21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (3124)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka þátt í umr. um þessa fsp., en það voru ummæli hv. þm. Jóns Þorsteinssonar, sem gerðu það að verkum, að ég vil segja hér örfá orð. Hann sagði, að það væri búið að byggja nægilega mikið af síldarverksmiðjum fyrir allan flotann og það, sem ætti að gera, væri að fresta um sinn fyrirhuguðum verksmiðjubyggingum á Austurlandi og leggja áherzlu á að koma upp skipaflota til að flytja síldina á milli.

Þetta er áreiðanlega byggt á ófullnægjandi upplýsingum, sem þm. hefur fengið. Hann hefur ekki nægilegar upplýsingar um, hvernig þessi mál standa. En þau standa núna þannig, að verksmiðjukosturinn á Austurlandi þolir ekki einu sinni 50–80 skipa veiði, eins og reynslan sýnir nú síðustu vikurnar. Hvað sem menn álíta um síldarflutninga, er það því auðvitað augljóst mál, að allt of lítill verksmiðjukostur er eystra. Þetta hygg ég, að allir hljóti að vera sammála um, sem kynna sér þessi mál, því að hversu mikið sem menn leggja upp úr síldarflutningum og þó að þeir eigi sjálfsagt eftir að vaxa og geti átt rétt á sér við vissar kringumstæður, er samt ljóst, að á þessu landssvæði eru allt of lítil verksmiðjuafköst, til þess að hagfellt sé fyrir þjóðarbúið í heild sinni og flotann.

Það er því alger misskilningur, að það megi fresta því að stækka verksmiðjur eystra. Það er hægt að stækka verksmiðjurnar t.d. á Seyðisfirði og Raufarhöfn með tiltölulega litlum stofnkostnaði vegna þess, hve hagfellt er að bæta við það, sem fyrir er og það lækkar vinnslukostnaðinn stórlega og hækkar hráefnisverðið á síldinni að bæta við þessar verksmiðjur. Menn ættu að skoða þessi mál betur, áður en þeir flytja fullyrðingar af þessu tagi. Þetta raskar ekki því, að síldarflutningamálið er mjög merkilegt mál út af fyrir sig.

Þá hygg ég, að hv. þm. sé nauðsynlegt að kynna sér það, að sumir staðir á Austurlandi eru þannig settir við aðalsíldarmiðin, enn sem komið er, að þar eru ekki neinar bræðslur. En slíkt getur ekki staðizt, því að á þeim stöðum er ekki heldur hægt að salta, eða frysta síld, en það verður að vera hægt á öllum stöðum, sem liggja sæmilega nálægt síldarmiðunum. Svona er ástatt t.d. um Stöðvarfjörð og Djúpavog og verður tafarlaust úr að bæta og vona ég, að um það séu allir sammála. Það þurfa ekki að vera mjög stórar verksmiðjur þarna til þess að styðja söltun og frystingu, en einhverjar verksmiðjur verða að koma í öll plássin.

Þessi sjónarmið vildi ég láta koma hér fram, — segja svo að lokum, því að tími minn er sjálfsagt að verða búinn, að mér þykir gott að heyra, hvað hljóðið er breytt í sumum hv. þm. í sambandi við þau málefni, sem lúta að jafnvægi í byggð landsins og vona ég, að það verði eitthvað annað, en varaþjónusta úr því, þegar þm. Sjálfstfl. eru nú farnir að koma hér og segja, að það, sem fyrst og fremst þurfi í því efni, sé að koma upp sérstakri, nýrri stofnun, sem hafi með þessi málefni að gera.

Framsóknarmenn hafa hér ár eftir ár undanfarið flutt frv. um að koma upp sérstakri stofnun, sem hafi forustu og fyrirgreiðslu í þessum málum. En þessu frv. hefur verið vísað frá ár eftir ár og síðast á síðasta þingi með þeim formála af hendi sjálfstæðismanna og stjórnarflokkanna, að það væri algerlega óþarfi að koma slíkri starfsemi upp, það væri nægilegt, sem fyrir væri í því efni. En batnandi mönnum er bezt að lifa og er vonandi, að framhald verði á þessu.