28.10.1964
Sameinað þing: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í D-deild Alþingistíðinda. (3132)

24. mál, Áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Mér er ljúft að verða við því að svara þeim fsp., sem hér eru fram settar. Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að það vannst ekki tími til þess á s.l. vori vegna þess, hversu fsp. kom seint fram. Ég hef snúið mér til framkvæmdastjóra og verkfræðinga áburðarverksmiðjunnar með þessar fsp. og óskað eftir því, að þeir aðstoðuðu við það að svara þessum fsp., og vil ég styðjast að mestu við það, sem þeir hafa sagt í þessu efni.

Það er þá fyrsta fsp.: „Hafa tilraunir til að auka kornastærð kjarnaáburðar borið árangur?“ Því er til að svara, að það hefur ekki tekizt enn sem komið er að fá kornunina í lag, enda þótt verkfræðingar hafi á s.l. vetri fullyrt, að þetta mundi takast og ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar í þá átt. Það var 1960, sem fenginn var amerískur verkfræðingur frá þekktu vélafirma í Ameríku til þess að gera till. um, hvernig ætti að leysa þennan vanda. Og verkfræðingur þessi eða verkfræðingar, sem að þessu máli unnu, töldu að þetta mætti gerast, og haustið 1961 var samið við amerískt vélaframleiðslufyrirtæki, verkfræðifirma, að það teiknaði fyrir áburðarverksmiðjuna kerfi til að korna ammoníumnítrat-kristalla og jafnframt, að sama fyrirtæki seldi vélar þær, sem til þess þyrfti. Í þessu kerfi átti einnig að vera aðstaða til þess að blanda saman við ammoníum-nítratið öðrum efnum, svo sem kalsíumkarbónati, skeljasandi, til þess að fá köfnunarefnisáburð, er innihéldi kalaíum eða þrífosfat og kalsíumsölt, til þess að fá þrígildan áburð. Teikningu kerfisins var lokið í des. 1961 og uppsetningu véla samkv. þeim teikningum í marz 1962. Hófst þá fyrsti reynslurekstur. En fljótlega kom þó í ljós, að ýmissa breytinga var þörf, miðað við fengna reynslu. Þrátt fyrir þær breytingar, sem hið ameríska fyrirtæki hafði gert á kerfinu, hefur enn ekki fengizt af því slík reynsla, að viðunandi verði talið og munu fyrirtækinu settir tveir kostir: að bæta úr ágöllum, svo að kerfið reynist nothæft, eða að öðrum kosti að bæta tjónið. M. ö. o.: þetta er ekki komið í lag og er það vitanlega mjög slæmt. Ég hef ekki kynnt mér það nákvæmlega, hvaða kostnað þessar tilraunir hafa haft í för með sér, enda var ekki um það spurt, en að sjálfögðu er það ekkert leyndarmál og því getur framkvæmdastjóri verksmiðjunnar svarað, hvenær sem er, býst ég við. Ég hef ekki spurt að því nýlega og hef ekki þær tölur með mér. En þetta ameríska verkfræðifirma vill ekki gefast upp við þessar tilraunir, enda talið, að hér sé um einhverja óheppni að ræða, sem megi vinna bug á. En það er enginn vafi á því, að stjórn áburðarverksmiðjunnar mun ganga eftir því annað tveggja, að kornunin komist í lag og þá helzt það, ef það er mögulegt, eða þá að öðrum kasti, að tjónið verði bætt eða sá kostnaður, sem í þetta er kominn. En þá er spurningin þessi: Ef það er útilokað að korna áburðinn og ef hann á áfram að verða svona fínn eins og hveiti, eins og hann hefur verið, hvað er þá til ráða?

Bændur hafa kvartað undan því, hvað áburðurinn er smár, það er alveg rétt. Eigi að síður hefur áburðurinn reynzt vel, það hefur sprottið vel undan kjarnaáburði, þegar hann er notaður á réttan hátt og innihald áburðarins breytst vitanlega ekki við það, að hann verði kornaður. En eigi að síður er það mjög æskilegt, að það tækist og ef það er útilokað, þá er náttúrlega sá möguleiki fyrir hendi að framleiða blandaðan áburð og koma áburðinum þannig í annars konar form. — Þetta er fyrsti liður spurningarinnar.

