28.10.1964
Sameinað þing: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í D-deild Alþingistíðinda. (3131)

24. mál, Áburðarverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Skömmu fyrir þingslit s.l. vor lögðum við hv. 4. þm. Norðurl. e. og ég fram fsp. í nokkrum liðum varðandi áburðarverksmiðjuna í Gufunesi. Sakir þess, hve skammt var eftir af þingtíma og annríki mikið við afgreiðslu mála, gafst ekki tóm til að taka þessa fsp. á dagskrá og fá svar við henni að því sinni. En þar sem ég tel, að hér sé um mikilvægt mál að ræða, sem snertir mjög eina stærstu framleiðslustétt landsins, bændastéttina, hef ég leyft mér að flytja fsp. þessa á ný, að mestu leyti óbreytta. Þar sem umr. í fsp.-tíma eru takmarkaðar, hef ég að vísu sleppt úr einum lið hinnar fyrri fsp. að þessu sinni. Sá liður fjallaði um eignayfirráð yfir verksmiðjunni. Væntanlega gefst kostur á að ræða það mál nánar við annað tækifæri. Ég vil fara örfáum orðum um fsp., eins og hún liggur nú fyrir.

Það er alkunna, að allt frá upphafi og fram á þennan dag hefur ríkt töluverð óánægja meðal bænda og mikil óánægja, vil ég segja, með áburðinn frá Gufunesi að því leyti, hve smákornóttur hann hefur þótt. Þetta hefur verið svo bagalegt, að það hefur ekki linnt kvörtunum af þeim sökum. Stjórnendum verksmiðjunnar hafa lengi verið þessi vandkvæði ljós og þeir munu hafa gert ítrekaðar og vafalaust kostnaðarsamar tilraunir til að bæta hér um. Hins vegar fer mjög tvennum sögum af því, hver árangurinn hefur orðið eða hvers árangurs sé að vænta af þessum tilraunum. Því er um þetta atriði spurt, fyrst og fremst um árangurinn. Fróðlegt væri þó einnig að heyra eitthvað um þann kostnað, sem við þessar tilraunir hefur orðið.

Þá hefur því verið haldið fram af mörgum, að kjarnaáburðurinn íslenzki sé allt of einhæfur til að nota hann svo mjög sem gert hefur verið, hann sé snauður af ýmsum efnum, sem jarðvegurinn þarfnist. Sérstaklega hefur í því sambandi verið talað um kalkskort. Að þessum atriðum beinast 2. og 3. liður fsp. minnar.

Í fjórða lagi er að því spurt, hvort uppi séu ráðagerðir um stækkun áburðarverksmiðjunnar og sé svo, þá hverjar? Á ég þá einkum við, hve mikil stækkun kunni að hafa verið ráðgerð, hve mikið sé áætlað að slík stækkun kosti, hvenær hún verði framkvæmd, og síðast, en ekki sízt, hvaða áburðartegund eða áburðartegundir hugmyndin sé að framleiða þá.

Fimmta og síðasta atriðið, sem ég spyr um, snertir mál, sem var mjög umdeilt á sínum tíma og er reyndar nokkuð umdeilt enn í dag. Það er, hvort hagræði eða sparnaður hafi orðið af þeirri ráðstöfun að fela áburðarverksmiðjunni rekstur Áburðarsölu ríkisins. Ég hef að vísu séð því haldið fram í grg. af hálfu verksmiðjustjórnar, að þetta hafi verið hagfelld ráðstöfun. Hins vegar veit ég, að ýmsir, þ. á m. margir bændur, hafa fyrir satt, að þessi ráðstöfun hafi hvorki leitt til hagræðis né sparnaðar, heldur jafnvel þvert á móti. Þess vegna er um þetta atriði spurt einnig.