21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Á það var minnzt hér í þessum umr., að skjótrar aðstoðar væri þörf við Flateyri vegna hörmulegs tjóns, sem þar hefði orðið á mönnum og skipum nýlega. Af þessu tilefni vil ég upplýsa það, að ríkisstj. hefur fyrir örfáum dögum samþ. að veita atvinnubótasjóði 1 millj. kr. til viðbótar því fé, sem sjóðstjórnin hefur yfir að ráða á þessu ári, í því skyni, að atvinnulífið á Flateyri verði styrkt til þess að komast yfir það sára og tilfinnanlega tjón, sem það hefur beðið við missi tveggja skipa og manna. Atvinnubótasjóðsstjórnin hefur tilkynnt hreppsnefndinni á Flateyri þessa ákvörðun og það er von hennar og ríkisstj., að þessi ráðstöfun hennar verði til þess að bæta að einhverju leyti það, sem hægt er að bæta á annað borð af því tjóni, sem þetta vestfirzka sjávarþorp hefur nú orðið fyrir.

Það er einnig rétt, að þm. Vestf. hafa borizt tilmæli um það frá samtökum útvegsmanna vestra, að þau verði studd til þess að fá greiðslufrest á lánum hjá fiskveiðasjóði og stofnlánadeild sjávarútvegsins. Verðbólgustefnan hefur á undanförnum árum leikið framleiðslubyggðarlögin víðs vegar um land hart, ekki aðeins á Vestfjörðum og á Norðvesturlandi, heldur og í flestum landshlutum. Því miður er þannig komið á Vestfjörðum, að útvegurinn á þar við mjög mikla erfiðleika að etja, bæði vélbátaútgerðin og mörg frystihúsin. Ég vil aðeina láta það koma hér fram, að við þm. sjálfstæðisfl. á Vestfjörðum höfum á þessu fullan skilning og sú ríkisstj., sem við styðjum, hefur einnig á því fullan skilning, að brýna nauðsyn ber til þess að koma til móts við þá landshluta og þau framleiðslutæki, sem við mesta erfiðleika eiga að etja.

Ég vil svo láta það koma fram sem mína skoðun, að nú sé þörf, eins og raunar hefur verið oft áður, róttækra og víðtækra ráðstafana til uppbyggingar atvinnulífi víðs vegar um land. Ég viðurkenni, að mikið hefur verið gert í þessum efnum á undanförnum árum, en engan veginn nægilega mikið til þess að tryggja það jafnvægi í byggðinni, sem eitt getur skapað jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég hygg, að við Íslendingar getum í þessum efnum litið til annarra þjóða, nágranna okkar og frænda, Norðmanna, Finna og Breta og dregið nokkrar gagnlegar ályktanir af því, sem þeir eru að gera í þessum efnum. Þar er megináherzla lögð á það að beina fjármagni út um löndin og tryggja það, að einstök byggðarlög fari ekki í eyði, þ.e.a.s. þau byggðarlög, þar sem framleiðsluskilyrði og afkomuskilyrði eru á annað borð góð eða sæmileg. Og það er athyglisvert, að í kosningabaráttunni nú fyrir skömmu lofuðu allir brezku stjórnmálaflokkarnir því og lögðu á það mikla áherzlu, að fjármagni skyldi veitt út um landið og þær atvinnulífsframkvæmdir, sem þar væru fyrirhugaðar, skyldu njóta sérstöðu um stuðning af hálfu ríkisvaldsins.

Ég legg áherzlu á, að það, sem fyrst og fremst ber að gera, er að styðja einstaklings- og félagsframtak í þessum efnum. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að ríkisvaldið geti út af fyrir sig leyst allan vanda með uppbyggingu atvinnutækja. Það þarf fyrst og fremst að styðja einstaklings- og félagsframtak til athafna. Ein þeirra leiða, sem hugsanleg er í þessum efnum, er að efla atvinnubótasjóð verulega, sem allt frá upphafi hefur verið vanmegnugur þess að gegna sínu mikilvæga hlutverki, þó að hann hafi gert ákaflega mikið gagn og átt ríkan þátt í því að byggja upp atvinnulíf einstakra byggðarlaga í flestum landshlutum. Á það vil ég svo að lokum benda, að í sumar hefur staðið yfir undirbúningur og athugun á því, hvað skynsamlegt sé og mögulegt að gera, sérstaklega að því er varðar Vestfirði og staðfestu byggðarinnar þar, uppbyggingu nýrra atvinnutækja, bættar samgöngur og annað það, sem verða má til þess að efla byggðina í þessum landshluta. Ég skal ekki fullyrða um, hver niðurstaðan verður af þessari athugun, en það er von okkar, sem átt höfum hlut að því, að hún var hafin, að árangur hennar verði jákvæður og jafnvel fyrir þetta þing kunni að verða lagðar till. um jákvæðar og raunhæfar ráðstafanir, sem stuðla megi að blómlegri byggð og batnandi hag atvinnulífs og almennings á Vestfjörðum.