Þá er 2. liður: „Hafa rannsóknir leitt í ljós, að kjaraáburður sé of kalksnauður fyrir íslenzkan jarðveg?“ Því er til að svara, að það er ekkert kalkinnihald í kjarnaáburði og það er vitað, að það þarf kalk í jarðveginn. En það er vitanlega ekki útilokað að koma kalki í jörðina, þótt kjarninn innihaldi ekki kalk. Ég hef snúið mér til atvinnudeildar háskólans með þessa fsp. og óskað eftir umsögn þaðan og hefur Bjarni Helgason jarðvegsfræðingur góðfúslega orðið við því að skrifa mér um þetta. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjarni er, eins og flestir vita, ammoníumnítrat og inniheldur því ekki kalk. Um áhrif kjarna er það vitað úr innlendum tilraunum, að rangri notkun fylgir lélegt fóður og kalið tún. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um allar aðrar tegundir áburðar. Flestar innlendar tilraunir með vaxandi magn köfnunarefnisáburðar sýna, að langvarandi notkun kjarna hefur í för með sér minnkandi kalkinnihald uppskerunnar og er sú lækkun allbreytileg eftir því, hvar er. Aðrar tilraunir sýna, eins og vænta má, að uppskeran eftir kalksaltpétur er allmiklu kalkríkari en uppskera eftir kjarna. Endurteknar rannsóknir á jarðvegssýnishornum og tilraunum tilraunastöðvanna benda ekki til verulegrar lækkunar á sýrustigi af völdum kjarna. Það útilokar þó ekki, að til eru jarðvegstegundir, þar sem sýrustig gæti lækkað tiltölulega ört við mikla notkun hans. Þetta er tekið fram vegna hinnar almennu skoðunar, að kjarni sýri jörðina. Einnig í því sambandi er rétt að vekja athygli á, að mun óljósara samband virðist vera milli sýrustigs og kalkforða í jarðvegi hér á landi, en algengt er í flestum nágrannalöndum okkar. Það er því ekki útilokað, að hin óhóflega notkun kjarnans, sem sums staðar á sér stað, kunni að hafa haft einhver neikvæð áhrif á jarðveginn í heild, án þess að hafa beinlínis áhrif á sýrustig jarðvegsins. Rannsóknum varðandi hugsanlega kalk- eða ekki kalkþörf jarðvegsins hér á landi er hvergi nærri lokið, og má í rauninni segja, að þær séu aðeins á byrjunarstigi. Enginn vafi er á, að kalkforði jarðvegsins er sums staðar of lítill til að gefa gott og heilsusamlegt gras. Tilraunir okkar benda til, að sumstaðar megi vænta einhvers uppskeruauka með notkun kalks, en kannske ekki mikils og ekki heldur alls staðar. Allar okkar tilraunir sýna samt, að uppskeran verður til muna kalkríkari, þegar kalk er notað, en annars mundi vera. Tilraunirnar sýna líka, að íslenzka kalkið frá Sementsverksmiðjunni á Akranesi stendur innfluttu kalki í engu að baki. Það skal skýrt tekið fram, að ekki er með nokkru skynsamlegu móti hægt að mæla með almennri notkun kalks á sama hátt og gert er með tilbúinn áburð. Það er ekki ráðlegt að nota kalk nema að undangenginni rannsókn á kalkþörf vegna þess, hve hin hugsanlega kalkþörf jarðvegsins gæti verið mjög breytileg frá einum stað til annars. Jarðvegsrannsóknir, sem styðjast við vandaðar og víðtækar rannsóknir, hafa hvergi reynzt betur en einmitt í sambandi við leiðbeiningar um kalknotkun. Ef menn hins vegar telja, að um kalkskort kunni að vera að ræða, á meðan aðferðir til að segja fyrir um hugsanlega kalk- eða ekki kalkþörf eru óákveðnar og eins og málum er háttað hér á landi í dag, er sjálfsagt og eðlilegt, að kalksaltpétur eða kalkammonsaltpétur sé hafður á boðstólum fyrir þá, sem þess æskja. Á þann hátt fæst að nokkru bráðabirgðalausn á hugsanlegum vanda varðandi kalk í íslenzkum jarðvegi.“

Áburðarverksmiðjan þarf nú að flytja inn mikið af köfnunarefnisáburði og hefur oft haft á boðatólum kalkammonsaltpétur og er þetta rétt til getið hjá Bjarna Helgasyni, að það er eðlilegt, úr því að flytja þarf inn köfnunarefnisáburð, að það sé þá, meðan á þessum tilraunum stendur, flutt inn kalkammon. Hina vegar liggur það ljóst fyrir, að kalkið, skeljasandurinn frá Sementsverksmiðjunni á Akranesi stendur ekki að baki innfluttu kalki og skeljasandurinn hefur einnig verið hafður á boðstólum hjá Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi.

