21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í D-deild Alþingistíðinda. (3126)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af aths. hv. 1. þm. Austf. Ég get alveg verið sammála hv. þm. um, að það sé rétt að byggja smáverksmiðjur á ýmsum fámennum stöðum til þess að efla þar síldarsöltun og frystingu, enda gekk mín ræða ekki út á að mæla gegn því. En um afkastaskilyrðin hjá síldarverksmiðjunum á Austfjörðum og móttökuskilyrðin er mjög vel hægt að bæta verulega án þess endilega að byggja nýjar verksmiðjur. Það má gera með bættum móttökuskilyrðum, með því að hafa fleiri löndunartæki og sérstaklega með auknu þróarrými, því að það er hægt að geyma síld í þróm, svo að vikum skiptir.

Þá sagði þessi hv. þm., að fyrirhugaðar stækkanir verksmiðjanna á Raufarhöfn og Seyðisfirði væru mjög ódýrar, vegna þess að þar væri verksmiðjukostur fyrir hjá síldarverksmiðjum ríkisins. Nú þekkir þessi hv. þm. þessa hluti vitanlega betur en ég, vegna þess að hann á sæti í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, en ég vil þó leyfa mér að vefengja það, að þetta sé eins ódýrt og hann vill vera láta, enda nefndi hann engar tölur í því sambandi og hefur e.t.v. ekki haft þær tiltækar, svo að ekki er um að sakast. En á hitt má benda, að þessi hv. þm. hefur mælt með því, að það yrði byggð stór verksmiðja fyrir einkaaðila á Raufarhöfn, eða ég veit ekki betur. En það, sem ég vildi aðeins undirstrika, er það, að ég álít ekki skynsamlegt að vera að ráðast í nýjar stórbyggingar í síldarverksmiðjum, meðan margar og stórar síldarverksmiðjur eru ónotaðar og þeirra afköst nýtast ekki yfir síldartímann.