum, t.d. eins og á Siglufirði, hafa ástæðu til þess að vænta skilnings af þjóðfélagsvaldsins hálfu í þessum efnum. Það er ekkert smáræði, sem Siglufjörður hefur á undanförnum árum lagt til sameiginlegra þarfa þjóðarbúsins og mér liggur líka við að segja, að stundum hafi verið gerðar sérstakar kröfur til Siglfirðinga fram yfir aðra. Ég hef ekki tíma til þess að fara út í það hér. Ég nefni þó aðeins t.d. gengislækkunina 1961 og hvernig hún var framkvæmd. Það er öllum í fersku minni, að þeir, sem þá voru búnir að salta, en það voru fyrst og fremst menn á Siglufirði og þeim stöðum þar nálægt, það var farið verr með þá í raun og veru í því sambandi, heldur en aðra. Þeir nutu ekki hagnaðar af þeirri breytingu á borð við aðra. Og ef farið er lengra aftur í tímann, má líka benda á t.d. verðjöfnunargjald á Norðurlandssíld o.fl., o.fl., en út í þá sálma skal ég ekki fara lengra. Ég nefni þetta aðeins til þess að undirstrika, að það er alveg óþarfi að líta á þessa aðila sem nokkra ölmusumenn, þó að þeir verði nú að leita eftir sérstakri aðstoð og fyrirgreiðslu frá hinu opinbera fram yfir aðra, þegar þessir tímabundnu atvinnulífsörðugleikar steðja að þeim.

Ég verð svo að lokum að láta í ljós nokkur vonbrigði yfir undirtektum hæstv. ráðh. við ábendingar og till. n. Ég hefði vænzt þess, að hann tæki jákvæðari afstöðu til þeirra. Ég skil þó, að hann mun nafa haft nokkuð skamman tíma til þess að athuga þær og ummæli hans að öðru leyti mundi ég vilja, skilja á þá lund, að hann hefði gefið nokkurn ádrátt um, að það yrði eitthvað byggt á þessum till. og fyrirgreiðsla fengist í þessum efnum, a.m.k. eftir því sem sveitarstjórnir á viðkomandi stöðum leituðu sérstaklega eftir. Hann sagði að vísu, hæstv. ráðh., að mér skildist, að það væri ekki hægt að byggja verulega á þessum till., fyrr en endanlegar niðurstöður n. lægju fyrir. Það er að vísu rétt, að hér er um bráðabirgðaálit n. að tefla. En það er að nokkru leyti bráðabirgðaálit af því, að henni er ætlað miklu, miklu víðtækara verkefni og að því verkefni mun hún að sjálfsögðu vinna áfram. En ég geri ráð fyrir, að það megi að mörgu leyti skoða till. hennar, að því er varðar þessa staði, sem hún tekur þarna fyrir og þær till., sem hún gerir til úrbóta þar nú, sem endanlegar. En það eru till., sem eru mjög einfaldar í aðalatriðum, sem hún bendir á til lagfæringar á atvinnuástandi á þessum stöðum og það er náttúrlega það, að séð verði fyrir því, að nægilegt hráefni verði t.d. á Siglufirði, til þess að frystihúsin tvö, sem þar eru, geti starfað, séð fyrir fjármagni til rekstrar annars frystihússins, sem hefur verið og er í einkaeign, og ráðstafanir gerðar til þess, að þau ríkisfyrirtæki, sem þarna eru á staðnum, eins og tunnuverksmiðja og niðurlagningarverksmiðja, starfi og starfi af fullum krafti. Að því er snertir hina staðina, skal ég ekki ræða þá sérstaklega. Ég vil aðeins benda á það, að að því er t.d. snertir Hofsós og Sauðárkrók, koma þar til greina viss grundvallarskilyrði, sem þarf að tryggja að séu fyrir hendi og það er að því er snertir Hofsós hafnarskilyrði og það er því er snertir Sauðárkrók nægileg raforka. Ef þessi grundvallarskilyrði eru fyrir hendi, hef ég þá trú að einstaklingar og fyrirtæki, sem þar eru, nuni, ef þeim verður séð fyrir sæmilegri aðstöðu til fjármagns, reka þann atvinnurekstur, sem nægir til þess að halda uppi sæmilegri atvinnu. En það er vitaskuld það, sem á ríður, að ýta undir starfsemi einstaklinga og atvinnufyrirtækja á þessum stöðum og þess vegna held ég, að það væri tímabært, að það verði sett á fót föst stofnun, sem hefði sérstaklega með að gera leiðbeiningarstarfsemi, leiðbeiningar fyrir þá aðila, sem ætluðu sér að stofna til atvinnurekstrar á þessum tilteknu stöðum og gæfu þeim leiðbeiningar um það, hvaða atvinnurekstur það væri, sem einkum ætti að leggja þar í.