Þriðja spurning er á þessa leið: „Eru á því tæknilegir erfiðleikar að auka kalkinnihald áburðarins, sé það talið æskilegt?“ Hér hefur verkfræðingur áburðarverksmiðjunnar gefið stutt svar: „Eins og nú stendur, er ekki talin ástæða til að blanda íslenzku kalki, skeljasandi saman við kjarna. Auk þess er talið nauðsynlegt, að viðhöfð verði ýtarleg hreinsun á skeljasandinum, áður en blöndun færi fram.“ Mér fannst þetta svar heldur stutt og laggott og ég spurði frekar út í það, og það kom þá fram, eins og reyndar var lesið upp hér áðan, að það var gert ráð fyrir því, að um leið og kornunin kæmist í lag í verkamiðjunni með þeim tækjum, sem verið er að setja þar upp núna og reyna, þá mætti blanda kalki saman við. Og það fer saman, að ef það kæmist í lag með þessi tæki, þá er hægt fyrirstöðulaust að blanda kalki saman við.

Fjórða spurning: „Eru uppi ráðagerðir um stækkun Áburðarverksmiðjunnar og þá hverjar?“ Það eru uppi ráðagerðir um það og stjórn Áburðarverkamiðjunnar hefur látið fara fram víðtæka athugun á því, hvernig heppilegast væri að vinna að því máli. Og það er hægt að upplýsa það, að það er nýlokið athugunum á vegum verksmiðjunnar um aukningu áburðarframleiðslu í landinu. Frá því að Áburðarverksmiðjan tók til starfa árið 1964 og til ársloka 1936 hefur flatarmál ræktaðs lands aukizt á 10 árum úr ca. 54 þús. ha. upp í 88 þús. ha., eða sennilega nær að segja 90 þús. ha. og hefur ræktaða landið aukizt þannig yfir 60% á þessu tímabili. Notkun köfnunarefnisáburðar hefur á sama tíma vaxið úr 4.230 smálestum af hreinu köfnunarefni upp í 9.618 smálestir, eða um 127%. Notkun köfnunarefnis á hvern ha. hefur vaxið að meðaltali úr 78.1 kg af hreinu köfnunarefni upp í 111.1 kg á sama tíma eða um ca. 42%. Með sömu árlegri aukningu ræktaðs lands á næstu 5 árum má ætla, að ræktað land verði orðið 110 þús. ha., sennilega þó meira, árið 1970 og köfnunarefnisþörf landsins þá, orðin 12–13 þús. smál. af hreinu köfnunarefni, með óbreyttri notkun á hvern ha. Aukist notkun köfnunarefnisáburðar á afrétti eða annað óræktað land, mundi þörfin 1970 hækka tilsvarandi. Af 9.818 smál. notkun köfnunarefnis 1963 nam seld framleiðsla Áburðarverksmiðjunnar aðeins 8.673 smál., eða 88.35 af heildarnotkuninni. Ef næg raforka hefði verið fyrir hendi og afkastageta verksmiðjunnar, þ.e. 8 þús. smál. af hreinu köfnunarefni á ári, fullnýtt, hefði hún samsvarað 83% af köfnunarefnisnotkun landsins árið 1963. Notkun köfnunarefnis árið 1970 er því áætluð um eða yfir 50% meiri, en full afkastageta núverandi verksmiðju, en þar sem álíta verður, að áætlun fyrir þörf aðeins 8 ár fram í tímann nái of skammt,og þar sem aukning afkastagetu verksmiðjunnar um aðeins 50% er hlutfallslega mun kostnaðarsamari en 100% aukning, hafa hinar verkfræðilegu athuganir miðazt við tvöföldun núverandi afkastagetu, eða aukningu framleiðslu um 8 þús. smál. af hreinu köfnunarefni á ári. Athugun sú, sem gerð hefur verið, leiðir í ljós, að til greina gæti komið að stækka verksmiðjuna í áföngum og yrði þá framleiðsluaukning eftir fyrsta áfangann byggð á innflutningi ammoníaka sem hráefnis, þar til síðari áfanga yrði lokið. Sá köfnunarefnisáburður, sem framleiddur væri við aukna afkastagetu, yrði ódýrari á hverja einingu köfnunarefnis, en nú er fáanlegur innfluttur.

Þetta er um stækkun verksmiðjunnar. Það var spurt að því hér áðan, hvað þessi stækkun mundi kosta mikið. Og það er gert ráð fyrir því, að það mundi kosta um 95 millj. kr. fyrri áfanginn með því að flytja inn ammoníak sem hráefni. Og mig minnir, að það sé hátt á annað hundrað millj. kr. full stækkun. Þessar tölur hef ég ekki hér, vegna þess að það var ekki spurt um það upphaflega, en það mun vera nálægt þessum tölum samt.

En miðað við það, hvað ræktunin eykst og áburðarnotkunin með hverju ári, þá er vitanlega brýn nauðsyn að stækka verksmiðjuna. Og þó að það hafi ekki heppnazt enn að fá stækkuð kornin í verksmiðjunni og þó að bændur hafi að því leyti til verið óánægðir með áburðinn, þá er ekkert um það að efast, að áburðarverksmiðjan hefur gert þjóðinni mikið gagn, ekki aðeins landbúnaðinum, heldur líka þjóðinni allri, því að bændur hafa flest árin fengið ódýrari áburð frá Áburðarverkamiðjunni heldur en hann hefði kostað, ef hann hefði verið innfluttur. Og auk þess hefur Áburðarverksmiðjan sparað allmikinn gjaldeyri á þessum tíma. Og þó að ég hafi varpað þeirri spurningu fram áðan, hvað mundi gerast, ef það tækist alls ekki að korna áburðinn eða breyta formi hans, þá er enginn vafi á því, að með blöndun mun verða komizt yfir þennan erfiðleika, sem er og hefur verið höfuðverkur stjórnar verksmiðjunnar og áhyggjuefni um langa tíð. Og ég held, að stjórn áburðarverkamiðjunnar verði ekki sökuð um það, að hún hafi ekki gert það, sem í hennar valdi hefur staðið, til þess að koma þessu í lag.

Þá er það fimmta spurning: „Hefur það leitt til sparnaðar að fela Áburðarverksmiðjunni h/f rekstur Áburðarsölu ríkisins?“ Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að það hafa ýmsir efazt um, að það hafi leitt til sparnaðar, þótt stjórn Áburðarverksmiðjunnar hafi gefið skýrslu um það, sem vitanlega er byggð á reikningum Áburðarverksmiðjunnar og nákvæmri athugun endurskoðenda verksmiðjunnar og löggiltum endurskoðanda, Svavari Pálssyni, sem hefur farið ýtarlega í þessi atriði til að sannfærast um það, hvort hér hafi verið um sparnað að ræða. En þrátt fyrir það, þótt það liggi tölulega fyrir, er efazt um, að hér hafi verið um sparnað að ræða eða hér hafi verið stefnt að réttu marki. Og má það með ólíkindum teljast, að menn skuli efast um það, að menn skuli geta efazt um, að það geti verið sparnaður í því að leggja niður skrifstofu hér í Reykjavík og flytja skrifstofustörfin upp í Gufunes, þar sem húsrými og mannskapur var fyrir, að menn skuli efast um það, að það sé sparnaður í því að hætta að leigja vörugeymslu í Reykjavík, þegar vörugeymsla er til í Gufunesi hvort sem er. Þetta er undrunarefni. En það eru tölurnar og reikningarnir, sem tala sínu máli, sem hafa verið yfirfarnir af hinum færustu mönnum og þá verður náttúrlega ekki lengur efazt um, hvað rétt er í þessu. En ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér útdrátt, sem framkvæmdastjóri verksmiðjunnar gaf mér, þar sem byggt er á þeim tölum, sem fyrir liggja:

„Til þess að áhrif þeirrar ráðstöfunar að fela Áburðarverksmiðjunni h/f rekstur Áburðarsölu ríkisins mættu liggja sem ljósast fyrir, hefur áburðarverksmiðjan framkvæmt verðútreikning innflutts áburðar á sama hátt og gert var áður af áburðarsölunni. Áburðarsalan hefur síðan lækkað hið útreiknaða verð um þá upphæð, sem breyttir innkaupa- og innflutningshættir hafa veitt möguleika á.“ Ég tek það fram, að það er löggiltur endurskoðandi, Svavar Pálsson, sem hefur farið yfir þetta. „Fyrsta árið, sem áburðarverksmiðjan annaðist rekstur áburðarsölunnar, varð verðlækkun á þrífosfati 188 kr., verðlækkun frá því, sem verið hefði, ef áburðareinkasalan hefði haft með þetta að gera, 128 kr. á kalí á tonn og blönduðum garðáburði 100 kr. á hverja smálest, miðað við verðreikningsaðferð Áburðarsölu ríkisins, eða samtals 2 millj. 240 þús. kr., sem fram komu í lækkuðu áburðarverði til bænda þetta árið, lækkuðu áburðarverði miðað við það, að áburðareinkasalan hefði haft þetta.“

Og mér finnst þetta ekkert þakkarvert. Áburðarverksmiðjan í Gufunesi hefur skrifstofufólk, hún hefur skrifstofuhús, hún hefur vörugeymslur, hún hefur tæki, og aðstaðan í Gufunesi nýtist betur með því að flytja áburðinn þangað og afgreiða hann þaðan, heldur en vera með þetta í tvennu lagi. Það væri eitthvað skrýtið, ef ekki væri sparnaður í þessu. Það eru 2 millj. 240 þús. kr. þetta fyrsta ár. Auk þess skilaði rekstur ársins 1962 600 þús. kr., sem notaðar voru til niðurgreiðslu á innfluttum köfnunarefnisáburði, sem er dýrari en kjarni, og nutu bændur góðs af þessu, þannig að raunverulegur hagnaður fyrsta árið varð 2 millj. 840 þús. kr. af þessu.

Hagkvæmni af þessari ráðstöfun árið 1962 nam því samtals 2 millj. 840 þús., eða 470 kr. á hvert býli í landinu, miðað við, að býlin séu 6.000. Árangur þessarar ráðstöfunar er slíkur árið 1963, að lækkun verðlags á áburði á því ári nam 2 millj. 520 þús. kr. eða að meðaltali 420 kr. á hvert býli, en auk þess var rekstrarafgangur 1.8 millj. kr., sem ráðstafað hefur verið til lækkunar á söluverði áburðar á þessu ári, 1964. Árangur þessarar ráðstöfunar árið 1963 er því samtals 4 millj. 320 þús. kr., eða 720 kr. á hvert býli í landinu að meðaltali.

Rekstur Áburðarsölu ríkisins í höndum áburðarverksmiðjunnar, sem farið hefur nýjar leiðir í þessum málum, hefur því á tveim árum, 1962 og 1963, gefið hagstæða raun, sem nemur 7 millj, og 200 þús. kr., eða 1.200 kr. á hvert býli í landinu að meðaltali, miðað við þessi tvö ár og miðað við það, að áburðarsalan hefði haft með þetta að gera við þær óhægu aðstæður, sem áburðareinkasalan hafði hér í Reykjavík.

Ég vil taka það fram, að það felst ekki nokkur ádeila á áburðareinkasölu ríkisins, þótt þetta komi fram. Áburðareinkasala ríkisins starfaði hér í Reykjavík við óhæga aðstöðu, varð að leigja hér húsnæði, bæði vörugeymslu og skrifstofu. Og ég hygg, að rekstur áburðareinkasölunnar, miðað við þær aðstæður, sem hún hafði, hefði ekki getað verið ódýrari. En miðað við það að nota þá aðstöðu, sem er í Gufunesi, hafa sparazt á þessum tveimur árum 7.2 millj. kr.

Og ég segi það, að það er ekkert undarlegt út af fyrir sig, þótt menn hafi haft nokkuð skiptar skoðanir í fyrstu um það, hvort hér væri rétt stefnt. Það er alltaf eðlilegt, að mönnum sýnist sitt hvað, á meðan reynslan er ekki komin fram. En eftir að reynslan er komin fram, þá hljótum við að vera á einu máli um þetta. Við hljótum hér eftir að vera sammála um, að það hafi verið rétt að gera þetta. Og þeim, sem trúa því ekki, þrátt fyrir tölurnar og staðreyndirnar, þeim verður náttúrlega ekki við bjargandi, en ég reikna alls ekki með því, að nokkur hv. alþingismaður sé þannig.

Þá hef ég svarað þessum spurningum og ég vona, að hv. fyrirspyrjandi telji það fullnægjandi, en ef svo er ekki, þá mun ég að sjálfsögðu gera tilraun til að bæta úr því, eftir því sem tími er til.